Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 337. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1118  —  337. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.

     1.      Hve margir þjónustusamningar (ferliverk meðtalin) um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni hafa verið gerðir sl. þrjú ár og hvernig skiptast þeir eftir sviðum? Aðgreina skal sérstaklega hjúkrun annars vegar og læknisþjónustu hins vegar.

Ferliverk.

    Í gildi eru ferliverkasamningar á milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og eftirtalinna stofnana, en þessir samningar voru gerðir í september árið 1998 og hafa ekki verið gerðir nýir samningar síðan. Eftirfarandi fjármagn (verðlag ársins 1999) var þá flutt frá TR yfir til stofnana til að standa undir kostnaði við ferliverkin og hækkuðu fjárheimildir þeirra sem því nemur. Þessir samningar hafa verið verðbættir miðað við forsendur fjárlaga hverju sinni á sama hátt og annar kostnaður.

Stofnun Upphæð
(millj. kr.)
Landspítali – háskólasjúkrahús 103,8
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri 38,0
St. Jósefsspítali, Hafnarfirði 39,7
Sjúkrahúsið á Akranesi 20,4
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 22,6
Heilbrigðisstofnunin á Selfossi 4,2
St. Franciskusspítalinn, Stykkishólmi 1,6
Heilbrigðisstofnun Ísafirði 4,6
Heilbrigðisstofnun Sauðárkróki 2,0
Heilbrigðisstofnunin á Húsavík 2,9
Heilbrigðisstofnun Austurlands 3,2
Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 1,0
Heilbrigðisstofnunin Siglufirði 2,0
Samtals 246,0

Þjónustusamningar.
    Eftirfarandi tafla er yfirlit yfir þá þjónustusamninga sem voru í gildi á árunum 2003–2005.

Stofnun 2003 2004 2005
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra 109,0 113,8 119,3
Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 399,6 435,5 471,3
Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands, forvarnir 209,2 240,9 251,4
Hjartavernd, hóprannsóknir 39,7 45,5 52,4
Víðines, Reykjavík 176,8 183,0 191,1
Akureyrarbær, rekstur hjúkrunarþjónustu 507,3 653,9 857,8
Sveitarfélagið Hornafjörður, rekstur hjúkrunarþjónustu 166,9 193,6 206,7
Vífilstaðir, Garðabæ 244,2 256,1
Öldungur hf., rekstur hjúkrunarþjónustu 644,4 709,5 734,8
Sjúkrahótel 62,6 64,2 70,8
Reykjalundur 868,5 903,8 971,4
Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði 369,8 390,7 397,8
Heilbrigðisþjónusta í fangelsum í Reykjavík 7,8 10,7 11,0
Akureyrarbær, heilsugæsla fanga 1,1 1,1 1,1
Heimilislæknastöðin ehf., rekstur heilsugæslu 116,7
Læknavaktin ehf., vaktþjónusta 177,8 200,2 219,2
Sjúkraflutningar í Árnessýslu 26,1 26,8 27,6
Sjúkraflutningar á Akureyri 37,1 38,2 39,4
Sjúkraflutningar á Suðurnesjum 37,8 39,0 40,1
Sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu 262,3 244,9 252,2
Rauði kross Íslands, öflun bifreiða og búnaðar til sjúkraflutninga 54,8 56,2 58,2
Sjúkraflug á Vestfirði og suðursvæði 32,9 33,2 34,1
Flugfélag Íslands – sjúkraflug norðursvæðið 49,7 52,1 53,6
Flugfélag Íslands – sjúkraflug til Vestmannaeyja 12,4 21,4 23,0
Akureyrarbær, rekstur heilsugæslu 305,7 349,9 375,9
Sveitarfélagið Hornafjörður, rekstur heilsugæslu 74,2 79,2 86,3
Heilsugæslustöðin í Salahverfi, Kópavogi 0 80,5 96,0
Samtals 4.633,5 5.412,0 6.015,3
Heimild: Frumvarp til fjárlaga 2004, 2005 og 2006.

Þjónustusamningum skipt niður á helsta málaflokka.
    Hvað varðar sundurliðun á milli hjúkrunar og læknisþjónustu, þá eru ekki til upplýsingar um slíka skiptingu.

Málaflokkur 2003 2004 2005
Endurhæfing 1.347,3 1.408,3 1.488,5
Forvarnir 248,9 286,4 303,8
Heilsugæsla 566,6 721,6 906,2
Hjúkrunarheimili 1.495,4 1.984,2 2.246,5
Sjúkraflutningar 513,1 511,8 528,2
Sjúkrahótel 62,6 64,2 70,8
SÁÁ – Vímuefnameðferð 399,6 435,5 471,3
Samtals 4.633,5 5.412,0 6.015,3

     2.      Hve mikið hefur árlega verið greitt fyrir þessa þjónustusamninga (ferliverk meðtalin), hver var kostnaðurinn á sl. ári við hvern og einn af tíu stærstu samningunum og við hverja voru þeir gerðir?
    Hér að aftan er tíu stærstu þjónustusamningunum raðað eftir samningsupphæð á árinu 2005. Hvað varðar kostnaðinn vísast í svar við 1. lið.
2005
Reykjalundur 971,4
Akureyrarbær, rekstur hjúkrunarþjónustu 857,8
Öldungur hf., rekstur hjúkrunarþjónustu 734,8
Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið 471,3
Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði 397,8
Akureyrarbær, rekstur heilsugæslu 375,9
Vífilstaðir, Garðabæ 256,1
Sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu 252,2
Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands, forvarnir 251,4
Læknavaktin ehf., vaktþjónusta 219,2

     3.      Hvernig er tryggt að samningar af þessu tagi tryggi öllum sambærilega heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og telur ráðherra að setja þurfi samræmdar verklags- og vinnureglur í því skyni? Hvernig er eftirliti með þjónustusamningum háttað?
    Við samningagerðina er leitast við að tryggja að þjónustan standi öllum sjúkratryggðum einstaklingum til boða óháð efnahag og í mörgum tilfellum hefur viðkomandi stofnun ekki heimild til að veita öðrum þjónustu. Eftirlit með að ákvæðum samningsins sé almennt fullnægt er á hendi ráðuneytisins en hins vegar er faglegt eftirlit hjá landlækni.

     4.      Hver er munurinn á kostnaði hins opinbera við þjónustu sem veitt er eftir hefðbundnum leiðum í heilbrigðiskerfinu og hins vegar sömu og sambærilega þjónustu samkvæmt samningum við einkaðaðila?
    Ráðuneytið hefur reynt að samræma sem mest fjárveitingar innan sömu málaflokka með því að nýta sem mest fastar greiðslur, t.d. á legudag í öldrun. Farið var í útboð á rekstri hjúkrunarheimilis sem hefur reynst eitthvað dýrari valkostur fyrir ríkið en hefðbundin hjúkrunarheimili, svo sem fram kom í úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði fyrir nokkrum árum. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að í útboðssamningi sem til dæmis er gerður til langs tíma er gert ráð fyrir að staðið sé undir kostnaði við að byggja og reka hjúkrunarheimili, en daggjöldum annarra hjúkrunarheimila er fyrst og fremst ætlað að mæta kostnaði við að reka þau. Í útboðssamningi eru til dæmis ströng skilyrði um að þangað fari fyrst og fremst veikustu eða þyngstu hjúkrunarsjúklingarnir sem koma af öldrunardeildum og sjúkrahúsum og þurfa umtalsvert meiri umönnun en aðrir af vistunarmatsskrá. Þá þarf og að hafa í huga að húsnæðisþáttur í langtímasamningi til dæmis við Sóltún er metinn með öðrum hætti en húsnæðisgjald annarra heimila. Enda tekur hann til leigu, rekstrar og viðhalds húsnæðisins í samræmi við ákvæði útboðs um rekstur hjúkrunarheimilisins á sínum tíma og er hugsaður öðru vísi en til dæmis húsnæðisgjald annarra heimila sem þýðir að beinn samanburður getur verið erfiður. Má í þessu sambandi benda á að þeir sem reka heimili samkvæmt útboðssamningi til langs tíma geta til dæmis ekki sótt um fjárframlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra sem önnur heimili eiga kost á.
    Eins var farið í útboð á rekstri heilsugæslu í Salahverfi í Kópavogi og það er mat ráðuneytisins að rekstur þeirrar stöðvar sé hagkvæmari heldur en hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þær heilbrigðisstofnanir sem eru með langlegusjúklinga munu fá greitt eftir sama daggjaldi og hjúkrunarheimili almennt, en gert er ráð fyrir ákveðnum aðlögunartíma.
    Eins og fram kemur hér á undan eru gerðir þjónustusamningar um mjög margbrotna þjónustu og í mörgum tilfellum er samanburður við aðra aðila óraunhæfur. Sem dæmi eru þjónustusamningar um endurhæfingu, forvarnir og vímuefnameðferð gerðir við félagasamtök sem nýta þann hagnað sem mögulega verður af rekstrinum til frekari uppbyggingar og hafa lagt fram sjálfsaflafé til uppbyggingar starfseminnar. Við gerð þjónustusamninga er hafður að leiðarljósi sá kostnaður sem er hjá sambærilegum aðilum þó að í reynd sé oft erfitt að finna sambærilegan rekstraraðila. Oftast er borinn saman kostnaður við hliðstæða starfsemi á vegum ríkisins ef um slíka starfsemi er að ræða.

     5.      Hverjir gera þjónustusamninga fyrir hönd ríkisins og þarf heilbrigðisráðuneytið að staðfesta þá? Hvaða meginþættir eru lagðir til grundvallar hagkvæmni fyrir ríkissjóð við gerð þjónustusamninganna?
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið annast gerð þjónustusamninga og undirritar. Auk þess þarf fjármálaráðherra einnig að staðfesta þjónustusamning ef gildistími samninga er lengri en eitt ár. Helstu þættir sem lagðir eru til grundvallar gerð þjónustusamninga eru eftirfarandi:
     a.      Aðgangur að þjónustunni sé sem best tryggður fyrir þá sem eiga að njóta hennar.
     b.      Að sú þjónusta sem er í boði henti þeim sem hennar njóta.
     c.      Að gæði þjónustunnar séu fullnægjandi.
     d.      Að kostnaður sé viðunandi.
     e.      Að fá kostnaðargreiningu á viðkomandi þjónustu.
     f.      Að upplýsingagjöf sé tryggð.