Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 641. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1136  —  641. mál.
Svardómsmálaráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um kostnað við rannsókn „Baugsmálsins“.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver hefur kostnaður orðið við rannsókn „Baugsmálsins“ sem hófst með húsrannsókn 28. ágúst 2002?

    Málið sem um er spurt, svonefnt „Baugsmál“, er margþætt og er enn til meðferðar á viðeigandi stöðum í réttarkerfinu, en niðurstöðu héraðsdóms um hluta þess hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og annar hluti bíður meðferðar héraðsdóms.
    Rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á málinu hófst í ágúst 2002 og skiptist síðan. Í september 2003 sendi efnahagsbrotadeild hluta af málinu til skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem fyrir lá rökstuddur grunur lögreglu um brot gegn skattalöggjöf. Skattlagning vegna þessa hluta málsins hefur verið og er í meðferð í skattkerfinu. Sá hluti málsins sem áfram var til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild fór til meðferðar setts ríkissaksóknara.
    Í árslok 2004 kærði skattrannsóknarstjóri til efnahagsbrotadeildar ætluð skattalagabrot tengd félaginu auk þess að leggja fyrir ríkisskattstjóra skattlagningu vegna kærunnar. Þessi þáttur málsins er enn til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild.
    Starfsfólk efnahagsbrotadeildar hefur unnið að öllum þáttum málsins. Sérfræðivinna hefur verið unnin í málinu, þ.e. hjá efnahagsbrotadeild, skattyfirvöldum og settum ríkissaksóknara.
    Yfirlit yfir aðkeypta sérfræðiþjónustu í sakamálum er tekið saman í lok hvers máls. Vinna starfsmanna lögreglu og skattyfirvalda við mál er aldrei tekin saman né verður hluti sakarkostnaðar sem til álita kemur að leggja á sakborninga að greiða að hluta eða öllu leyti.