Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 539. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1148  —  539. mál.
Svarsamgönguráðherra við fyrirspurn Söndru Franks um símtöl milli farsímakerfa.

     1.      Hve mikið hækkar verð á símtali í farsíma ef hringt er milli farsímafyrirtækja hér á landi?
    Farsímanotandi sem er í almennri áskrift hjá Símanum greiðir 11 kr./mín. þegar hringt er innan GSM-kerfis Símans en 22 kr./mín. ef hringt er í GSM-kerfi OgVodafone. Verð á mínútu hækkar því um 11 kr., eða 100%. Farsímanotandi sem er í áskriftarleið GSM-Vinir hjá OgVodafone greiðir 10,90 kr./mín. þegar hringt er innan GSM-kerfis OgVodafone en 21,10 kr./mín. ef hringt er í GSM-kerfi Símans. Verð á mínútu hækkar því um 10,20 kr., eða 93,58%.

     2.      Hverjar er ástæður þess að kostnaður eykst þegar hringt er milli kerfa?
    Meginástæða þess að kostnaður notenda er meiri þegar hringt er milli farsímakerfa en innan sama kerfis liggur í samtengigjöldum fjarskiptafyrirtækjanna. Þegar farsímanotandi hringir í farsímanotanda sem er í áskrift hjá öðru fjarskiptafyrirtæki greiðir fyrirtækið lúkningargjald til hins fyrirtækisins fyrir símtöl sem enda í GSM-farsímaneti. Lúkningargjald á að endurspegla kostnað fjarskiptafyrirtækis við fjárfestingu og rekstur á búnaði sem þarf til að flytja farsímasímtal milli kerfa og lúkningu á símtalinu. Lúkningargjald í farsímanet Símans er 8,92 kr./mín. á dag- og kvöldtaxta, auk 0,68 kr. tengigjalds, en verð fyrir lúkningu í farsímanet OgVodafone er 13,20 kr./mín. á dagtaxta og 11 kr./mín. á kvöldtaxta, auk 0,99 kr. tengigjalds, miðað við gjaldskrá í febrúar 2006.
    Önnur ástæða þess að kostnaður eykst þegar hringt er milli kerfa felst í uppbyggingu á smásöluverðskrá fjarskiptafyrirtækjanna.

     3.      Hversu mikill kostnaður leggst samtals á farsímanotendur á hverjum sólarhring vegna hringinga milli kerfa innan lands og hversu hátt hlutfall er það af heildarkostnaði við farsímahringingar innan lands á sólarhring?
    Til að finna kostnað sem leggst á farsímanotendur á hverjum sólarhring vegna hringinga milli kerfa innan lands og heildarkostnað við farsímahringingar er stuðst við tölfræðiupplýsingar frá árinu 2004 um fjölda mínútna úr farsíma í farsíma frá fjarskiptafyrirtækjunum sem Póst- og fjarskiptastofnun tekur saman tvisvar á ári.
    Við útreikning er fundinn mismunur á kostnaði farsímanotenda við að hringja símtöl milli kerfa hjá hvoru fjarskiptafyrirtækjanna miðað við verðskrá fyrirtækjanna á farsímasímtölum milli kerfa og ef sömu símtöl væru verðlögð miðað við verðskrá fjarskiptafyrirtækjanna á farsímasímtölum innan kerfis.
    Miðað við framangreindar forsendur er kostnaður sem leggst á farsímanotendur á hverjum sólarhring 2,4 millj. kr. og er sá kostnaður um 22% af heildarkostnaði við farsímahringingar innan lands á sólarhring.
    Við útreikninginn var ekki tekið tillit til upphafsverðs, afsláttarkjara og annarra sérkjara.

     4.      Er tæknilega mögulegt að koma upp búnaði sem gerir farsímanotendum viðvart um aukinn kostnað þegar þeir hringja á milli kerfa?
    Tæknilega mögulegt er að gera farsímanotendum viðvart um aukinn kostnað þegar hringt er milli kerfa og er það gert í sumum Evrópulöndum. Benda má á skýrslu Evrópsku fjarskiptanefndarinnar (ECC), sem starfar innan Samtaka evrópskra póst- og fjarskiptastofnana (CEPT), um númeraflutning í farsíma. Umfjöllun um þetta mál, ásamt töflu yfir lausnir sem eru í notkun í einstökum löndum, er að finna í 9. kafla skýrslunnar (sjá á www.ero.dk).
    Helstu aðferðir sem stuðst er við til að upplýsa notendur um að þeir séu að hringja milli kerfa eru forskráð skilaboð á mæltu máli, með smáskilaboðum (SMS), sérstökum viðvörunartónn þegar hringt er milli kerfa og að lokum með sérstakri þjónustu með verðupplýsingum. Töluverður kostnaður getur falist í þessum lausnum, mismunandi eftir aðferðinni sem stuðst er við. Engar tölur liggja þó fyrir um kostnaðinn.
    Lúkningarverð er mismunandi milli símakerfa og getur það skipt máli fyrir notendur sem vilja stjórna notkun sinni og útgjöldum að þeim sé gert ljóst þegar hringt er milli kerfa. Það er einnig liður í „virkum“ númeraflutningi að gera gjaldtöku við talsímanotkun gagnsæja. Vísað er til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar um kostnaðinn.
    Í greinargerð Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um verðsamanburð og aðlögunartíma til lækkunar lúkningarverðs fyrir símtöl í GSM-farsímanet Símans og Ogfjarskipta kemur fram að stofnunin telur að sá munur sem er á lúkningarverði farsímafyrirtækjanna sé ekki eðlilegur og ýmislegt bendi til þess að verðið sé töluvert umfram raunverulegan kostnað fyrirtækjanna. Auk þess telur PFS að yfirverðlagning eigi sér stað á símtölum sem eiga uppruna í öðrum farsímanetum en þeim sem lúkning þeirra fer fram í, sem birtist m.a. í því að smásöluverð fyrir innannetssímtöl eru lægri en fyrir símtöl í önnur net. Greinargerðina í heild má finna á vef stofnunarinnar, www.pta.is.
    Þá kemur fram í greinargerð PFS að skv. 1. mgr. 32. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, getur stofnunin lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár og kvaðir um kostnaðarbókhald á ákveðnum tegundum samtengingar eða aðgangs. Þetta má gera ef markaðsgreining gefur til kynna að skortur á virkri samkeppni hafi í för með sér að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk krefjist of hárra gjalda eða ef óeðlilega lítill munur er á heildsölu- og smásöluverði.
    Markaðsgreiningin sem vísað er til stendur yfir og miðað við áætlanir PFS mun ákvarðana stofnunarinnar þar að lútandi að vænta um eða eftir mitt ár 2006. Verðjöfnunin miðað við stöðuna nú tekur um 18 mánuði. Það skal tekið fram að þetta tryggir ekki að algerlega jafnhátt verð því að ákvarðanir stofnunarinnar ná ekki til smásöluverðsins, en væntanlega jafnari en nú er.

     5.      Ef svo er, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að farsímafyrirtæki taki slíkan búnað upp og þá hvernig?
    Eins og áður sagði eru nokkrar aðferðir þekktar til þess að upplýsa notendur þegar hringt er milli kerfa. Kostnaður liggur ekki fyrir, en ljóst er að allur kostnaður af þessu tagi mundi, þegar upp væri staðið, leggjast á notendur.
    PFS vinnur nú að greiningu farsímamarkaðarins. Stofnunin telur nauðsynlegt að gera verðsamanburð, sérstaklega alþjóðlegan samanburð, til að tryggja hagsmuni neytenda, m.a. til að koma á skilyrðum fyrir virkari samkeppni á farsímamarkaði og stuðla að innkomu fleiri þjónustuaðila á markaðinn. Í kjölfar markaðsgreiningarinnar og þeirra kvaða sem sennilega verða lagðar á farsímafyrirtækin mun PFS fylgjast með árangri af þessari aðferð til lækkunar lúkningarverðs.
    Ráðuneytið telur að eins og staðan er sé heppilegast að bíða niðurstöðu markaðsgreiningar PFS og sjá hvernig þróunin lúkningaverðs verður í kjölfar hennar. Ef verðmunur verður óeðlilegur mun ráðuneytið huga að því að einhvers konar auðkenning verði tekin upp til að vara neytendur við þegar þeir fara milli kerfa.
    Eins og er er ekki að finna heimildir í fjarskiptalögum til að skylda fyrirtæki til að auðkenna skipti milli kerfa eða skylda þau til að koma sér upp búnaði af þessu tagi. Verði ákveðið að fara þessa leið þarf að taka upp ákvæði þess efnis í fjarskiptalög. Hugað verður að þessu í tengslum við aðrar breytingar sem fyrirhugaðar eru á fjarskiptalögunum næsta haust.