Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 503. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1161  —  503. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti, Jón Rögnvaldsson og Stefán Erlendsson frá Vegagerðinni, Pál Winkel og Svein Ingiberg Magnússon frá Landssambandi lögreglumanna, Knút Halldórsson frá Landssambandi vörubifreiðastjóra og Guðmund Gunnarsson og Sævar Óla Hjörvarsson frá fyrirtækjum í verktakastarfsemi og flutningum.
    Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Landssambandi lögreglumanna, Vinnueftirlitinu, Náttúrufræðistofnun Íslands, Vegagerðinni, ríkissaksóknara, Landssambandi vörubifreiðastjóra, Ökukennarafélaginu, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Umferðarstofu, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum í Reykjavík, Umferðarráði, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Sýslumannafélagi Íslands og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á umferðarlögum. Nokkrar breytinganna eru gerðar til samræmis við fimm gerðir Evrópusambandsins. Tvær þeirra varða akstur og hvíldartíma ökumanna auk ökurita. Sú þriðja varðar eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita o.fl. Fjórða varðar skipulag á vinnutíma farstarfsmanna sem sjá um flutninga á vegum. Sú fimmta varðar samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi skyldubundna notkun öryggisbelta í ökutækjum innan við 3,5 tonn.
    Þá er m.a. lagt til í frumvarpinu að byggt verði undir heimildir laganna varðandi óheimila stjórnun ökutækis undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá er einnig lagt til að sett verði í lögin tilvísun í lög um náttúruvernd varðandi akstur utan vega í dreifbýli.
    Lagt er til að ákvæði um hlutverk Umferðarstofu við rannsóknir á orsökum umferðarslysa verði fellt brott enda hefur það hlutverk verið flutt til rannsóknarnefndar umferðarslysa með samnefndum lögum. Þá er lagt til að lögfest verði heimild ráðherra til að setja frekari reglur um öryggis- og verndarbúnað fyrir ökumann og farþega ökutækis til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar. Einnig er lagt til að lögfest verði skylda til að nota öryggisbelti við akstur bifhjóls, sé það til staðar, og að fellt verði niður bann við því að tengja eftirvagn eða tengitæki við bifhjól. Jafnframt er ráðherra veitt heimild til að setja reglur um skyldu til að breiða yfir farm.
    Að auki er lagt til að fjárhæð umferðaröryggisgjalds verði hækkuð.
    Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst bætt umferðaröryggi í samræmi við umferðaröryggisáætlun sem samþykkt var á Alþingi vorið 2005 í formi þingsályktunar.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á tilgang og markmið frumvarpsins sem er að efla umferðaröryggi á vegum landsins jafnt í þéttbýli sem dreifbýli. Á undanförnum árum hafa landflutningar orðið sífellt umsvifameiri, m.a. á kostnað sjóflutninga. Fyrir vikið hefur stórum flutningatækjum í umferðinni fjölgað og álag á vegakerfið aukist. Þróunin hefur haft mikil áhrif á umferðaröryggi á vegum. Með nokkrum ákvæðum í frumvarpinu er reynt að bregðast við þessari þróun og þannig stuðla að auknu umferðaröryggi á vegum.
    Í nefndinni urðu nokkrar umræður um 9. gr. frumvarpsins. Eftirlit Vegagerðarinnar og lögreglu lýtur að verulegu leyti að ólíkum þáttum. Lögreglan sér um almennt umferðareftirlit í landinu, þ.m.t. eftirlit með ökuhraða, ástandi ökutækja, ástandi og hegðun ökumanna o.fl. Vegagerðin hefur hins vegar samkvæmt gildandi umferðarlögum eftirlit með reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna tiltekinna ökutækja, stærð, heildarþyngd og ásþunga þeirra. Sú efnislega breyting sem lögð er til í frumvarpinu lýtur einungis að því að Vegagerðinni verður veitt heimild til eftirlits með hleðslu, frágangi og merkingu farms. Vegagerðinni er því ætlað eftirlitshlutverk sem lýtur að þremur afmörkuðum þáttum, þ.e. aksturs- og hvíldartíma ökumanna tiltekinna ökutækja, stærð, heildarþyngd og ásþunga þeirra auk hleðslu, frágangs og merkingar farms. Ljóst er af framangreindu að Vegagerðin hefur aðeins eftirlit með afmörkuðum þáttum sem varða hóp ökutækja.
    Meiri hlutinn leggur mikla áherslu á að störf bæði lögreglu og Vegagerðarinnar eru mjög mikilvæg þegar kemur að umferðareftirliti á vegum landsins. Þá hefur Umferðarstofa mikilvægu hlutverki að gegna í umferðaröryggismálum. Brýnt er að samstarf eftirlitsmanna Vegagerðarinnar og lögreglu verði gott til að auka og bæta vegaeftirlit enn frekar. Jafnframt verði hugað að samstarfsverkefnum á milli ríkislögreglustjóra og Vegagerðarinnar, t.d. með átaksverkefnum með það að markmiði að bæta umferðaröryggi í landinu.
    Í vinnu nefndarinnar kom fram að fyrirhuguð er heildarendurskoðun umferðarlaga. Fulltrúar samgönguráðuneytis sem komu fyrir nefndina lýstu því yfir að við þá vinnu yrði haft samráð við Landssamband lögreglumanna. Þá urðu nokkrar umræður í nefndinni um fræðslu til ökumanna stórra ökutækja. Mikilvægt er að öll upplýsingagjöf og fræðsla til ökumanna verði stóraukin og þannig stuðlað að umferðaröryggi á vegum.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að í stað „farmflutninga“ verði talað um „vöruflutninga“.
     2.      Lögð er til ný skilgreining á farstarfsmanni í 1. gr.
     3.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar í 3. gr. til samræmis við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3820/85 og (EBE) nr. 3821/85 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og notkun ökurita.
     4.      Lagðar eru til breytingar á 6. gr. til að heimila lögreglu að taka svitasýni af ökumönnum.
     5.      Lagðar eru til breytingar á a-lið 2. mgr. 50. gr. og b-lið 52. gr. laganna vegna tilskipunar fyrir EES-svæðið sem mælir fyrir um þjálfun atvinnubílstjóra.
     6.      Lögð er til breyting á aldursskilyrðum í 1. mgr. 55. gr. laganna en ábending um það atriði kom fram í umsögn.
     7.      Lagt er til að eftirlit Vegagerðarinnar skv. 9. gr. takmarkist við ökutæki sem eru meira en 3,5 tonn að leyfðri heildarþyngd ásamt því að lagt er til að heimild ráðherra til reglugerðarsetningar verði færð í nýja málsgrein.
     8.      Lagðar eru til breytingar á 81. gr. laganna varðandi heimild vegamálastjóra til ákvarðanatöku um hámarkshraða og aðalbrautir á þjóðvegum.
     9.      Lagt er til að við 7. mgr. 14. gr. frumvarpsins bætist nýr málsliður.
     10.      Lagt er til að 15. og 16. gr. verði felldar brott vegna athugasemda í umsögnum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. mars 2006.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Guðjón Hjörleifsson.Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Magnús Stefánsson.