Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 476. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1172  —  476. mál.
Svarheilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um dauðsföll af völdum tóbaksreykinga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margir Íslendingar létust af völdum tóbaksreykinga árlega á tímabilinu 1996– 2005 í hverjum aldursflokki, 30 ára og yngri, 31–40 ára, 41–50 ára og svo áfram á 10 ára aldursbili?

    Eftirfarandi svar er unnið með mikilvægri aðstoð Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar.
    Hægt er að áætla hve margir látast af völdum reykinga á ákveðnu tímabili með því að nýta sér eftirfarandi upplýsingar:
     1.      fjölda á lífi í upphafi tímabils,
     2.      fjölda sem deyr á tímabilinu,
     3.      fjölda sem reykir í upphafi tímabils,
     4.      hlutfall áhættu (relative risk) þeirra sem reykja á því að deyja á tímabilinu miðað við þá sem ekki reykja.

Efni og aðferðir.
    Gögn frá Hagstofu Íslands um fjölda látinna eru tilbúin fyrir árið 2004 og því er reiknaður fjöldi látinna fyrir 10 ára tímabilið 1995–2004. Tölur um algengi reykinga 1995 voru fengnar frá Lýðheilsustöð. Afdrif reykingafólks miðað við þá sem ekki reykja voru metin með gögnum úr rannsóknum Hjartaverndar frá 1993–1996. Hefðbundin lifunarlíkön til að meta afdrif voru notuð til að meta áhættuhlutfall reykingamanna.

Niðurstöður.
    Samkvæmt Hagstofu Íslands létust 14.834 einstaklingar á 10 árum af þeim 138.864 sem áttu lögheimili á Íslandi 1995. Alls eru þetta 1.483 á ári.
    Tafla 1 sýnir hve margir að jafnaði létust á ári 1995–2004 eftir kyni og aldri í byrjun tímabils. Síðan er sýndur fjöldi og hlutfall þeirra sem látast vegna reykinga.

Tafla 1. Fjöldi dauðsfalla á ári vegna reykinga.

Kyn Aldur 1995 Fjöldi 1995 Látnir á ári
að jafnaði
á næstu
10 árum
Þar af látnir vegna reykinga Hlutfall dauðsfalla vegna reykinga
karlar 30–39 21.345 23 7 30,0%
40–49 17.883 43 11 26,4%
50–59 11.351 77 17 21,9%
60–69 9.642 178 32 17,9%
70–79 6.184 272 44 16,3%
80–89 2.305 185 21 11,5%
konur 30–39 20.861 11 3 28,3%
40–49 16.927 29 8 28,4%
50–59 11.339 54 14 24,9%
60–69 10.078 119 26 21,7%
70–79 7.347 234 42 18,1%
80–89 3.602 258 37 14,5%
Alls 138.864 1.483 263 17,7%

    Tafla 2 sýnir sérstaklega hlutfall dauðsfalla á 10 árum fyrir þá sem tilheyrðu aldurshópnum 30–69 ára árið 1995. Hún sýnir að fimmta hvert dauðsfall karla í þessum aldursflokki er vegna reykinga og nærri fjórða hvert dauðsfall kvenna. Í heild telst því um fimmta hvert dauðsfall af öllum dauðsföllum fyrir áttrætt verða vegna reykinga.

Tafla 2. Fjöldi dauðsfalla á ári vegna reykinga hjá körlum og konum
í aldurshópnum 30–69 ára á árinu 1995 tímabilið 1995–2004.


Kyn Aldur 1995 Fjöldi 1995 Látnir á ári
að jafnaði
á næstu
10 árum
Þar af látnir vegna reykinga Hlutfall
dauðsfalla
vegna reykinga
kk 30–69 60.221 321 67 20,9%
kvk 30–69 59.205 213 51 23,8%
Alls 119.426 534 118 22,0%

    Til samanburðar var beitt sömu aðferðum á þá sem voru á lífi 1985 og athugað hve margir létust 1985–1994. Þá verður niðurstaðan sú að um 366 dauðsföll urðu vegna reykinga á ári að jafnaði fyrir alla aldurshópa. Með öðrum orðum, að jafnaði mátti rekja eitt dauðsfall á dag til reykinga á tímabilinu 1985–1994!
    Um 36% reyktu daglega 1985 en 27% árið 1995. Árið 2005 segjast um 20% reykja daglega. Miðað við þá minnkun reykinga hefði árlegur fjöldi dauðsfalla vegna reykinga 1995– 2004 orðið 213 í stað 263, hefði þróunin orðið áratug fyrr.