Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 622. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1203  —  622. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elmar Hallgríms Hallgrímsson frá fjármálaráðuneyti og Sigurbjörgu Björnsdóttur frá Lífeyrissjóði bænda. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Lífeyrissjóði bænda, Viðskiptaráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Bændasamtökum Íslands, ríkisskattstjóra og Landssamtökum lífeyrissjóða.
    Með frumvarpinu er lagt til að lagaumhverfi Lífeyrissjóðs bænda verði einfaldað og starfsumhverfi lífeyrissjóðsins gert sem sambærilegast starfsumhverfi annarra lífeyrissjóða. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið þykir rétt að í lögum um Lífeyrissjóð bænda sé einungis tekið á sérstöðu sjóðsins, svo sem sjóðsaðild, iðgjaldsstofni og iðgjaldi bænda, svo og innheimtu þess en hún er með nokkuð öðrum hætti en hjá öðrum lífeyrissjóðum. Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði um starfsemi sjóðsins, svo sem réttindaávinnsla og lífeyrisréttindi, verði í samþykktum sjóðsins. Í frumvarpinu er ekki um að ræða neinar efnislegar breytingar á lögum um Lífeyrissjóð bænda aðrar en þær að ákvæði um lífeyrisréttindi vegna áunninna réttinda verði felld niður til þess að unnt verði að samræma þau lífeyrisréttindaákvæðum hjá öðrum lífeyrissjóðum.
    Í g-lið 1. gr. frumvarpsins kemur fram að setja skuli nánari reglur um skipulag sjóðsins og starfsemi auk ákvæða um iðgjald, mótframlag og lífeyrisréttindi í samþykktir sem fjármálaráðherra staðfestir að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Í umsögn Fjármálaeftirlitsins er lagt til að í umræddri grein verði einnig tekið fram að komi til breytinga á samþykktum sjóðsins skuli fjármálaráðherra staðfesta þær að nýju að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Nefndin fellst á þessa tillögu og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Á eftir fyrri málslið g-liðar 1. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Komi til breytinga á samþykktum sjóðsins skal fjármálaráðherra staðfesta þær að nýju að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.

    Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. apríl 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.


Ásta Möller.Ögmundur Jónasson.


Lúðvík Bergvinsson.