Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 792. máls.

Þskj. 1210  —  792. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Við 2. málsl. 2. gr. laganna bætist: að undanskilinni 34. gr.

2. gr.

    32. gr. laganna orðast svo:
    Sjúkratryggður er sá sem hefur verið búsettur á Íslandi, sbr. I. kafla A, a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta skv. 1. mgr. 43. gr. er óskað úr sjúkratryggingum, sbr. 3. mgr., nema annað leiði af milliríkjasamningum. Heimilt er að greiða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum fyrir þá sem flutt hafa búsetu sína til Íslands þótt sex mánaða búsetuskilyrðinu sé ekki fullnægt.
    Börn yngri en 18 ára eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn.
    Sjúkratrygging samkvæmt lögum þessum tekur til heilbrigðisþjónustu, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem ákveðið hefur verið með lögum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins.
    Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 32. gr., tekur til eftirfarandi styrkja.
     b.      Í stað orðsins „Styrk“ í a–c- og e–f-lið 1. mgr. kemur: Styrks, og í stað orðsins „Ferðastyrk“ í d-lið sömu málsgreinar kemur: Ferðastyrks.
     c.      Í stað orðanna „Þá skal Tryggingastofnun greiða kostnað“ í 2. mgr. kemur: Sjúkratrygging tekur til kostnaðar.

4. gr.

    Við 34. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 32. gr., tekur til heilsugæsluþjónustu sem veitt er á vegum heilsugæslustöðva í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu.
    Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Til viðbótar því sem þegar er upptalið í 33.–35. gr. tekur sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 32. gr., til eftirfarandi, svo sem hér segir.
     b.      Í stað orðanna „Almenna læknishjálp“ í 1. málsl. a-liðar 1. mgr. kemur: Almennrar læknishjálpar.
     c.      Í stað orðanna „Nauðsynlegar rannsóknir og meðferð“ í 1. málsl. b-liðar 1. mgr. kemur: Nauðsynlegra rannsókna og meðferðar, og í stað orðanna „samningar skv. 39. gr. taka til“ í sama málslið kemur: starfa samkvæmt samningum skv. 39. gr.
     d.      Í stað orðanna „Lyf“ í 1. málsl. c-liðar, „Sjúkradagpeningar“ í d-lið, „Aðstoð“ í e-lið, „Tannlækningar“ í f-lið, „Óhjákvæmilegan ferðakostnað“ í g-lið og 1. málsl. i-liðar, „Óhjákvæmilegan flutningskostnað“ í 1. málsl. h-liðar og „Hjúkrun“ í j-lið 1. mgr. kemur: Lyfja, Sjúkradagpeninga, Aðstoðar, Tannlækninga, Óhjákvæmilegs ferðakostnaðar, Óhjákvæmilegs flutningskostnaðar, og: Hjúkrunar.

6. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 37. gr. laganna orðast svo: Sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 32. gr., greiðir fyrir tannlæknaþjónustu, aðra en tannréttingar, samkvæmt samningum, sbr. 39. gr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Kostnaður við sjúkratryggingu, sbr. 3. mgr. 32. gr., greiðist úr ríkissjóði, að frádregnum sjúklingahluta sem ákveðinn er samkvæmt lögum þessum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim.
     b.      Í stað orðsins „sjúkratrygginganna“ í 2. mgr. kemur: þess hluta sjúkratryggingar sem Tryggingastofnun ríkisins annast.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þær tillögur sem gerðar eru í frumvarpi þessu tengjast aðgerðum sem grípa þurfti til 1. apríl 2006, í framhaldi af því að sérfræðingar í hjartalækningum sögðu sig frá samningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Samningurinn tekur til verka sem unnin eru á einkastofum sérfræðinga í hjartalækningum sem taka verktakagreiðslur fyrir unnin verk, en Tryggingastofnun ríkisins sér um greiðslur til verktakanna. Sérfræðingar í hjartalækningum sögðu sig frá samningnum með umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti og tók uppsögnin gildi 1. apríl 2006. Samningaviðræður hafa verið við sérfræðinga í hjartalækningum um þjónustu þeirra en þær hafa ekki leitt til áframhaldandi samninga. Tveir samningar eru í gildi við sérgreinalækna, annar við sérfræðinga í bæklunarlækningum og hinn við aðra sérgreinalækna, og gilda þeir til 31. mars 2008. Þær aðgerðir sem grípa þurfti til 1. apríl voru að beina sjúklingum á heilsugæslustöðvar og til heimilislækna sem síðan gáfu út beiðnir ef sjúklingar þurftu á þjónustu sérfræðinga í hjartalækningum að halda. Ekki verður um greiðsluþátttöku ríkisins að ræða nema slík beiðni liggi fyrir.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæðum laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, verði breytt þannig að sjúkratrygging samkvæmt lögum um almannatryggingar sé skilgreind þannig að hún taki til heilbrigðisþjónustu, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem veitt sé á kostnað ríkisins samkvæmt lögum eða reglugerðum eða með greiðsluþátttöku ríkisins samkvæmt samningum. Einnig er aldursmarki barna sem eru sjúkratryggð með foreldrum sínum breytt úr 16 ára í 18 ára. Aðrar breytingar á ákvæðum laganna leiða af framangreindum breytingum og fela ekki í sér efnislegar breytingar á rétti sjúkratryggðra.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993,


um almannatryggingar, með síðari breytingum.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að 32. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, verði breytt þannig að sjúkratrygging samkvæmt lögum um almannatryggingar sé skilgreind þannig að hún taki til heilbrigðisþjónustu, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem veitt sé á kostnað ríkisins samkvæmt lögum eða reglugerðum eða með greiðsluþátttöku ríkisins samkvæmt samningum. Ákvæði 36. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, hefur verið túlkað með þeim hætti að sjúkratrygging feli eingöngu í sér þjónustu sérgreinalækna þegar í gildi er samningur um slíka þjónustu milli ríkisins og sérgreinalækna. Frumvarpinu er ætlað að skjóta styrkari stoð undir þá túlkun að eingöngu sé um niðurgreiðslu af hálfu ríkisins að ræða að samningur við viðkomandi lækni sé fyrir hendi. Einnig er aldursmark barna sem eru sjúkratryggð með foreldrum sínum breytt úr 16 árum í 18 ár. Samkvæmt upplýsingum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis er það til samræmis við raunverulega framkvæmd sjúkratrygginga samkvæmt reglugerðum þar um frá því að lögræðisaldur var hækkaður.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem nú er.