Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 793. máls.

Þskj. 1212  —  793. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Frá tekjuskattsstofni skv. 2. tölul. og b-lið 3. tölul. 61. gr. vegna rekstrarársins 2005 er heimilt að draga fjárhæð gengishagnaðar umfram gengistap af hvers konar eignum og skuldum í erlendum verðmæli, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 49. gr., sem nemur allt að þeirri fjárhæð sem tekjuskattur hefði reiknast af á árinu 2006 vegna rekstrarársins 2005 og dreifa þeirri fjárhæð jafnt til skattlagningar á rekstrarárin 2006, 2007 og 2008.
    Frestun tekjufærslu skv. 1. mgr. kemur því aðeins til greina að yfirfæranlegt tap hafi verið jafnað að fullu og að eigi hafi verið nýttar hlutfallslega lægri fyrningar skv. 37. gr. og niðurfærslur skv. 3. og 4. tölul. 31. gr. á rekstrarárinu 2005 en rekstrarárið 2004.
    Félag sem tekur þátt í samsköttun skv. 55. gr. getur því aðeins frestað tekjufærslu skv. 1. mgr. að samnýtanlegt rekstrartap samsköttunarfélaganna hafi verið jafnað.
    Heimild til frestunar tekjufærslu skv. 1. mgr. tekur ekki til fjármálafyrirtækja sem stunda starfsemi sem fellur undir 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árunum 2006, 2007, 2008 og 2009 á tekjur rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði bætt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að fyrirtækjum, sem eru með tekjufærslu gengishagnaðar að frádregnu gengistapi af hvers kyns eignum og skuldum í erlendum verðmæli á rekstrarárinu 2005, verði heimilt að draga frá tekjuskattsstofni rekstrarársins 2005 fjárhæð sem nemur fyrrgreindri tekjufærslu, allt að þeirri fjárhæð sem tekjuskattur hefði reiknast af við álagningu á árinu 2006, og dreifa henni jafnt á næstu þrjú rekstrarár á eftir, þ.e. á rekstrarárin 2006, 2007 og 2008.
    Í lok árs 2001 var samþykkt á Alþingi viðamikil breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum, með afnámi verðbólguleiðréttinga í skattskilum og reikningsskilum, með það að markmiði að laga okkar kerfi að kerfum annarra ríkja. Verðbólguleiðréttingar skattskila höfðu tíðkast hér á landi í rúmlega tvo áratugi, eða aftur til ársins 1980. Fyrir lá að verðbólguleiðréttingar skattalaga höfðu haft umtalsverð áhrif til sveiflujöfnunar á níunda áratugnum á tímum þegar verðbólgan náði áður óþekktum hæðum, eins og árin 1982 og 1983. Veik staða íslensku krónunar með síendurteknum gengisfellingum átti stóran þátt í þessari þróun. Þannig var verðbreytingarstuðull fyrir rekstrarárið 1983 liðlega 72% eftir að hafa verið vel yfir 50% tvö næstu rekstrarár á undan. Í kjölfarið dró verulega úr verðbólgunni og á tíunda áratugnum nam hún að jafnaði nálægt 5%. Árið 1999 var hún orðin innan við 2%. Við þær aðstæður var ekki lengur talin þörf á að viðhalda þessum verðleiðréttingum enda kostuðu þær fyrirtækin umtalsverða vinnu og tilheyrandi útgjöld. Auk þess var allur samanburður við reikningsskil erlendra fyrirtækja ómarktækur þar sem ekkert af helstu viðskiptalöndum okkar hafði séð ástæðu til að taka upp árlegar verðleiðréttingar á sama hátt og við. Vaxandi alþjóðavæðing íslenskra fyrirtækja kallaði einnig á samræmingu í reikningsskilum við önnur lönd.
    Í ljósi reynslunnar þótti hins vegar nauðsynlegt samhliða afnámi verðleiðréttra skattskila að skapa íslenskum atvinnurekstri svigrúm til sveiflujöfnunar með öðrum hætti. Það var gert með auknum sveigjanleika í fyrningum varanlegra rekstrarfjármuna auk þess sem heimildir til yfirfærslu á eftirstöðvum rekstrartapa vegna fyrri ára voru auknar úr átta árum í tíu ár. Þessar breytingar voru einnig liður í því að færa íslenskt skattkerfi nær því sem gerist hjá öðrum þjóðum.
    Sterk staða krónunnar hefur á undanförnum árum óhjákvæmilega haft áhrif á afkomu útflutningsfyrirtækja, ekki síst þeirra sem eru mjög skuldsett. Annars vegar hefur hún skert tekjuhlið þeirra vegna þess að færri krónur fást fyrir sama magn afurða en áður. Hins vegar, hafi umrædd fyrirtæki skuldsett sig með erlendum lánum, er þeim skylt miðað við gildandi skattareglur að tekjufæra að fullu þann reiknaða gengishagnað sem lægra gengi myndar af erlendum lánum og greiða af honum tekjuskatt, óháð því hversu mikið er greitt af viðkomandi lánum. Vari þetta ástand í nokkurn tíma, eins og nú hefur gerst hér á landi með samfelldri styrkingu á meðalgengi krónunnar allt frá árinu 2001, kunna að skapast ákveðnir greiðsluerfiðleikar hjá skuldsettum útflutningsfyrirtækjum vegna skattalegrar meðferðar á gengishagnaði þegar líður á tímabilið. Þannig hafa fyrirtækin væntanlega gengið á rekstrartöp vegna fyrri ára, jafnframt því sem þau hafa nýtt aukinn sveigjanleika í fyrningum á umræddu tímabili. Þessi þróun er meginástæða þeirrar tillögu sem er að finna í þessu frumvarpi um heimild til frestunar á tekjufærslu gengishagnaðar umfram gengistap og þar með tekjuskattlagningu hennar á þessu ári til þriggja næstu ára eins og nánar er fjallað um í athugasemdum um 1. gr. frumvarpsins.
    Sú þróun sem að framan er lýst hefur vakið upp þá spurningu hvort heppilegra væri að beita öðrum aðferðum varðandi skattalega meðferð gengisbreytinga en nú er gert. Ekki eru þó uppi áform um að hverfa aftur til fortíðar með því að taka upp á ný verðleiðrétt skattskil enda væri það á skjön við sívaxandi alþjóðavæðingu á öllum sviðum. Á hinn bóginn er eðlilegt að horft sé til annarra þjóða varðandi reglur á umræddu sviði. Sé litið til Norðurlandanna kemur í ljós að þau beita mjög mismunandi aðferðum. Í Danmörku er sem dæmi reglan sú að í stað þess að tekju- eða gjaldfæra allan þann gengismun sem verður á hvers kyns eignum og skuldum er einungis sá hluti hans sem fellur til eða er greiddur á árinu tekju- eða gjaldfærður í skattalegu uppgjöri og þar með skattlagður á árinu gagnstætt því sem gildir hér á landi. Þetta á þó ekki við um dönsk fjármálafyrirtæki sem beita sömu uppgjörsaðferð við skattskil á gengismun og íslensk fyrirtæki samkvæmt gildandi reglum. Þá ber þess að geta að dönsku reglurnar eiga ekki eingöngu við um gengisbreytingar á eignum og skuldum í erlendum gjaldmiðlum, heldur um gengisbreytingar af ýmsu tagi, jafnt af innlendum sem erlendum toga. Norðmenn færa gengishagnað eða gengistap yfir á sérstakan gengisbreytingareikning sem lýtur sérstökum reglum varðandi tekju- eða gjaldfærslu í skattuppgjöri, á meðan sænsku reglurnar eru nær samhljóða þeim íslensku.
    Á næstunni verða þessi mál skoðuð nánar, m.a. út frá því sjónarmiði hvort breyta beri skattalegri meðferð gengishagnaðar og gengistaps til framtíðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt verði að draga frá álagningarstofni tekjuskatts fyrir árið 2006 fjárhæð tekjufærslu gengishagnaðar að frádregnu gengistapi af hvers kyns eignum og skuldum í erlendum verðmæli vegna rekstrarársins 2005 sem nemur allt að þeirri fjárhæð sem tekjuskattur hefði reiknast af á árinu 2006 vegna rekstrarársins 2005 og dreifa jafnt á næstu þrjú rekstrarár á eftir, þ.e. á rekstrarárin 2006, 2007 og 2008. Sem dæmi má taka fyrirtæki sem hefur 600 m.kr. í gengishagnað eftir að gengistap hefur verið dregið frá rekstrarafkomu ársins 2005. Sömu fyrningarhlutföll eru notuð á varanlega rekstrarfjármuni árið 2005 eins og á árinu 2004 og yfirfæranleg rekstrartöp vegna fyrri ára eru fullnýtt, sbr. 2. mgr. Að því gefnu að tekjuskattsstofninn hefði numið a.m.k. sömu fjárhæð, þ.e. 600 m.kr., hefði fyrirtækið þurft að greiða 18% tekjuskatt af umræddri fjárhæð á þessu ári, eða 108 m.kr. Verði þetta frumvarp að lögum verður heimilt að fresta þeirri skattgreiðslu, en tekjufærslan dreifist þá í jöfnum hlutföllum á rekstrarárin 2006, 2007 og 2008 og verður 200 m.kr. á ári. Árlegur tekjuskattur af þeirri fjárhæð verður að óbreyttu 36 m.kr. sem kemur til greiðslu á árunum 2007, 2008 og 2009. Hér er því eingöngu um tilfærslu í álagningu og greiðslu tekjuskatts að ræða til hagræðis fyrir mikið skuldsett útflutningsfyrirtæki sem jafnframt hafa orðið fyrir áföllum vegna sterkrar stöðu krónunnar á undanförnum árum.
    Í 2. mgr. er sett það skilyrði fyrir frestun á tekjufærslu gengishagnaðar skv. 1. mgr. að yfirfæranlegt tap hafi verið jafnað að fullu, bæði vegna rekstrarársins 2005 og fyrri ára, og að fyrningarhlutföll varanlegra rekstrarfjármuna séu þau sömu og fyrir rekstrarárið 2004. Í dæminu hér að framan er miðað við að fyrirtækið hafi verið með jákvæða afkomu fyrir gengisfærslur á rekstrarárinu 2005 sem þýðir að heimilt er að fresta allri tekjufærslunni sem hefði að öðrum kosti komið til skattlagningar á árinu 2006. Hefði afkoma fyrirtækisins hins vegar verið neikvæð á árinu 2005, t.d. um 300 m.kr., ber fyrirtækinu að jafna þeirri fjárhæð á móti tekjufærslunni áður en til frestunar kemur. Miðað við þær forsendur skapast möguleiki til að dreifa 300 m.kr. tekjufærslu á þrjú ár, eða 100 m.kr. á ári, en ekki 200 m.kr. árlega eins og í dæminu í 1. mgr.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að hlutafélög sem skattlögð eru saman geti því aðeins frestað tekjufærslu gengishagnaðar að samnýtanlegt rekstrartap þeirra hafi verið jafnað.
    Megintilgangur frumvarpsins er sá að koma til móts við þá rekstraraðila sem hafa orðið fyrir áföllum vegna styrkrar stöðu krónunnar í óvenjulangan tíma. Heimild til frestunar skattlagningar gengishagnaðar umfram gengistap er því fyrst og fremst ætlað að ná til þeirra rekstraraðila sem hafa fjármagnað þörf sína fyrir varanlega rekstrarfjármuni sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstrinum, svo og aðra fjárþörf rekstrarins vegna kaupa á aðföngum, með erlendum lánum. Í 4. mgr. er því lagt til að heimildin nái ekki til fjármálafyrirtækja sem stunda starfsemi sem fellur undir eftirlitsskylda starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Starfsemi þessara fyrirtækja er í meginatriðum fólgin í því að taka við fjármagni frá einstaklingum og lögaðilum annaðhvort með innlánum eða skuldabréfaútgáfu og ávaxta þá með þeim hætti að gefa út og/eða kaupa verðbréf eða stunda annars konar fjármálastarfsemi og er því mjög frábrugðin starfsemi hefðbundinna framleiðslufyrirtækja. Hér er um að ræða viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir, rafeyrisfyrirtæki, vátryggingafélög, félög og einstaklinga sem stunda vátryggingamiðlun, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, verðbréfasjóði og rekstrarfélög verðbréfasjóða, kauphallir, verðbréfamiðstöðvar og aðra aðila sem heimild hafa lögum samkvæmt til þess að taka við innlánum, svo sem innlánsdeildir samvinnufélaga. Ákvæði þessarar málsgreinar taka ekki til annarra fyrirtækja en þeirra sem skilgreind eru skv. 2. gr. laga nr. 87/1998. Ákvæðið tekur þar af leiðandi ekki til eignarhaldsfélaga sem stofnuð eru um fjárfestingar í verðbréfum í eigin nafni og falla utan eftirlits Fjármálaeftirlitsins.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að heimila að fresta tekjufærslu gengishagnaðar umfram gengistap og þar með álagningu tekjuskatts á þá tekjufærslu vegna rekstrarársins 2005. Jafnframt verði tekjufærslunni dreift jafnt á næstu þrjú rekstrarár. Hér er um að ræða frestun á tekjufærslu gengismunar og þar með frestun á skattgreiðslu í ríkissjóð. Frestunin leiðir til einhvers vaxtataps fyrir ríkissjóð vegna skattfrestunarinnar, en ekki eru forsendur til að meta fjárhæðir í því sambandi fyrr en álagning liggur fyrir. Framkvæmd álagningar verður eitthvað flóknari fyrir skattkerfið en talið er að stjórnsýslukostnaður aukist þó ekki sem neinu nemi og rúmist innan fjárheimilda þess.