Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 794. máls.

Þskj. 1213  —  794. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður er orðast svo: til nota á bifreiðir í eigu björgunarsveita. Með björgunarsveit er átt við sjálfboðaliðasamtök sem hafa björgun mannslífa og verðmæta að aðalmarkmiði.
     b.      Í stað orðanna „og 7. tölul.“ í 3. og 5. mgr. kemur: 7. og 8. tölul.
     c.      Í stað orðanna „6. tölul.“ í 4. mgr. kemur: 6. og 8. tölul.

2. gr.

    Við 2. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo: af bifreiðum sem skráðar eru í ökutækjaskrá sem ökutæki til sérstakra nota skv. 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. Gjald fyrir hvern ekinn kílómetra af bifreiðum sem eru allt að 5.000 kg að leyfðri heildarþyngd skal vera hið sama og innheimt er af bifreiðum sem eru 5.000–6.000 kg að leyfðri heildarþyngd.     

3. gr.

    Í stað „3. mgr.“ í 1. málsl. 7. mgr. 20. gr. laganna kemur: 4. mgr.

4. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum, sbr. lög nr. 126/2005, orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga þessara skal fjárhæð olíugjalds vera 41 kr. á hvern lítra af olíu frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2006.

5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum, sbr. lög nr. 136/2005, orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 13. gr. laganna skal fjárhæð sérstaks kílómetragjalds vera sem hér segir frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2006:

Leyfð Sérstakt Leyfð Sérstakt
heildarþyngd kílómetragjald, heildarþyngd kílómetragjald,
ökutækis, kg kr. ökutækis, kg kr.
5.000–6.000 8,45 18.001–19.000 22,31
6.001–7.000 9,14 19.001–20.000 23,32
7.001–8.000 9,84 20.001–21.000 24,33
8.001–9.000 10,54 21.001–22.000 25,34
9.001–10.000 11,23 22.001–23.000 26,35
10.001–11.000 12,22 23.001–24.000 27,36
11.001–12.000 13,52 24.001–25.000 28,37
12.001–13.000 14,82 25.001–26.000 29,38
13.001–14.000 16,11 26.001–27.000 30,39
14.001–15.000 17,41 27.001–28.000 31,40
15.001–16.000 18,71 28.001–29.000 32,41
16.001–17.000 20,00 29.001–30.000 33,42
17.001–18.000 21,30 30.001–31.000 34,43
31.001 og yfir 35,44

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 70/2005, um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., var lögfest tímabundin lækkun á fjárhæð olíugjalds um 4 kr. frá 1. júlí 2005 til 31. desember 2005, eða úr 45 kr. í 41 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu. Með lögum nr. 126/2005, um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum, var sú tímabundna lækkun framlengd til 1. júlí 2006. Eins og fram kom í greinargerð með framangreindum frumvörpum var markmið þessarar tímabundnu lækkunar að bregðast við óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni.
    Eitt af meginmarkmiðum laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., er að innbyrðis samræmis sé gætt í skattlagningu á dísilolíu og bensíni þannig að dísilknúnar fólksbifreiðar verði álitlegri kostur fyrir einstaklinga en þær hafa verið hingað til og að sambærilegar rekstrarforsendur eigi við hvort sem bifreið er dísil- eða bensínknúin. Verð á dísilolíu á heimsmarkaði er enn óvenjuhátt í samanburði við heimsmarkaðsverð á bensíni og áfram ríkir óvissa um það hvernig heimsmarkaðsverð á dísilolíu og bensíni mun þróast innbyrðis á næstu mánuðum. Með vísan til þessa ástands er því með frumvarpi þessu lagt til að hin tímabundna lækkun olíugjalds verði framlengd um hálft ár, eða fram til 31. desember 2006. Sömu tillögu er að finna í frumvarpinu varðandi sérstaka kílómetragjaldið til samræmis við olíugjaldið.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að björgunarsveitum verði heimilt að nota litaða gjaldfrjálsa olíu á ökutæki sín en í staðinn greiði þær sérstakt kílómetragjald af akstri þeirra. Við upptöku olíugjalds jukust álögur á starfsemi björgunarsveita vegna reksturs dísilbifreiða nokkuð frá því sem var í þungaskattskerfinu, enda er olíueyðsla þessara farartækja oftar en ekki í litlu samræmi við ekna kílómetra. Þessari tillögu er ætlað að draga úr þeim álögum þannig að kostnaður björgunarsveitanna verði svipaður og hann var fyrir upptöku olíugjaldsins, þ.e. í formi þungaskatts. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra var álagður þungaskattur á farartæki í eigu björgunarsveita tæpar 6 m.kr. á árinu 2004.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um að heimilt verði að afhenda gjaldfrjálsa litaða olíu á bifreiðar í eigu björgunarsveita enda hafi þær verið skráðar til sérstakra nota í ökutækjaskrá. Fyrir gildstöku laganna var meiri hluti bifreiða þeirra búinn ökumæli og þungaskattur greiddur í samræmi við hvern ekinn kílómetra. Björgunarsveitarbílum er almennt ekki ekið mikið en um er að ræða stórar og eyðslufrekar bifreiðar sem oft eru á ferð við erfiðar aðstæður og þunga færð langtímum saman. Ferðahraði við þær aðstæður er mjög lítill en olíueyðsla að sama skapi mjög mikil. Gert er ráð fyrir að þær bifreiðar sem skráðar verða til sérstakra nota í ökutækjaskrá greiði sérstakt kílómetragjald. Með þessu móti verður kostnaður björgunarsveitanna lægri en miðað við núgildandi reglur um olíugjald, eða svipaður og hann var í formi þungaskatts fyrir upptöku olíugjaldsins.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að bifreiðar í eigu björgunarsveita sem skráðar verða sem ökutæki til sérstakra nota í ökutækjaskrá greiði sérstakt kílómetragjald.

Um 3. gr.

    Með greininni er lögð til leiðrétting á tilvísun í lagatexta.

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að framlengd verði tímabundin lækkun á verði á gjaldskyldri olíu í 41 kr. á hvern lítra. Áætlað er að þessi lækkun hafi í för með sér að tekjur ríkissjóðs verði 250 m.kr. lægri en ella hefði orðið á árinu 2006 miðað við að sala á gjaldskyldri dísilolíu verði sú sama og hún var á síðari hluta ársins 2005.

Um 5. gr.

    Með lögum nr. 136/2005 var tekið upp sérstakt kílómetragjald á bifreiðar til sérstakra nota sem kemur í raun í staðinn fyrir olíugjald, svo og kílómetragjald á bifreiðar yfir 10 tonnum. Í ákvæði til bráðabirgða með lögunum var að finna tímabundna lækkun á sérstaka kílómetragjaldinu fram til 1. júlí 2006 til samræmis við olíugjaldið. Hér er lagt fram að sú tímabundna lækkun verði framlengd um hálft ár, eða til 31. desember 2006, til þess að jafnræðis sé gætt í skattlagningu þeirra ökutækja sem greiða olíugjald og þeirra sem greiða sérstakt kílómetragjald. Þessi breyting er talin hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs á árinu 2006.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2004,
um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

    Með lagafrumvarpi sem samþykkt var á vorþingi Alþingis árið 2005 var olíugjald lækkað tímabundið um 4 krónur á tímabilinu frá 1. júlí til 31. desember 2005. Lækkunin var síðan framlengd til 1. júlí 2006 með frumvarpi sem afgreitt var á haustþinginu 2005. Markmiðið með þessari tímabundnu lækkun var að bregðast við óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni. Þar sem heimsmarkaðsverð á dísilolíu er ennþá óvenju hátt miðað við bensín er í þessu frumvarpi lagt til að tímabundin lækkun olíugjalds verði framlengd um hálft ár til viðbótar eða fram til 31. desember 2006. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir sambærilegri framlengingu á lækkun svonefnds sérstaks kílómetragjalds á bifreiðar til sérstakra nota. Áætlað er að þessi lækkun hafi í för með sér að tekjur ríkissjóðs verði 250 m.kr. lægri en ella hefði orðið á árinu 2006 miðað við að sala á gjaldskyldri dísilolíu verði sú sama og hún var á síðari hluta ársins 2005. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð verði það að lögum.