Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 328. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1220  —  328. mál.
Breytingartillagavið frv. til l. um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

Frá Atla Gíslasyni.    A-liður 1. gr. orðist svo: Höfundarétti og skyldum réttindum skv. 3. gr., 4. gr., 3. mgr. 11. gr., 25. gr. b, 45. gr., 46. gr. og 48.–52. gr. höfundalaga og 23. gr. a laga um verslunaratvinnu.

Greinargerð.


    Breytingartillagan er gerð í tilefni af umsögn stjórnar Myndstefs um frumvarp til laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Stjórn Myndstefs lýsti ánægju sinni með frumvarpið og taldi það fela í sér verulegar réttarbætur. Stjórnin gerði hins vegar athugasemdir við úrræði til réttindagæslu á sviði hugverkaréttar og lagði áherslu á að frumvarpið tæki einnig til innheimtu og skila á fylgiréttargjöldum. Taldi stjórnin nauðsynlegt að gera þær breytingar sem þessi tillaga lýtur að.
    Fram hefur komið að hér á landi hefur verið misbrestur á innheimtu fylgiréttargjalda, bæði hvað varðar listaverkasölu á frjálsum uppboðum og í listmunaverslunum. Myndstef hefur með vísan til almennra hegningarlaga og til höfundalaga reynt að fá embætti ríkislögreglustjóra til að rannsaka meint brot og eftir atvikum að gefa út ákæru á hendur þeim sem sannir verða að lögbrotum. Embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara hafa ítrekað hafnað beiðnum Myndstefs. Hér er um alvarleg brot að ræða sem hafa staðið lengi og varða háar fjárhæðir. Er mjög erfitt og nánast ómögulegt að sanna þessi brot nema með rannsókn lögreglu á bókhaldi viðkomandi aðila og tengdum gögnum. Ber því nauðsyn til að lögfesta breytingu samkvæmt tillögu þessari. Er til lítils að lögfesta ákvæði um fylgiréttargjöld í höfundaréttarlöggjöf ef ekki er unnt að innheimta þau og bregðast við brotum á lögunum með viðeigandi hætti. Þess skal loks getið að Danir munu hafa lögfest sambærilegt ákvæði.