Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 683. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1223  —  683. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um fullgildingu Hoyvíkur-samningsins milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétar Má Sigurðsson frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, sem undirritaður var í Hoyvík í Færeyjum 31. ágúst 2005.
    Markmið samningsins er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Samningurinn nær til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, staðfesturéttar, samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Jafnframt tekur samningurinn til fullrar fríverslunar með landbúnaðarvörur sem er nýmæli í samningum Íslands við önnur ríki. Grunnregla samningsins er bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs, staðfestustaðar eða upprunastaðar vöru en felur þó ekki í sér samræmingu löggjafar á þeim sviðum sem samningurinn nær til.
    Nefndin telur samninginn mikilvægan áfanga í samvinnu og auknum viðskiptum milli landanna og leggur áherslu á að kannað verði að veita Grænlandi aðild að samningnum, eins og 11. gr. hans gerir ráð fyrir, og þannig verði myndað eitt vestnorrænt efnahagssvæði.
    Samhliða tillögu þessari lagði utanríkisráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar samningsins (þskj. 998, 682. mál).
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 19. apríl 2006.Halldór Blöndal,


form., frsm.


Össur Skarphéðinsson.


Magnús Stefánsson.Drífa Hjartardóttir.


Jón Gunnarsson.


Bjarni Benediktsson.