Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 566. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1224  —  566. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Hauk Guðmundsson frá dómsmálaráðuneyti og Hallgrím Snorrason og Skúla Guðmundsson frá Hagstofu.
    Umsagnir um málið bárust frá Persónuvernd, andlegu þjóðarráði Bahá´ía á Íslandi, Ljósmæðrafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að þjóðskrá og almannaskráning verði flutt frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins sem er liður í endurskipulagningu Hagstofunnar. Ætlunin er að styrkja hagskýrslugerðina með því að flytja frá henni verkefni sem ekki tengjast henni beinlínis. Þjóðskráin verður skrifstofa í dómsmálaráðuneytinu en fjárreiður hennar greindar frá fjárreiðum ráðuneytisins.
    Á fundum sínum ræddi nefndin um þann tilgang frumvarpsins að færa núverandi þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands. Kom fram að ekki væri lögð til nein breyting á verkefnum við flutninginn og að almannaskráning mundi byggjast á sömu efnislegu lagaheimildum og nú eru í gildi. Nefndin bendir af þessu tilefni á að lögin eru komin til ára sinna og fullt tilefni virðist til að endurskoða ýmis ákvæði þeirra, m.a. með hliðsjón af þeim athugasemdum sem bárust frá Persónuvernd varðandi þær ströngu kröfur sem eru gerðar til skýrleika lagaheimilda fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, og beinir því til dómsmálaráðuneytis að unnið verði að endurskoðun laganna í samráði við Persónuvernd.
    Þá kom fram á fundum nefndarinnar að miklar annir eru hjá þjóðskránni og Hagstofu, m.a. vegna þess að ýmsum frágangsverkefnum er ekki lokið, og að nú stendur yfir undirbúningur kjörskrárstofna fyrir sveitarstjórnarkosningar. Einnig kom fram að fjárhagsleg skipti vegna flutningsins hefðu ekki verið útkljáð. Telur nefndin því hentugra að miða gildistöku laganna við 1. júlí 2006 svo að unnt verði að ljúka þessum verkefnum og undirbúa flutninginn.
    Loks leggur nefndin til breytingu til að samræma orðanotkun gildandi laga við tillögur frumvarpsins, þ.e. að þegar vísað er til „þjóðskrár“ í lögum sem skrifstofu ráðuneytis verði hún rituð með hástaf og án greinis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum


BREYTINGUM:


          1.      Við 3. gr. Í stað orðanna „í viðeigandi orðmynd“ í a-lið komi: í viðeigandi beygingarfalli og án greinis.
          2.      Við 15. gr. Greinin orðist svo:
         Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.

    Atli Gíslason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur álitinu.

Alþingi, 27. apríl 2006.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ágúst Ólafur Ágústsson.Birgir Ármannsson.


Björgvin G. Sigurðsson.


Kjartan Ólafsson.Sigurjón Þórðarson.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.