Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1227  —  463. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti.
    Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Háskóla Íslands, Félagi grafískra hönnuða, talsmanni neytenda, Samtökum verslunar og þjónustu og Listaháskóla Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að löggilda starfsheiti grafískra hönnuða með því að bæta þeim við í upptalninguna í 1. gr. laganna.
    Lagt er til með löggildingu starfsheitisins grafískur hönnuður að greint sé á milli þeirra sem hafa enga eða litla menntun í grafískri hönnun en kalla sig þó grafíska hönnuði og hinna sem hafa langt háskólanám eða nám á háskólastigi að baki.
    Frumvarpið leiðir til þess að þeir sem hafa enga menntun í grafískri hönnun eða minni menntun en gert er ráð fyrir til löggildingar á starfsheitinu grafískur hönnuður verða að nota annað heiti en grafískur hönnuður.
    Rétt þykir að leggja að jöfnu við BA-próf í Listaháskóla Íslands, að því er varðar réttindi til starfsheitisins grafískur hönnuður, fullnaðarpróf í grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskólanum og Myndlistaskólanum á Akureyri.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Bjarnason sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 25. apríl 2006.



Birkir J. Jónsson,


form., frsm.


Helgi Hjörvar.


Einar Oddur Kristjánsson.



Jóhann Ársælsson.


Sigurjón Þórðarson.


Gunnar Örlygsson.



Katrín Júlíusdóttir.