Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 664. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1228  —  664. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson frá menntamálaráðuneyti og Knút Bruun frá Myndstefi. Nefndinni bárust umsagnir frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Myndstefi, Gallerí Fold, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleiða endursöluákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001 um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðs listaverks (fylgirétt). Helsta breytingin með innleiðingu tilskipunarinnar er sú að fylgiréttargjald mun lækka. Í 1. mgr. 25. gr. b núgildandi laga er gert ráð fyrir 10% gjaldi á söluverði við endursölu á listaverkum í atvinnuskyni. Framangreint gjald mun lækka að því leyti að frumvarpið gerir ráð fyrir að gjaldið sé í sex þrepum frá 0,25% upp í 10% en þó aldrei hærra en sem samsvarar 12.500 evrum.
    Nú þegar hefur verið gerð breyting á lögum um verslunaratvinnu, nr. 28/1998, með síðari breytingum, vegna innleiðingar á tilskipuninni, sbr. lög nr. 117/2005.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Björgvin G. Sigurðsson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 27. apríl 2006.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.Ingvi Hrafn Óskarsson.


Einar Már Sigurðarson.


Atli Gíslason.Mörður Árnason.