Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 401. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1232  —  401. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um Ríkisútvarpið hf.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Málið var sent til meðferðar í nefndinni að lokinni 2. umræðu samkvæmt samkomulagi þingflokkanna á Alþingi. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Þórðarson og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun, Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Þóreyju Þórðardóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Sölva Sveinsson frá Verslunarskóla Íslands, Pál Hreinsson prófessor og Sigurð Líndal fyrrverandi prófessor, Jón Vilberg Guðjónsson og Gísla Þór Magnússon frá menntamálaráðuneyti, Sigurbjörn Magnússon hrl., Knút Bruun lögmann, Elínu S. Kristinsdóttur safnastjóra á Ríkisútvarpinu og Gunnþóru Halldórsdóttur frá Kvikmyndasafni Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið verði lögð niður og að hlutafélag verði stofnað um rekstur hennar, en það felur í sér breytingu frá stjórnarfrumvarpi sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi. Með frumvarpinu hefur verið tekið tillit til athugasemda erlendra eftirlitsstofnana vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum, en þær lúta fyrst og fremst að breytingum á skilgreiningu á hugtakinu ,,útvarpsþjónusta í almannaþágu“, sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins.
    Við meðferð málsins innan nefndarinnar var fjallað um eiginfjárstöðu hins nýja hlutafélags við stofnun þess og hvert eiginfjárhlutfall þess skyldi vera. Þann 24. apríl 2006 barst nefndinni minnisblað frá menntamálaráðherra og fjármálaráðherra þar sem fram kemur að hæfilegt eiginfjárhlutfall félagsins við stofnun teljist vera u.þ.b. 10% eða 500 millj. kr. Í minnisblaðinu segir: ,,Við stofnun hlutafélags um rekstur RÚV er talið hæfilegt, miðað við rekstraráhættu og tekjur slíks félags, að eiginfjárhlutfall verði u.þ.b. 10% eða 500 m.kr. Í árslok 2004 nam eigið fé RÚV 10,2 m.kr. skv. efnahagsreikningi. Í kjölfar endurskoðunar á eignum og skuldum RÚV er gert ráð fyrir að aflað verði heimilda í fjáraukalögum 2006 til þess að leggja félaginu til, í formi hlutafjár, það sem upp á vantar til þess að settu marki verði náð. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga má gera ráð fyrir að fjárþörf vegna þessa verði í kringum 500 m.kr.
    RÚV er B-hluta ríkisstofnun og hefur stofnunin stuðst við reikningsskilavenjur sem eru ekki ósvipaðar því sem gerist á almennum markaði. Í tengslum við stofnun hlutafélagsins RÚV fer nú fram endurmat á eignum og skuldum stofnunarinnar á grundvelli reikningsskilaaðferða sem almennt eru viðhafðar við uppgjör hlutafélaga. Bráðabirgðaúttekt sem endurskoðunarfyrirtækið KPMG var fengið til þess að vinna gerir ekki ráð fyrir verulegum breytingum á efnahagsreikningi á grundvelli endurmats miðað við óbreyttar forsendur.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hið nýja félag taki yfir eignir og skuldir RÚV, þ.m.t. menningarverðmæti eins og gamlar upptökur og annað sem tengist starfsemi RÚV. Ekki er gert ráð fyrir að hljóðfæri sem fjallað hefur verið um í tengslum við þessar breytingar og hafa verið nýtt af Sinfóníuhljómsveit Íslands muni tilheyra hinu nýja félagi. Þar ber hæst Guarnerius del Gesu fiðlu frá árinu 1728. Raunvirði þessara eigna hefur ekki verið metið í efnahagsreikningi RÚV og eru áhrif þessara breytinga á efnahagsreikning RÚV því óveruleg.
    Ljóst er að endanlegur efnahagsreikningur getur ekki legið fyrir fyrr en nákvæmar fjárhæðir veltufjármuna og skulda í árlok 2005 liggja fyrir og fram hefur farið árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2006. Áætlað er að endurskoðaður ársreikingur RÚV fyrir árið 2005 liggi fyrir í kringum 10. maí nk. Þá má gera ráð fyrir að árshlutauppgjör, fyrir tímabilið frá áramótum og fram að gildistöku laganna, muni liggja fyrir u.þ.b. 3 vikum eftir gildistöku laganna.
    Ráðgert að hið nýja félag taki formlega við eignum og skuldum RÚV sem áður segir. Endanleg fjárþörf vegna fjármögnunar á hlutafé hins nýja félags þarf þá að liggja fyrir. Sérstök nefnd, sem ríkisendurskoðandi leiðir, vinnur að því að gera sérfræðiskýrslu um stofnefnahag Ríkisútvarpsins hf. í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga. Mun sú nefnd jafnframt gera upphafsefnahagsreikning fyrir félagið, sem mun liggja fyrir þegar efnt verður til stofnfundar RÚV hf.“
    Við meðferð málsins í nefndinni staðfesti Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi að nefnd sú sem vinna mun að því að semja sérfræðiskýrslu um stofnefnahag Ríkisútvarpsins hf. hefði verið skipuð og að í henni ættu sæti ríkisendurskoðandi, sem jafnframt yrði formaður, en einnig ættu sæti í nefndinni Eyjólfur Valdimarsson verkfræðingur og Matthías Þór Óskarsson, löggiltur endurskoðandi.
    Nefndin tók til umfjöllunar hlutverk Ríkisendurskoðunar við endurskoðun og eftirlit með fjárreiðum hins nýja félags og eftirlit Samkeppniseftirlitsins með starfsemi þess. Fram kom að samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, mundi Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga hins nýja félags. Er það í samræmi við ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna, en þar segir að eigi ríkissjóður helmingshlut eða meira í hlutafélagi, sameignarfélagi, viðskiptabanka eða sjóði, þar sem endurskoðandi er kosinn á aðalfundi, skuli gera tillögu um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga þess aðila. Jafnframt kom fram að Ríkisendurskoðun mundi hafa eftirlit með því Ríkisútvarpið hf. uppfyllti ákvæði 5. gr. frumvarpsins um fjárhagslegan aðskilnað, en þar er kveðið á um að halda skuli fjárreiðum alls reksturs Ríkisútvarpsins hf., sem ekki fellur undir útvarpsþjónustu í almannaþágu skv. 3. gr. frumvarpsins frá fjárreiðum reksturs vegna útvarps í almannaþágu samkvæmt greininni. Þá segir í frumvarpsgreininni að félaginu sé óheimilt að nota fjármuni frá rekstri skv. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi, þar á meðal starfsemi sem telst vera samkeppnisrekstur, nema um sé að ræða starfsemi sem flokkast undir útvarp í almannaþágu skv. 3. gr. Telur meiri hlutinn Ríkisendurskoðun hæfa til þess að sinna þessu eftirlitshlutverki sínu enda má nefna að nú þegar hefur hún með höndum sambærilegt eftirlit með öðru hlutafélagi í ríkiseigu, Íslandspósti hf., sem hefur bæði með höndum samkeppnisrekstur og rekstur sem bundinn er einkaleyfi þar sem krafa er gerð um fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisreksturs og þess reksturs sem starfræktur er á grundvelli einkaleyfis. Jafnframt kom fram að Ríkisendurskoðun mundi leita sér sérfræðiaðstoðar við framkvæmd eftirlitsins ef í ljós kæmi að slíkrar aðstoðar væri þörf í framkvæmd, enda er ekkert í íslenskum lögum sem kemur í veg fyrir að slíkrar aðstoðar verði leitað í slíkum tilvikum. Þá telur meiri hlutinn rétt að geta þess að á fundi nefndarinnar með forstjóra Samkeppniseftirlitsins kom fram að hann teldi núgildandi samkeppnislög gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins hf. eins og önnur fyrirtæki. Taldi forstjóri Samkeppniseftirlitsins að það hefði sjálfstæðar heimildir sem kynnu að ganga lengra en ákvæði frumvarpsins, m.a. hvað varðar fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisreksturs. Nefndi forstjórinn einkum í því sambandi ákvæði 11. gr., 14. gr. og b-liðar 16. gr. laganna, enda koma þau sérstaklega til álita varðandi fyrirtæki í opinberri eigu.
     Nefndin fjallaði um réttarstöðu rétthafa dagskrárefnis sem Ríkisútvarpið á í félagi við aðra og þá samninga, þar á meðal höfundaréttarsamninga, sem það hefur gert um dagskrárefni. Í þeirri umfjöllun var vikið að því álitaefni hvort Ríkisútvarpið hefði heimild til að framselja efni sem bundið væri höfundarétti til sjálfstæðs lögaðila, þ.e. hins nýja hlutafélags. Vegna þessa álitaefnis vill meiri hlutinn taka fram að í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í frumvarpinu er kveðið á um að ríkissjóður leggi allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til fyrirhugaðs hlutafélags. Allar þær eignir sem nú koma fram í eignaskrá Ríkisútvarpsins munu því færast yfir til hins nýja hlutafélags, þar með talið allt svonefnt safnefni Ríkisútvarpsins, þ.e. áður útsent hljóðvarps- og sjónvarpsefni. Áður en vikið verður að því álitaefni hvort einhverjar tálmanir séu á framsali framangreinds efnis telur meiri hlutinn ástæðu til að gera grein fyrir núverandi réttarstöðu Ríkisútvarpsins varðandi notkun þess efnis sem stofnunin hefur í fórum sínum. Hvað varðar efni þar sem samningar hafa verið gerðir á milli Sjónvarpsins og framleiðanda er einkum um að ræða þrenns konar samninga. Í fyrsta lagi er um að ræða einfalt samningsform sem Sjónvarpið hefur lagt til þegar keyptir eru t.d. heimildarþættir af innlendum dagskrárgerðaraðilum. Í samningnum er keyptur einkaréttur til sýninga í sjónvarpi hér á landi fyrir allt að fimm sýningar til sjö ára. Að þeim tíma liðnum er Sjónvarpinu óheimilt að nýta sér efnið til sýninga nema gerður sé nýr samningur við rétthafa efnis. Engin ákvæði eru í samningsforminu um framsal sýningarréttar til þriðja aðila. Í öðru lagi hefur tíðkast að gerðir séu samningar á milli Sjónvarpsins og innlendra kvikmyndaframleiðenda um sýningu kvikmynda í sjónvarpi þar sem notast er við staðlað form á vegum Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK. Í því formi segir eftirfarandi um framsal sýningarréttar: ,,Aðilum samnings þessa er óheimilt að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi þessum til þriðja aðila í heild eða hluta, nema hinn aðilinn gefi fyrirfram til þess skriflegt leyfi. Verði um slík framsöl að ræða, verða aðilarnir þó áfram ábyrgir gagnvart hinum aðilanum um efndir samnings þessa gagnvart honum.“ Framangreint ákvæði er í samræmi við meginreglu 2. mgr. 28. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með síðari breytingum, sem er svohljóðandi: ,,Ekki er framsalshafa heimilt að framselja öðrum höfundaréttinn án samþykkis höfundar. Ef rétturinn er þáttur í eignum fyrirtækis, má þó framselja hann ásamt því eða tiltekinni grein þess. Þrátt fyrir slíkt framsal ber framseljandi áfram ábyrgð á efndum skuldbindinga sinna við höfund.“ Í þriðja lagi tíðkast samningar um sýningu sjónvarpsefnis, þátta og kvikmynda, sem lagðir eru til af hálfu erlendra framleiðenda. Í þeim samningum er að jafnaði kveðið á um að framsal þess sýningarréttar sem Sjónvarpið kaupir sé óheimilt án samþykkis framleiðandans. Hér hefur verið gerð grein fyrir sýningarskilmálum sem gilda við kaup Sjónvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Þegar um er að ræða eigin framleiðslu Sjónvarpsins eða efni sem unnið er í samstarfi Sjónvarpsins og þriðja aðila eru oft rýmri ákvæði um sýningarrétt. Það hefur t.d. tíðkast að bjóða út framleiðslu á sjónvarpsefni á almennum markaði. Framleiðsla slíks efnis hefur þá verið boðin út með þeim skilmálum að Sjónvarpið áskilur sér einkasýningarrétt hér á landi í 10 ár, jafnframt því að réttur til sýningar á Norðurlöndum kann að vera keyptur með. Um sýningarrétt Sjónvarpsins á eigin framleiðslu geta gilt mismunandi reglur eftir því hvernig samningum Sjónvarpsins er háttað við hina skapandi höfunda kvikmyndaverksins, þ.e. tónhöfund, höfund kvikmyndahandrits, höfund samtalstexta og aðalleikstjóra, sbr. 2. mgr. 41. gr. höfundalaga. Endursýning áður útsends efnis í sjónvarpi kann því að vera háð samkomulagi og greiðslum til skapandi höfunda sem komu að framleiðslu viðkomandi dagskrárefnis. Hvað varðar heimild Ríkisútvarpsins – hljóðvarps til endurútsendingar hljóðvarpsefnis er réttarstaðan einfaldari samkvæmt höfundalögum. Endurútsending útgefins tónlistarefnis má þannig að jafnaði fara fram gegn greiðslu til samtaka rétthafa samkvæmt gjaldskrá, þ.e. STEFs, sbr. 47. gr. höfundalaga. Þegar um er að ræða flutning bókmenntaverka í hljóðvarpi getur slíkur flutningur með sambærilegum hætti fallið undir gjaldskrá Rithöfundasambands Íslands samkvæmt samningi samtakanna við Ríkisútvarpið, sbr. 23. gr. höfundalaga. Þegar um annars konar hljóðvarpsefni en framangreint er að ræða ræðst það einkum af réttarsambandinu á milli hlutaðeigandi þáttagerðaraðila og Ríkisútvarpsins hvort stofnunin fer með allan rétt að viðkomandi efni. Ætla má að rétturinn til endurútsendingar sé víðtækari þegar viðkomandi hafa verið starfsmenn Ríkisútvarpsins en þegar um verktaka er ræða. Meginregla er að verktaki öðlast höfundarétt að því efni sem hann vinnur í þágu verkkaupa nema rétturinn sé framseldur með samningi aðila á milli. Í sumum tilvikum yrði að telja að Ríkisútvarpið og viðkomandi dagskrárgerðaraðili séu samhöfundar (sameigendur) að útsendu efni. Í slíkum tilvikum þyrfti þá að afla heimildar viðkomandi til endurútsendingar efnisins. Skal þá vikið aftur að bráðabirgðaákvæði I í frumvarpinu. Af framangreindri umfjöllun, um vanda Ríkisútvarpsins þegar kemur að endurnýtingu áður útsends efnis, verður sú ályktun dregin að framsalsákvæðið í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis I taki fyrst og fremst til áþreifanlegra eintaka dagskrárefnis en veiti ekki sjálfstæðan rétt til nýtingar efnisins, sbr. 2. mgr. 27. gr. höfundalaga. Að því leyti verður hlutafélagið í sömu réttarstöðu og Ríkisútvarpið hvað varðar endurnýtingu á gömlu efni. Um annað efni, þar sem samningar eru í gildi á milli Ríkisútvarpsins og framleiðenda og ekki er búið að nýta allan keyptan sýningarrétt, verður að telja stofnunina bundna af því að afla samþykkis til framsals þar sem það á við samkvæmt samningum. Að öðru leyti gildir meginregla 2. mgr. 28. gr. höfundalaga, þ.e. að ekki er heimilt að framselja öðrum höfundaréttinn án samþykkis höfundar. Frá þeirri meginreglu gildir sú undantekning að ef rétturinn telst vera þáttur í eignum fyrirtækis má þó framselja hann ásamt því eða tiltekinni grein þess.
    Í fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, þskj. 1207, 791. mál, (þ.e. frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, lögum um prentrétt, nr. 57/1956, og samkeppnislögum nr. 44/2005, með síðari breytingum) er lagt til að lögfest verði sú regla í 2. málsl. lokamálsgreinar nýrrar 6. gr. a útvarpslaga, sbr. 4. gr. frumvarpsins, að Ríkisútvarpinu hf. sé óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð. Telur meiri hlutinn eðlilegt að samhljóða ákvæði verði bætt við 1. gr. frumvarps þessa sem fjallar um eignaraðild að Ríkisútvarpinu hf. Er því lögð til sú breyting á 1. gr. frumvarpsins að í hana verði tekinn upp áðurnefndur 2. málsl. lokamálsgreinar 6. gr. a, sbr. 4. gr. fjölmiðlafrumvarps. Þykir fara best á því að skipa öllum ákvæðum í 1. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. er lúta að eignarhaldi íslenska ríkisins á því, svo og ákvæðum sem banna annars vegar sölu á hlutum í því, sameiningu þess við önnur félög eða slit á því og hins vegar ákvæðum er banna Ríkisútvarpinu hf. kaup á hlutum í öðrum fyrirtækjum sem gefa út dagblöð eða reka útvarpsstöðvar. Ákvæði 1. gr. frumvarpsins þannig orðuð árétta skýrt sérstöðu Ríkisútvarpsins hf. að lögum sem réttlætir að íslenska ríkið sé eini eigandi félagsins til þess að hafa á hendi útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þessi opinbera þjónusta sem Ríkisútvarpinu hf. er þannig gert að sinna, svo og ákvæði frumvarpsins um bann á sölu á hlutum í því og kaupum þess á hlutum í dagblöðum og öðrum útvarpsstöðvum, réttlætir einnig að ákvæði fjölmiðlafrumvarps um takmarkanir á eignarhaldi á útvarpsstöðvum gildi ekki um Ríkisútvarpið hf. Þar sem sá munur sem þannig er gerður á Ríkisútvarpinu hf. og öðrum útvarpsstöðvum byggist samkvæmt framansögðu bæði á málefnalegum og veigamiklum sjónarmiðum, svo og sérstöðu um hlutverk þess og skyldur, fara ákvæði þessi ekki í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
    Eins og áður segir hefur með frumvarpi þessu verið tekið tillit til athugasemda erlendra eftirlitsstofnana vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum, sem lúta að skilgreiningu á hugtakinu,,útvarpsþjónusta í almannaþágu“, sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins. Jafnframt hefur hér að framan verið gerð grein fyrir hlutverki Ríkisendurskoðunar við endurskoðun og eftirlit með fjárreiðum Ríkisútvarpsins hf. Svo tryggja megi framkvæmd þess eftirlits frekar telur meiri hlutinn rétt að kveðið verði á um það í frumvarpinu að menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu hf. beri að gera með sér sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari útfærslu á almannaþjónustuhlutverki félagsins, skv. 3. gr., þar sem m.a. verði kveðið á um vægi innlendrar dagskrárgerðar í dagskrá Ríkisútvarpsins hf. Með því að kveða á um skyldu menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins hf. til þess að gera slíkan þjónustusamning í frumvarpinu telur meiri hlutinn að endanlega verði tryggt að komið hafi verið til móts við athugasemdir erlendra eftirlitsstofnana um gagnsæi almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins hf. sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins. Enn fremur telur meiri hlutinn að slíkur samningur sé í samræmi við ákvæði e-liðar 10. gr. frumvarpsins um skyldu stjórnar Ríkisútvarpsins hf. til að gera grein fyrir því í ársskýrslu sinni hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur félagsins um útvarp í almannaþágu.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram athugasemdir sem lutu að 2. málsl. 1. gr. frumvarpsins. Það ákvæði mælir fyrir um að sala hins nýja hlutafélags eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess sé óheimil. Fram komu efasemdir um að ákvæðið tryggði með óyggjandi hætti að félaginu væri óheimilt að selja ýmsar eignir og hluti sem hafa menningar- og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og verið hafa í vörslum Ríkisútvarpsins og varðveitt af því. Er hér aðallega haft í huga hið mikla safn Ríkisútvarpsins, sem varðveitt er á safnadeild þess, af alls kyns upptökum úr hljóðvarpi og sjónvarpi, kvikmyndum o.fl., og telja verður að hafi menningar- og sögulegt gildi fyrir þjóðina. Fram kom við meðferð málsins í nefndinni að sala þessara verðmæta væri háð ýmsum lagalegum hindrunum sem leiða má af almennum reglum höfundaréttarins sem um þau gilda, en gerð hefur verið ítarleg grein fyrir höfundaréttarlegum álitaefnum hér að framan. Telur meiri hlutinn að með þeirri breytingu sem frumvarpið kveður á um á rekstrarformi Ríkisútvarpsins færist þau réttindi sem það hefur haft á þessum verðmætum til hins nýja félags, auk þess sem þær skyldur sem á Ríkisútvarpinu hvíla gagnvart þeim færast yfir á herðar félagsins. Til þess að eyða framkomnum efasemdum telur meiri hlutinn engu að síður ástæðu til að kveða sérstaklega á um það í frumvarpinu að Ríkisútvarpinu hf. sé óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa slíkt gildi fyrir þjóðina og varðveitt eru hjá Ríkisútvarpinu hf. Telur meiri hlutinn að slíkt ákvæði girði fyrir að áðurnefnd verðmæti verði seld út úr hinu nýja félagi og lítur svo á að aðgangur almennings að þeim verði óbreyttur frá því sem verið hefur á síðustu árum og áratugum. Leggur meiri hlutinn því til að nýju ákvæði þess efnis verði bætt við 4. gr. frumvarpsins og verði fundinn þar staður í 4. mgr.
    Í umræðum um frumvarpið innan nefndarinnar og í umræðum á Alþingi hefur verið lögð á það þung áhersla að ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, gildi um Ríkisútvarpið hf. Eins og nánar er rakið í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum, nr. 50/1996, gilda lögin einvörðungu um stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga en ekki um hlutafélög og skiptir þar engu þótt hlutafélagið sé að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags. Í ljósi þess að Ríkisútvarpinu hf. er ætlað að veita útvarpsþjónustu í almannaþágu sem er í eðli sínu opinber þjónusta telur meiri hlutinn engu að síður rétt að upplýsingalög gildi um starfsemi þess þannig að almenningur geti fengið aðgang að gögnum mála hjá því í samræmi við ákvæði laganna.
    Með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan telur meiri hlutinn að komið hafi verið verulega og með sanngjörnum hætti til móts við þær meginathugasemdir sem færðar hafa verið fram í umræðum um frumvarpið innan nefndarinnar og á Alþingi.
    Að teknu tilliti til annarra athugasemda leggur meiri hlutinn til eftirfarandi breytingar, sbr. það sem að framan greinir:
     1.      Lagt er til að við 1. gr. bætist ný málsgrein sem verði 2. mgr. og orðist svo: „Ríkisútvarpinu hf. er óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð.“
     2.      Lagt er til að við 3. gr. bætist ný málsgrein sem verði 3. mgr. og orðist svo: „Menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu hf. ber að gera sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari kröfur skv. 2. mgr. um útvarpsþjónustu í almannaþágu.“
     3.      Lagt er til að við 4. gr. bætist ný málsgrein sem verði 4. mgr. og orðist svo: „Ríkisútvarpinu hf. er óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu.“
     4.      Lagt er til að við 12. gr. bætist ný málsgrein svohljóðandi: „Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins hf.“ Vegna þessarar breytingar er lagt til að fyrirsögn ákvæðisins verði: Lög um hlutafélög o.fl.
    Með þeirri breytingu sem felst í 1. tölul. er lagt til að sambærilegt ákvæði og finna má í fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, þ.e. frumvarpi til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, lögum um prentrétt, nr. 57/1956, og samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum, um að Ríkisútvarpinu hf. sé óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð, verði tekið upp í sérlögum um félagið. Með breytingunni í 2. tölul. er lagt til að kveðið verði á um að menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu hf. beri að gera sérstakan þjónustusamning til fyllingar og nánari útfærslu á inntaki 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Með breytingunni í 3. tölul. eru tekin af öll tvímæli um það að Ríkisútvarpinu sé óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og varðveitt eru hjá félaginu. Með breytingunni í 4. tölul. er að lokum lagt til að ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins hf.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. apríl 2006.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.



Ingvi Hrafn Óskarsson.


Hjálmar Árnason.