Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 328. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1234  —  328. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Benedikt Bogason, formann ráðherraskipaðrar nefndar sem samdi frumvarpið, Hróbjart Jónatansson frá AM Praxis, Erlu S. Árnadóttur frá LEX, Árna B. Björnsson og Svein V. Árnason frá Stéttarfélagi verkfræðinga og Knút Bruun frá Myndstefi.
    Umsagnir um málið bárust frá Persónuvernd, Viðskiptaráði Íslands, Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Myndstefi, ríkissaksóknara, vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, tækninefnd Vísinda- og tækniráðs, LEX, dómstólaráði, Höfundaréttarfélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, ríkislögreglustjóra, AM Praxis ehf. – lögmannsstofu, Stéttarfélagi verkfræðinga og Sýslumannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að sýslumenn geti að undangengnum dómsúrskurði aflað sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum með leit hjá þeim sem grunaðir eru um brotin.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að tilefni frumvarpsins væri þjóðréttarleg skuldbinding vegna aðildar Íslands að samningi um Alþjóðaviðskiptastofnunina og 1. viðauki C með samningnum sem nefndur hefur verið TRIPS-samningurinn og þau ákvæði hans er lúta að verndun hugverkaréttinda. Markmiðið með TRIPS-samningnum er að auka vernd hugverkaréttinda á heimsvísu og í því skyni eru gerðar ákveðnar kröfur til löggjafar aðildarríkjanna. Þá eru EFTA-ríkin sem eiga aðild að EES-samningnum skuldbundin til þess að aðlaga hugverkalöggjöf sína meginreglunni um frjáls viðskipti með vörur og þjónustu og því stigi í verndun hugverkaréttinda sem náðst hefur í lögum sambandsins, þar á meðal fullnustu þessara réttinda, og er við samningu frumvarpsins því einnig litið til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/48/EB, um fullnustu hugverkaréttinda.
    Kom fram að þau ákvæði TRIPS-samningsins sem einkum snerta öflun sönnunargagna vegna brota gegn hugverkaréttindum eru 41. og 50. gr. og samkvæmt þeim skulu aðildarríkin sjá til þess að fyrir hendi séu skilvirk úrræði sem unnt er að grípa til í því skyni að koma í veg fyrir og hindra brot gegn hugverkaréttindum, tryggja réttláta málsmeðferð og sjá til þess að dómstólar hafi vald til að fyrirskipa tafarlausar og skilvirkar ráðstafanir til bráðabirgða til að koma í veg fyrir brot á hugverkarétti, einkum til að hindra að vörur komist í umferð innan lögsögu aðildarríkjanna.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að ekki hefðu verið nægilega virk úrræði hér fyrir rétthafa hugverkaréttinda til að bregðast við brotum og afla sönnunargagna um þau til að verja hagsmuni sína. Þá væri þörf á úrræðum á einkaréttarlegum grunni til þess að bregðast við þar sem lögreglu væri varla kleift að bregðast nægilega fljótt við kærum. Markmiðið með ákvæðunum væri að stöðva ákveðna starfsemi og m.a. að tryggja að rétthafi að hugverkarétti geti tryggt sönnun gegn ætluðum brotum á hugverkarétti. Telur nefndin nauðsynlegt að hafa virk úrræði til að tryggja hagsmuni rétthafa hugverkaréttinda með þessum hætti sérstaklega þar sem eðli hugverkaréttinda er oft slíkt að unnt er að koma undan sönnunargögnum um brot á þeim með auðveldum og fljótvirkum hætti.
    Þá ræddi nefndin á fundum sínum hvort með frumvarpinu væri gengið of nærri friðhelgi einkalífs eða hagsmunum gerðarþola að öðru leyti og hvort þeir væru nægilega vel tryggðir. Samkvæmt frumvarpinu þarf gerðarbeiðandi í fyrsta lagi að gera sennilegt fyrir dómi að brot hafi verið framið. Í öðru lagi á úrræði frumvarpsins ekki við ef mál beinist að einstaklingi og um er að ræða minni háttar brot sem ekki eru liður í atvinnustarfsemi. Í þriðja lagi er það sýslumaður sem annast leitina og gerðarbeiðandi er einungis viðstaddur ef það er nauðsynlegt til að veita upplýsingar að því marki sem þarf til að gerðin fari fram. Einnig er áskilið að meðalhófs skuli gætt og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim ætluðu brotum sem afla á sönnunar um. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að gerðarbeiðandi fái ekki nein gögn í hendur fyrr en endurupptöku og kæruleið hefur verið tæmd. Loks er gerðarbeiðanda gert skylt að leggja fram tryggingu fyrir kostnaði við meðferð málsins og fyrir greiðslu skaðabóta sem gerðarþoli kynni að öðlast rétt til og er bótaverndin hlutlæg.
    Að öllu þessu virtu telur meiri hlutinn ljóst að með frumvarpinu sé ekki gengið nær stjórnarskrárvernduðum rétti gerðarþola til friðhelgi einkalífs en nauðsynlegt er vegna eignarréttinda annarra sem einnig eru vernduð í stjórnarskrá og enn fremur að hagsmunir gerðarþola séu tryggðir með rétti til greiðslu skaðabóta. Þá er einnig hætt við því að frekari skilyrði fyrir öflun sönnunargagna en fram koma í frumvarpinu mundu stofna markmiði frumvarpsins í hættu með því að úrræðið yrði of þunglamalegt í framkvæmd.
    Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að úrræði frumvarpsins um réttindagæslu á sviði hugverkaréttinda þyrftu einnig að ná til innheimtu og skila á fylgiréttargjöldum til myndhöfunda og erfingja þeirra. Í þessu samhengi er þess fyrst að geta að meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja virk úrræði að lögum til öflunar sönnunargagna fyrir rétthafa hugverkaréttinda í þeim tilvikum þegar sérstök hætta er talin geta verið á eyðingu eða spillingu sönnunargagna. Um leið er það markmið með frumvarpinu að eyða öllum vafa um það hvort þjóðréttarlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist sé fullnægt. Hefur í því tilliti verið horft til skuldbindinga á grundvelli TRIPS-samningsins eins og áður hefur verið vikið að. Ljóst er að ekki er þörf á því í þjóðréttarlegu tilliti að láta frumvarp þetta jafnframt taka til fylgiréttargjaldsins. Varhugavert þykir að grípa þurfi til jafnviðurhlutamikilla úrræða við þessa innheimtu þar sem væntanlega er unnt með öðrum og vægari úrræðum að ná sama markmiði.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Atli Gíslason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álitið.

Alþingi, 25. apríl 2006.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Birkir J. Jónsson.


Birgir Ármannsson.Guðjón Hjörleifsson.


Sigurjón Þórðarson,


með fyrirvara.


Sigurður Kári Kristjánsson.