Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 594. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1259  —  594. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um evrópsk samvinnufélög.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti og Jóhann Albertsson lögfræðing. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Sýslumannafélagi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, ríkisskattstjóra, Félagi löggiltra endurskoðenda og Fjármálaeftirlitinu.
    Tilgangur frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt reglugerð ráðsins (EB) nr. 1435/ 2003 frá 22. júlí 2003, um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög. Reglugerðin var kynnt Alþingi í tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar á 130. löggjafarþingi 2003–2004. Er hún í megindráttum byggð upp eins og reglugerðin um Evrópufélög, þ.e. evrópsk hlutafélög, en á grundvelli þeirrar reglugerðar voru sett lög nr. 26/2004, um Evrópufélög.
    Meginmarkmið reglugerðarinnar er að gefa samvinnufélögum, sem vilja starfa í fleiri en einu ríki Evrópska efnahagssvæðisins, kost á að stofna evrópskt samvinnufélag sem starfar þá á grundvelli reglugerðarinnar, nokkurra viðbótarákvæða í landslögum skráningarríkis og félagssamþykkta sinna, í stað þess að félögin stofni útibú í viðkomandi ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu sem þurfa þá að starfa á grundvelli mismunandi landslaga. Þessi kostur er talinn leiða til minni stjórnunarkostnaðar og skriffinnsku og meiri samkeppnishæfni samvinnufélaga á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Nefndin vekur athygli á því að lög um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum hafa ekki verið sett, sbr. tilvísun 4. gr. frumvarpsins í slík lög.
    Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um umsókn evrópsks samvinnufélags um flutningsleyfi hjá samvinnufélagaskrá og í 14. gr. um meðferð slíks flutningsmáls hjá samvinnufélagaskrá. Í 1. mgr. síðarnefndu greinarinnar kemur fram að hafi samvinnufélagaskrá tekið umsókn um flutningsleyfi skv. 13. gr. til athugunar skuli hún gefa út „áskorun“ til kröfuhafa evrópsks samvinnufélags og birta hana í Lögbirtingablaði. Skv. 3. mgr. sömu greinar skal samvinnufélagaskrá senda sérstaka „tilkynningu um áskorun“ skv. 1. mgr. til sýslumanns í því umdæmi þar sem skráð skrifstofa evrópsks samvinnufélags er. Í umsögn Sýslumannafélags Íslands er bent á að ekki komi fram í frumvarpstextanum í hvaða tilgangi senda skuli umrædda tilkynningu né til hvaða aðgerða sýslumanns er mælst af því tilefni. Með hliðsjón af þessari athugasemd leggur nefndin til að 3. mgr. 14. gr. verði felld brott.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    3. mgr. 14. gr. falli brott.

Alþingi, 2. maí 2006.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



Guðjón Ólafur Jónsson.


Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Ásta Möller.


Ögmundur Jónasson.


Lúðvík Bergvinsson.