Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 692. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1286  —  692. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um fullgildingu samnings um tölvubrot.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar og Ragnheiði Ýr Karlsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Róbert Spanó frá refsiréttarnefnd.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning um tölvubrot (e. Convention on Cybercrime) sem gerður var í Búdapest 23. nóvember 2001 og undirritaður af Íslands hálfu 30. nóvember sama ár.
    Samningur um tölvubrot er gerður á vegum Evrópuráðsins og er fyrsti alþjóðasamningurinn sem fjallar um glæpi sem framdir eru um alnetið eða önnur tölvunet. Nær efni hans sérstaklega til höfundaréttar, fölsunar og svika sem tengjast tölvum, barnakláms og brota gegn öryggi tölvukerfa, tölvuneta og tölvugagna.
    Dómsmálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum til að aðlaga ákvæði íslenskrar löggjafar efni samningsins (þskj. 609, 619. mál).
    Nefndin ræddi ítarlega skilgreiningu á hugtakinu barnaklám sem er að finna í 2. mgr. 9. gr. samningsins og þá heimild sem aðildarríkjunum er veitt til að gera undanþágur frá b- og c-lið 2. mgr. 9. gr. Í nefndinni kom fram það sjónarmið að ekki skyldi nýta heimild til fyrirvara við b- og c-lið 2. mgr. 9. gr. Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Þórunn Sveinbjarnardóttir rita undir nefndarálitið með fyrirvara varðandi það atriði.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 3. maí 2006.Halldór Blöndal,


form., frsm.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.


Magnús Stefánsson.Drífa Hjartardóttir.


Bjarni Benediktsson.


Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.