Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 754. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1293  —  754. mál.
Svarmenntamálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um samráðsfund með forsvarsmönnum sérsambanda ÍSÍ.

     1.      Hefur verið haldinn samráðsfundur með forsvarsmönnum sérsambanda ÍSÍ eins og ráðherra boðaði að yrði gert árlega í svari við fyrirspurn í 803. máli á 130. löggjafarþingi, 31. mars 2004?
    Fyrsti samráðsfundur með forsvarsmönnum sérsambanda ÍSÍ og fulltrúum ÍSÍ var haldinn 19. nóvember 2004. Fundinn sat ráðherra ásamt fulltrúum ráðuneytisins og fulltrúum frá 21 sérsambandi ÍSÍ auk forystumanna ÍSÍ. Formlegur samráðsfundur var ekki haldinn með fyrrgreindum aðilum á árinu 2005 en ráðuneytið hélt óformlega fundi með forystu ÍSÍ á því ári.

     2.      Ef fundur hefur verið haldinn, skilaði hann einhverjum árangri?

    Eins og fram kom í svari við sambærilegri fyrirspurn háttvirts þingmanns á 131. löggjafarþingi, sbr. þskj. 516, 408. mál, þá er megintilgangurinn með þessum samráðsfundum að forystumenn íþróttahreyfingarinnar geti komið á framfæri þeim málum sem þeir telja brýn, auk almennra upplýsinga um stöðu íþróttamála. Fundir sem þessir eru því mikilvægur vettvangur fyrir frjálsar umræður og skoðanaskipti og þá ekki síst fyrir ráðherra íþróttamála. Á þessum fyrsta samráðsfundi flutti þáverandi forseti ÍSÍ, Ellert B. Schram, inngang að þeim þremur erindum sem lágu fyrir, þ.e. fjármál íþróttahreyfingarinnar, útbreiðslu- og fræðslumál og afreksmál. Frummælendurnir þrír gáfu góða yfirsýn yfir stöðu sérsambandanna almennt. Fram kom að stórauknar kröfur eru gerðar til sérsambandanna á öllum sviðum. Var það eindregin skoðun sérsambandanna og ÍSÍ að afar mikilvægt væri að veita sérsamböndum stuðning með framlagi á hverju ári á fjárlögum ríkisins og styrkja þannig rekstrargrundvöll þeirra. Að þessu vann ráðherra á síðasta ári, þ.e. að tryggja framlag á fjárlögum 2006, eyrnamerkt sérsamböndum ÍSÍ. Á fjárlögum fyrir árið 2006 var 30 millj. kr. úthlutað til starfsemi sérsambanda ÍSÍ. Ráðherra hefur beitt sér fyrir fjárveitingum til þeirra málaflokka sem falla undir ráðuneytið eftir því sem ástæða er til og eru málefni íþrótta þar ekki undanskilin.

     3.      Ef fundur hefur ekki verið haldinn, hvenær verður hann haldinn?

    Fyrirhugað er að boða til samráðsfundar með forystumönnum ÍSÍ og forsvarsmönnum sérsambanda á haustmánuðum.