Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 561. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1297  —  561. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um einstaklinga með eiturlyf innvortis.

     1.      Hefur bráðamóttaka Landspítala eða aðrar sjúkrastofnanir synjað óskum um að koma einstaklingi til aðstoðar við að losna við eiturlyf sem hann hefur haft innvortis? Ef svo er, hversu oft hefur það hent?
    Ekki er kunnugt um að nein sjúkrastofnun hafi synjað óskum um slíka aðstoð, og þykir afar ólíklegt að svo sé. Skráningarkerfi heilbrigðisstofnana gefur ekki kost á að kalla svör við þessari spurningu fram með einföldum hætti, en fullyrða má á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja að slík tilvik þekkist ekki.

     2.      Hversu margir komu árlega undanfarin fimm ár sjálfviljugir á heilbrigðisstofnun til að fá slíka aðstoð?

    Samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni koma einstaklingar nánast aldrei sjálfviljugir vegna þessara aðstæðna til heilbrigðisstofnana. Á undanförnum fimm árum var aðeins eitt tilvik af þessu tagi á Landspítalanum. Var sá einstaklingur að reyna að komast hjá handtöku.

     3.      Hversu margir komu á sama tíma fyrir tilstilli lögreglu eða í fylgd hennar í þessum erindagjörðum og hversu oft vildi lögregla fá aðstoð við að kanna hvort viðkomandi væri svokallað burðardýr, þ.e. með eiturlyf innvortis?

    Nær allir eða allir leita til heilbrigðisþjónustunnar fyrir tilstilli lögreglu við þessar aðstæður. Á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum er leitað að eiturlyfjum innvortis hjá 30–40 manns á ári hverju, 7–10 tilvik finnast. Annars staðar á landinu, einkum á Seyðisfirði, er leitað hjá innan við 10 manns á ári að eiturlyfjum innvortis, og hafa engin fundist enn þá.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið skoða nú lagaákvæði sem fjalla um þagnarskyldu, tilkynningaskyldu og vitnaskyldu. Má þar nefna læknalög, lög um réttindi sjúklinga, almenn hegningarlög og lög um meðferð opinberra mála. Í ljósi þess að þeim fjölgar sem koma hingað til lands með eiturlyf innvortis er mikilvægt að tryggja að ákvæði laga og reglna um framkvæmd leitar og viðbrögð við fundi eiturlyfja séu skýr, þannig að heilbrigðisstarfsmenn þurfi ekki að velkjast í vafa um hvernig taka skuli á slíkum málum.