Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 665. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1300  —  665. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Fannýjar Gunnarsdóttur um barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss.

     1.      Hvernig standa byggingarmál barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss, sér fyrir endann á framkvæmdum?
    Með bréfi dags. 2. mars sl. óskaði ráðuneytið heimildar fjármálaráðuneytis til fullnaðarhönnunar á fyrsta áfanga stækkunar húsnæðis BUGL við Dalbraut. Heimildin fékkst 31. mars sl. og er gert ráð fyrir að hönnunarvinnan taki nokkra mánuði. Verður þá leitað heimildar fjármálaráðuneytis til útboðs verkframkvæmda.

     2.      Fjölgar stöðugildum við deildina eftir stækkun hennar?

    Stöðugildum mun ekki fjölga mikið þegar fyrsti áfangi verður tekinn í notkun því að með honum er fyrst og fremst ætlunin að bæta aðstöðu fyrir núverandi starfsemi. Hins vegar má gera ráð fyrir einhverri fjölgun starfsfólks þegar byggingu nýja húsnæðisins lýkur, en ekki er unnt að áætla hver hún verður að svo stöddu.

     3.      Er ætlunin að vinna fljótt upp biðlista, auka og efla þjónustuna, t.d. með því að fjölga innlögnum, auka göngudeildarþjónustu, efla aðstoð við foreldra og systkini og auka eftirfylgd, t.d. út í skólana?

    Markmiðið með stækkun deildarinnar er að efla alla þætti sem hér eru nefndir og búa starfseminni betri umgjörð sem er meira í samræmi við eðli þjónustunnar. Allir þessir þættir ráðast fyrst og fremst af hæfu, vel menntuðu og reyndu starfsfólki, og því er nauðsynlegt að vinna jafnframt að því að tryggja mannaflann. Betri vinnuaðstæður geta jafnframt haft góð áhrif á mönnun.

     4.      Má eiga von á því að alltaf verði um einhverja biðlista að ræða?

    Reynslan sýnir að rétt er að gera ráð fyrir að einhverjir biðlistar séu til staðar. Í sumum tilvikum hefur verið greint á milli biðlista og svokallaðra vinnulista, en það eru listar yfir þá sem eiga pantaða tíma og eiga að sækja þjónustu innan tilskilinna tímamarka. Biðlistar á BUGL taka annars vegar til viðtala og hins vegar til innlagna. Mikilvægt er að unnið sé að því að stytta báða biðlistana á BUGL.