Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 733. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1309  —  733. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lilju Sturludóttur og Þórð Reynisson frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá tollstjóranum í Reykjavík, ríkisskattstjóra, Viðskiptaráði Íslands, Tollvarðafélagi Íslands og Seðlabanka Íslands.
    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar frumvarps til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, (520. mál) sem kveður á um breytta skipan lögreglustjórnar á landsvísu. Felst hún m.a. í fækkun lögregluumdæma. Líkt og hjá löggæsluembættum hafa orðið ýmsar breytingar á starfsumhverfi tollstjóra sem kalla á fækkun og stækkun umdæma. Tollafgreiðsla er í auknum mæli orðin rafræn, dregið hefur úr beinu eftirliti við afgreiðslu á vörum en aukin áhersla lögð á tollendurskoðun og sérþekkingu tollstarfsmanna á ýmsum sviðum. Helsta breytingin samkvæmt frumvarpi þessu snýr því að skipulagi tollyfirvalda eftir umdæmum en lagt er til að tollumdæmum verði fækkað úr 26 í 8 í því skyni að gera yfirstjórnina markvissari á landsvísu. Vísast nánar til almennra athugasemda við frumvarpið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi við afgreiðslu þess og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 30. maí 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.Ásta Möller.


Ögmundur Jónasson.