Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 655. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1314  —  655. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um verðbrefaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hrein Hrafnkelsson frá viðskiptaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja (SBV), Félagi löggiltra endurskoðenda og Félagi viðskiptalögfræðinga og ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu er gerð tillaga að breytingum á tilteknum þáttum laga um verðbréfaviðskipti er lúta að útboðs- og skráningarlýsingum. M.a. er hugtakið „fagfjárfestir“ skilgreint nánar en gert er í gildandi lögum.
    Með hliðsjón af umsögn ríkisskattstjóra eru lagðar til tvær breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að við b-lið 1. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein sem kveði á um að fjárhæðir í 7. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna taki mið af breytingum á gengi evru eins og gildir um fjárhæðir í IV. kafla laganna en í báðum tilvikum er um að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/71/EB. Er það gert til að fjárhæðir í íslenskum krónum í lögunum séu í samræmi við fjárhæðir tilskipunarinnar í evrum. Í öðru lagi er lagt til að í stað orðsins „fyrirtæki“ í 2. málsl. f-liðar a-liðar 1. gr. komi „félög“. Til nánari skýringar er rétt að geta ensks texta tilskipunarinnar en hann er svohljóðandi: „Small and medium-sized enterprises means companies, which, according to their last annual or consolidated accounts, meet at least two of the following three criteria …“ Með hliðsjón af þessu verður íslenski textinn svohljóðandi: „Með litlum og meðalstórum fyrirtækjum er átt við félög sem samkvæmt síðasta ársreikningi eða samstæðureikningi sínum uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi þremur skilyrðum …“ Hér er því„small and medium-sized enterprises“ þýtt sem „lítil og meðalstór fyrirtæki (enda málvenja að tala um lítil og meðalstór fyrirtæki) og „companies“ sem „félög“.
    Í umsögn SBV eru m.a. gerðar athugasemdir við þýðingu á tveimur hugtökum. Af þeirri ástæðu telur nefndin rétt að taka fram að með hugtakinu „innborgun“ í d-lið 3. gr. frumvarpsins er átt við enska orðið „deposit“ úr tilskipuninni og að með orðunum „markaðssett og/eða seld“ í a-lið 4. gr. frumvarpsins er vísað til enska hugtaksins „placing“ í tilskipuninni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi við afgreiðslu málsins og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 29. maí 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.Ásta Möller.


Ögmundur Jónasson.