Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 612. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1329  —  612. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Veiðimálastofnun.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Má Ingólfsson lögfræðing frá landbúnaðarráðuneyti, Karl Axelsson hrl., Sigurð Guðjónsson frá Veiðimálastofnun, Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Ingólf Þorbjörnsson og Hans Unnþór Ólason frá Landssambandi stangaveiðifélaga, Sigurjón Valdimarsson, formann veiðifélags Norðurár, Sigurð Jakobsson frá veiðifélaginu Flóka, Pétur Jónsson, formann veiðifélags Andakílsár, Sigvalda Ásgeirsson, formann veiðifélags Reykjadalsár, Bjarna Júlíusson frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, Jóhannes Sturlaugsson frá Laxfiskum ehf., Jón Gíslason og Árna Ísaksson frá Landbúnaðarstofnun, Sigurbjörgu Gísladóttur og Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun, Orra Vigfússon, Höllu Björnsdóttur og Steingrím Eiríksson frá Norður- Atlantshafslaxasjóðnum, Matthías Á. Mathiesen, fulltrúa eigenda jarðarinnar Skóga í Borgarfjarðarsveit, Aron Jóhannsson, Helga Þorsteinsson, Hauk Halldórsson frá Félagi eigenda sjávarjarða við austanverðan Eyjafjörð og Sigurgeir Þorgeirsson og Árna Snæbjörnsson frá Bændasamtökum Íslands.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Sýslumannafélagi Íslands, Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangaveiðifélaga, Jóni Kristjánssyni fiskifræðingi, Laxfiskum ehf., Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Viðskiptaráði Íslands og Landvernd.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um Veiðimálastofnun en ákvæði um hana eru nú í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um fiskrækt, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði. Helstu breytingar í frumvarpinu eru þær að hlutverk Veiðimálastofnunar er betur skýrt og stjórn stofnunarinnar lögð af en í staðinn lagt til að ráðgjafarnefnd verði stofnuð.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram athugasemdir varðandi 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem kveður á um að Veiðimálastofnun leitist við að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögunum í nánu samstarfi og samvinnu við menntastofnanir landbúnaðarins. Nefndin telur óþarft að kveða á um slíkt í lögum. Leggur því nefndin til að málsgreinin falli brott.
    Nefndin leggur til að 4. mgr. 5. gr. falli brott en hún kveður á um að Veiðimálastofnun sé heimilt að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum. Nefndinni bárust ýmsar athugasemdir um að rannsóknarhlutverk stofnunarinnar færi ekki saman við það að samkeppnisaðilar þyrftu að leita til hennar um leyfi, umsagnir o.fl. Nefndinni bárust einnig þær upplýsingar að fara ætti fram endurskoðun á Veiðimálastofnun og taldi nefndin því ekki tilefni til að gera miklar breytingar á frumvarpinu heldur skyldi áhersla lögð á að endurskoðunin færi fram sem fyrst.
    Að lokum er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða þannig að einum fulltrúa frá Félagi eigenda sjávarjarða verði bætt við samráðsnefndina og með því komi fleiri hagsmunaaðilar að henni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2006.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Gunnar Örlygsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Jón Bjarnason,


með fyrirvara.



Guðjón Ólafur Jónsson.


Valdimar L. Friðriksson.