Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 710. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1334  —  710. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um kjararáð.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá Dómarafélagi Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Baldur Guðlaugsson og Gunnar Björnsson frá fjármálaráðuneyti, Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Jón Sigurðsson, formann nefndar sem skipuð var af ríkisstjórninni 30. janúar 2005 til að fara yfir lög um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, Skúla Eggert Þórðarson frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Guðrúnu Zoëga frá kjaranefnd, Ólaf Darra Andrason frá ASÍ, Halldóru Friðjónsdóttur frá BHM, Ólaf Jóhannsson frá Prestafélagi Íslands, Birgi Björn Sigurjónsson frá Reykjavíkurborg, Guðmund Sophusson frá Sýslumannafélagi Íslands, Garðar Garðarsson frá Kjaradómi, Hallgrím Snorrason og Eirík Hilmarsson frá Hagstofu Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Viðskiptaráði Íslands, Kjaradómi, Alþýðusambandi Íslands, Prestafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, kjaranefnd, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Reykjavíkurborg, Hagstofu Íslands, Sýslumannafélagi Íslands, Félagi prófessora við Háskóla Íslands, Dómarafélagi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót kjararáði sem leysi af hólmi Kjaradóm og kjaranefnd, sbr. lög nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd. Skv. 1. gr. frumvarpsins er verkefni kjararáðs að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, ráðherra og dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.
    Í athugasemdum við 1. gr. segir m.a.: „Ráðið ákveður með bindandi hætti laun og starfskjör æðstu handhafa ríkisvalds og þeirra ríkisstarfsmanna sem svo háttar til um vegna eðlis starfa þeirra eða samningsstöðu að launakjör geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt.“ Tekið er fram að þessa undantekningu fyrir ríkisstarfsmenn verði að skýra þröngt. Nefndin tekur undir það sjónarmið og telur að ýmsir hópar ríkisstarfsmanna sem nú heyra undir kjaranefnd ættu að hafa möguleika á að semja sjálfir um laun sín og starfskjör. Það er og mat nefndarinnar að löggjafinn þurfi að fara mjög varlega í því að afnema veigamikil réttindi fólks til að semja um kjör sín. Eingöngu þeir ríkisstarfsmenn sem illmögulega geti samið um kjör sín skuli ekki njóta þessara réttinda.
    Nefndin leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að greinarmunur á „embættismönnum“ og „öðrum ríkisstarfsmönnum“ í 4. gr. frumvarpsins verði afnuminn. Samkvæmt greininni eiga allir embættismenn aðrir en þeir sem um ræðir í 3. gr. að falla undir kjararáð, þó að frátöldum nánar tilteknum hópi. M.ö.o. ekki er um neitt mat að ræða hvað embættismennina varðar eins og á við um aðra ríkisstarfsmenn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. Nefndin telur aðgreininguna ástæðulausa; annaðhvort geta menn samið um kjör sín eða ekki, sbr. umsögn kjaranefndar. Því til stuðnings áréttar nefndin að embættismenn, sbr. 22. gr. starfsmannalaga, teljast til ríkisstarfsmanna.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á 4. mgr. 9. gr. þannig að kjararáð skuli ekki aðeins taka tillit til kvaða og hlunninda sem fylgja starfinu heldur leggja mat á verðmæti þessara atriða, t.d. lífeyrisréttinda og þess starfsóöryggis sem fylgir t.d. þingmannsstarfi. Slíkt mat auðveldar raunhæfan samanburð á launum þingmanna og annarra í þjóðfélaginu.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins sem lýtur að því að taka út sjálfvirka vísitölubindingu launa. Bent hefur verið á að vafasamt getur verið að lögbinda vísitölubundnar hækkanir. Í því sambandi tekur nefndin fram að kjararáði er í lófa lagið að hittast oft, jafnvel mánaðarlega, og taka ákvörðun um breytingar á launum með hliðsjón af slíkri vísitölu án þess að um sjálfvirka hækkun sé að ræða.
    Í fyrrnefndri 2. mgr. 10. gr. kemur fram í 2. málsl. að kjararáð geti ákveðið að stefnumarkandi ákvarðanir um innbyrðis launahlutföll og heildarstarfskjör á ákvörðunarsviði ráðsins séu teknar sjaldnar, til dæmis þriðja eða fjórða hvert ár. Eins og hefð er fyrir í kjarasamningum er það skilningur nefndarinnar að ráðið geti ákvarðað laun fram í tímann. Þannig gæti það t.d. ári fyrir kosningar tekið stefnumarkandi ákvörðun um laun þingmanna sem gilda ætti fyrir næsta kjörtímabil.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júní 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Guðjón Ólafur Jónsson.Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Ásta Möller.Ögmundur Jónasson.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.