Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 742. máls. Ferill 788. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1340  —  742. og 788. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um atvinnuleysistryggingar og frv. til l. um vinnumarkaðsaðgerðir.

Frá félagsmálanefnd.


                                  
    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á sinn fund Magnús Norðdahl frá ASÍ, Stefán Aðalsteinsson frá BHM, Ernu Guðmundsdóttur frá BSRB, Sigurð Bessason og Þráin Hallgrímsson frá Eflingu, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Ragnhildi Arnljótsdóttur og Sturlaug Tómasson frá félagsmálaráðuneyti, Kristján Valdimarsson frá Hlutverki – samtökum um vinnu og verkþjálfun, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Karl Steinar Guðnason og Sigríði Lillý Baldursdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins, Árna Leósson og Gunnar Pál Pálsson frá VR og Gissur Pétursson og Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun. Nefndinni bárust einnig umsagnir um málin.

Atvinnuleysistryggingar.
    Helsta breytingin með frumvarpinu lýtur að því að þeir sem teljast tryggðir eigi rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði. Getur mánaðarleg greiðsla numið 70% af heildarlaunum viðkomandi, en hámarksgreiðsla á mánuði samkvæmt frumvarpinu verður 180 þús. kr. miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu. Að þessu þriggja mánaða tímabili loknu getur viðkomandi átt rétt á grunnatvinnuleysisbótum. Tímabilið sem unnt er að fá greiddar atvinnuleysisbætur verður samkvæmt frumvarpinu stytt úr fimm árum í þrjú.
    Jafnframt eru lagðar til breytingar á skipulagi atvinnuleysistryggingakerfisins. Í núverandi kerfi eru sérstakar úthlutunarnefndir sem annast framkvæmd þess en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun taki við því hlutverki. Stofnunin mun ákvarða um réttindi og skyldur launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga, þar á meðal um rétt þeirra til atvinnuleysisbóta og um missi þeirra. Hins vegar mun ein framangreindra nefnda starfa áfram og mun Vinnumálastofnun skipa í hana. Hlutverk þessarar nefndar er einkum að hafa eftirlit með því að samræmis sé gætt hvað varðar ákvarðanir um atvinnuleysistryggingar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2003 sem ber heitið „Greiðsla atvinnuleysisbóta – innra eftirlit“ er fjallað um úthlutunarnefndirnar sem starfa í núverandi kerfi. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að vart hafi orðið mismunandi viðhorfa hjá úthlutunarnefndum, nefndirnar túlki lög og reglugerðir á misjafnan hátt og að hætta sé á að fólki sé mismunað eftir því hvar á landinu það býr.
    Bæði launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt rétt til bóta samkvæmt frumvarpinu og er það ekki breyting frá gildandi kerfi. Það sem er nýtt hvað þetta varðar er að í frumvarpinu er kveðið á um skilyrði bótaréttar sjálfstætt starfandi einstaklinga en í gildandi kerfi er kveðið á um þessi skilyrði í reglugerð. Tveir aðskildir kaflar frumvarpsins fjalla um skilyrði, annars vegar launamanna til atvinnuleysisbóta og hins vegar sjálfstætt starfandi einstaklinga. Áfram er gert að skilyrði að einstaklingur sé í virkri atvinnuleit til að geta talist tryggður samkvæmt frumvarpinu. Hugtakið „virk atvinnuleit“ er skilgreint í 14. gr. frumvarpsins. Framlagning vottorðs frá vinnuveitanda er gerð að skilyrði fyrir rétti til bóta samkvæmt frumvarpinu. Slík vottorð hafa verið talin eitt af þeim grundvallaratriðum sem litið er til við ákvörðun á rétti atvinnuleitanda innan kerfisins en ekki hefur verið kveðið á um það í lögum að slíkt vottorð skuli lagt fram. Það er nýmæli að sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur þarf, verði frumvarpið að lögum, ekki að skrá sig reglulega hjá vinnumiðlun. Hins vegar verður atvinnuleitendum gert að hafa regluleg samskipti við ráðgjafa innan vinnumarkaðskerfisins. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er fjallað um rétt þeirra sem þegar hafa skráð sig án atvinnu.

Vinnumarkaðsaðgerðir.
    Með frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir er lagt til breytt skipulag á vinnumarkaðsaðgerðum en með vinnumarkaðsaðgerðum er átt vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitanda og skipulag vinnumarkaðsúrræða með hliðsjón af færni og þörfum þess sem leitar eftir atvinnu. Lagt til að mismunandi tegundir vinnumarkaðsúrræða verði fyrir hendi, svo sem afmörkuð þjónusta eða öflug og víðtæk hjálp.
    Samkvæmt frumvarpinu skal Vinnumálastofnun annast framkvæmd laganna þannig að betri yfirsýn fáist yfir þau úrræði sem eru í boði. Það er mat nefndarinnar að hafi aðrir aðilar vilja og getu til að sinna því hlutverki sem Vinnumálastofnun er fengið samkvæmt frumvarpinu þá skuli félagsmálaráðherra heimilt að gera samninga við þá aðila um framkvæmd verkefna sem kveðið er á um í frumvarpinu.
    Hvað varðar kostnað við vinnumarkaðsaðgerðir þá kemur fram í 4. gr. frumvarpsins að kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar við framkvæmd laganna greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hvers árs. Nefndin telur eðlilegt að aðrir aðilar kunni að koma að fjármögnun einstakra vinnumarkaðsúrræða eða verkefna. Má þar til dæmis nefna lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins sem hafa nú þegar ýmis verkefni á sínum snærum.
    Í 17. gr. frumvarpsins er ákvæði þess efnis að Vinnumálastofnun afli upplýsinga um atvinnuástandið í landinu. Nefndin leggur til breytingu á þessari grein þannig að bætt verði við nýrri málsgrein þar sem kveðið verður á um að stofnunin skuli kanna mannaflaþörf og framtíðarhorfur í atvinnugreinum. Þannig verður unnt að meta atvinnumöguleika þeirra sem stunda nám. Byggist þessi tillaga á þingsályktunartillögu Jóhönnu Sigurðardóttur á þskj. 67. Með þessu móti verður Vinnumálastofnun kleift að byggja upp þekkingu og yfirsýn sem yrði grundvöllur heildarstefnumótunar á sviði vinnumarkaðsmála hér á landi. Þar yrði tekið tillit til breytinga í atvinnulífinu samfara aukinni tækniþróun og alþjóðavæðingu. Meðal annars yrði horft til mikilvægis frumkvöðlastarfs og nýsköpunar og aukinna krafna til menntunar á sviði bóknáms-, iðn-, tækni- eða starfsnáms í þekkingarsamfélagi nútímans. Nefndin telur eðlilegt að Vinnumálastofnun leiti eftir samvinnu við Samtök atvinnulífsins, náms- og starfsráðgjafa í háskólum og Félag náms- og starfsráðgjafa við uppbyggingu þessa verkefnis. Með því móti verður samvinna við atvinnulífið tryggð og ráðgjöf við nemendur í framhalds- og háskólanámi verður efld þannig að byggja megi upp samkeppnishæft samfélag hér á landi til frambúðar.
    Helsta markmið vinnumarkaðsaðgerða er að stuðla að atvinnuþátttöku fólks. Úrræði laga um atvinnuleysistryggingar verða virk þegar einstaklingur missir starf sitt og þarf á tímabundinni aðstoð að halda.
    Nefndin hefur fjallað um ýmsar hliðar málsins og eins og að framan greinir fengið ýmsa gesti á sinn fund. Nefndarmenn ræddu einkum um samhengi þessara frumvarpa við aðra þjónustuþætti svo sem heilbrigðisþjónustu, atvinnumál fatlaðra o.fl. Nefndin telur mikilvægt að þau úrræði sem eru og verða til staðar skarist ekki heldur virki saman. Hvað varðar atvinnumál fatlaðra er að því stefnt að þjónusta við fatlaða verði með sama hætti og fyrir aðra hópa. Má í þessu sambandi benda á f-lið 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Þó má gera ráð fyrir að það kunni að taka tíma að færa atvinnumál fatlaðra frá svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra en hafist verður handa við flutninginn verði frumvarpið samþykkt á Alþingi á yfirstandandi þingi.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram athugasemd þess efnis að BHM og BSRB skuli samkvæmt frumvörpum þessum eiga sameiginlegan fulltrúa í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og Vinnumálastofnunar. Nefndin telur rétt að eftir sem áður verði stjórnin skipuð níu fulltrúum þannig að framangreind félög haldi sínum fulltrúanum hvort.
    Nefndin telur mikilvægt að þegar leitað er vinnumarkaðsúrræða fyrir einstakling sem misst hefur starf sitt skuli hugað að þeim hæfileikum og getu sem hann býr yfir en ekki einblína á þau störf eða verkefni sem hann er ekki fær um að sinna. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu þar sem vinnufærni atvinnuleitanda verði metin sem fyrst og hafist verði handa við að aðstoða hann í atvinnuleit sinni með virkum hætti.
    Svo að þetta megi ganga eftir leggur nefndin ríka áherslu á það grundvallaratriði að til frambúðar verði tryggð fjármögnun virkra vinnumarkaðsaðgerða og starfsendurhæfingarúrræða. Nefndin vísar í því sambandi sérstaklega til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember 2005 til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga. Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins, sem aðilar vinnumarkaðarins eiga m.a. aðild að, fjallar nú um leiðir til að efla starfsendurhæfingu innan ramma nýrra laga um vinnumarkaðsaðgerðir og munu þær grundvallast á þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember 2005 kemur skýrt fram að ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins muni koma sameiginlega að fjármögnun þessara aðgerða. Nefndin leggur áherslu á að fjármunir til vinnumarkaðsaðgerða komi að meginhluta til úr ríkissjóði en aðrir aðilar geti með samningum lagt til fjármuni til vinnumarkaðsaðgerða eins og fram kemur í skýrslu nefndar um atvinnuleysistryggingar sem skilaði tillögum til félagsmálaráðherra í nóvember 2005.
    Þá skiptir verulegu máli að góð tengsl séu höfð við atvinnulífið og þá ekki hvað síst verkalýðshreyfinguna svo unnt sé að veita launafólki á íslenskum vinnumarkaði sem besta þjónustu á þessu sviði. Nefndin hvetur til þess að leitað verði liðstyrks stéttarfélaganna við skipulagningu vinnumarkaðsúrræða. Er mikilvægt að nýta þá reynslu sem stéttarfélögin og aðrir þjónustuaðilar búa yfir en frumvarp til laga um vinnumarkaðsaðgerðir gerir ráð fyrir að þjónustuaðilar annist einstök vinnumarkaðsúrræði.
    Nefndin hvetur til þess að reynsla þeirra sem starfa í gildandi kerfi verði nýtt en samkvæmt frumvarpinu sinna einstök stéttarfélög ekki sama hlutverki og þau hafa gert hingað til. Með öðrum orðum hætta einstök stéttarfélög að sinna skráningar- eða útgreiðsluþjónustu. Þær skipulagsbreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu fela í sér nýja nálgun og þar með ný tækifæri. Til dæmis geta umrædd félög fremur beint kröftum sínum að vinnumarkaðsaðgerðum.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar, sumar efnislegar en aðrar lúta að málfari. Þær efnislegu breytingar sem nefndin leggur til eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi má nefna breytingu á ákvæði 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins um skipun í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Nefndin leggur til að fyrirkomulagið verði það sama og á grundvelli gildandi laga þannig að fulltrúar í stjórn verði áfram níu og að Bandalag háskólamanna og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eigi hvort sinn fulltrúann í stjórninni. Þá er lagt til að til nánari skýringar verði tekið fram í lagatextanum að átt sé við vottorð fyrrverandi vinnuveitanda í þeim ákvæðum þar sem kveðið er á um að skila skuli vottorði vinnuveitanda, enda hefur sá sem er atvinnulaus engan vinnuveitanda. Nefndin leggur jafnframt til breytingu á mótframlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs í lífeyrissjóð. Lagt er til að framlagið verði 8% en ekki 6%. Hins vegar verður gerð tillaga um nýtt bráðabirgðaákvæði þess efnis að til 31. desember 2006 verði mótframlagið 7%. Þá má nefna breytt orðalag í X. og XI. kafla frumvarpsins þar sem talað er um „40 virka daga“. Nefndin leggur til að í stað þess orðalags komi „40 daga sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir“. Með þessu móti reiknast einnig svokallaðir „rauðir dagar“ inn í umrætt tímabil. Þá má nefna framangreint bráðabirgðaákvæði sem kveður á um 7% mótframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs í lífeyrissjóð til 31. desember 2006.
    Nefndin leggur einnig til breytingar á frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir og eru eftirtaldar breytingar þær helstu: Lagt er til að stjórn Vinnumálastofnunar verði skipuð tíu fulltrúum í stað sex samkvæmt frumvarpinu. Munu Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, fjármálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga eiga hvert sinn fulltrúann í stjórninni. Fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins fjölgar að sama skapi úr einum í tvo. Þá leggur nefndin til breytingu á 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins þannig að félagsmálaráðherra verði heimilt að leita til annarra aðila en Vinnumálastofnunar við framkvæmd á ákvæðum laganna. Nefndin leggur jafnframt til að auk framlags úr ríkissjóði verði leitað til annarra aðila um fjármögnun vinnumarkaðsaðgerða og má þar nefna lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins. Að lokum má nefna breytingu á 17. gr. þannig að Vinnumálastofnun kanni mannaflaþörf og framtíðarhorfur í atvinnugreinum. Breyting þessi byggist á þingsályktunartillögu Jóhönnu Sigurðardóttur eins og að framan greinir.
    Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Pétur Blöndal og Valdimar L. Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málanna.
    Ögmundur Jónasson situr fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvörpin verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 1. júní 2006.Dagný Jónsdóttir,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.

Guðlaugur Þór Þórðarson.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.

Hjálmar Árnason.