Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 713. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1344  —  713. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Huga Ólafsson og Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti. Auk þess bárust nefndinni umsagnir.
    Frumvarpinu er ætlað að gera íslenskum stjórnvöldum kleift að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og einkum Kyoto-bókuninni við hann. Markmið Kyoto-bókunarinnar er að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda og er í henni kveðið á um að aðildarríki skuli takmarka losun þeirra miðað við losun árið 1990. Þær gróðurhúsalofttegundir sem bókunin tekur til eru tilgreindar í 2. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði ákvæði um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi. Í öðru lagi er lagt til að sett verði ákvæði um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir. Í þriðja lagi er mælt fyrir um upplýsingaskyldu fyrirtækja sem hafa starfsleyfi fyrir losun á meira en 30.000 tonnum á ári af ígildi koldíoxíðs.
    Ákveðnum fyrirtækjum ber samkvæmt gildandi lögum að skila inn hluta af þeim upplýsingum sem frumvarpi þessu er ætlað að ná til. Má í þessu sambandi nefna reglugerð um grænt bókhald (nr. 851/2002) og reglugerð um útstreymisbókhald (nr. 322/2002). Gildandi reglur heimila stjórnvöldum hins vegar ekki að krefjast nákvæmra upplýsinga um losun í atvinnurekstri sem losar mikið magn af gróðurhúsalofttegundum. Þá eru ekki heldur til staðar heimildir fyrir Umhverfisstofnun til að fara yfir innsendar tölur og staðfesta þær. Til þess að unnt sé að standa við alþjóðlegar skuldbindingar um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda er nauðsynlegt að hafa sem nákvæmastar upplýsingar um losun og einnig að unnt sé að staðreyna uppgefnar tölur um losun með endurteknum útreikningum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Umhverfisstofnun beri ábyrgð á bókhaldi um losun gróðurhúsalofttegunda og fær stofnunin upplýsingar frá Landbúnaðarháskólanum, Orkustofnun, Hagstofu og þeim fyrirtækjum sem falla undir lögin. Nauðsynlegt er að það sé einn aðili sem beri ábyrgð á útreikningum í samræmi við kröfur loftslagssamningsins.
    Í frumvarpinu er kveðið á um heimild Umhverfisstofnunar til að beita dagsektum sé upplýsingum ekki skilað inn í samræmi við 6. gr. laganna. Um málsmeðferð í slíkum málum gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem gerðar eru lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar. Má í þessu sambandi einkum nefna meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og IV. kafla laganna um andmælarétt.
    Ásta R. Jóhannesdóttir, Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt en leggur þó til nokkrar breytingar á frumvarpinu en þær eru ekki efnislegar heldur lúta að málfari. Nefndin leggur auk þess til breytt heiti lagabálksins. Gerð er grein fyrir breytingunum í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 1. júní 2006.Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.

Kristinn H. Gunnarsson.Ásta Möller.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.

Drífa Hjartardóttir.Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.

Sigurrós Þorgrímsdóttir.