Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 622. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1361  —  622. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 2. júní.)



1. gr.

    I. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Heiti, hlutverk, stjórn, aðild, iðgjöld og innheimta, orðast svo:
    
    a. (1. gr.)

Heiti og hlutverk.

    Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður bænda. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
    Sjóðurinn starfar með því markmiði og skipulagi sem segir í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sérákvæðum í lögum þessum og samþykktum fyrir sjóðinn.
    Heimilt er að skipta sjóðnum í deildir eftir því hvernig ávinnslu réttinda er háttað og eftir því hvort lífeyrisréttindi eru í sameign eða séreign.
    Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum laga þessara og samþykkta sjóðsins.

    b. (2. gr.)

Stjórn.

    Fjármálaráðherra skipar stjórn lífeyrissjóðsins til fjögurra ára í senn. Skal stjórnin skipuð fimm mönnum. Skal einn þeirra tilnefndur af Hæstarétti og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Einn skal tilnefndur af landbúnaðarráðherra, tveir af stjórn Bændasamtaka Íslands en einn skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt.
    Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á starfsemi hans í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. ákvæði í samþykktum fyrir sjóðinn.

    c. (3. gr.)

Sjóðsaðild.

    Sjóðfélagar skulu vera allir bændur og makar þeirra sem starfa að búrekstri. Bóndi, þar með talinn aðili að félagsbúi, einkahlutafélagi eða öðru lögformlegu búrekstrarformi, telst sá er stundar búskap á lögbýli þar sem hann á lögheimili, og búrekstur fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02, enda hafi hann náð sextán ára aldri.
    Ef maki bónda er ekki aðili að búrekstri og á ekki sjálfsagða fulla aðild að öðrum lífeyrissjóði skal sjóðstjórn veita honum aðild að Lífeyrissjóði bænda óski viðkomandi þess skriflega. Iðgjald bónda skv. 2. mgr. 4. gr. skal þá skiptast milli hans og maka hans eða sambúðaraðila í þeim hlutföllum sem hann hefur óskað eftir skriflega og skal hlutur makans ganga til myndunar sjálfstæðra lífeyrisréttinda hans.
    Launþegar er starfa við landbúnað skulu vera sjóðfélagar, enda hafi þeir náð sextán ára aldri og eigi ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði.
    Heimilt er stjórn sjóðsins að veita bændum sem stunda búrekstur utan lögbýla, svo og bændum sem ekki eiga lögheimili á bújörðum sínum, aðild að sjóðnum, enda sé um að ræða verulegan búrekstur sem hlutaðeigandi hefur meiri hluta tekna sinna af. Þá getur sjóðstjórn heimilað sjóðsaðild mökum og sambúðaraðilum, sbr. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, þeirra aðila sem um ræðir í þessari málsgrein.
    Sjóðfélaga skv. 1. og 4. mgr. þessarar greinar er heimilt að greiða iðgjald, sem launþegi, af öðrum atvinnutekjum en búrekstri ef þessi störf veita ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði.

    d. (4. gr.)

Iðgjaldsstofn, iðgjald og réttindi.

    Iðgjaldsstofn bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri, skal vera reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með búrekstri í þessu sambandi er átt við búrekstur samkvæmt atvinnugreinanúmerum 01, jarðrækt og garðyrkju, þ.m.t. ylrækt og búfjárrækt, og 02, skógrækt, í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02. Iðgjald þeirra bænda og maka þeirra sem reikna sér ekki laun en þiggja laun frá einkahlutafélagi eða öðrum lögaðila sem rekur bú, sbr. 1. mgr. 3. gr., skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa til þeirra vegna búrekstrar, sbr. 3. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Iðgjald sjóðfélaga skv. 1. og 4. mgr. 3. gr. skal að lágmarki vera 4% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar. Á móti iðgjaldi sjóðfélaga skal greitt mótframlag sem skal að lágmarki vera 6% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar. Mótframlag skal greitt af sjóðfélaga sé ekki samið um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.
    Iðgjald sjóðfélaga skv. 3. og 5. mgr. 3. gr. skal að lágmarki vera 10% af heildarlaunum, þ.e. að lágmarki 4% iðgjald sjóðfélaga og að lágmarki 6% mótframlag vinnuveitanda.
    Iðgjald skv. 2. og 3. mgr. þessarar greinar skal hvert almanaksár umreiknað til lífeyrisréttinda með jafnri og/eða aldurstengdri réttindaávinnslu samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum fyrir sjóðinn.

    e. (5. gr.)

Innheimta.

    Greiðsla iðgjalds og mótframlags skv. 2. mgr. 4. gr. skal fara fram mánaðarlega. Stofn til innheimtu á mánaðarlegu iðgjaldi bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri og reikna sér laun, skal miða við reiknað endurgjald í hverjum mánuði eins og það er ákveðið skv. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 1. málsl. 3. mgr. þessarar greinar. Einkahlutafélög og aðrir lögaðilar sem reka bú, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 4. gr., skulu standa skil á iðgjaldi fyrir alla menn sem að búrekstrinum starfa, sbr. 1. mgr. 4. gr. Greiðandi skal sundurliða iðgjöld eftir sjóðfélögum.
    Sjóðurinn annast innheimtu iðgjalda. Á greiðsludögum beingreiðslna samkvæmt búvörulögum skal halda eftir af þeim iðgjaldi þeirra sjóðfélaga sem beingreiðslna njóta fyrir næstliðinn mánuð og skila því til sjóðsins eigi síðar en 30 dögum eftir að það er greitt og skal það sundurliðað eftir sjóðfélögum og tímabilum.
    Leiði eftirlit ríkisskattstjóra skv. 6. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, í ljós að iðgjald bónda hefur verið vangreitt eða ofgreitt skal sjóðstjórn innheimta vangreidd iðgjöld eða úrskurða um bakfærslu og endurgreiðslu ofgreiddra iðgjalda. Iðgjald sem flutt hefur verið í annan lífeyrissjóð, lán verið veitt út á eða lífeyrir verið úrskurðaður og greiddur út á skal hvorki endurgreitt né réttindi sem af því leiðir bakfærð. Sjóðfélagi getur enn fremur óskað eftir því að iðgjaldsstofn hans sé reiknað endurgjald í staðgreiðslu sé það hærra en reiknuð laun hans, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 4. gr., samkvæmt álagningu að liðnu tekjuári. Vextir skulu reiknaðir á endurgreiðslu iðgjalda samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Um innheimtu iðgjalda og framlaga fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og nánari ákvæðum í samþykktum fyrir sjóðinn.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um iðgjaldagreiðslur, innheimtu, innheimtuþóknun, dráttarvexti og annað er varðar framkvæmd þessarar greinar.

    f. (6. gr.)

Sérákvæði.

    Nú andast sjóðfélagi sem orðinn var sjóðfélagi fyrir árslok 1983 og skipti ekki réttindum sínum í árslok 1983 með maka sínum og á þá eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum að loknum þeim greiðslutíma sem kveðið er á um í samþykktum til æviloka. Slíkur réttur miðast þó einungis við áunnin réttindi í sjóðnum í árslok 1983 án framreiknings.
    Við slit hjúskapar eða óvígðrar sambúðar sem tilkynnt var til sjóðsins samkvæmt eldri lögum skal áunnum réttindum sjóðfélaga, þau ár sem hjónabandið eða sambúðin stóð fram til ársloka 1983, skipt að jöfnu hafi þeim ekki áður verið skipt.

    g. (7. gr.)

Samþykktir.

    Setja skal nánari reglur um skipulag sjóðsins og starfsemi auk ákvæða um iðgjald, mótframlag og lífeyrisréttindi í samþykktir sem fjármálaráðherra staðfestir að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Komi til breytinga á samþykktum sjóðsins skal fjármálaráðherra staðfesta þær að nýju að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Sjóðurinn skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á stjórn, framkvæmdastjóra, endurskoðanda og tryggingafræðingi.

2. gr.

    II. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Eftirlaun til aldraðra í Lífeyrissjóði bænda, orðast svo:
         
    a. (8. gr.)

Réttindatími.

    Þeim sem fæddir eru 1914 eða fyrr og hafa verið bændur á lögbýlum og átt þar lögheimili skal tryggður ellilífeyrir í samræmi við ákvæði 9. gr., enda eigi þeir að baki a.m.k. tíu ára réttindatíma, sbr. 3. mgr. Vanti mann sem látið hefur af búskap á árunum 1964–69 brot úr ári til að ná fullum tíu árum veldur það þó ekki réttindamissi ef hann hefur látið af búskap á tímabilinu frá fardögum til ársloka og hefði með búskap til loka þess árs náð fullum tíu árum.
    Nú andast maður sem öðlast hafði rétt til lífeyris skv. 1. mgr. eða var að ávinna sér slíkan rétt og hefði getað uppfyllt skilyrði 1. mgr. með áframhaldandi réttindaávinnslu og skal þá eftirlifandi maki eiga rétt til makalífeyris skv. 9. gr., enda hafi hinn látni fallið frá eftir 31. desember 1964 og áunnið sér a.m.k. fimm ára réttindi, sbr. 3. mgr. Það er enn fremur skilyrði að hjónabandið hafi staðið í a.m.k. fimm ár og verið stofnað áður en sjóðfélaginn náði 60 ára aldri. Óvígð sambúð eða staðfest samvist veitir sama rétt og hjúskapur, enda hafi hún verið tilkynnt sjóðnum skriflega fyrir andlátið. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita aðila sem sannanlega annaðist heimili bónda hliðstæðan lífeyri að honum látnum, enda hafi bæði verið ógift.
    Til réttindatíma skal einungis reikna þann tíma frá og með árinu 1955 sem hlutaðeigandi hefur verið bóndi á lögbýli og átt þar lögheimili. Réttindatími manns sem ekki hafði náð 55 ára aldri í árslok 1954 reiknast frá 1. næsta mánaðar eftir að þeim aldri er náð. Réttindatími reiknast í heilum mánuðum en aldrei skal hann reiknast lengri en 20 ár.
    Heimilt er stjórn sjóðsins að víkja frá skilyrðum 1. mgr. um lögheimili ef hlutaðeigandi bóndi hefur haft meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu. Enn fremur er henni heimilt að víkja frá skilyrðum 1. mgr. um lögbýli ef um hefur verið að ræða verulegan búrekstur sem hlutaðeigandi hefur haft allar eða nær allar tekjur sínar af. Áður en umsókn frá umsækjanda utan lögbýlis er afgreidd skal leita álits stjórnar hlutaðeigandi búnaðarsambands á því hvaða býlum á sambandssvæðinu megi í þessu sambandi jafna til lögbýla.

    b. (9. gr.)

Lífeyrir.

    Fjárhæð elli- og makalífeyris sem veittur er skv. 8. gr. miðast við réttindatíma, sbr. 3. mgr. 8. gr. Makalífeyrir skal enn fremur miðast við 100% grundvallarlaun skv. 1. mgr. 10. gr. og sama gildir um ellilífeyri ef skilyrðum 2. mgr. 8. gr. um hjúskap, óvígða sambúð eða staðfesta samvist er fullnægt, en að öðrum kosti skal lífeyrir miðast við 20% lægri tekjur. Fyrir réttindatíma til ársloka 1980 skal ellilífeyrir nema 1,923% nefndra tekna fyrir hvert réttindaár en makalífeyrir skal til sama tíma nema 5,341% að viðbættu 1,068% fyrir hvert réttindaár. Hafi sjóðfélagi áunnið sér meiri rétt samkvæmt ákvæðum eldri laga um Lífeyrissjóð bænda einstök réttindaár skal þó miðað við þann rétt þau ár og fyrir réttindatíma eftir árslok 1980 skal jafnan miðað við áunninn rétt fyrir hvert einstakt réttindaár eða meðaltal þriggja bestu áranna ef um er að ræða tíma eftir að gjaldskyldu til sjóðsins lauk.
    Hafi bóndi stundað búskap þar til hann lést og verið yngri en 67 ára skal við ákvörðun hundraðshluta makalífeyris, auk réttindatíma skv. 3. mgr. 8. gr., taka tillit til þess tíma sem eftir var til 67 ára aldurs bóndans.
    Lífeyrir samkvæmt samþykktum fyrir Lífeyrissjóð bænda kemur til frádráttar lífeyrisgreiðslum samkvæmt þessari grein. Verði lífeyrir hærri samkvæmt samþykktum en elli- og makalífeyrir samkvæmt þessari grein verður ekki um lífeyrisgreiðslur að ræða samkvæmt þessari grein.
    Greiðslur úr öðrum lífeyrissjóðum og hliðstæðar greiðslur úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum koma til frádráttar greiðslum samkvæmt þessari grein. Hafi hlutaðeigandi gengið úr lífeyrissjóði eftir árslok 1969 og afsalað sér réttindum sínum þar skal sá lífeyrir sem hann ella hefði átt rétt á dragast frá á sama hátt. Stjórn Lífeyrissjóðs bænda úrskurðar hvernig innstæða í lífeyrissjóði með séreignarskipulagi skuli metin til frádráttar.
    Eigi maður, auk réttindatíma sem bóndi, jafnframt að baki réttindatíma samkvæmt lögum um eftirlaun til aldraðra skal taka tillit til samanlagðs réttindatíma og ákveða lífeyrisgreiðslur í hlutfalli við réttindatíma og fjárhæð sem hvor aðili hefði greitt ef réttindatími hefði verið óskiptur. Aldrei skal reikna sama tímabil sem réttindatíma hjá báðum aðilum. Stjórn sjóðsins skal hafa samráð við umsjónarnefnd eftirlauna um nánari tilhögun við úrskurð og greiðslu lífeyris samkvæmt þessari málsgrein.
    Makalífeyrir samkvæmt þessari grein til þeirra sem ekki hafa náð 75 ára aldri skerðist ef hlutaðeigandi hefur tekjur af vinnu sem nemur ¼ af grundvallarlaunum eða meira á almanaksári, og skal þá skerða lífeyrinn um 1/ 12 fyrir hvern 1/ 12 hluta viðmiðunarlauna. Skerðist lífeyrir með þessu móti um meira en ¾ skal hann felldur niður með öllu.

    c. (10. gr.)

Grundvallarlaun og greiðslutilhögun.

    Grundvallarlaun lífeyris skv. 9. gr. eru 51.113 kr. í janúar 1998. Fjárhæðin breytist mánaðarlega eða að lágmarki 1. janúar og 1. júlí ár hvert í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 181,4 stig.
    Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð er lífeyrisréttur myndaðist og í síðasta sinn fyrir þann mánuð er réttur til lífeyris fellur úr gildi. Aldrei skal þó sjóðstjórn skylt að úrskurða lífeyri lengra aftur í tímann en tvö ár, reiknað frá byrjun þess mánaðar er umsókn berst sjóðnum.
    Útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna skv. 8. og 9. gr. skulu borin af ríkissjóði.

    d. (11. gr.)

Umsókn og tilkynningarskylda.

    Þeir bændur, eða eftirlifandi makar, sem telja sig eiga rétt til lífeyris skv. 9. gr. skulu senda stjórn sjóðsins umsókn um hann og láta í té allar upplýsingar sem sjóðstjórnin telur sig þurfa að fá. Stjórn lífeyrissjóðsins úrskurðar um lífeyri skv. 9. gr.
    Þeim er nýtur lífeyris skv. 9. gr. og uppfyllir skilyrði 2. mgr. 8. gr. um hjúskap, óvígða sambúð eða staðfesta samvist er skylt að tilkynna stjórn sjóðsins skriflega og án tafar ef maki eða sambúðaraðili fellur frá ellegar hjúskap, óvígðri sambúð eða staðfestri samvist er slitið. Í síðarnefnda tilvikinu skal ellilífeyri skipt að jöfnu.

3. gr.

    III. kafli laganna, Eftirlaun til aldraðra í Lífeyrissjóði bænda, 15.–18. gr., fellur brott.

4. gr.

    19.–22. gr. laganna falla brott og 23. gr. laganna verður 12. gr.

5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða við lögin fellur brott.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.