Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1395  —  447. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum.

Frá minni hluta menntamálanefndar.    Með frumvarpinu eru gerðar nokkrar breytingar á grunnskólalögum, nr. 66/1995, m.a. varðandi grunnskóla sem ekki eru reknir af sveitarfélögum. Umsagnir bárust frá ýmsum aðilum, m.a. Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem gerir mjög alvarlegar athugasemdir við 23. gr. frumvarpsins en þar er m.a. lagt til að lögfest verði lágmarksframlag sveitarfélaga til einkarekinna grunnskóla. Með framangreindri grein er gerð breyting á 56. gr. grunnskólalaganna en í henni kemur m.a. fram að einkaskólar eigi ekki rétt til styrks af almannafé. Verði frumvarpið að lögum skal framangreint lágmarksframlag vera 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda. Minni hlutinn telur að framangreind breyting geti haft í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin.
    Minni hlutinn telur að lögbinding á lágmarksframlagi til einkaskóla gangi gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og brjóti í bága við markmið sveitarstjórnarlaga. Þá er þessi lagasetning í hrópandi andstöðu við þróun undanfarinna ára varðandi löggjöf um verkefni sveitarfélaga, því slíkar íhlutanir í starfsemi og rekstur sveitarfélaga mátti áður finna en hafa nú nánast allar verið aflagðar.
    Minni hlutinn telur einnig að frumvarpið feli í sér breytingar sem leiða til aukinnar miðstýringar á skólastarfi. Þess í stað væri æskilegra að lög um grunnskóla væru rammalöggjöf líkt og á við um framhaldsskóla.
    Skipuð hefur verið nefnd til að gera tillögu að heildarendurskoðun á grunnskólalögunum. Nefndinni er ætlað að skila menntamálaráðherra stuttri áfangaskýrslu í september 2006 og fullunnu frumvarpi eigi síðar en í lok desember 2006. Minni hlutinn telur löngu tímabært að sú endurskoðun eigi sér stað og eðlilegt að þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu verði hluti af þeirri heildarendurskoðun. Með slíkum vinnubrögðum er mun líklegra að náist víðtæk sátt um breytingar á jafnmikilvægri löggjöf. Það vekur ugg að þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir skuli fram lagðar gegn vilja Sambands íslenskra sveitarfélaga í ljósi þess að sveitarfélögunum hefur verið falin ábyrgð á rekstri grunnskólans.
         Af framansögðu leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:


    Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

    Magnús Þór Hafsteinsson var áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 2. júní 2006.Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Mörður Árnason.Kolbrún Halldórsdóttir.