Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 807. máls.

Þskj. 1397  —  807. mál.Skýrsla

samgönguráðherra um framkvæmd samgönguáætlunar 2005
(siglingamálaáætlun).

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
    Með lögum nr. 71 8. maí 2002 er mælt fyrir um samræmda áætlanagerð við framkvæmd og rekstur í samgöngumálum.
    Annars vegar er gert ráð fyrir áætlun til 12 ára sem tekur til fjáröflunar og útgjalda til flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. hafnamála og sjóvarna, og rekstrar stofnana, ásamt með því að skilgreina grunnkerfið og marka stefnu fyrir allar greinar samgangna. Áætlunina skal endurskoða á fjögurra ára fresti. Árið 2005 var í gildi slík áætlun fyrir árin 2003–2014.
    Hins vegar kveða lögin á um að 12 ára áætlunin sé nánar sundurliðuð í fjögurra ára tímabil með áætlun fyrir hvert ár þar sem fram komi ábyrgð og fjárheimildir stofnana samgöngumála sundurliðað eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi, eftir því sem við á, með sama hætti og fjárlögin. Þessa áætlun skal endurskoða á tveggja ára fresti. Árið 2005 var í gildi fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008. Í lögunum er gert ráð fyrir að árlega sé lögð fram á Alþingi skýrsla um framkvæmd þessarar áætlunar næstliðið ár. Því er greinargerð þessi tekin saman.

Stefnumörkun stjórnvalda.
    Í samgönguáætlun áranna 2003–2014 eru auk framkvæmdaáætlunar sett fram og sérstaklega sundurliðuð eftirfarandi meginmarkmið:
          Um greiðari samgöngur (flytjanleika samgöngukerfisins).
          Um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna.
          Um umhverfislega sjálfbærar samgöngur.
          Um öryggi í samgöngum.
    Í gildandi fjögurra ára áætlun sem nær til áranna 2005–2008 er mælt fyrir um að unnið skuli að tilteknum rannsóknar-, úttektar- og stefnumótunarverkefnum er falla undir framangreind meginmarkmið, ásamt með því sem gerð er grein fyrir framkvæmdum þessara ára.

Markmið og framtíðarsýn Siglingastofnunar.
    Á árinu 2005 var lokið við mótun framtíðarsýnar til næstu 5 ára og var hún og stuðningsskjöl hennar, að lokinni kynningu í samgönguráðuneyti, staðfest af yfirstjórn 18. apríl sem hornsteinar starfseminnar á komandi árum.
    Stefnan er þessi:
    
Leiðarljós.
    Í örugga höfn.
    
Hlutverk.

    Siglingstofnun Íslands er framsækin þjónustustofnun sem skapar hagkvæmar aðstæður til siglinga og fiskveiða og vinnur að öryggi á sjó og strandsvæðum.

Gildi.
    Samvinna, þjónusta, frumkvæði og heilindi.

Framtíðarsýn.
    Siglingastofnun Íslands mun:
     *      Vinna að öryggi og aukinni velferð sjófarenda.
     *      Vinna að hagkvæmni í siglingum, sjávarútvegi og samgöngum.
     *      Reka öflugustu upplýsinga- og leiðsöguþjónustu í N-Atlantshafi.
     *      Starfa sem viðurkennd þekkingar- og rannsóknarmiðstöð á sviði siglinga- og hafnamála.
     *      Veita framúrskarandi þjónustu og ráðgjöf á sérsviðum stofnunarinnar.
     *      Vera virkur þátttakandi í mótun heildarstefnu stjórnvalda um samgöngur, skip, hafnir, strandlengju og umhverfismál sjávar.
     *      Vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi.

Meginmarkmið.
     *      Að veita viðskiptavinum fyrsta flokks þjónustu.
     *      Hafa á að skipa ánægðu og vel menntuðu starfsliði.
     *      Að byggja reksturinn á góðri nýtingu fjárheimilda, öflugri áætlanagerð og eftirfylgni.
     *      Að innra starf stofnunarinnar sé skilvirkt.
     *      Stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri hafna, leiðsögukerfa og annarrar öryggisþjónustu fyrir skip.
     *      Stuðla að því að lög og reglur um siglingamál tryggi sem best öryggi sjófarenda og séu jafnan í samræmi við samfélagsþarfir.
     *      Að sinna eftirlitshlutverki sínu með prýði.
     *      Að vinna að rannsóknum og gagnaöflun á sérsviðum stofnunarinnar.
     *      Tryggja að alþjóðlegar reglur taki mið af íslenskum hagsmunum.

    Til stuðnings framtíðarsýninni og til nánari leiðbeiningar í dagsins önn voru auk þess samþykkt eftirgreind stefnuskjöl:
     *      Starfsmannastefna.
     *      Jafnréttisáætlun.
     *      Siðareglur.
     *      Reksturs- og fjármálastefna.
     *      Innkaupastefna.
     *      Upplýsingastefna.
     *      Gæðastefna.
     *      Öryggisstefna.


Fjármál.
    Í eftirfarandi töflu er að finna samanburð á tölum úr samgönguáætlun 2005–2008, tölum úr fjárlögum og fjáraukalögum fyrir árið 2005 og tölum úr reikningum Siglingastofnunar Íslands fyrir árið 2005. Fjárhæðir eru í millj. kr.

Samgönguáætlun 2005 Rauntölur 2005
Tekjur og framlög
Markaðar tekjur
Vitagjald 103,5 135,2
Markaðar tekjur alls 103,5 135,2
Framlag úr ríkissjóði 1.628,0 1.443,8
Aðrar ríkistekjur:
Vottorð 1,3 0,9
Skoðunargjöld skipa 1,3 1,9
Aðrar ríkistekjur alls: 2,6 2,8
Sértekjur 132,1 204,3
Til ráðstöfunar alls 1.866,2 1.786,1
Rekstrargjöld:
Yfirstjórn 80,9 68,4
Vitar og leiðsögukerfi 103,5 108,6
Skipaskoðun 74,0 76,5
Hafnarríkiseftirlit 18,0 21,0
Áætlun um öryggi sjófarenda 16,0 11,1
Hafnir, líkantilraunir, grunnkort 20,0 14,1
Rannsóknir og þróun 46,0 41,5
Minjavernd og saga 5,0 3,5
Siglingavernd 8,0 14,5
Þjónustuverkefni 132,1 204,3
Vaktstöð siglinga 185,8 184,0
Rekstrargjöld alls: 689,3 747,5
Stofnkostnaður:
Tæki og búnaður 10,5 22,8
Vitar og leiðsögukerfi 20,4 0,6
Hafnir í grunnneti, ríkisstyrktar 957,5 860,2
Hafnir utan grunnnets, ríkisstyrktar 67,1 49,7
Lendingarbætur 6,3 5,3
Ferjubryggjur 8,5 6,7
Sjóvarnargarðar 106,6 61,6
Stofnkostnaður alls: 1.176,9 1.006,9
Gjöld alls 1.866,2 1.754,4

Rekstur og þjónusta.
Inngangur.
    Siglingamálahluti samgönguáætlunar nær til allra verkefna er löggjafinn og samgönguráðuneytið hafa falið Siglingastofnun að annast og kemur í stað þriggja þingsályktana. Hér er átt við ályktanir um framkvæmdir í höfnum, sjóvarnir og öryggi sjófarenda sem stofnuninni var falin framkvæmd á. Þá er þar fjallað sérgreint um aðra starfsemi og rekstrarþætti sem áður komu lítt útskýrðir fram í almennum ákvæðum fjárlaga. Gildandi samgönguáætlun nær til áranna 2005–2008, sjá nr. 91/2005 í A-deild Stjórnartíðinda.

Yfirstjórn.
Skipulag.
    Um stjórn, starfshætti og hlutverk Siglingastofnunar Íslands er fjallað í lögum nr. 6/1996. Hlutverk stofnunarinnar er fyrst og fremst að vinna að hagsbótum sjófarenda og að skapa hagkvæmar og öruggar aðstæður til siglinga og fiskveiða við landið. Um skipan og verkefni hafna- og siglingaráðs er fjallað í 4. og 5. gr. laganna annars vegar og 6. og 7. gr. hins vegar.

Hafnaráð.
    Hafnaráð er ráðgefandi aðili fyrir samgönguráðherra og siglingamálastjóra í hafna- og sjóvarnamálum.
    Hafnaráð fjallar um breytingar á lögum og reglum sem varða hafnamál, framkvæmdaáætlanir fyrir einstök ár og til lengri tíma, svo og fjármál hafna, þar á meðal gjaldskrárbreytingar.
    Í hafnaráði sitja:

Nafn      Tilnefning
Sigríður Finsen, formaður     samgönguráðherra
Brynjar Pálsson     samgönguráðherra
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir     samgönguráðherra
Már Sveinbjörnsson     Hafnasamband sveitarfélaga
Ólafur M. Kristinsson     Hafnasamband sveitarfélaga
Friðrik J. Arngrímsson     Samtök atvinnulífsins

Siglingaráð.
    Siglingaráð er ráðgefandi aðili fyrir samgönguráðherra og siglingamálastjóra í siglinga- og vitamálum. Siglingaráð fjallar um breytingar á lögum og reglugerðum sem varða siglinga- og vitamál. Árið 2005 sátu eftirtaldir fulltrúar í siglingaráði:

Nafn      Tilnefning
Daði Jóhannesson, formaður     samgönguráðherra
Guðmundur Hallvarðsson     samgönguráðherra
Ásbjörn Óttarsson     samgönguráðherra
Guðjón Ármann Einarsson     Farmanna- og fiskimannasamband Íslands
Ingólfur Sverrisson     Málmur, samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði
Guðfinnur G. Johnsen     Landssamband íslenskra útvegsmanna
Örn Pálsson     Landssamband smábátaeigenda
Ólafur J. Briem     Samband íslenskra kaupskipaútgerða
Sævar Gunnarsson     Sjómannasamband Íslands
Hilmar Snorrason     Slysavarnafélagið Landsbjörg
Helgi Laxdal Magnússon     Vélstjórafélag Íslands

Innra skipulag og starfshættir.
    Í greinargerð um framkvæmd siglingamálahluta samgönguáætlunar fyrir árið 2004 var í allnokkru máli gerð grein fyrir umfangsmikilli stefnumótunarvinnu sem hófst árið 2003. Stefnan var síðan staðfest á fundi yfirstjórnar 18. apríl 2005 að lokinni ítarlegri kynningu í samgönguráðuneyti og á starfsmannafundum. Þar eru staðfest þau gildi sem stofnunin og starfsmenn vilja standa fyrir og jafnframt mótuð framtíðarsýn og meginmarkmið. Jafnframt hafa stofnuninni og einstökum sviðum hennar verið sett skýr deilimarkmið.
    Hin almennu deilimarkmið eru:
     *      Að þekking, fagmennska og þjónustulund sé höfð að leiðarljósi við úrlausn verkefna.
     *      Að 75% viðskiptavina séu ánægð með þjónustu Siglingastofnunar.
     *      Að 80% viðskiptavina telji þjónustu Siglingastofnunar áreiðanlega.
     *      Að uppitími tölvukerfa sé 99,7% á ársgrundvelli.
     *      Að 90% erinda almenns eðlis sem berast stofnuninni sé svarað innan 14 daga.
     *      Að einkunnin starfsandi verði 4,0 af 5,0.
     *      Að einkunnin trúverðugleiki stjórnenda verði 3,6 af 5,0.
     *      Að markvisst sé unnið að skráningu og meðferð kvartana sem stofnuninni berast og að 65% viðskiptavina verði ánægð með úrlausn þeirra.
     *      Að í daglegum störfum noti starfsmenn að jafnaði skjalavistunarhugbúnað stofnunarinnar.
     *      Að ferðareikningum sé skilað samþykktum til bókhaldsins innan 7 daga frá ferðalokum.
     *      Að greinargerðum vegna funda erlendis sé skilað innan 14 daga frá ferðalokum.
    Deilimarkmið einstakra sviða verða hér ekki rakin, en þar er starfsemi hvers um sig fundin markmiðssetning við hæfi.
    Stefnumörkunin var unnin á fundum yfirstjórnar, í vinnuhópum, sameiginlegum starfsmannafundum og í margvíslegu samráði við sérfræðinga og kunnáttumenn, en af öllum þeim gögnum sem að verkinu drógust þykir ástæða til að nefna sérstaklega eftirfarandi kannanir:
     *      Viðhorfskönnun meðal almennings, unnin af IBM.
     *      Spurningavagn Gallup.
    Helstu niðurstöður:
               80,3% höfðu heyrt um stofnunina,
               35% voru jákvæðir í garð hennar, 35% hlutlausir, 25% höfðu enga skoðun, en 3% voru neikvæðir.
     *      Mat starfsmanna á starfsumhverfi sínu, unnið af Félagsvísindastofnun. Póstkönnun. Sams konar og VR-könnunin. Skali 1–5.
    Helstu niðurstöður:
               Vinnuskilyrði 4,38.
               Sjálfstæði í starfi 4,06.
               Sveigjanleiki í vinnu 3,93.
               Starfsandi 3,86.
               Launakjör 2,79.
               Trúverðugleiki stjórnenda 3,10.
     *      Þjónustukönnun sem náði til viðskiptavina, unnin af IBM. Hringt í úrtak úr viðskiptamannaskrá alls staðar af á landinu.
    Helstu niðurstöður:
               68% ánægðir með þjónustuna.
               63% telja ímynd stofnunarinnar jákvæða.
               76% telja þjónustuna áreiðanlega.
               77% segja tímasetningar standast vel.
               74% segja þjónustuþekkingu mjög eða frekar mikla.
               85% treysta starfsfólki.
    Með framangreindum hætti var lagður vandaður grunnur að endurbótum á innra skipulagi og starfsháttum stofnunarinnar á næstu árum.
    Árangursstjórnunarsamningur Siglingastofnunar Íslands og samgönguráðuneytisins frá árinu 2000 var endurskoðaður í ljósi hinnar ítarlegu stefnumótunarvinnu og undirrituðu siglingamálastjóri og samgönguráðherra nýjan samning þann 9. desember 2005 og er honum ætlað að gilda til ársloka 2009.
    Starfsmannafjöldi stofnunarinnar í árslok 2005 er 67 auk þess sem allnokkur fjöldi lítur til með vitum í hlutastarfi og eru störfin alls 75 í ársverkum talið.

Undirbúningur laga og reglugerða á sviði siglingamála.
    Innan Siglingastofnunar var á árinu 2005 unnið að gerð og breytingum ýmissa reglugerða á sviði siglingamála, t.d breytingu á reglugerð um starfshætti faggiltra skoðunarstofa skipa og búnaðar og breytingu á reglugerð um eftirlit og skráningu á afli aðalvéla íslenskra skipa. Hér á eftir er listi yfir reglugerðir og gjaldskrár sem settar voru um siglingamál á árinu 2005.
Reglugerðir:
Hafnarreglugerð yfir Þórshafnarhöfn, nr. 1191/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Ísafjarðarhöfn, nr. 1190/2005.
Reglugerð um tryggingar skipa og starfsemi á landi vegna bráðamengunar, nr. 1078/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Húsavíkurhöfn, nr. 1073/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 94/2004, um starfshætti faggiltra skoðunarstofa skipa og búnaðar, nr. 1060/2005.
Reglugerð um breytingu á reglugerð um skemmtibáta nr. 168/1997, nr. 1045/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Kópaskershöfn, nr. 992/2005.
Hafnarreglugerð fyrir hafnir Vesturbyggð, nr. 989/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Kópavogshöfn, nr. 983/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Reykjaneshöfn, nr. 982/2005.
Hafnareglugerð fyrir Vopnafjarðarhöfn, nr. 981/2005.
         Reglugerð um takmörkun á notkun skaðlegra gróðurhindrandi efna og/eða búnaðar í skip, nr. 824/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Sandgerðishöfn, nr. 798/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð um eftirlit og skráningu á afli aðalvéla íslenskra skipa, nr. 610/2003, nr. 784/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Súðavík, nr. 788/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Bakkafjarðarhöfn, nr. 713/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Vestmannaeyjahöfn, nr. 671/2005.
Hafnarreglugerð fyrir hafnir Austurbyggðar, nr. 634/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Stykkishólmshöfn, nr. 633/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Hornafjarðarhöfn, nr. 584/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Breiðdalsvíkurhöfn, nr. 583/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Siglufjarðarhöfn, nr. 582/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um stofnun Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, nr. 739/2004, nr. 581/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um að koma á fót nefnd um öryggi á höfunum og varnir gegn mengun frá skipum (COSS) og um breytingu á reglugerðum um siglingaöryggi og varnir gegn mengun frá skipum, nr. 594/ 2004, nr. 577/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 586/2002 um efni sem eyða ósonlaginu, nr. 564/ 2005.
Reglugerð um sérkröfur um stöðugleika ekjufarþegaskipa, nr. 551/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um hönnun olíuflutningaskipa nr. 310/2003, nr. 507/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Hafnarfjarðarhöfn, nr. 442/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 416/2003, nr. 430/2005.
Hafnarreglugerð fyrir hafnir Hafnarsjóðs Skagafjarðar, nr. 425/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, nr. 666/2001, nr. 423/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Borgarfjarðarhöfn, nr. 295/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Grindavíkurhöfn, nr. 294/2005.
Hafnarreglugerð fyrir hafnir Fjarðabyggðar, nr. 293/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Djúpavogshöfn, nr. 292/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Þorlákshöfn, nr. 290/2005.
Hafnarreglugerð fyrir Hafnasamlag Norðurlands bs., nr. 287/2005.
Reglur um Lánasjóð nemenda í skipstjórn og vélstjórn, nr. 141/2005.
         Reglugerð um breytingu á reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001, nr. 17/2005.
Gjaldskrár:
Gjaldskrá fyrir Borgarfjarðarhöfn, nr. 786/2005.
Gjaldskrá fyrir Hafnarsjóð Vesturbyggðar, nr. 732/2005.
Gjaldskrá fyrir Stykkishólmshöfn, nr. 575/2005.
Gjaldskrá fyrir Vopnafjarðarhöfn, nr. 250/2005.
Gjaldskrá fyrir hafnir Ísafjarðar, nr. 205/2005.
Gjaldskrá fyrir Sauðárkrókshöfn, Hofsóshöfn og Haganesvíkurhöfn, nr. 203/2005.
Gjaldskrá Hafnasamlags Norðurlands (HN), nr. 158/2005.
Auglýsing um hækkun gjaldskrár Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar, nr. 159/2005.
Gjaldskrá hafna í Austurbyggð; Fáskrúðsfjarðarhöfn og Stöðvarfjarðarhöfn, nr. 109/2005.

Alþjóðasamstarf.
Siglingastofnun tekur þátt í víðtæku alþjóðasamstarfi, m.a. á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit (Paris MOU), Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA), Evrópska efnahagssvæðisins (EES), Evrópusambandsins (ESB), Norðurlandasamstarfs, alþjóðasamtaka í hafnamálum (PIANC), alþjóðasamtaka vitastofnana (IALA) og víðar.
    Á vegum SLF-undirnefndar IMO, sem fjallar um málefni er varða stöðugleika og hleðslu skipa og öryggi fiskiskipa, er nú unnið að gerð viðmiðunarreglna um öryggi lítilla fiskiskipa 12 m og styttri. Ísland tók að sér að semja kaflann um siglingatæki fyrir væntanlegt rit og sér auk þess um upplýsingavef um öryggi lítilla fiskiskipa.
    Um annað alþjóðasamstarf vísast til kaflanna um hafnarríkiseftirlit og siglingavernd.

Upplýsingamiðlun.
    Siglingastofnun Íslands leggur áherslu á markvissa miðlun upplýsinga og greiðan aðgang að gagnasöfnum stofnunarinnar. Því hefur stofnunin sett sér upplýsingastefnu ásamt með verklagsreglum þar sem lagðar eru meginlínur um söfnun og miðlun hvers kyns efnis er varðar rekstur hennar.
    Vefur stofnunarinnar, www.sigling.is, og fréttabréf hennar, Til sjávar, mynda kjarnann í upplýsingastarfseminni. Fréttabréfið kom út fjórum sinnum árið 2005. Því er dreift án endurgjalds til allra skráðra skipa og báta, útgerða, hafna, sveitarfélaga, alþingismanna, fyrirtækja, stofnana og einstaklinga. Í blaðinu eru greinar og fréttir um það helsta sem gerist á vettvangi stofnunarinnar.
    Haldið er úti öflugri vefsíðu þar sem birtast fréttir og ítarlegar upplýsingar. Þar má nefna laga- og reglugerðaskrá, útgáfuskrár, gjaldskrár, rafræn eyðublöð, upplýsingar um veður og sjólag og flest það annað sem auðvelda má almenningi og viðskiptavinum samband við stofnunina.
    Hér að framan var minnst á upplýsingar um veður og sjólag, sem byggjast á afar víðfeðmu og merkilegu gagnasafni sem þróast hefur og eflst undanfarin ár. Sértæk söfnun upplýsinga með ölduduflum og tenging þeirra við veðurfræðileg gögn frá Veðurstofu Íslands, sem og áralöng athugun á sambandi vinda og sjávarfalla, hafa gert stofnuninni kleift að byggja upp þetta safn sem síðan nýtist til rauntímafræðslu um veður til fiskimanna og annarra sæfarenda við strendur landsins. Nytsemi upplýsinganna birtist ekki síður í nýtingu þeirra við hönnun hafnarmannvirkja, ákvörðun siglingaleiða og skyldra atriða.
    Þá heldur stofnunin rafræna skrá yfir sérhvert fljótandi far sem er yfir 6 metrar á lengd eða stærra mælt stafna á milli. Hún hefur að geyma margvíslegar upplýsingar um flota landsmanna og nýtist í margs konar tilgangi, vegna eftirlits með öryggi skipa, sem eigendaskrá, við úthlutun fiskveiðiheimilda o.fl. Skrána er að finna á vefsíðu stofnunarinnar.
    Af öðrum gagnasöfnum má nefna afar ítarlegt og margþætt safn teikninga og annarra grunngagna sem til hafa orðið vegna starfsemi stofnunarinnar við hönnun, ráðgjöf og eftirlit með hafnarmannvirkjum. Sama á við um skip og báta. Hér er um merkileg söfn að ræða, af fleiri en einni ástæðu, sem sótt er í af hafnarstjórnum, skipseigendum, sagnfræðingum o.fl.
    Loks skal getið bókasafns stofnunarinnar, en þar er skipulega safnað saman ritum sem gagnast stofnuninni. Safnið er skráð og tengt Landskerfi bókasafna og er þannig aðgengilegt öllum þeim er leita vilja tiltekinna fræðirita, auk þess sem starfsmenn geta með nútímalegum hætti kannað hvað er að finna í öðrum sérsöfnum og fengið þaðan lánaðar bækur.

Vitar og leiðsögukerfi.
    Siglingastofnun annast rekstur landsvitakerfisins og hefur umsjón og eftirlit með uppbyggingu hafnarvita og innsiglingarmerkja. Einnig rekur stofnunin leiðsögu- og eftirlitskerfi fyrir siglingar sem eru DGPS-kerfið og sjálfvirkt auðkennikerfi skipa, AIS.
    Sjálfvirku auðkennikerfi skipa er komið á samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/59 sem lögin um vaktstöð siglinga byggjast á. AIS-kerfið er hluti af rafrænu tilkynningakerfi um siglingar skipa sem aðildarríki Efnahagsbandalagsins auk Noregs og Íslands eru aðilar að. Kerfi þetta nefnist Safe Sea Net. Samkvæmt sömu tilskipun skal velja eða útnefna ákveðnar hafnir hér á landi sem neyðarhafnir. Neyðarhafnir eru skilgreindar sem hafnir eða skjól þangað sem hægt er að vísa skipum sem eiga í erfiðleikum eða eru í hættu af ýmsum orsökum. Vinna við neyðarhafnir er í gangi hjá Siglingastofnun í samvinnu við Landhelgisgæslu og fleiri aðila.
    Á árinu voru settar upp sex AIS-stöðvar til viðbótar því sem komið var. Segja má að um 80% af siglingaleiðum umhverfis landið séu innan sviðs AIS-kerfisins en eftir er að loka hringnum á Mið-Norðurlandi. Langdrægi stöðvanna er allt að 70 sjómílum (130 km). Gert er ráð fyrir að ljúka uppsetningu kerfisins á árinu 2006.
    Til að reka vita og leiðsögukerfi, þ.m.t. rekstur AIS-kerfisins, fær Siglingastofnun til ráðstöfunar vitagjald sem er sérstakur skattur sem samkvæmt íslenskum vitalögum er lagður á íslensk skip og erlend skip sem taka íslenska höfn. Upphæð gjaldsins tekur mið af brúttótonnatölu skipsins. Af þessu fé er einnig kostaður rekstur upplýsingakerfisins um veður og sjólag.
    Viðhald og eftirlit Siglingastofnunar með vitum landsins skiptist í stórum dráttum í eftirlit með búnaði og viðhald á vitabyggingum.
    Á árinu 2005 var viðhald og eftirlit með vitum og leiðsögubúnaði með hefðbundnum hætti. Starfsmenn Siglingastofnunar sinntu almennu viðhaldi á 19 vitabyggingum og fóru í um 60 vita til eftirlits og endurnýjunar ljós- og rafbúnaðar.
    Rekstur upplýsingakerfis Siglingastofnunar um veður og sjólag gekk vel á árinu. Kerfið gefur sjófarendum kost á upplýsingum um veður og sjólag umhverfis landið á klukkustundarfresti. Upplýsingarnar er hægt að nálgast á vef stofnunarinnar og í símsvara og á árinu hófst birting ölduhæðarmælinga í textavarpi ríkissjónvarpsins.

Skipaeftirlit.
    Siglingastofnun ber stjórnvaldslega ábyrgð á framkvæmd skipaeftirlits en tæknilegt eftirlit er í höndum faggiltra skoðunarstofa skipa. Í árslok 2005 voru þrjár skoðunarstofur skipa starfandi.
    Siglingastofnun sinnir eftirliti með óflokkuðum skipum sem skoðunarstofum er óheimilt að skoða, framkvæmir upphafsskoðun á nýsmíði, breytingum og innflutningi á skipum, sinnir markaðseftirliti með skemmtibátum og skipsbúnaði, sér um útgáfu skipsskírteina og útgáfu og uppfærslu á skoðunarhandbókum sem skoðunarstofur nota við vinnu sína. Jafnframt sér Siglingastofnun um yfirferð og samþykkt á teikningum og öðrum gögnum vegna nýsmíði og breytinga skipa, þ.m.t. yfirferð stöðugleikagagna og skipamælinga.
    Áfram var unnið að undirbúningi B-faggildingar fyrir skoðunarstofur einstakra hluta búnaðar skipa en Siglingastofnun mun sjá um útgáfu starfsleyfa til þeirra.
    Siglingastofnun hefur eftirlit með starfsemi A- og B-faggiltra skoðunarstofa, viðurkenndra flokkunarfélaga og annarra starfsleyfishafa, framkvæmir skyndiskoðanir í skipum sem skoðunarstofur og flokkunarfélög hafa skoðað og útbýr og viðheldur nauðsynlegum skoðunarhandbókum vegna þess.

Skoðunaraðilar.

Skoðunaraðili 2004 2005 2006
Skoðunarstofur 2.165 2.160
Siglingastofnun Íslands 2.211 31 32
Bureau Veritas (BV) 9 8 8
Germanischer Loyd (GL) 7 6 6
Loyd's Register of Shipping (LR) 56 53 49
Det Norske Veritas (NV) 82 81 76
Samtals 2.365 2.344 2.311

Fjöldi skipa og báta.
    Siglingastofnun Íslands heldur skrá yfir skip og báta samkvæmt lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985. Árlega gefur stofnunin út rafræna skrá yfir þilfarsskip og opna báta miðað við 1. janúar. Samtals 2.311 skip voru á skipaskrá 1. janúar og brúttótonnatala þeirra var 226.954 brúttótonn. Skipum á íslenskri skipaskrá fækkaði fjórða árið í röð og að þessu sinni um samtals 33 skip. Heildarbrúttótonnatala skipastólsins lækkaði um rúm 11.000 brúttótonn frá árinu áður.
    Á aðalskipaskrá 1. janúar 2006 voru 1.128 þilfarsskip og brúttótonnatala þeirra var 219.234. Opnir bátar voru samtals 1.183 og brúttótonnatala þeirra var 7.020.
    Á þurrleiguskrá er eitt skip, Keilir, samtals 4.342 brúttótonn.
    Tölurnar í töflunni hér á eftir eru miðaðar við 1. janúar ár hvert.

Fjöldi og stærð í brúttótonnum.

Fjöldi og stærð 2004 2005 2006
Þilfarsskip 1.128 1.135 1.128
Brúttótonn 226.081 230.881 219.234
Opnir bátar 1.237 1.209 1.183
Brúttótonn 7.322 7.199 7.020
Heildarfjöldi 2.365 2.344 2.311
Heildarbrúttótonnatala 233.403 238.081 226.954

Áhafnamál og skírteini.
    Af öðrum verkefnum á sviði skipamála má nefna útgáfu alþjóðlegra atvinnuskírteina (STCW), þjónustu við mönnunarnefnd fiskiskipa og undanþágunefnd sjómanna og undirbúning og kynningu á laga- og reglugerðasetningu. Um alþjóðasamstarf á sviði siglingamála vísast í kaflann um alþjóðasamstarf.
    Á árinu 2005 voru gefin út 51 alþjóðleg atvinnuskírteini (STCW), 13 skírteini fyrir atvinnukafara, 4 hafnsögumannsskírteini og 3 skírteini fyrir leiðsögumenn. Siglingastofnun gaf einnig út 40 starfsleyfi til farþegaflutninga, 5 starfsleyfi fyrir bátaleigur og 4 leyfi til að stunda flúðasiglingar.

Hafnarríkiseftirlit.
    Í samræmi við ákvæði Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit og ákvæði í ýmsum öðrum alþjóðasamþykktum, sem Ísland á aðild að, var að venju haft eftirlit með erlendum flutninga- og farþegaskipum sem hingað komu.
    Markmiðið með eftirlitinu er að draga úr siglingum svokallaðra undirmálsskipa og hefur þeim fækkað til muna eftir að var farið að banna skipum að koma til hafnar aðildarríkja Parísarsamkomulagsins hafi þau ítrekað verið stöðvuð við fyrri skoðanir.
    Farin var skoðunarherferð á vegum hafnarríkiseftirlitsins þar sem áhersla var lögð á að kanna GMDSS-fjarskiptakerfið. Hið svokallaða GMDSS (Global Maritime Distress and Safety System) fjarskiptakerfi fyrir skip hefur verið í gildi frá 1. janúar 1999. Kerfið er fyrst og fremst hugsað sem neyðarfjarskiptakerfi en nýtist einnig fyrir almenn fjarskipti.
    Tilkynnt var um komu 356 erlendra skipa til Íslands en mörg þeirra komu þó oftar en einu sinni. Af þeim voru 104 skoðuð eða um 29%. Skipin 104 sem voru skoðuð voru frá 25 fánaríkjum. Flest voru skipin frá Antígva eða 17 og næstflest frá Bahamaeyjum eða 11.
    Tvö skip voru sett í farbann, 93 athugasemdir voru gerðar og teknar út 250 athugasemdir sem gerðar voru af öðrum aðildarríkjum.
    Skoðuð voru 15 af þeim skemmtiferðaskipum sem komu til Reykjavíkur í sumar.

Áætlun um öryggi sjófarenda.
    Markmið áætlunar um öryggi sjófarenda er m.a. að treysta öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra sem og farþega á íslenskum skipum og skipum sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu, fækka slysum á sjó og draga úr tjóni vegna þeirra. Helstu verkefni áætlunar um öryggi sjófarenda eru menntun og þjálfun sjómanna, gerð fræðsluefnis og leiðbeininga, söfnun og miðlun upplýsinga og rannsóknir um öryggismál.
    Siglingastofnun annast framkvæmd áætlunarinnar í samstarfi við verkefnisstjórn en í henni eiga sæti fulltrúar stéttarfélaga sjómanna, samtaka útgerða, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Landhelgisgæslu og samgönguráðuneytis. Í júlí 2005 gaf verkefnisstjórn út mynddisk um öryggi farþega í skipum og var honum dreift um borð í öll skip á skrá. Innan ramma áætlunarinnar hófst einnig á árinu 2005 röð málfunda víða um land sem ætlað var að vekja athygli á einstökum þáttum í öryggismálum sjómanna.

Hafnir, líkantilraunir og grunnkort.
    Á vegum Siglingastofnunar var unnið að rannsóknum á sviði hafna, líkantilrauna og grunnkorta. Með rannsóknum er átt við gerð grunnkorta af höfnum, líkantilraunir og rannsóknir sem tengjast beint ákveðnum framkvæmdum í höfnum. Á árinu hófust líkantilraunir á ferjuhöfn við Bakkafjöru.

Rannsóknir og þróun.
    Heildarkostnaður rannsókna- og þróunarsviðs Siglingastofnunar Íslands var 45,6 millj. kr. árið 2005. Með rannsóknum er átt við öflun ýmissa grunnupplýsinga, mælingar og rannsóknir sem stuðla að öryggi sjófarenda og réttum ákvörðunum við val á lausnum við mannvirkjagerð.
    Heildarkostnaður hafna- og strandrannsókna árið 2005 var 23,2 millj. kr. Lögð var sérstök áhersla á verkefni sem tengjast suðurströnd Íslands þar sem framlög til þeirra rannsókna voru aukin um 10 millj. kr. Unnið var að öldufarsrannsóknum við suðurströndina, einkum tengslum við siglingaleiðina frá Vestmannaeyjum upp á Bakkafjöru. Í skýrslu starfshóps samgönguráðherra um samgöngur við Vestmannaeyjar sem lokið var við í mars 2003 voru unnar rannsóknir og tillögur um hugsanlegt ferjulægi á Bakkafjöru ásamt frumkostnaðarmati og tillögum að frekari rannsóknum. Unnið var að öldufarsreikningum vegna leiðastjórnunarverkefnis sem miðar að afmörkun á siglingaleiðum olíu- og flutningaskipa með kortlagningu á öldu á siglingaleiðum fyrir Suðvesturlandi. Einnig var hafinn undirbúningur að öldufarsreikningum fyrir Hornafjarðarós og Breiðamerkursand en síðara verkefnið er unnið í samvinnu við Vegagerðina.
    Heildarkostnaður umhverfisrannsókna árið 2005 var 7,1 millj. kr. Í tengslum við rannsóknir á öryggi skipa á siglingaleiðum var á árinu 2003 þróaður búnaður sem getur mælt krafta vegna hröðunar þriggja grunnhreyfinga skipa á rúmsjó. Þessar hreyfingar eru velta, dýfa og lyfting. Þessum búnaði var komið fyrir í tveimur skipum, gámaflutningaskipinu ms Arnarfelli, sem siglir reglulega fyrir Suðvesturland, og varðskipinu Ægi, sem sigldi um Reykjaneshrygg, til að hægt yrði að gera samanburð á kröftum á skipi og hreyfingum skipa eftir mismunandi siglingaleiðum fyrir Reykjanes. Haldið var áfram að fylgjast með og kanna botnbreytingar á Grynnslunum framan við Hornafjarðarós. Unnið var að stafrænum gagnagrunni með sjávardýpi í Breiðafirði. Haldið var áfram uppsetningu sjávarfallalíkans og þróað áfram reklíkan fyrir olíu og rek hluta. Jafnframt var unnið að tilraunum með hreyfistöðugleika skipa og framsetningu stöðugleikagagna og smíði og þróun andveltugeyma skipa.
     Heildarkostnaður skiparannsókna árið 2005 var 10,4 millj. kr. Áhersla var lögð á lögbundna afgreiðslu tillagna rannsóknarnefndar sjóslysa í öryggisátt þar sem Siglingastofnun vinnur úr þeim tillögum. Unnið var að rannsóknum á vatnsþéttleika skipa sem tekur mið af niðurhólfun þeirra og ástandsgreining nokkurra flokka valinna fiskiskipa. Einnig voru rannsóknir á hávaða í skipum, loftgæðum um borð í skipum, ofhleðslu smábáta og loftflæði til aðalvéla framhaldið á árinu 2005.
     Alþjóðleg ráðstefna á Höfn í Hornafirði. Lokaundirbúningur alþjóðlegu ráðstefnunnar á Höfn í Hornafirði um rannsóknir á náttúrufari hafs og strandar, öryggi sjófarenda og mannvirki á ströndinni fór fram fyrri hluta árs. Að ráðstefnunni, sem var haldin 6.–8. júní, stóðu Hornafjarðarbær, Siglingastofnun Íslands, Háskóli Íslands og samgönguráðuneytið, en fagleg umsjón var í höndum Siglingastofnunar Íslands. Þátttakendur voru 123 frá 18 þjóðum, og voru meðal þeirra tveir ritstjórar þekktra erlendra fagtímarita á sviði strandrannsókna, þeir Charles W. Finkl við bandaríska tímaritið Journal of Coastal Research og H.F. Burcharth við hollenska tímaritið Journal of Coastal Engineering. Á ráðstefnunni var megináhersla lögð á hönnun og viðhald innsiglinga, efnisflutninga við strendur, brimvarnargarða og sjóvarnir, öldufar og öryggismál sjófarenda. Meðal þess efnis sem íslenskir fræðimenn fjölluðu um var hönnun og bygging bermugarða, rof við Jökulsá á Breiðamerkursandi og varnir við því, ásamt öryggismálum sjófarenda. Alls voru fluttir um 85 fyrirlestrar á ráðstefnunni og áttu sérfræðingar á rannsókna- og þróunarsviði og hafnarsviði Siglingastofnunar þátt í sjö greinum og fyrirlestrum. Útdráttur úr öllum faggreinum var gefinn út í bók og allar greinar einnig látnar fylgja ráðstefnugögnum á diski.
     Háskóli Íslands og Siglingastofnun. Í október var undirritaður samstarfssamningur verkfræðideildar Háskóla Íslands og Siglingastofnunar um að Siglingastofnun tæki að sér kennslu í námskeiðinu Hafnargerð í umhverfis- og byggingaverkfræðiskor háskólans. Hafnargerð er námskeið á meistarastigi sem kennt er á haustmissiri og stendur í 15 vikur og er stefnt að því að það verði kennt annað hvert ár. Kennsla hófst í byrjun september og voru þátttakendur á fyrsta námskeiðinu níu talsins. Sérfræðingar á rannsókna- og þróunarsviði og hafnarsviði stofnunarinnar önnuðust kennsluna. Í námskeiðinu var farið yfir grunnatriði strandverkfræðinnar, s.s. mismunandi öldugerðir, öldumyndun, ölduhreyfingar og öldujöfnur. Skoðuð áhrif botns á öldur, öldubrot, öldusveigju og -speglun. Enn fremur var fjallað um öldumælingar og langtímaölduspár og kynntar mismunandi gerðir brimbrjóta og hönnun þeirra.
     Rannsóknir á Bakkafjöru. Áfram var haldið rannsóknum á siglingaleiðinni milli Bakkafjöru og Vestmannaeyja. Gerðir voru öldufarsreikningar, unnin langtímaölduspá úr gögnum frá ölduduflum og spápunktum á hafi og í nágrenni siglingaleiðarinnar, m.a. sem grunnur að rannsóknum á efnisflutningum.

    Kostnaður við rannsóknarverkefni 2005.

millj.kr.
Almennar rannsóknir, óskipt 2,9
Kennsla í strandverkfræði 1,9
Forgangsröðun samgangna 1,1
Stjórnvaldsverkefni 4,6
Erlend samskipti 0,9
Alþjóðleg ráðstefna á Höfn 6,0
Skiparannsóknir, óskipt 5,7
Vatnsþéttleiki skipa – rannsóknarverkefni 3,1
Hávaðarannsóknir um borð í skipum 1,6
Umhverfisrannsóknir, óskipt 3,4
Undirstöðurannsóknir á sjólagi 1,1
Siglingaleiðir 0,8
Skipaafdrep 0,5
Upplýsingakerfi fyrir sjófarendur 1,3
Rannsóknir í höfnum, óskipt 1,0
Rannsóknir við suðurströndina, óskipt 0,2
Höfn í Hornafirði – Hornafjarðarós 1,3
Rof við Vík í Mýrdal 0,6
Ferjulægi við Bakkafjöru 8,5
Samtals 45,6
Rannsókn sjóslysa.
    Samkvæmt lögum um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000, er það m.a. hlutverk Siglingastofnunar að taka til formlegrar afgreiðslu tillögur rannsóknarnefndar sjóslysa til úrbóta í öryggismálum á sjó og gera henni grein fyrir þeim úrbótum sem gerðar hafa verið. Þá ber Siglingastofnun, samkvæmt reglugerð nr. 133/2002, að eiga frumkvæði að sérstökum aðgerðum séu þær taldar nauðsynlegar.
    Eftirfarandi eru formlegar afgreiðslur Siglingastofnunar til rannsóknarnefndar sjóslysa á árinu 2005:
    Nr. 009/04 (Þerney RE-101 (sknr. 2203), óhapp verður við sjósetningu léttbáts).
    Nr. 031/04 (Mánafoss (nr. 11083), tekur niðri í innsiglingunni til Vestmannaeyja).
    Nr. 043/04 (Baldvin Þorsteinsson EA-10 (sknr. 2212), fær nótina í skrúfuna og strandar).
    Nr. 059/04 (Snorri Sturluson VE-28 (skrnr. 1328), þrír skipverjar hætt komnir í léttbát).
    Nr. 061/04 (Polar Siglir GR-650, skipverji slasast við fall um borð).
    Nr. 081/04 (Kiran Pacific, strandar út af Straumsvík).
    Nr. 012/05 (Grímsnes GK-555 (sknr. 1849), eldur verður laus í lúkar).
    Nr. 065/05 (Hrund BA-87 (sknr. 7403), eldur kemur upp um borð og skipið sekkur).
     Allar afgreiðslur til rannsóknarnefndarinnar má finna á vefsíðu Siglingastofnunar, www.sigling.is.

Dauðaslys á fiskiskipum 1997–2005.

1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005
Skip < 12 m 2 1 2 1 1
Skip 12–24 m 3 2
Skip > 24 m 4 1 1
Samtals 2 1 2 1 7 2 1 21 1
1 Auk þess drukknaði sjómaður er hann féll milli skips og bryggju á Ísafirði.

Fiskiskip sem fórust 1997–2005.

1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005
Skip < 12 m 6 3 3 8 4 3 3
Skip 12–24 m 1 1 1 3 4 1
Skip > 24 m 2 1 2 1 3 1
Samtals 9 3 3 10 3 4 7 8 4

Tilkynnt slys til Tryggingastofnunar 1996–2005.

1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005
434 460 378 381 361 348 413 379 309 366

Minjavernd og saga.
    Stofnunin hefur látið rita sögu íslenskra vitabygginga sem gefið var út árið 2002. Þá hefur um hríð verið safnað saman efni til undirbúnings ritunar sögu hafnargerðar. Verkið er afar viðamikið, en stefnt er að útgáfu síðla árs 2007. Hugað hefur verið að skrásetningu annarra verkefna svo sem skipaeftirlits og almennra öryggismála til sjávar.

Siglingavernd (skipa- og hafnavernd).
    Lög um siglingavernd, nr. 50/2004, tók gildi þann 14. júní 2004 og komu til framkvæmda 1. júlí 2004. Markmið með siglingavernd er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum.
    Í dag eru 29 vottaðar hafnir með hafnaraðstöðu á 79 stöðum á Íslandi. Siglingastofnun hefur reglulega framkvæmt úttektir á hafnaraðstöðu og skipum síðan siglingaverndin kom til framkvæmda. Engin skip skráð á Íslandi þurfa nú að uppfylla kröfur um siglingavernd.
    Siglingaverndin hefur kallað á miklar og kostnaðarsamar aðgerðir fyrir hafnir, útgerðarfélög og fyrirtæki sem bera sjálf kostnað af siglingaverndinni sem og stofnanir vegna undirbúnings, innleiðingar, viðhalds, námskeiða, eftirlits og úttekta á siglingavernd.
    Í samstarfi við aðrar stofnanir heldur Siglingastofnun regluleg námskeið fyrir verndarfulltrúa og starfsmenn með sérstakt hlutverk í siglingavernd viðkomandi hafnar.
    Siglingastofnun tekur þátt í fundum og alþjóðlegu samstarfi vegna siglingaverndar, m.a. hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni og Evrópusambandinu þar sem haldnir eru reglulegir fundir vegna siglingaverndar. Fyrirséð er að þetta samstarf muni aukast á komandi árum, m.a. með þátttöku og eftirliti Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópusambandsins með siglingaverndinni.
    Siglingavernd hefur verið vaxandi málaflokkur og má gera ráð fyrir að kostnaður við hann aukist. Siglingastofnun hefur reynt eftir fremsta megni að halda öllum kostnaði í lágmarki fyrir hafnir landsins. Stefnan er að íslensk skip og hafnir uppfylli kröfur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Evrópusambandsins á sviði siglingaverndar. Það er gert til að gera íslenskum höfnum kleift að taka á móti og þjónusta skip sem falla undir ákvæði siglingaverndarinnar og gera íslenskum skipum unnt að stunda siglingar til og frá löndum og höfnum þeirra sem gera kröfu um siglingavernd.
    Framkvæmd siglingaverndar hefur gengið vel en fyrirséð er að kröfur og vinna við siglingaverndina muni aukast á næstu árum og er fylgst náið með þróun krafna og reglna Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Evrópusambandsins á þessu sviði.

Vaktstöð siglinga.
    Vaktstöð siglinga var sett á fót með lögum nr. 41/2003. Siglingastofnun hefur fjárhagslegt og faglegt eftirlit með rekstrinum og sinnir samskiptum við stjórnvöld vegna verkefna vaktstöðvarinnar og alþjóðlegu samstarfi, svo sem samstarfi við Alþjóðasiglingamálastofnunina og Siglingaöryggisstofnun Evrópu. Í sérstökum þjónustusamningi sem Siglingastofnun Íslands gerði við Landhelgisgæslu Íslands, Neyðarlínuna og Slysavarnafélagið Landsbjörg er þessum aðilum falið að annast daglegan rekstur vaktstöðvarinnar. Landhelgisgæslan fer með faglega forustu í vaktstöðinni.
    Hlutverk Vaktstöðvar siglinga er að fylgjast með allri umferð á sjó í lögsögu landsins og vera miðstöð upplýsinga fyrir skipaumferð í íslensku efnahagslögsögunni og halda utan um siglingar erlendra skipa sem koma til landsins sem og siglingar íslenskra skipa. Í samvinnu við Vaktstöð siglinga var hafist handa við innleiðingu rafræns tilkynningarkerfis skipa, Safe Sea Net, og er áætlað að ljúka því verki í byrjun árs 2007.

Stofnkostnaður.
    Árið 2005 var fjárfest í tækjum og búnaði fyrir samtals 23,3 millj. kr. Stærstur hluti stofnkostnaðar voru innkaup á búnaði í AIS-stöðvar en einnig öldudufl og annar búnaður svo sem tölvur og tæki fyrir almennan rekstur.

Hafnir.
    Í þessari skýrslu er að finna stuttorðar lýsingar á ríkisstyrktum hafnarframkvæmdum árið 2005 á hverjum stað fyrir sig og tölur um fjárveitingar til hafnarframkvæmda og ráðstöfun þeirra í töflum I–VI. Einnig er fjallað um varnir gegn landbroti af ágangi sjávar og greint frá verkum sem unnin hafa verið í höfnum án ríkisstyrkja.
    Árið 2005 var eftirgreindum fjárhæðum varið til ríkisstyrktra framkvæmda við hafnir. Til samanburðar eru tölur fyrra árs.

2005
millj. kr.
2004
millj. kr.
Ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 1.753,7 1.876,6
Ferjubryggjur 7,7 0,4
Lendingarbætur 6,6 4,1
Samtals 1.768,0 1.881,1

Ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir.

Snæfellsbær.
     Arnarstapi. Lokið var smávægilegri frágangsvinnu við uppsátur. Er uppsátursverkinu lokið. Bygging ljósamasturs og vatnshúss var boðin út ásamt uppsátrinu og þekju og lögnum í Rifshöfn.
     Rifshöfn. Við áramót var ólokið uppgjöri við verktaka vegna þekju og lagna á Norðurþili, auk þess sem eftir var að raða grjóti meðfram steinsteyptri akstursbraut, ganga endanlega frá raflögnum og ýmsu fleiru smálegu.
    Unnið var við lokaáfanga í endurbyggingu trébryggju. Keypt var efni, asobe-harðviður og boltar og smíði bryggjunnar boðin út í júlímánuði. Tvö tilboð bárust og voru þau bæði yfir kostnaðaráætlun. Hið lægra var frá Elinn ehf. og hljóðaði það upp á 18,9 millj. kr. sem var 110% af áætlun og var því tilboði tekið. Verkinu var ekki lokið um áramót.
     Ólafsvík. Harðviðarbryggja var endurbyggð. Verkið var boðið út um miðjan ágúst 2004 og samið við lægstbjóðanda, Elinn ehf. frá Sauðárkróki, sem bauð 29,918 millj. kr. í verkið sem nam 95,2% af kostnaðaráætlun. Í verkinu felst að skipta um bryggjudekk, kanttré, bita og þybbuklæðningu. Þegar farið var að hrófla við bryggjunni kom í ljós að hún var meira skemmd af fúa en talið var, m.a. var efri hluti staura allfúinn. Þurfti því að skipta um 24 staura, mörg þybbulangbönd og nokkuð af töngum. Hefur þessi viðgerðarvinna reynst tímafrek og kostnaðarsöm. Er því ljóst að upphaflegar áætlanir um kostnað vegna verksins munu ekki standast. Verkið stóð enn yfir við árslok 2005.
    Lokið var frágangi á stigum á flotbryggjur í Rifi og Ólafsvík sem keyptir voru árið 2004.
    Unnið var að útboði viðhaldsdýpkana í Rifi og Ólafsvík og verkið boðið út í nóvember. Lægst bauð Gáma og tækjaleiga Austurlands ehf., 16,89 millj. kr., sem var 72% af áætlun. Verkið var ekki hafið um áramót.
    Framkvæmdakostnaður: 61,6 millj. kr.
Grundarfjörður.
    Ákveðið var að fresta gerð upptökubrautar fyrir smábáta til ársins 2006.
    Byggð verður ný stálþilsbryggja sunnan við Litlubryggju og dýpkað við hana. Teikningar liggja fyrir og stálþilsefni hefur verið boðið út. Botnrannsóknir og dýptarmælingar á byggingarsvæðinu hafa farið fram og munu framkvæmdir hefjast vorið 2006.
    Unnið var að úrbótum í öryggismálum hafnarinnar.
    Framkvæmdakostnaður: 7,6 millj. kr.
Stykkishólmur.
    Í samgönguáætlun 2005 var fyrirhugað að steypa þekju við Súgandisey og reisa ljósamasturs- og vatnshús en þessu var frestað.
    Áformað er að reisa ljósamastur og vatnshús í Skipavík. Þessu verki hefur verið frestað til ársins 2006.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2005.
Dalabyggð.
    Gert var ráð fyrir að lagfæra gömlu bryggjuna í Búðardal, endurbyggja kanttré o.fl., en verkinu var frestað til 2006.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2005.
Reykhólar.
    Unnið var að undirbúningi fyrir dýpkun innsiglingar. Gerð var dýptarmæling á fyrirhuguðu dýpkunarsvæði og sótt um heimild til vörpunar á dýpkunarefni í sjó til Umhverfisstofnunar. Það mál var enn í biðstöðu um áramót.
    Framkvæmdakostnaður: 1,1 millj. kr.
Vesturbyggð.
     Brjánslækur. Til stóð að færa flotbryggjuna og endurbyggja legufæri hennar en heimamenn ákváðu að slá því á frest.
     Patreksfjörður. Þar átti samkvæmt áætlun að lagfæra innsiglingu, dýpka og grjótverja Oddann, en því verki var slegið á frest.
     Bíldudalur. Þar lauk verktakinn KNH við gerð landfyllingar og fyrirstöðugarðs vegna fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju. Boðin voru út í janúar niðurrekstur stálþils, fylling og kantsteypa á 80 m stálþilsbakka. Einnig lítils háttar dýpkun við þilið. Átti KNH lægsta boð í verkið, 42,5 millj. kr., sem var 89% af kostnaðaráætlun. Samið var við KNH og lauk verktakinn verkinu í nóvember. Eftir er að ganga frá lögnum við þilið og steypa þekju.
    Framkvæmdakostnaður: 50,4 millj. kr.
Tálknafjörður.
    Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir að lagfæra stiga á stálþili og setja í þá lýsingu en því var frestað.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2005.
Bolungarvík.
    Í lok febrúar lauk dýpkun sem hófst haustið 2004. Dýpkað var í –8,7 m innan hafnar að væntanlegu stálþili við Grundargarð. Alls voru fjarlægðir um 100.000 m 3 efnis sem fluttir voru út í Djúp. Í ljós kom að botn reyndist erfiðari viðfangs en skýrsla jarðfræðings gaf til kynna og varð dýpkunin því fyrirhafnarsamari og tímafrekari en við var búist. Hlaut verktaki nokkrar aukagreiðslur vegna þessa. Einnig reyndist flutningur efnisins um 4 sjómílur út fyrir hafnarmynnið kostnaðarsamur.
    Framkvæmdakostnaður: 57,8 millj. kr.
Ísafjarðarbær.
     Þingeyri. Þar var í áætlun gert ráð fyrir að rífa trébryggju við ytri hafnargarð og einnig að dýpka í smábátahöfn. Báðum þessum verkefnum var frestað.
     Suðureyri. Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir stækkun smábátahafnar, dýpkun og flotbryggju, en því var slegið á frest.
     Flateyri. Samþykkt var að veita þar ríkisstyrk í nýtt verkefni, endurbyggingu þekju, í stað verkefna sem frestað var á Þingeyri og Suðureyri. Malbikaður var hluti þekjunnar framan við fiskmarkaðinn, 2.542 m 2 að flatarmáli. Hlaðbær Colas ehf. sá um verkið en Græðir ehf. á Flateyri annaðist undirbúning þess. Verkið var unnið í ágústmánuði.
     Ísafjörður. Áfram var unnið að smíði á nýjum hafnsögubáti. Eftir að samningi var rift við Ósey ehf. í framhaldi af gjaldþroti þess fyrirtækis tókust samningar við pólsku skipasmíðastöðina Christ um að ljúka smíði bátsins og var báturinn afhentur í byrjun október.
    Dýpkun var gerð í Sundahöfn. Samið var við Björgun án útboðs á grundvelli fyrri verðtilboða. Verkið hófst í júní og lauk þann 5. júlí.
    Gengið var frá raflögnum í fyrri áfanga Ásgeirsbakka. Rafverkfræðistofan Tera sá um verklýsingu og teikningar en Póllinn ehf. á Ísafirði gerði kostnaðarmat. Í verkinu fólst að aðalrafbúnaður á Ásgeirsbakka var endurnýjaður en það verk hófst 2004 er raflagnir voru endurnýjaðar að hluta. Samið var við Pólinn um verkið og ákveðið að vinna það í áföngum jafnhliða framkvæmdum í hafnarhúsi þar sem aðaltaflan er. Unnið var að undirbúningi annars áfanga í endurnýjun Ásgeirsbakka. Áformað er að bjóða verkið út í apríl 2006.
    Gengið var frá þekju og lögnum í Sundahöfn. Verkið var ekki boðið út þar sem það var unnið í beinu framhaldi af öðru verki sem var útboðsverk og tók verktakinn, Ásel ehf., þetta verkefni að sér fyrir sömu verð og útboðsverkið þar sem Ásel varð hlutskarpast. Í verkinu fólst hefðbundinn frágangur á þekju og lögnum. Steypt var 365 m 2 þekja og malbikuð var 2.245 m 2 þekja. Gengið var frá lögnum, rafmagnsbrunni og lýsingu og rafmagnstafla var endurnýjuð.
    Í áætlun var enn fremur gert ráð fyrir endurbyggingu flotbryggju í Sundahöfn, nýrri 40 flotbryggju í Sundahöfn og uppsátri fyrir smábáta. Lítils háttar var unnið að undirbúningi fyrir tvö fyrsttöldu verkefnin en að öðru leyti var þessum verkum frestað.
    Framkvæmdakostnaður: 162,7 millj. kr.
Súðavík.
    Þar var steypt ofan á þekju á aðalhafnargarðinum en sú þekja var steypt 1974. Brunnar voru hækkaðir upp, kanttré á gafli endurnýjað auk þess sem steypt var þekja 10 cm þykk og 1.313 m 2 að flatarmáli. Verkið var unnið af KNH-verktökum á Ísafirði á tímabilinu ágúst til október.
    Framkvæmdakostnaður: 10,5 millj. kr.
Norðurfjörður.
    Tígur ehf. frá Súðavík vann að dýpkun smábátahafnar. Verkið hófst í ágústlok og lauk í endaðan september. Í því fólst að hreinsa allt laust efni upp úr smábátahöfninni á um 240 m 2 fleti, heildarmagn um 250 m 3. Verkið gekk fram eins og áætlað var og geta nú þrjár raðir báta legið við bryggjuna í stað tveggja áður. Auk þessa var grjót sem til féll við dýpkunina notað í sjóvarnargarð, sjá kafla um sjóvarnir.
    Framkvæmdakostnaður: 2,2 millj. kr.
Drangsnes.
    Endurbyggt var uppsátur smábáta samkvæmt samgönguáætlun. Upptökubrautin var endurbyggð með minni halla en verið hafði. Þar sem um smáverk var að ræða var það ekki boðið út heldur samið við verktakana KNH og Grundarás ehf. sem unnu verkið á tímabilinu júlí til september.
    Framkvæmdakostnaður: 1,5 millj. kr.
Hólmavík.
    Þar átti samkvæmt áætlun að framkvæma endurbætur á smábátaaðstöðu en því var slegið á frest.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2005.
Hvammstangi.
    Suðurbryggja var endurbyggð í samræmi við samgönguáætlun. Í verkinu fólst að skipta um alla burðarviði, framhlið og dekk á 15 m kafla við vesturenda Suðurbryggju. Verkið var lítið og því ekki boðið út. Samið var við verktakann Tvo smiði ehf. á Hvammstanga á grundvelli einingarverða. Verkið hófst í október og því var lokið um miðjan desember að frátöldum lítils háttar frágangi.
    Unnið var að úrbótum í öryggismálum hafnarinnar og veittur styrkur til þeirra framkvæmda af óskiptu fé til slysavarna.
    Framkvæmdakostnaður: 6,2 millj. kr.
Blönduós.
    Engar framkvæmdir.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2005.
Skagaströnd.
    Unnið var að dýpkun snúningssvæðis. Verkið var boðið út. Í því fólst dýpkun á 11.500 m 2 svæði suður af enda svokallaðs Skúffugarðs. Var áformað að dýpka þar í –6,5 m og í –4,0 m á 1.096 m 2 svæði inn af Miðgarði.
    Að loknu útboði var samið við Hagtak hf. um verkið. Verktakinn hóf verkið í september og var því lokið um miðjan nóvember. Botn reyndist erfiðari viðfangs en skýrsla jarðfræðings gaf til kynna og varð dýpkunin því fyrirhafnarsamari og tímafrekari en við var búist. Hlaut verktaki nokkrar aukagreiðslur vegna þessa. Heildargreiðsla til hans nam tæplega 34,8 millj. kr.
    Framkvæmdakostnaður: 37,5 millj. kr.
Skagafjörður.
     Sauðárkrókur. Þar var unnið að lengingu sandfangara. Verkið var boðið út en aðeins eitt tilboð barst, frá Víðimelsbræðrum ehf., og var gengið til samninga við þann aðila. Í verkinu felst að taka upp 450 m 3 af grjóti af núverandi enda sandfangarans og flokka og vinna í námu 3.200 m 3 af sprengdum kjarna og 2.580 m 3 af flokkuðu grjóti. Dýptarmæling sem gerð var áður en verk hófst leiddi í ljós að magn af flokkuðu grjóti verður heldur minna en magn kjarna nokkru meira. Náma fyrir flokkað grjót er í Flatatungu í 45 km fjarlægð en náma fyrir sprengdan kjarna er í Hegranesi í um 7 km fjarlægð. Verktaki hóf störf í síðari hluta júní og var verki lokið 7. okt. 2005.
    Gerð var upptökubraut fyrir smábáta 5 x 15 m milli Sandeyrar og Norðurgarðs samkvæmt samgönguáætlun. Víðimelsbræður ehf. og Ás ehf. unnu verkið.
    Áætlað var að byggja 35 m þvergarð innan á Norðurgarð í því skyni að draga úr ölduhreyfingu sem leiðir inn með bryggjunni. Hugmyndir eru um að gera líkantilraunir af höfninni áður en farið verður í þessa framkvæmd og var henni því frestað um ár.
     Hofsós. Gerð var upptökubraut fyrir báta, 5 x 15 m í fjörunni austan við Vesturfarasetrið. Verkið var unnið í september af Víðimelsbræðrum ehf. og Ási ehf.
    Flotbryggja út frá Árgarði var áætluð. Lítils háttar var unnið í undirbúningi en að öðru leyti var framkvæmdinni frestað.
     Haganesvík. Þar var unnið að árlegri viðhaldsdýpkun en á hverju vori þarf að grafa frá bryggjunni 300–400 m³ af sandi sem berst að henni.
    Framkvæmdakostnaður: 237 millj. kr.
Siglufjörður.
    Grjótvörnin norðan við Brjót var hækkuð og styrkt á um 170 m kafla. Bætt var 3.400 m 3 af grjóti í garðinn og 2.000 m 3 af grjóti endurraðað. Efni var sótt í Selskál í um 2 km fjarlægð frá bænum. Verktaki var KNH ehf. Verkið var unnið á tímabilinu 7. mars til 8. apríl.
    Unnið var að frágangi viðlegubryggju við vesturkant smábátahafnar sem ekki var lokið á síðasta ári því efni vantaði.
    Samkvæmt ósk heimamanna var frestað um tvö ár dýpkun við Óskarsbryggju og kaupum og niðurrifi á SR-bryggju.
    Unnið var að úrbótum í öryggismálum hafnarinnar og veittur styrkur til þeirra framkvæmda af óskiptu fé til slysavarna.
    Framkvæmdakostnaður: 7,0 millj. kr.
Hafnasamlag Eyjafjarðar.
     Ólafsfjörður. Steypt var ný þekja 976 m 2 og endurbyggð 128 m 2 þekja, byggt ljósamastur og vatnshús, lagðar lagnir að einum vatnsbrunni og einum rafmagnsbrunni og gert við vatnsbrunn í gömlu þekjunni. Enn fremur voru lagðar lagnir frá eldra masturshúsi í það nýja. Samið var við Steypustöðina á Dalvík um verkið. Vinna hófst í endaðan ágúst. Því var ekki lokið um áramót.
    Lokið var uppgjöri á kostnaði vegna upptökubrautar sem steypt var af heimamönnum árið 2003.
     Dalvík. Unnið var að dýpkun smábátahafnar samkvæmt óskum heimamanna sem óskuðu eftir því að framkvæmdin fengi forgang þar sem bátar höfðu tekið niðri í smábátahöfninni. Dalverk ehf., sem var að störfum við gerð sjóvarnar á staðnum, var fengið til dýpkunarverksins án útboðs. Grundvöllur kostnaðarmats voru nýlegar tölur frá því dýpkað var vegna trébryggju við smábátagarð.
    Ákveðið var að fresta tveimur verkefnum sem áætluð voru á árinu, styrkingu grjótvarnar á Suðurgarði og endurbyggingu timburbryggju við Suðurgarð. Í staðinn var samþykkt að ríkið styrkti dýpkun smábátahafnarinnar sem að framan er lýst.
    Framkvæmdakostnaður: 26,7 millj. kr.
Grímsey.
    Þar átti samkvæmt samgönguáætlun að halda áfram styrkingu á grjótvörn hafnargarðsins. Unnið var að undirbúningi en ákveðið var að geyma þetta verk um sinn og leita færis næst þegar grjótvinnsla yrði í landi, t.d. á Dalvík.
    Unnið var við þybbur og fríholt á aðalhafnargarði. Steypustöð Dalvíkur sá um verkið sem var ekki á áætlun en á það var fallist af hafnaráði. Verktakakostnaður var í heild um 3,5 millj. kr. Ráðgert var að flytja um 300 stóra steina úr landi út í Grímsey en því var frestað þar sem heppilegt stórgrýti fannst ekki.
    Framkvæmdakostnaður: 0,1 millj. kr.
Hafnasamlag Norðurlands.
     Akureyri. Í Krossanesi var steypt þekja og gengið frá lögnum. Verkið var unnið af Arnarfelli ehf. en Siglingastofnun annaðist gerð verklýsingar og útboðsgagna. Heildarkostnaðaráætlun nam 24.350.900 kr. en samningsverð í verksamningi var 15.468.930 kr. sem nam 63,5% af kostnaðaráætlun hönnuða. Í verkinu fólst að steypt var þekja, 2.232 m 2, byggðir 2 brunnar fyrir raflagnir og tengingar og 2 vatnsbrunnar ásamt tilheyrandi lögnum. Gengið var frá vatnslögnum í vatnshúsi. Verkið hófst þann 23. ágúst og því lauk hinn 21. desember er gerð var lokaúttekt. Nokkur aukaverk voru unnin við byggingu ljósamasturs og vatnshúss. Um það sáu Þ.J. verktakar á Svalbarðseyri. Í heild gekk verkið samkvæmt áætlun þrátt fyrir nokkrar tafir sem urðu af völdum veðurs.
    Í Sandgerðisbót var steypt hefðbundin upptökubraut, 5 m löng og 18 m löng. Verkið hófst í desember 2005 og stóð fram í janúar 2006. Það var unnið af Kötlu ehf. á Árskógssandi.
    Lengt var stálþil Tangabryggju neðst á Oddeyri. Í verkinu felst að taka upp núverandi grjótvörn, dæla upp fyllingarpúða, alls 13.00 m 3, reka 96 plötur er mynda 100 m kant og 22 m gafl, fylla í þilið alls 13. 200 m 3, dýpka framan við þar sem fjarlægðir verða 1.800 m 3 efnis, steypa kant 122 m að lengd og leggja frárennslislagnir. Verkið var boðið út og tekið tilboði frá Gáma- og tækjaleigu Austurlands. Samningsverð er 53.652.780 kr. sem nemur 86,8% af kostnaðaráætlun hönnuða. Keypt hefur verið stálþil AZ 26, alls 324 tonn og 64,4 tonn af festingum frá Guðmundi Arasyni ehf. Verkið hófst um áramót 2005/2006.
    Framkvæmd sem áætluð var við Ísbryggju ÚA var frestað um sinn að ósk heimamanna.
     Grenivík. Frestað var gerð uppsáturs fyrir smábáta.
    Framkvæmdakostnaður: 65,7 millj. kr.
Húsavík.
    Sett var stálþilsbryggja með steyptum kanti við Bökugarð. Í verkinu felst að taka grjót á Bökugarði, alls um 260 m 3, keyra fram kjarnafyllingu og reka 150 stálþilsplötur, 25 m í landgafl, 130 m í viðlegukant og 37 m í útgafl. Fylla á í þilið með kjarnaefni, alls 41.000 m 3, og steypa kant með pollum alls 190 m að lengd. Verksamningur var gerður við Árna Helgason ehf. á Ólafsfirði og Ísar ehf. í Hafnarfirði. Keypt voru um 548 tonn af stálþilsefni AZ 26 og um 100 tonn af festingaefni frá Guðmundi Arasyni ehf. Kjarnaefni í þilið er tekið úr Katlanámu við Húsavík. Ankerssteinar, 68 talsins, voru steyptir á Akureyri og fyllingarefni sótt að Þverá í Reykjahverfi.
    Verkið hófst í lok september 2004 og var stefnt að verklokum í lok þess árs. Óhagstætt tíðarfar á síðustu mánuðum ársins 2004 olli talsverðum töfum á vinnu við stálþil. Á aðfangadag varð það óhapp að framgaflinn lagðist út og ein plata rifnaði niður úr og olli það bæði verktöfum og fjárhagstjóni. Verki var þó að mestu lokið í októberbyrjun 2005.
    Framkvæmdakostnaður: 70,1 millj. kr.
Kópasker.
    Komið var fyrir flotbryggju, 20 m langri og 2,4 m breiðri. Verkið var boðið út og var tekið boði lægstbjóðanda, Króla ehf., sem bauð sænska flotbryggju. Sá Kristján Óli Hjaltason um uppsetningu en Vökvaþjónusta Kópaskers annaðist gerð landstöpuls. Viðbótarverk við útboðsverk fólst í að bætt var við tveimur pollum á bryggjuna og steypt 20 m 2 þekja frá landstöpli að bryggju. Verkið var unnið í apríl og maí.
    Dýpkað var í smábátahöfn meðfram grjótgarði og inni við landkant þar sem flotbryggja er. Flatarmál dýpkunarsvæðis var um 1.000 m 2, brottflutt efni um 900 m 3. Samið var við Vökvaþjónustuna ehf. á Kópaskeri um verkið án útboðs enda var það smátt í sniðum. Verkið var unnið í febrúar og mars.
    Framkvæmdakostnaður: 64,6 millj. kr.
Raufarhöfn.
    Þar var þremur verkefnum sem voru á áætlun frestað til næsta árs. Heimamenn óskuðu eftir að bryggja fyrir björgunarskipið yrði endurbætt og var samþykkt að sú framkvæmd nyti ríkisstyrks en ekki var byrjað á verkinu fyrir áramót.
    Framkvæmdakostnaður: 0,1 millj. kr.
Þórshöfn.
    Raftó ehf. lauk verki sem samið var um á síðasta ári við raflagnir og lýsingu á nýja stálþilið og við smábátaaðstöðuna.
    Löndunarbryggja var endurbyggð. Í verkinu, sem unnið var samkvæmt samgönguáætlun, fólst að trébryggja úr asobe-harðviði með basralocus-staurum, 35,3 m að lengd, var breikkuð í norðurenda um 3,3 m og um 4,6 m í suðurenda. Suður af harðviðarbryggjunni var rekið stálþil af gerðinni Larsen 755, alls 37 plötur með fullu dýpi og 10 plötur í gafl. Á mótum trébryggju og stálþils voru reknar 9 plötur í gafl sem nær inn fyrir landvegg. Rifin var gömul og úr sér gengin furubryggja sem lenti innan þils og fyllt upp innan við þilið með 4.648 m 3 af efni. Steyptur var 71,4 m langur kantbiti á þil.
    Verkið var boðið út og samið við lægstbjóðanda, Guðlaug Einarsson ehf. Verkið hófst um miðjan júní og var enn nokkuð eftir af því við áramót.
    Lengingu Norðurgarðs var frestað um sinn og hafa heimamenn farið fram á að gerðar verði líkantilraunir svo tryggja megi að framkvæmdin skili þeim árangri sem til er ætlast.
    Framkvæmdakostnaður: 57,9 millj. kr.
Bakkafjörður.
    Unnið var að frágangi við Löndunarbryggju, sett upp lýsing og fyllt við stoðvegg. Ekki náðist að ganga frá slitlagi við bryggjuna og bíður það næsta árs.
    Gengið var frá landrafmagni á flotbryggju, keyptir tenglastólpar frá Króla ehf. og settir upp. Kostnaður við þetta var verulega minni en áætlað var.
    Samkvæmt samgönguáætlun var gert ráð fyrir lengingu á steyptri skábraut en heimamenn fóru fram á að því yrði frestað og í staðinn farið í námufrágang sem áætlað var að framkvæma árið 2007. Fallist var á þetta. Unnið var við jöfnun og snyrtingu í námunni en enn er eftir að ganga frá töluverðu svæði vestast.
    Framkvæmdakostnaður: 3,5 millj. kr.
Vopnafjörður.
    Lokið var uppgjöri við Sæþór ehf. vegna dýpkunar við vesturenda Löndunarbryggju og rif á Lýsisbryggju.
    Í júní var boðið út stálþil við Miðbryggju / löndunarbryggju ásamt dýpkun við þilið. Samið var við lægstbjóðanda, Hagtak hf., um framkvæmd verksins. Tilboð í dýpkun og flutning graftækja hljóðaði upp á 39,4 millj. kr. sem var 194% af kostnaðaráætlun þess verkhluta. Tilboð í þilrekstur var 57,8 millj. kr. sem var 81% af áætlun. Heimamenn lögðu áherslu á að dýpi við þilið yrði 10 m í stað 9 m sem gert var ráð fyrir í áætlun og rökstuddu breytingartillöguna með því að ný og stærri uppsjávarveiðiskip þyrftu á þessu dýpi að halda. Fallist var á þetta og verður kostnaður við dýpkunina því rúmlega þrefalt meiri en áætlun gerði ráð fyrir en kostnaður við stálþilið svipaður og gert var ráð fyrir.
    Keypt var stálþil af gerðinni AZ 18 frá Guðmundi Arasyni ehf., alls um 266 tonn af þili og festingaefni.
    Framkvæmdir við dýpkun hófust í septemberlok. Sprengd var klöpp á um 2.800 m² svæði og grafið niður á 10 m dýpi. Dýpkun var lokið um áramót en þá var eftir að taka verkið út.
    Rekstur á 108 m löngu stálþili milli Löndunarbryggju og Miðbryggju hófst ekki fyrr en eftir áramótin en gert er ráð fyrir að í maímánuði 2006 verði lokið niðurrekstri, fyllingu innan þils og steypu kantbita.
    Framkvæmdakostnaður: 91,3 millj. kr.
Borgafjörður eystri.
    Þar var unnið að lengingu Nýjubryggju um 12 m. Keyptur var asobe-harðviður frá Superbygg og samið við heimamenn um smíði á bryggjunni. Reiknað er með að verkinu ljúki næsta vor.
    Framkvæmdakostnaður: 3,0 millj. kr.
Seyðisfjörður.
    Unnið var að frágangi við ferjuhöfn. Samstarfsnefnd um byggingu ferjulægis kom saman um vorið og ákvað að gera skyldi nokkrar úrbætur, m.a. á hliðum tollgirðingar o.fl. Ekki hefur tekist að ráða bót á þakleka í þjónustuhúsinu og standa yfir viðræður við verktaka um það mál.
    Í desember kom í ljós að grafist hefur frá stálþilinu á 20–30 m kafla nærri austurenda. Fylling hefur farið þar undan þekjunni og kanturinn sigið. Flest bendir til að ferjan Norröna hafi valdið þessu með ótæpilegri beitingu bógskrúfu við kantinn. Strax var hafist handa við að fylla fyrir framan þilið með grófu efni og er ljóst að viðgerð mun kosta töluverða fjárhæð.
    Boðin var út í júlí endurbygging á hluta af löndunarbryggju við bræðslu, 40 m kafli austast, og endurbygging Bæjarbryggju. Tvö tilboð bárust og var samið við lægstbjóðanda, Guðlaug Einarsson ehf., sem bauð 48,5 millj. kr. í verkið.
    Timbur í báðar bryggjur var keypt frá Superbygg og boltar frá Ísól að undangengnu útboði.
    Framkvæmdir hófust við löndunarbryggju hjá bræðslu í októbermánuði og var bygging hennar langt komin um áramót.
    Boðin var út í október lýsing og raflögn við smábátahöfnina og samið um verkið við lægstbjóðanda, Kristján Jónsson rafverktaka á Seyðisfirði, sem bauð 4,8 millj. kr. er nam 75% af kostnaðaráætlun. Áformað er að verkinu ljúki vorið 2006.
    Framkvæmdakostnaður: 49,8 millj. kr.
Fjarðabyggð.
     Mjóifjörður. Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir styrkingu og endurbyggingu á trébryggju en verkinu var frestað til 2006.
     Neskaupstaður. Þar var unnið samkvæmt samgönguáætlun við gerð skjólgarðs norðan hafnar. Skjólgarðurinn er byggður í áföngum úr efni sem til fellur við dýpkunarframkvæmdir og úr sjávarmöl. Einnig var unnið að lengingu stálþils Togarabryggju og dýpkun að því. Tilboð í dýpkunina við Togarabryggju ásamt fyllingu undir skjólgarð austan við Bræðslubryggju voru opnuð í mars. Lægstbjóðandi var Björgun sem bauð 37,3 millj. kr. í báða verkáfangana. Fyllt verður undir skjólgarð í þremur áföngum og var öðrum áfanga lokið á síðasta ári. Þá var unnið fyrir um 26,4 millj. kr. Efni í 100 m lengingu Togarabryggju var keypt að undangengnu útboði. Stálþilsefni og festingar, alls um 230 tonn, var keypt af Guðmundi Arasyni ehf. Í júní voru stálþilsrekstur og kantbitagerð á lengingu Togarabryggjunnar boðin út. Lægstbjóðandi var Gáma- og tækjaleiga Austurlands sem bauð 31,3 millj. kr. Í lok ársins var verktakinn hálfnaður með verkið.
     Eskifjörður. Tré og steypa ehf. vann að frágangi stálþils við bræðslu, lagði vatns- og raflagnir að kanti, steypti kantbita og þekju. Verkið var unnið samkvæmt útboði sem fór fram við lok árs 2004 og hljóðaði tilboð verktaka á 36,9 millj. kr. Heildarverktakakostnaður varð um 37 millj. kr. Verkinu lauk í júní.
     Reyðarfjörður. Þar var haldið áfram byggingu stóriðjuhafnar við Hraun sem gerð er vegna byggingar álvers í Reyðarfirði. Meginþættir verksins eru bygging stálþilsbakka sem er 384 m að lengd með tveimur 30 m löngum göflum og dýpkun fyrir framan þar sem fjarlægðir eru alls um 91.000 m 3 efnis. Lokið var við að fylla innan þils með um 260.000 m 3 og fyrir framan þil um 20 m breiðan púða í –14,3 m dýpi, alls um 80.000 m 3. Arnarfell ehf. sá um að reka þil, steypa kantbita og fylla innan við og framan við þilið. Verki lauk í september að undanskilinni endanlegri dýpkun framan þils. Verktakakostnaður verður um 313 millj. kr. en samningsupphæð var upphaflega 261 millj. kr. Er kostnaðaraukinn aðallega til kominn vegna þess að erfiðara reyndist að grunda þilið í austurenda en ætlað var og að ákveðið var að fylla til viðbótar um 10.000 m 2 svæði. Í júní var opnað tilboð í þjónustuhús og ídráttarlagnir. Lægstbjóðandi var Héraðsfjörður ehf. sem bauð 44,6 millj. kr. Verkið fólst í að steypa upp þjónustuhús og leggja ídráttarlagnir um hafnarsvæðið. Um 2/ 3kostnaðar við verkið taldist styrkhæfur en 1/ 3féll á hafnarsjóð. Verkinu lauk í desember. Samhliða þessum verkum var unnið að því að leggja regnvatnslagnir á hafnarsvæðinu og steypa undirstöður fyrir uppskipunarkrana. Í lok ársins var smíði hafnsögubáts boðin út. Tilboð voru opnuð í desember og að svo búnu gengið til samninga við lægstbjóðanda, Damen-skipasmíðastöðina, sem hefur starfsaðstöðu víða um heim. Samningsupphæðin er 1.950.600 evrur. Báturinn mun hafa togkraft upp á tæp 27 tonn, hann verður 20 m langur og 7 m breiður og áætlaður 135 DWT. Gert er ráð fyrir að báturinn komi fullsmíðaður í mars 2007.
    Framkvæmdakostnaður: 342,2 millj. kr.
Austurbyggð.
     Fáskrúðsfjörður. Lokið var dýpkun við Bæjarbryggju, Fiskeyrarbryggju og Hafskipabryggju. Samið var sl. haust við Sæþór ehf. um þetta verk á grundvelli einingaverða. Verkinu lauk í janúar 2005. Alls voru grafnir upp um 4.000 m 3.
     Stöðvarfjörður. Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir að klæða hlið gömlu bryggju á 30 m kafla við löndunarstað smábáta en heimamenn ákváðu að hætta við framkvæmdina. Efni það sem þegar hafði verið keypt var selt til Djúpavogs í væntanlega endurnýjun trébryggju þar.
    Framkvæmdakostnaður: 4,6 millj. kr.
Breiðdalsvík.
    Unnið var að úrbótum í öryggismálum hafnarinnar og veittur styrkur til þeirra framkvæmda af óskiptu fé til slysavarna.
    Framkvæmdakostnaður: 0,9 millj. kr.
Djúpivogur.
    Þar átti samkvæmt samgönguáætlun að lengja stálþil 25 m inn á voginn. Efni í lenginguna, stálþil og festingaefni, var keypt á síðasta ári. Vegna breytinga í útgerð á staðnum tóku heimamenn þá ákvörðun að hætta við þessa framkvæmd og verður stálþilsefnið selt annað.
    Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir stækkun og endurbótum á smábátaaðstöðu með uppsetningu á 40 m flotbryggju. Heimamenn fóru fram á að velja frekar dýrari lausn sem fólst í að endurbyggja gömlu trébryggjuna og lengja hana. Fallist var á þetta og verður fjármagn sem nota átti í lengingu stálþils fært yfir í þessa framkvæmd. Pantað var efni, asobe-harðviður, hjá Superbygg og bryggjan hönnuð. Bryggjusmíðin verður boðin út eftir áramót.
    Framkvæmdakostnaður: 1,9 millj. kr.
Höfn í Hornafirði.
    Lokið var endurbyggingu Krosseyjarbakka með því að ljúka vinnu við lagnir og þekju. Samið var um verkið við Svein Sighvatsson í desember 2004 og hófst þá vinna við það.
    Gáma- og tækjaleiga Austurlands hóf vinnu við stofndýpkun á Grynnslunum í ágúst 2005. Verkinu var lokið í nóvember. Dýpkunarskipið Scandia fjarlægði um 55.000 m 3 efnis.
    Stálþilsbryggja sem áætluð var breyttist í Bátstangabryggju sem er trébryggja framan við netagerðina. Boðin var út í nóvember smíði á bryggjunni ásamt dýpkun með sprengingum framan við hana. Þrjú tilboð bárust í verkið og var samið við lægstbjóðanda, Svein Sighvatsson ehf., sem bauð 43,4 millj. kr. og var tilboðið 5% undir kostnaðaráætlun hönnuða. Timbur í bryggjuna var keypt frá Superbygg og boltar frá Ísól að undangengnu útboði. Framkvæmdir við verkið munu hefjast eftir áramót.
    Framkvæmdakostnaður: 79,3 millj. kr.
Vestmannaeyjar.
    Þekjusteypu við norður- og austurkant í Friðarhöfn var ekki lokið um áramótin 2004/2005 og féllu því nokkrir reikningar vegna þessa verks á árið 2005. Enn er eftir að ganga frá endanlegu uppgjöri við verktaka.
    Unnið var að raflögnum í norður- og austurkant. Eftir verðkönnun hjá þremur fyrirtækjum var samið við lægstbjóðanda, Watt ehf., í Vestmannaeyjum. Verkinu er að fullu lokið.
    Haldið var áfram dýpkun sem hófst árið 2004. Í desemberbyrjun það ár var gerður samningur við Sæþór ehf. um viðbótardýpkun fyrir 25,6 millj. kr. sem fól í sér að fjarlægðir voru 60.650 m 3 af efni. Auk dýpkunar Sæþórs ehf. fjarlægði dýpkunarskip Vestmannaeyjahafnar tæplega 6.360 m 3 frá Nausthamarsbrygggju, Löngu og Friðarhafnarbryggju.
    Unnið var að þekju og lögnum við vesturkant í Friðarhöfn. Verkið var boðið út í lok apríl og tilboð opnuð þann 19. maí 2005. Þrjú tilboð bárust. Gengið var til samninga við lægstbjóðanda, Steina og Olla ehf., sem buðu 48,4 millj. kr. er nam 76,4% af kostnaðaráætlun hönnuða. Verkið fólst í því að leggja ídráttarrör fyrir raflagnir og ganga frá jöfnunarlagi og steypa síðan 7.200 m 2 þekju. Einnig var skipt um undirlag á síðasta hluta þekjunnar og var það verk utan útboðs. Verkinu lauk fyrir áramót utan smávægilegra verka við frágang og lagfæringar. Lokauppgjör hefur ekki farið fram.
    Undirbúningur að endurbyggingu stálþils við Básaskersbryggju var hafinn. Áformað er að framkvæmdir hefjist vorið 2006. Hönnun stálþils er lokið og útboð efnis einnig. Framkvæmdir munu hefjast vorið 2006.
    Unnið var að úrbótum í öryggismálum hafnarinnar og veittur styrkur til þeirra framkvæmda af óskiptu fé til slysavarna.
    Framkvæmdakostnaður: 130,9 millj. kr.
Þorlákshöfn.
    Lokið uppgjöri vegna dýpkunar innsiglingar á síðasta ári.
    Stálþil norðan Svartaskers var boðið út um miðjan maí og tilboð opnuð hinn 9. júní. Alls bárust sex tilboð. Samið var við lægstbjóðanda, Gáma- og tækjaleigu Austurlands ehf., sem bauð 80,3 millj. kr. er nam 91,1% af kostnaðaráætlun hönnuða. Vinna við verkið hófst um miðjan október. Keypt var stálþil, 725 tonn, og festingaefni, 132 tonn, af Guðmundi Arasyni ehf.
    Unnið var að gerð grjótgarða á nokkrum stöðum á hafnarsvæði Þorlákshafnar. Vinnu við Austurgarð lauk á árinu 2005 og samið var við verktakann, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf., um byggingu þvergarðs á Svartaskersgarð sem skýlir innri hluta vesturhafnarinnar og enn fremur um mótun smábátahafnar innst í austurhöfn og sjóvörn við Malir. Lauk þessum verkum öllum í maílok 2005. Heildarmagn af kjarna og grjóti sem fór í þessar framkvæmdir var 259.500 m 3.
    Unnið var að undirbúningi að útboði dýpkunar í austur- og vesturhöfn.
    Framkvæmdakostnaður: 143,0 millj. kr.
Grindavík.
    Unnið var að endurbyggingu stálþils við Svíragarð samkvæmt samgönguáætlun. Dýpkunin var boðin út seinni hluta marsmánaðar og tilboð opnuð þann 5. apríl. Þrjú tilboð bárust og var gengið til samninga við lægstbjóðanda, Hagtak ehf., sem bauð 75,7 millj. kr. er nam 76,2% af kostnaðaráætlun. Verkið fólst í því að sprengja fyrir 173 stálþilsplötum (214 m), reka þær niður, steypa kant á þilið, koma fyrir stigum, þybbum og kanttré ásamt því að steypa upp þrjú ljósamasturshús. Verkinu lauk í lok nóvember.
    Í ársbyrjun 2005 var enn ólokið dýptarmælingu vegna dýpkunar við Svíragarð og vegna ótíðar varð bið á að hún kæmist í kring. Niðurstöður hennar voru að aftur þyrfti að fara yfir hluta svæðisins og lauk verktaki því á tilsettum tíma. Dýpkun við Svíragarð er lokið.
    Í desember 2004 var samið við Hagtak ehf. um viðbótardýpkun í smábátahöfn þar sem ný flotbryggja mun koma. Var dýpkað í –2,0 m á 2.300 m 2 svæði. Þessu verki er lokið.
    Dýpkað var vestan Miðgarðs. Upphaflega var gert ráð fyrir endurbyggingu Miðgarðsbryggju en áætlunum um það var breytt að ósk heimamanna og ákveðið að ráðast í framkvæmdir við nýja stálþilsbryggju vestan Miðgarðs. Dýpkun við hina væntanlegu bryggju var boðin út í febrúarbyrjun og tilboð opnuð 22. þ.m. Tvö tilboð bárust og var samið við lægstbjóðanda, Sæþór ehf., sem bauð 53,9 millj. kr. sem nam 77,8% af kostnaðaráætlun hönnuða. Verkinu lauk á árinu 2005.
    Undirbúningur vegna nýrrar stálþilsbryggju vestan Miðgarðs stendur yfir. Framkvæmdir munu hefjast vorið 2006.
    Framkvæmdakostnaður: 223,1 millj. kr.
Sandgerði.
    Þekjusteypa og lagnir við stálþil á Norðurgarði var boðið út í júní. Tvö tilboð bárust og var samið við lægstbjóðanda, Nesmúr ehf. í Sandgerði, sem bauð 12.631.250 kr. í verkið og var tilboðið 86% af kostnaðaráætlun. Í verkinu fólst að jafna undir og steypa 1.390 m 2 þekju og koma fyrir tengibrunnum. Verkið hófst í ágúst og var því að fullu lokið í október. Lokaúttekt hefur farið fram.
    Framkvæmdakostnaður: 16,2 millj. kr.

Hafnarframkvæmdir sem ekki voru ríkisstyrktar.

    Ekki bárust upplýsingar frá Faxaflóahöfnum og Hafnarfjarðarhöfn um hafnarframkvæmdir á þeirra vegum.
Kópavogur.
    Þekjusteypa og lagnir við stálþil á Norðurgarði var boðið út. Eitt tilboð barst og var því hafnað. Gengið var til samninga við Bræðratungu ehf. á grundvelli kostnaðaráætlunar og var samningsupphæðin 16,6 millj. kr. Verkið hófst í júní og var því að mestu lokið í október.
    Framkvæmdakostnaður: 20 millj. kr.

Ferjubryggjur.
    Unnið var að rannsóknum vegna ferjuhafnar á Bakkafjöru sem hugsanlegt er að byggð verði. Gerðar voru líkantilraunir í rannsóknarstöð Siglingastofnunar í Kópavogi og ýmiss konar athuganir og úrvinnsla á gögnum fór fram. Í febrúar birtist skýrsla um niðurstöður tilrauna og athugana.
    Unnið var að viðhaldi á ferjubryggjum við Ísafjarðardjúp. Á Bæjum á Snæfjallaströnd var m.a. steypt ofan á gamla kerið, gert við timburdekk milli búkka og sett ný fríholt. Á Reykjanesi var unnið við fríholt og settur nýr stigi. Í Vigur var unnið við stiga, fríholt og bauju.

Sjóvarnargarðar.
     Seltjarnarnes. Borgarvirki ehf. annaðist endurgerð og lengingu sjóvarnargarða við Tjarnarstíg, Steinavör og Nesvöll. Við Tjarnarstíg var grjóti í sjógarði endurraðað og garðurinn styrktur og lengdur um 65 m. Við Steinavör var lagður nýr garður 180 m langur. Við Nesvöll var lagður nýr sjóvarnargarður.
     Akranes. Lokið var framkvæmdum við sjóvarnargarða á Breiðinni, í Krókalóni og við Presthúsavör sem samið var um við Borgarvirki ehf. í desember 2004.
     Snæfellsbær. Lokið var við sjóvörn við verbúðir við Snoppuveg í Ólafsvík sem Stafnafell ehf. vann.
     Grundarfjarðarbær. Gerð var sjóvörn við Nýjubúð sem samið hafði verið um við Tígur ehf. árið áður.
     Vesturbyggð. Frestað var framkvæmdum við sjóvörn við Brunna.
     Ísafjarðarbær. Lokið var við sjóvörn í Hnífsdal. Um var að ræða alls 25 m langan garð í fjörunni við Stekkjargötu hjá húsi rækjustöðvarinnar. Í þetta fóru 530 m 3 efnis. Græðir ehf. á Flateyri annaðist verkið. Við mjölverksmiðjuna í Hnífsdal var grjóti í sjóvörn endurraðað og hún styrkt á um 60 m kafla. Í það voru notaðir um 750 m 3 efnis. Græðir ehf. sá um þetta verk. Grjótið var sótt í námu á Ísafirði. Tækniþjónusta Vestfjarða sá um eftirlit en Siglingastofnun hafði verkumsjón.
     Norðurfjörður. Byggð var 25 m löng sjóvörn við vesturenda verslunarhúsa Árneshrepps á Norðurfirði. Tígur ehf. vann þetta verk í september í framhaldi af dýpkun smábátahafnarinnar. Verkefnið var ekki á samgönguáætlun en ákveðið var að veita í það styrk af óskiptri fjárveitingu til sjóvarna.
     Broddaneshreppur. Sjóvörn við Óspakseyri var boðin út ásamt sjóvörn á Drangsnesi og Hólmavík í október 2004. Byrjað var á verkinu skömmu eftir áramótin 2005 og lauk því í byrjun febrúar 2006. Sjóvörnin er 95 m að lengd og er norðan og sunnan til á eyrinni. Efni í sjóvörnina, 575 m 3, var tekið úr vegskeringu um 3 km norðan Óspakseyrar.
     Blönduós. Til stóð að lengja sjóvörn norðan Blöndu í báða enda, alls um 258 m. Verkið var boðið út í september ásamt sjóvörnum í Skagafirði. Eitt tilboð barst, frá Víðimelsbræðrum ehf., og var samið við þá um framkvæmdina. Verkið var ekki hafið um áramót.
     Skagafjörður. Í byrjun október var samið við Víðimelsbræður ehf. um gerð sjóvarna í Skagafirði og á Blönduósi. Byrjað var á sjóvörn við Stakkgarðshólma hjá bænum Hrauni í Fljótum 21. október og var henni lokið skömmu fyrir jól. Gerð var tæplega 190 m löng sjóvörn og fóru í hana um 2.200 m 3 efnis. Um 1.700 m 3 af grjóti var tekið úr skriðu við Siglufjarðarveg í grennd við Kóngsnef en afgangurinn kom úr fjöru við Stakkgarðshólma og var það grjót sem bóndinn hafði flutt þangað á undanförnum árum. Byrjað var á gerð sjóvarnar við Haganesvík um miðjan desember en því verki lauk ekki á árinu.
     Dalvík. Haldið var áfram með sjóvarnargarð sunnan hafnar og alls flutt í hann 2.712 m 3. Sjóvarnargarðurinn er nú 453 m að lengd og er honum lokið. Grjót var sótt í námu í Ólafsfjarðarmúla og einnig var nýtt grjót sem féll til við aðrar framkvæmdir verktakans. Eftir er sjóvarnargarður við Brimnes sem áformað er að gera 2006.
     Sveitarfélagið Ölfus. Í Þorlákshöfn var unnið að sjóvörn við Malir. Op milli flóðvarnargarðs og sjóvarnargarðs við Malir var þrengt og garður lengdur um 50 m. Verkið var unnið af Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða.
     Sveitarfélagið Árborg. Boðin var út 2.100 m löng sjóvörn austan við Stokkseyri. Að útboðinu stóðu Siglingastofnun og Vegagerðin og skiptist kostnaður til helminga milli þessara stofnana. Alls bárust 5 tilboð í verkið. Samið var við lægstbjóðanda, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, sem bauð 29,6 millj. kr. eða 75% af kostnaðaráætlun. Framkvæmdir hófust seint á árinu 2005 og munu standa fram á árið 2006.
     Sandgerði. Sjóvarnir við Fuglavík og Norðurkot sem eru á sjóvarnaráætlun ársins 2005 verða boðnar út með öðrum sams konar framkvæmdum í Gerðahreppi og Vatnsleysustrandarhreppi á árinu 2006.
     Álftanes. Boðnar voru út sjóvarnir á Álftanesi, alls um 620 m. Þrjú tilboð bárust og samið var við lægstbjóðanda, Jarðvélar ehf., sem bauð 9,5 millj. kr. er nam 56% af kostnaðaráætlun hönnuða. Vinna að verkinu hófst um áramótin 2005/2006 og mun henni ljúka á fyrri hluta ársins 2006.

Tafla I. Kostnaður við hafnarframkvæmdir 2005 (fjárhæðir í millj. kr.).

Staður Verkefni Styrk-
hlutf.
Heildar-
kostn.

Styrk-
hæft

Ríkis-
hluti

I. Innan grunnnets
Af óskiptu fé til Vestmannaeyjar, öryggisbúnaður 60% 1,1 0,9 0,5
öryggismála Siglufjörður, öryggisbúnaður 100% 1,0 0,8 0,8
Leiðrétting v/2004 100% –0,2 –0,2 –0,2
Snæfellsbær Rif, norðurþil, staurakista rifin, stálþilsbr. við aðalhafnargarð 60% 4,5 3,6 2,2
Ólafsvík, endurbygging trébryggju 60% 40,5 32,5 19,5
Stigar á flotbryggjur (Ólafsvík 19, Rif 3 stk.) 60%
Ólafsvík, viðhaldsdýpkun í innsiglingu og höfn 60% 0,5 0,4 0,3
Rif, endurbygging trébryggju, lokafrágangur 75% 11,6 9,3 5,6
Rif, viðhaldsdýpkun í innsiglingu og höfn 75% 1,5 1,2 0,9
Grundarfjörður Öryggismál, stigar á flotbr., laga og setja ljós í stiga Stórubr. 60% 2,5 2,0 1,2
Dýpkun hafnar 75% 0,1 0,1
Ný bryggja sunnan Litlubryggju 60% 5,0 4,0 2,4
Stykkishólmur Stálþil næst brúarbás í Súgandisey, lagnir, lýsing og þekja 60%
Bolungarvík Dýpkun hafnar og innsiglingar 75% 57,8 46,4 34,8
Ísafjörður Ísafjörður, endurbyggja flotbryggju Sundahöfn 60% 0,1 0,1
Ísafjörður, endurbygging Ágeirsbakka 60% 44,6 35,8 21,5
Ísafjörður, hafnsögubátur 75% 72,6 58,3 43,7
Ísafjörður, ný flotbryggja Sundahöfn 60%
Ísafjörður, Sundahöfn, lagnir, lýsing og þekja 60% 24,0 19,3 11,6
Ísafjörður, dýpkun við Sundahöfn og viðhaldsdýpkun 75% 16,4 13,2 9,9
Ísafjörður, ferðamannabryggja, 1 flotholt og lenging 15 m 60%
Flateyri, malbik ofan á þekju á eldri hluta 60% 5,0 4,0 2,4
Skagaströnd Dýpka snúningssvæði 75% 37,5 30,1 22,6
Skagafjörður Grjótgarður innan Norðurgarðs, þvergarður 75%
Sandfangari, lenging um 30 m 75% 16,7 13,4 10,0
Uppsátur fyrir smábáta 60% 2,6 2,1 1,3
Smábátahöfn, trébryggja 60% 0,9 0,7 0,4
Siglufjörður Smábátahöfn, viðlegubryggja við vesturkant 60% 0,6 0,5 0,3
Styrking á grjótvörn norðan við Brjót 75% 6,0 4,8 3,6
Dýpkun við Óskarsbryggju 75% 0,4 0,3 0,2
SR-bryggja, kaup og niðurrif 60%
Hafnasamlag Ólafsfjörður, togarabryggja, 40 m stálþil 60% 17,4 14,0 8,4
Eyjafjarðar Ólafsfjörður, upptökubraut 60% 0,7 0,6 0,4
Dalvík, dýpkun smábátahafnar 75% 8,6 6,9 5,2
Hafnasamlag Akureyri, stálþil við Krossanes 2. áfangi 60% 25,8 20,7 12,4
Norðurlands Akureyri, upptökubraut Sandgerðisbraut 60% 1,6 1,3 0,8
Akureyri, Tangabryggja 60% 38,2 30,7 18,4
Húsavík Brimvarnargarður við Böku 75% 1,4 1,1 0,8
Bökugarður stálþil 60% 68,7 55,2 33,1
Raufarhöfn Frágangur vegna niðurrifs grjóthleðslu við hótel 60%
Þórshöfn Stálþil (95 m dýpi 8 m, 40 m dýpi 6 m) 60% 3,5 2,8 1,7
Smábátaaðstaða, færa núverandi flotbryggju og ný eining 60% 0,2 0,2 0,1
Endurbygging löndunarbryggju, stálþil og trébryggja 60% 54,2 43,5 26,1
Lenging Norðurgarðs 75%
Vopnafjörður Dýpkun við vesturenda Löndunarbryggju, sprengt og grafið 75% 2,5 2,0 1,5
Bryggjurif, rífa Lýsisbryggju 60% 0,1 0,1 0,1
Miðbryggja-Löndunarbryggja, stálþil 60% 53,5 43,0 25,8
Dýpkað í 9 m að Miðbryggju eftir endurbyggingu og stækkun 75% 35,2 28,3 21,2
Seyðisfjörður Sérbúnaður v. ferjulægi, þjónustuhús, landgangur, bílabrú o.fl. 75% 0,9 0,7 0,6
Bæjarbryggja endurbygging 60% 21,3 17,1 10,3
Löndunarbryggja við SR-mjöl endurbygging 60% 27,6 22,2 13,3
Smábátahöfn lagnir lýsing 60%
Fjarðabyggð Reyðarfjörður, stálþilsbakki við Hraun 60% 208,0 167,1 100,3
Eskifjörður, stálþil við bræðslu 80 m, dýpi 9 m, lagnir og þekja 60% 42,6 34,2 20,5
Neskaupstaður, skjólgarður norðan hafnar 75% 19,2 15,4 11,5
Reyðarfjörður, dýpkun við stálþilsbakka Hrauni 75% 11,0 8,8 6,6
Neskaupstaður, dýpkun stálþil togarabryggju 75% 12,2 9,8 7,4
Neskaupstaður, stálþil togarabryggju lengt 60% 47,6 38,2 22,9
Reyðarfjörður, hafnsögubátur fyrir Stóriðjuhöfn 75% 1,6 1,3 1,0
Austurbyggð Dýpkun við Bæjar-, Hafskipa- og Fiskeyrarbryggju 75% 4,5 3,6 2,7
Djúpivogur Trébryggja smábátahöfn 60% 1,9 1,5 0,9
Hornafjörður Viðhaldsdýpkun 75% 0,4 0,3 0,2
Grynnslin, stofndýpkun/viðhaldsdýpkun 75% 17,9 14,4 10,8
Endurbygging Krosseyjarbakka 60% 51,8 41,6 24,9
Bátstangabryggja, staurabryggja 60% 1,9 1,5 0,9
Stofndýpkun innan hafnar 75% 7,3 5,9 4,4
Vestmannaeyjar Friðarhöfn, norður/austurkantur, endurbyggja stálþil 60% 7,8 6,3 3,8
Dýpkun hafnar 75% 54,7 43,9 32,9
Friðarhöfn, stálþil vesturkantur 60% 66,4 53,3 32,0
Friðarhöfn, stálþil Ískantur/Suðurkantur 60% 0,9 0,7 0,4
Básaskersbryggja endurbygging 60% 1,1 0,9 0,5
Þorlákshöfn Austurgarður 75% 15,9 12,8 9,6
Dýpkun innsiglingar 75% 0,1 0,1 0,1
Dýpkun í austur og vesturhöfn 75% 1,1 0,9 0,7
Skjólgarður fyrir smábáta í austurhöfn 75% 9,3 7,5 5,6
Svartaskersgarður, þvergarður 75% 17,9 14,4 10,8
Þil norðan Svartaskers 60% 98,7 79,3 47,6
Grindavík Svíragarður, endurbygging 60% 140,1 112,5 67,5
Dýpkun hafnar við Svíragarð 75% 25,1 20,2 15,2
Ytri-bauja 75%
Dýpkun vestan Miðgarðs 75% 57,5 46,2 34,7
Stálþilsbryggja vestan Miðgarðs 60% 0,4 0,3 0,2
Sandgerði Stálþil Norðurgarði lagnir þekja 60% 16,2 13,0 7,8
Alls innan grunnnets 1.655,8 1.329,9 860,1
II. Utan grunnnets
Af óskiptu fé til Hvammstangi, öryggisbúnaður 60% 0,2 0,2 0,1
öryggismála Breiðdalshreppur, öryggisbúnaður 60% 0,9 0,7 0,4
Snæfellsbær Arnarstapi, uppsátur fyrir smábáta endurbyggt 60%
Arnarstapi, ljósamasturs- og vatnshús 60% 3,0 2,4 1,4
Reykhólar Dýpkun innsiglingar 75% 1,1 0,9 0,7
Vesturbyggð Bíldudalur, kalkþörungahöfn 60% 49,9 40,1 24,1
Bíldudalur, dýpkun við þil 75% 0,5 0,4 0,4
Súðavík Endurbygging, þekja Norðurgarði 60% 10,5 8,4 5,0
Norðurfjörður Dýpka í –2 metra í smábátahöfn 75% 2,2 1,8 1,3
Drangsnes Uppsátur fyrir smábáta 60% 1,5 1,2 0,7
Hvammstangi Endurbygging Suðurbryggju 60% 6,2 5,0 3,0
Skagafjörður Hofsós, flotbryggja út frá Árgarði 60%
Hofsós, uppsátur fyrir smábáta 60% 3,0 2,4 1,5
Haganesvík, viðhaldsdýpkun 75% 0,5 0,4 0,3
Grímsey Styrking grjótvarnar á hafnargarði, grjót úr landi 75% 0,1 0,1 0,1
Hafnasamlag Grenivík, uppsátur fyrir smábáta 60% 0,1 0,1 0,1
Norðurlands
Öxafjarðarhreppur Viðlegubryggja fyrir smábáta 60% 5,1 4,1 2,4
Smábátaaðstaða, dýpkun vegna flotbryggju 75% 1,0 0,8 0,6
Bakkafjörður Landrafmagn á flotbryggju og uppsátur 60% 1,1 0,9 0,5
Námufrágangur 60% 1,5 1,2 0,7
Löndunarbryggja frágangur og uppgjör 60% 0,9 0,7 0,4
Borgarfjörður eystri Lenging Nýjubryggju 60% 3,0 2,4 1,4
Fjarðabyggð Mjóifjörður, styrkja og endurbyggja trébryggju 60%
Austurbyggð Stöðvarfjörður, klæðning gömlu bryggju 60% 0,1 0,1 0,1
Bakkafjara Bakkafjara ferjulægi 100% 5,5 4,4 4,4
Alls utan grunnnets 97,9 78,7 49,6

III. Ferjubryggjur
Skáleyjar, ferjubryggja 100% 0,1 0,1 0,1
Staður, ferjubryggja 100% 0,1 0,1 0,1
Vigur, ferjubryggja 100% 0,6 0,5 0,5
Ögur, ferjubryggja 100% 0,9 0,7 0,7
Flatey, ferjubryggja 100%
Reykjanes, ferjubryggja 100% 2,1 1,7 1,7
Æðey, ferjubryggja 100% 0,1 0,1 0,1
Bæir, ferjubryggja 100% 3,6 2,9 2,9
Mjóifjörður, ferjubryggja 100% 0,2 0,2 0,2
Alls ferjubryggjur 7,7 6,3 6,3
IV. Lendingarbætur
Lendingarbætur óskipt 100% 1,1 0,9 0,9
Legufæri við Galtarvita 100% 0,1 0,1 0,1
Höfðaströnd, Ísafjarðarbæ 100% 0,5 0,4 0,4
Gjögur, Karlshöfn 100% 1,0 0,8 0,8
Kolbeinsá Bæjarhreppi 100% 0,5 0,4 0,4
Broddanes 100% 0,6 0,5 0,5
Reykir 100% 1,4 1,1 1,1
Lagarfljót lendingarbætur 100% 1,4 1,1 1,1
Alls lendingarbætur 6,6 5,3 5,3


Tafla II. Kostnaður við sjóvarnir 2005 (millj. kr.).

Heildarkostnaður Ríkishluti
Innri-Akraneshreppur 0,1 0,1
Akranes 14,7 12,8
Snæfellsbær 5,7 5,0
Grundarfjörður 3,4 3,0
Vesturbyggð 8,6 7,5
Ísafjarðarbær 5,1 4,5
Norðurfjörður 0,5 0,5
Hólmavíkurhreppur 0,2 0,2
Broddaneshreppur 1,8 1,6
Bæjarhreppur 0,1 0,1
Blönduós 0,4 0,4
Skagafjörður 8,0 7,0
Dalvíkurbyggð 3,9 3,4
Borgarfjörður eystri 0,2 0,1
Ölfus 0,2 0,1
Árborg 1,3 1,1
Reykjanesbær 0,1 0,1
Sandgerði 0,4 0,4
Gerðahreppur 0,2 0,2
Vatnsleysustrandarhreppur 0,3 0,2
Álftanes 1,4 1,2
Seltjarnarnes 13,2 11,6
Óskipt 0,6 0,6
Samtals 70,3 61,6

Tafla III. Staða ríkissjóðs vegna hafnargerðar 2005 (millj. kr.).

Staða ríkissjóðs
í árslok 2004     
Ríkishluti
framkvæmda
Tilfærsla og úthlutun skv. samgönguáætlun Flutt til
Höfn Vantar Ónotað 2005 2005 2006
Akranes 30,3 0,0 –30,3 0,0
Borgarnes 0,6 0,0 0,0 0,6 0,0
Snæfellsbær 12,2 29,9 21,0 3,3
Grundarfjörður 10,6 3,6 20,2 27,2
Stykkishólmur 16,7 0,0 –4,9 11,8
Búðardalur 1,5 0,0 0,2 1,7
Reykhólahöfn 0,4 0,7 7,0 6,7
Vesturbyggð 32,7 24,5 23,4 31,6
Tálknafjörður 0,2 0,0 0,8 1,0
Bolungarvík 34,8 34,8 25,6 25,6
Ísafjarðarbær 55,6 89,1 67,6 34,1
Súðavík 2,0 5,0 7,0 0,0
Norðurfjörður 0,4 1,3 1,9 0,2
Drangsnes 0,8 0,7 0,5 0,6
Hólmavík 3,3 0,0 0,1 3,4
Húnaþing vestra 0,1 3,0 2,9 0,0
Blönduós 0,9 0,0 –0,1 0,9
Skagaströnd 0,6 22,6 67,5 44,3
Skagafjörður 0,9 13,5 22,4 9,8
Siglufjörður 10,3 4,1 23,0 29,2
Hafnasamlag Eyjafjarðar 51,0 14,0 0,0 37,0
Grímsey 8,7 0,1 0,0 8,6
Hafnasamlag Norðurlands 23,9 31,7 66,4 58,6
Húsavík 30,8 33,9 29,6 26,5
Kópasker 2,4 3,0 1,3 0,7
Raufarhöfn 21,7 0,0 –11,7 10,0
Þórshöfn 45,9 27,9 9,4 27,4
Bakkafjörður 0,4 1,7 4,0 1,9
Vopnafjörður 29,0 48,6 32,5 12,9
Borgarfjörður eystri 0,0 1,4 4,6 3,2
Seyðisfjörður 21,0 24,2 37,2 34,0
Fjarðabyggð 104,2 170,2 90,0 24,0
Austurbyggð 1,5 2,7 6,7
Breiðdalsvík 0,8 0,0 0,0 0,8
Djúpivogur 20,8 0,9 0,0 19,9
Hornafjarðarbær 56,1 41,2 46,3 61,2
Vestmannaeyjar 108,4 69,6 42,3 81,1
Bakkafjara – ferjulægi 0,0 4,4 10,0 5,6
Eyrarbakki 1,0 0,0 –1,1 –0,1
Þorlákshöfn 1,8 74,3 174,0 101,5
Grindavík 52,2 117,6 166,8 101,4
Sandgerði 1,9 7,8 23,6 13,9
Reykjaneshöfn 1,7 0,0 0,3 2,0
Óskipt til viðhaldsdýpkana/skjólgarða 0,0 0,0 35,9 35,9
Óskipt til slysavarna 21,8 1,6 0,0 20,2
Lendingarbætur 3,9 5,3 6,3 4,9
Ferjubryggjur 11,4 6,3 8,5 13,6
Samtals 7,4 829,6 921,3 1.039,4 937,8

Tafla IV. Fjárveitingar til hafnarframkvæmda 2005 (millj. kr.).

Hafnir í grunnneti samgangna 946,8
Hafnir utan grunnnets samgangna 77,8
Lendingarbætur 6,3
Ferjubryggjur 8,5
Samtals 1.039,4

Tafla V. Fjárveitingar til sjóvarna 2005.

Sjóvarnargarðar (fjárlagaliður 10-335)
Snæfellsbær 3.100.000
Vesturbyggð 3.200.000
Ísafjarðarbær 4.700.000
Árneshreppur 800.000
Kaldrananeshreppur 400.000
Hólmavíkurhreppur 100.000
Blönduósbær 10.800.000
Höfðahreppur 1.000.000
Skagafjörður 15.100.000
Siglufjörður 300.000
Ólafsfjörður 5.000.000
Grímsey 500.000
Svalbarðsstrandarhreppur 4.000.000
Árborg 17.000.000
Ölfus 7.400.000
Sandgerði 5.300.000
Gerðahreppur 500.000
Vatnsleysustrandarhreppur 300.000
Álftanes 16.500.000
Seltjarnarnes 10.600.000
Samtals 106.600.000

Tafla VI. Úthlutanir Hafnabótasjóðs 2005.

Styrkir
Styrkir til nýframkvæmda
Grundarfjörður 7.470.000
Dalabyggð 530.000
Reykhólar 1.440.000
Vesturbyggð 6.530.000
Tálknafjörður 260.000
Bolungarvík 5.100.000
Súðavík 1.400.000
Norðurfjörður 290.000
Drangsnes 100.000
Hólmavík 650.000
Húnaþing vestra 750.000
Skagaströnd 15.510.000
Kópasker 800.000
Raufarhöfn 2.070.000
Þórshöfn 4.560.000
Bakkafjörður 860.000
Vopnafjörður 9.960.000
Borgarfjörður eystri 1.150.000
Seyðisfjörður 8.820.000
Sandgerði 5.520.000
Styrkir alls 73.770.000
Lán
Engin lán voru veitt á árinu