Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 503. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1398  —  503. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Frá minni hluta samgöngunefndar.    Þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir fjalla margar um aukið umferðaröryggi og er minni hlutinn sammála þeim flestum og telur þær skref í rétta átt, margar hverjar löngu tímabærar.
    Í 9. gr. frumvarpsins er hins vegar byggt undir heimildir Vegagerðarinnar til að viðhafa aukið eftirlit með ökutækjum o.fl. Lagt er til að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði veitt aukið vald til að stöðva akstur farmflutninga- og hópbifreiða, banna frekari för þeirra og krefjast upplýsinga og gagna, án aðkomu lögreglunnar, og kalla til lögreglu til frekari úrvinnslu málsins síðar.
    Minni hlutinn er á móti þessum auknu heimildum Vegagerðarinnar og tvöfalda flókna kerfi sem hér er verið að auka og festa í sessi. Þetta kerfi mun verða flókið og þunglamalegt í framkvæmd. Minni hlutinn telur frekar þörf á að einfalda kerfið og gera það skilvirkara.
    Bæði í umsögnum um frumvarpið og hjá gestum sem komu á fundi nefndarinnar voru gerðar verulegar athugasemdir við það fyrirkomulag sem 9. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir. Jafnframt bárust nefndinni undirskriftalistar frá aðilum í verktaka- og þungaflutningastarfsemi þar sem breytingunum er mótmælt.
    Í störfum nefndarinnar kom fram að fram undan er heildarendurskoðun á umferðarlögum. Minni hlutinn leggur mikla áherslu á að við þá endurskoðun verði þessi mál skoðuð afar vel. Tryggt verði að umferðareftirlit á vegum landsins verði einfaldað og dregið úr hinu tvöfalda eftirliti sem nú ríkir og verið er að auka með samþykkt 9. gr. frumvarpsins.
    Fram til þess tíma að heildarendurskoðun laganna fer fram leggur minni hlutinn áherslu á að ríkislögreglustjóri og Vegagerðin hafi mikla og góða samvinnu um umferðareftirlit á vegum landsins. Horft verði til þess fyrirkomulags sem áður gilti í þeim efnum.
    Einnig er í frumvarpinu lögð til 100% hækkun á umferðaröryggisgjaldi. Minni hlutinn telur að skattheimta ríkissjóðs á bifreiðaeigendum sé þegar allt of mikil og leggst því enn fremur gegn þessari auknu skattheimtu ríkisstjórnarinnar á bifreiðaeigendur.

Alþingi, 2. júní 2006.Kristján L. Möller,


frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Guðjón A. Kristjánsson