Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 668. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1399  —  668. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um landmælingar og grunnkortagerð.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Svavarsson og Örn Sigurðsson frá Eddu útgáfu hf., Ólaf Arnalds frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Örn Ingólfsson frá Loftmyndum ehf., Huga Ólafsson, Ingibjörgu Halldórsdóttur og Magnús Jóhannesson frá umhverfisráðuneyti og Svavar Sigmundsson frá Örnefnastofnun. Auk þess bárust nefndinni umsagnir um málið.
    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem umhverfisráðherra skipaði 11. október 2004 og var falið það hlutverk að endurskoða gildandi lög um landmælingar og kortagerð.
    Mikil þróun hefur orðið í tækni á sviði landupplýsinga á undanförnum árum og hefur starfsemi einkaaðila á þessu sviði vaxið ört. Með frumvarpi þessu er hlutverk Landmælinga Íslands skilgreint ítarlegar en í gildandi lögum og gert ráð fyrir því að stofnunin dragi sig út úr rekstri sem nú er í samkeppni við aðila á almennum markaði. Mun stofnunin hins vegar áfram sinna verkefnum sem óvíst er að einkaaðilar ráðist í að sinna en þó geta einkaaðilar komið að slíkum grunnverkefnum í heild eða að hluta.
     Í 4. tölul. 4. gr. frumvarpsins er skilgreint það verkefni við grunnkortagerð sem Landmælingum Íslands er ætlað að sjá um, þ.e. gerð, viðhald og miðlun tiltekinna stafrænna þekja í mælikvarðanum 1:50.000. Þetta eru upplýsingar (þekjur) á stafrænu formi um vatnafar, yfirborð, vegi og samgöngur, mannvirki, örnefni, stjórnsýslumörk og hæðarlínur. Markmið þessa er að tryggja að tiltekin stafræn gögn af öllu landinu séu ávallt til og þeim viðhaldið.     
    Til umfjöllunar í þinginu er frumvarp forsætisráðherra um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996. Stefnumörkun þess frumvarps byggist á hóflegri verðlagningu opinberra upplýsinga. Skal því almennt ekki taka gjald fyrir söfnun eða framleiðslu gagna sem aflað er í opinberum tilgangi af stjórnvöldum. Af þessari stefnumörkun leiðir að hið opinbera taki almennt ekki sérstaka þóknun fyrir endurnot á upplýsingum sem hið opinbera á höfundarétt að eða rétt skv. 50. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Hins vegar eru í gildi sérlög og reglugerðir sem kveða á um rýmri heimildir einstakra stofnana til gjaldtöku fyrir aðgang að opinberum skrám. Framangreindu frumvarpi er ekki ætlað að hnekkja þeim reglum. Auk Landmælinga Íslands má nefna Fasteignamat ríkisins og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Nefndin leggur áherslu á að þegar fram líða stundir verði gögn Landmælinga Íslands öllum aðgengileg án sérstakrar greiðslu eða heimildar til samræmis við frumvarp forsætisráðherra. Gögn stofnunarinnar muni því teljast til almannaeignar (e. public domain).
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar að við skilgreiningar í 2. gr. frumvarpsins bætist skilgreining á hugtakinu „örnefni“. Er þessi tillaga í samræmi við athugasemdir forstöðumanns Örnefnastofnunar. Þá leggur nefndin til að í d-lið 4. tölul. 4. gr. verði heiti Örnefnastofnunar breytt í „Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum“ í samræmi við frumvarp menntamálaráðherra (331. mál) sem er til meðferðar í þinginu og breytingu menntamálanefndar á því (á þingskjali 1147).
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 2. gr. bætist ný skilgreining, svohljóðandi: Örnefni: Nafn, orð eða orðasamband, á landfræðilegum punkti, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar innan ákveðins samfélags; lands, héraðs, sveitabæjar, þéttbýlisstaðar, húss, götu, torgs, vegar, fjalls, dals, stöðuvatns, fjarðar, hafsvæðis, skers, miðs o.s.frv.
     2.      Við 4. gr. Í stað orðanna „Örnefnastofnun Íslands“ í d-lið 4. tölul. komi: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

    Ásta R. Jóhannesdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason skrifa undir álit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að gera breytingartillögur.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2006.Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Kristinn H. Gunnarsson.Gunnar Örlygsson.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.