Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 732. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1404  —  732. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti. Þá barst nefndinni umsögn frá Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins frá 24. nóvember 2005 í máli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn íslenskum stjórnvöldum vegna ákvörðunar ESA frá 25. febrúar 2005 um að íslensk lagaákvæði um skattahagræði sem alþjóðleg viðskiptafélög njóta samræmist ekki reglum EES-samningsins. Samkvæmt frumvarpinu verða skattaívilnanir til alþjóðlegra viðskiptafélaga afnumdar nema að því leyti að heimilt verður að veita aðstoð að fjárhæð 100.000 evrur til slíkra félaga á hverju þriggja ára tímabili, eða sem svarar til um 8,5 millj. kr. á núverandi gengi. Lögfesting slíkrar reglu felur í sér nokkra takmörkun á því skattahagræði sem þessi félög hefðu annars notið til ársloka 2007.
    Nefndin leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til, í samræmi við reglugerð framkvæmdastjórnar ESB, nr. 69/2001, um de minimis ríkisaðstoð, að kveðið verði skýrt á um að hvers konar önnur ríkisaðstoð sem alþjóðlegt viðskiptafélag kann hugsanlega að hafa notið komi til viðbótar þegar metið er hvort mismunur á skattgreiðslum viðkomandi félags fari yfir fjárhæð sem samsvarar 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili. Er þessi breyting lögð til vegna athugasemda sem bárust frá ESA eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Í öðru lagi er lagt til að fella brott 2. mgr. 1., 2. og 3. gr. frumvarpsins, enda fellst nefndin ekki á að lög geti verið afturvirk. Með slíkri lagasetningu væri vegið að grundvelli réttarríkisins, þ.e. þeirri grundvallarhugsun að borgarinn geti treyst lögum sem eru í gildi á hverjum tíma og starfað samkvæmt þeim. Lög um alþjóðleg viðskiptafélög voru sett til að hvetja fjárfesta til að stofna félög og starfa í íslensku lagaumhverfi. Nefndin bendir á að ekki gengur að ráðstafanir sem menn voru hvattir til að gera með lögum séu gerðar ólögmætar með afturvirkum hætti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Guðjón Ólafur Jónsson.Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Guðjón Hjörleifsson.Ögmundur Jónasson.


Lúðvík Bergvinsson.