Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1406  —  387. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um stofnun Matvælarannsókna hf.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Árnason frá forsætisráðuneyti, Hinrik Greipsson og Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneyti, Þorstein Tómasson frá landbúnaðarráðuneyti og Sjöfn Sigurgísladóttur frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Hallgrím Jónasson frá Iðntæknistofnun, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Magnús Guðmundsson frá Matvælarannsóknum Keldnaholti, Davíð Egilsson, Elínu Guðmundsdóttur og Viggó Marteinsson frá Umhverfisstofnun, Sigurð Örn Hansson frá Matvælaráði, Guðjón Gunnarsson og Svein Víking Árnason frá starfsmannaráði Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Ingu Þórsdóttur frá Rannsóknastofu í næringarfræði, Ágústu Guðmundsdóttur og Tryggva Þórhallsson frá Háskóla Íslands, Benedikt Sigurðarson og Halldór Jóhannsson frá KEA og Snorra Þórisson og Kristinn Bjarnason frá Rannsóknarþjónustunni Sýni ehf.
    Umsagnir og erindi bárust frá heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Fiskistofu, raunvísindadeild Háskóla Íslands, Rannsóknarþjónustunni Sýni ehf., Landbúnaðarstofnun, Matvælarannsóknum Keldnaholti, Bændasamtökum Íslands, heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, tækninefnd Vísinda- og tækniráðs, Iðntæknistofnun, Viðskiptaráði Íslands, starfsmannaráði Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Samtökum iðnaðarins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum atvinnulífsins, Háskólanum á Akureyri, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Lýðheilsustöð, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Háskóla Íslands, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Rannsóknaþjónustunni ProMat ehf., Landssambandi íslenskra útvegsmanna, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Umhverfisstofnun, Háskólanum á Akureyri, vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, talsmanni neytenda og forsætisráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði einkahlutafélag í eigu ríkisins um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og Matvælarannsókna Keldnaholti, sem jafnframt verði lagðar niður. Hlutverk félagsins verði að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis og sinna fræðslu á sviði matvælarannsókna.
    Á fundum ræddi nefndin um verksvið núverandi stofnana og tillögur frumvarpsins um stofnun einkahlutafélags um rekstur þeirra. Kom fram að matvælarannsóknir eru afar mikilvægar fyrir íslenskt atvinnulíf og að mikilvægt er að stórefla þær. Kom fram að þessi kostur hefði verið lengi í umræðunni en með sameiningunni er komið á fót stórri rannsóknareiningu í einu öflugu fyrirtæki sem byggt er á styrk þeirra stofnana sem lagðar verða niður og hefur sameinuð meiri burði til rannsókna en hver um sig áður. Telur meiri hlutinn að í því felist miklir möguleikar til að efla matvælarannsóknir hér á landi og telur það nauðsynlegt þegar litið er til öryggis matvæla og mikilvægis þeirra fyrir neytendur. Þá er matvælaframleiðsla, beint eða óbeint, langumsvifamesta svið íslensks atvinnulífs og vinnumarkaðar og öflugar rannsóknir því grundvallaratriði í samkeppnishæfi þess í evrópsku samhengi.
    Kom fram á fundum að það væri stefna á alþjóðavísu, m.a. innan ESB, að skilja rannsóknir á matvælum frá eftirliti með slíkri framleiðslu. Samkvæmt frumvarpinu eiga Matvælarannsóknir hf. ekki að sinna neinu opinberu eftirliti heldur verður það hjá Fiskistofu, Umhverfisstofnun, landbúnaðarstofnun og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga.
    Þá ræddi nefndin hlutverk félagsins sem er tvíþætt, þ.e. annars vegar er þróunarhluti og hins vegar öryggishluti, svonefndur vöktunar- og mælingarhluti. Kom fram að stofnanirnar hafa verið að draga sig út úr vöktun- og mælingum síðustu ár og að vöxtur sjálfstæðra aðila í þeirri grein hefði verið talsverður. Kom fram á fundum að ætlunin væri ekki að félagið mundi auka þá starfsemi en jafnframt að það væri mikilvægt að halda ákveðinni þekkingu hér til þess að geta tekist á við fjölbreytileg verkefni sem varða öryggi matvæla og ná að skipa Íslendingum á bekk meðal matvælaþjóða.
    Þá var því sjónarmiði hreyft fyrir nefndinni að þetta tvíþætta hlutverk gæti haft áhrif á samkeppnisstöðu félagsins gagnvart öðrum fyrirtækjum þar sem það væri háð ríkisframlögum að hluta en þyrfti að fjármagna þróunarhluta verkefnanna. Leggur meiri hlutinn áherslu á að samkeppnislög gilda um starfsemi hlutafélagsins eins og önnur fyrirtæki á markaði. Þá kom fram á fundum að stjórnvöld mundu tryggja með sérstökum samningi að öryggismælingar sem fara fram hjá hlutafélaginu stofnuðu ekki hlutleysi eða trúverðugleika þess í hættu og telur nefndin það sérstaklega mikilvægt í alþjóðlegu tilliti.
    Nefndin ræddi hlutverk stjórnar félagsins og kom fram að meðal verkefna nýrrar stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins verði að skilgreina nánar framtíðarstefnu félagsins, hlutverk þess til framtíðar við prófanir, skilgreina þau verkefni á sviði matvælarannsókna sem brýnt er að félagið sinni, útfæra og efla samstarf við aðra rannsóknaraðila, háskólastofnanir og atvinnulíf, huga að framtíðaruppbyggingu starfseminnar og húsnæðismálum og tryggja fjárhagslegan grundvöll starfseminnar til framtíðar. Meiri hlutinn telur að í sameiningunni felist tækifæri til að styrkja nýsköpun og tengja saman háskólann og atvinnulífið.
    Þá kom fram að við undirbúning breytinganna sem lagðar eru til í frumvarpinu hefði verið unnið með starfsmönnum stofnana og telur nefndin rétt að taka fram að staða starfsmanna við breytingar er tryggð samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og samkvæmt lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Þá er ákvæði í frumvarpinu um að öllum starfsmönnum stofnananna skuli boðin störf hjá hlutafélaginu.
    Athygli nefndarinnar var vakin á því að stofnanirnar hafa fengið mótframlag vegna umsókna um styrki á fjárlögum. Meiri hlutinn telur að það verði eitt af verkefnum nýrrar stjórnar í samvinnu við forsætisráðuneytið að finna örugga leið til að tryggja mótframlög.
    Þá ræddi nefndin um stöðu Tækjasjóðs. Hlutverk sjóðsins er að veita rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði til rannsókna. Við úthlutun úr sjóðnum skal taka mið af úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs á hverjum tíma. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 3/2003, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, geta eingöngu stofnanir sótt um styrk til að endurnýja tæki til rannsókna en ekki fyrirtæki, óháð því hvernig eignarhaldi er háttað. Telur meiri hlutinn mikilvægt þegar litið er til öryggis rannsókna að ráðuneytið kanni hvernig unnt er að stuðla að endurnýjun tækja og komi til móts við það.
    Jafnframt ræddi nefndin að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að vegna aðgengis að gögnum, gagnaskilaskyldu og öryggisþjónustu er gert ráð fyrir að samhliða frumvarpinu leggi umhverfisráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/1995, um matvæli, en af því varð ekki. Með yfirfærslu á rannsóknum stofnunarinnar til Matvælarannsókna hf. hefur stofnunin ekki beinan aðgang að gögnum um matvælarannsóknir á vegum heilbrigðiseftirlits í landinu. Tryggja þarf skil til stofnunarinnar á slíkum gögnum eigi hún að geta sinnt hlutverki sínu, svo sem við öryggisþjónustu, og gripið til ráðstafana þegar matarsýkingar koma upp. Telur meiri hlutinn nauðsynlegt að tryggja að Umhverfisstofnun hafi ávallt undir höndum upplýsingar um niðurstöður úr sýnatökum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna þegar afskiptum Umhverfisstofnunar af rannsóknum lýkur og leggur nefndin því til breytingu á lögum um matvæli til að tryggja það.
    Þá var því sjónarmiði hreyft fyrir nefndinni að breytingarnar sem verða við að stofna hlutafélag á grunni stofnananna verði til þess að breyta aðgangi þriðja aðila að gögnum, þar sem lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda gilda ekki um félagið. Telur meiri hlutinn þegar litið er til þess að stjórnvöld eru stærsti kaupandi og samningsaðili rannsókna á þessu sviði og að upplýsingarnar verða hjá stjórnvöldum, án tillits til þess hver sér um að framkvæma þær, að engin breyting verði á aðgangi þriðja aðila að gögnum á þessu sviði á grundvelli upplýsingalaga.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar sem varða m.a. gildistöku frumvarpsins og hvenær félagið skuli hefja rekstur og telur að með því gefist rýmri tími til undirbúnings stofnunar félagsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Guðrún Ögmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2006.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.Birgir Ármannsson.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.Sigríður Ingvarsdóttir.