Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 694. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1408  —  694. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Landhelgisgæslu Íslands.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Kristínu Helgu Markúsdóttur frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Georg Lárusson og Dagmar Sigurðardóttur frá Landhelgisgæslu Íslands, Guðmund H. Guðmundsson frá launaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Jakob Ólafsson, Jóhannes Bjarna Guðmundsson, Halldór Þ. Sigurðsson, Kjartan Norðdahl og Sigurð Wiium frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og Davíð Egilson og Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun.
    Umsagnir um málið bárust frá Hafrannsóknastofnuninni, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Læknafélagi Íslands, Flugmálastjórn, ríkislögreglustjóra, Siglingastofnun ríkisins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna, Landssambandi lögreglumanna, Flugvirkjafélagi Íslands, Umhverfisstofnun og tollstjóranum í Reykjavík.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um ríkisstofnunina Landhelgisgæslu Íslands og er markmiðið með því að skapa nýja umgjörð um starfsemina og tilgreina þau verkefni sem hún sinnir í lögum ásamt því að heimila stofnuninni að gera þjónustusamninga um lögbundin verkefni og semja um að taka að sér ólögbundin verkefni.
    Á fundum sínum ræddi nefndin fjölþætt hlutverk Landhelgisgæslunnar. Þá ræddi nefndin þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og varða starfsmannamál. Kom fram að Landhelgisgæslan stæði nú frammi fyrir breyttum aðstæðum með endurnýjun skipa- og flugflota, auk annarra aðstæðna sem kalla á að sveigjanleiki hennar sé sá sami og stofnana ríkisins almennt. Kom fram það sjónarmið að tenging sú við kjarasamninga stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði sem nú kemur fram í 10. gr. gildandi laga hefði á undanförnum árum valdið erfiðleikum við að ná fram skipulagsbreytingum og hagræðingu hjá Landhelgisgæslunni til jafns við forsendur launabreytinga á almennum markaði. Á móti þessu sjónarmiði kom fram að launatengingar fyrir ákveðnar stéttir í lögum tryggðu viðunandi starfsöryggi og þannig væri jafnframt stuðlað að því að starfsemi stofnunarinnar stæðist gæðakröfur í alþjóðlegum samanburði.
    Engin lagaákvæði er að finna um launatengingu þeirra hópa ríkisstarfsmanna sem óheimilt er að gera verkfall, fyrir utan almenn viðmið sem finna má í lögum um kjaranefnd og Kjaradóm. Í kjarasamningum þeirra sem óheimilt er að gera verkfall eru oft einhvers konar ákvæði um samanburð á launaþróun annarra hópa hjá ríki. Þau hafa þó orðið vægari með tímanum og ákvæði um úrskurðaraðila eru horfin. Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að það sé óeðlilegt að annar samningsaðila, ríkið, verði bundið af því sem hefur verið samið um af þriðja aðila. Sérstaklega þegar horft er til þeirrar reynslu sem fengist hefur af ákvæðinu sem leitt hefur til vandkvæða þar sem þriðji aðili hefur samið út frá öðrum rekstrarforsendum en gilda hjá ríkinu. Telur meiri hlutinn að slík ákvæði séu of mikil höft á starfsemi stofnunarinnar þar sem um rekstur stofnana og fyrirtækja í almennum rekstri gilda ekki sömu sjónarmið. Þá telur meiri hlutinn rétt að minna á í þessu sambandi að réttindi þessara starfsmanna jukust verulega árið 1996 þar sem þeir falla frá þeim tíma undir ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um kjaraviðræður við starfsmenn stofnunarinnar mun í framtíðinni fara eftir lögum um opinbera starfsmenn með þeirri undantekningu að kjaraviðræður við þau stéttarfélög sem falla undir lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, munu fara fram á grundvelli þeirra laga. Í báðum tilvikum munu kjaraviðræður fara fram án beintengingar við kjarasamninga á hinum almenna markaði þótt ganga megi út frá því að horft verði til þeirra.
    Nefndin ræddi einnig þær breytingar sem frumvarpið felur í sér á björgunarlaunum, en breytingin er sambærileg við ákvæði siglingalaga um björgunarlaun sem kveða á um að milli skipshafnar skuli skipta að réttri tiltölu miðað við föst laun hvers og eins, eða hlutaskiptareglur, eftir því sem við á. Hlutur skipstjóra skal þó aldrei vera minni en tvöfaldur hlutur þess skipverja er hæstan fær. Kom fram það sjónarmið að skipverjar hefðu litið á björgunarlaun sem hluta af heildarlaunakjörum og að breytingarnar fælu í sér aukinn hlut skipstjóra á kostnað annarra í áhöfn. Telur meiri hlutinn eðlilegt að um skiptingu björgunarlauna hjá stofnuninni gildi almennar reglur siglingalaga og fellst því á tillögu frumvarpsins.
    Þá ræddi nefndin refsiákvæði frumvarpsins, en þar er lagt til að brot gegn banni við verkföllum starfsmanna Landhelgisgæslunnar sem sinna löggæslustörfum varði eins árs fangelsi eða fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Telur meiri hlutinn að sambærilegt eigi að gilda um þessa starfsmenn Landhelgisgæslunnar eins og lögreglumenn, en samkvæmt lögreglulögum er þeim óheimilt að fara í verkfall eða taka þátt í verkfallsboðun. Við því broti liggur þó ekki sérstök refsing samkvæmt lögreglulögum. Telur meiri hlutinn að þegar litið er til eðlis starfanna eigi ekki að gilda strangari regla um starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem fara með lögregluvald en lögreglumenn og leggur því til breytingu á frumvarpinu til að samræma reglurnar.
    Nefndin ræddi einnig heimildir starfsmanna til vopnaburðar. Ljóst er að ekki eru í frumvarpinu víðtækari heimildir til vopnaburðar en fyrir eru í lögum. Í reglum sem ráðherra setur skv. 8. gr. frumvarpsins verður nánar fjallað um nauðsynlega fræðslu og þjálfun þeirra starfsmanna sem heimild hafa til að beita skotvopnum.
    Nefndin ræddi á fundum sínum það nýmæli frumvarpsins að heimilt sé að bjóða út eða stofna hlutafélag um flugrekstur, skiparekstur eða tækniþjónustu Landhelgisgæslu Íslands með skilyrðum sem ráðherra setur, að fengnum tillögum stofnunarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að heimildin verði nýtt til að treysta rekstrargrundvöll stofnunarinnar og nýta tækjabúnað hennar til fjölbreyttari verkefna í framtíðinni. Telur meiri hlutinn mikilvægt að hafa í huga að útboð eða stofnun hlutafélags mun eingöngu lúta að rekstrarfyrirkomulagi á tækjakosti og að með því er verið að gefa svigrúm til að þróa rekstur Landhelgisgæslunnar. Ætlunin er ekki að breyta því fyrirkomulagi að áhafnir skipa og loftfara verði áfram starfsmenn Landhelgisgæslunnar.
    Þá var athygli nefndarinnar vakin á því að íslensk löggjöf tekur eingöngu til borgaralegs flugs og að ekki eru í gildi kröfur um tegundarskírteini loftfara sem starfrækt eru til ríkisflugs. Beinir meiri hlutinn því til samgönguráðherra að rétt sé að huga að endurskoðun á loftferðalögum varðandi ríkisflug.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að hlutverk Landhelgisgæslunnar mun aukast í framtíðinni, sérstaklega vegna umferðar um norðurheimskautaleiðina og eftirlits með henni. Fyrir liggur að verið er að endurskipuleggja flugreksturinn og fjölga starfsmönnum til þess að mæta auknum verkefnum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Tilvísun í 22. gr. laganna í 29. gr. falli brott.

Alþingi, 2. júní 2006.Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Birgir Ármannsson.Kjartan Ólafsson.


Sigríður Ingvarsdóttir.