Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 1417  —  620. mál.
Leiðréttur texti.
Breytingartillögurvið frv. til l. um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.     1.      Við 3. gr. Skilgreining eftirfarandi hugtaka verði svohljóðandi:
                  a.      Faggilding: Formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat.
                  b.      Samræmismat: Mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur.
                  c.      Skoðun: Athugun á vöruhönnun, vöru, ferli eða uppsetningu búnaðar og ákvörðun á samræmi þess við tilgreindar kröfur, eða almennar kröfur, og skal þá byggt á faglegum úrskurði.
     2.      D-liður 2. mgr. 4. gr. verði svohljóðandi: að annast markaðseftirlit og samskipti við önnur eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. III. kafla laga þessara, og yfireftirlit á sviði mælifræði í samræmi við ákvæði laga og reglna settra samkvæmt þeim.
     3.      13. gr. verði svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Sérkröfur um mælitæki og mælingar til ákveðinna nota.

             Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að mælitæki og mælingar til ákveðinna nota skuli uppfylla ítarlegri kröfur en almennt eru gerðar til mælinga og mælitækja og hvernig eftirliti með þeim skuli háttað, sbr. 14. gr. og VI. kafla um framkvæmd eftirlits með mælitækjum.
              Eftirlitsskyld mælitæki í notkun eru:
                      1.      Vatnsmælar.
                      2.      Gasmælar.
                      3.      Raforkumælar fyrir raunorku.
                      4.      Varmaorkumælar.
                      5.      Mælikerfi fyrir vökva aðra en vatn.
                      6.      Vogir.
                      7.      Gjaldmælar leigubifreiða.
                      8.      Mæliáhöld fyrir lengd og rúmmál.
                      9.      Víddamælitæki.
                      10.      Greiningartæki fyrir útblástursloft.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.                      11.      Vogarlóð.
                      12.      Mælitæki fyrir loftþrýsting í hjólbörðum.
        Neytendastofa setur reglur sem gilda skulu um slík mælitæki. Þá getur Neytendastofa sett reglur um nákvæmnisflokka mælitækja ef nauðsyn krefur.
             Mælitæki önnur en þau sem getið er um í 2. mgr. skulu eigi að síður uppfylla þær sérstöku kröfur sem gerðar eru til mælitækis sem er á sama stað, ef unnt er að nota þau í sama tilgangi.
             Neytendastofa skal birta á aðgengilegan hátt og uppfæra reglulega nánari upplýsingar um hvaða mælitæki eru eftirlitsskyld samkvæmt lögum og reglum sem gilda hér á landi.
     4.      Við 14. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „Eigandi mælitækja“ í 2. mgr. komi: eða ábyrgðaraðili mælinga.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar verði svohljóðandi: Staðfesting á að mælitæki í notkun og mælingar uppfylli skilyrði laga og reglna.
     5.      31. gr. verði svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Löggildingargjald.

             Í gjaldskrá sem ráðherra setur skal kveða á um löggildingargjald sem innheimta skal þegar Neytendastofa eða aðili sem fengið hefur umboð hennar til löggildingar framkvæmir löggildingu mælitækis. Aðili sem annast löggildingu skal innheimta löggildingargjald af eigendum mælitækis þegar innheimt er greiðsla fyrir veitta þjónustu við mælitækið. Löggildingargjald skal greiða af mælitækjum sem um getur í 5.–8. og 11. tölul. 2. mgr. 13. gr.
             Löggildingargjald skal nema 15–25% af því þjónustugjaldi sem innheimt er af eiganda mælitækis þegar löggilding fer fram.
             Í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir skal kveðið nánar á um löggildingargjald fyrir einstakar tegundir mælitækja samkvæmt þessari grein.
     6.      32. gr. verði svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Eftirlitsgjald með gæðakerfum og forpökkuðum vörum.

             Gjöld samkvæmt þessari grein skulu skiptast í eftirfarandi flokka:
                  a.      Umsóknargjald: Gjald fyrir móttöku, skráningu og yfirferð umsóknar og fylgiskjala, auk álitsgerðar um niðurstöður fyrstu yfirferðar á umsókn og fylgigögnum hennar, svo og undirbúningsheimsókn til umsækjanda þegar það á við.
                  b.      Leyfisgjald: Gjald fyrir formlegt samþykki Neytendastofu á gæðakerfum eða kerfum til forpakkningar á vörum en það felur í sér kostnað vegna mats á kerfum, gerðar verk- og tímaáætlunar, mats á gæðakerfi og tæknilegri starfsemi umsækjanda, skýrslugerðar og leyfisveitingar.
                  c.      Eftirlitsgjald: Gjald vegna vinnu við árlegt eftirlit með kerfum samkvæmt þessari grein en það felur í sér gerð verk- og tímaáætlunar, vinnu við reglubundið mat á gæðakerfi og tæknilegri starfsemi umsækjanda, skýrslugerð og endurútgáfu leyfis.
     7.      33. gr. verði svohljóðandi:
             Löggildingargjald skv. 31. gr. skal aðili sem annast framkvæmd eftirlits með mælitækjum í notkun, sbr. 17. gr., innheimta þegar eftirlit fer fram með löggildingu mælitækis. Um uppgjörstímabil og gjalddaga á eftirlitsgjöldum til Neytendastofu samkvæmt þessari grein fer nánar eftir ákvæði 34. gr.
     8.      34. gr. verði svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Um gjalddaga, dráttarvexti og skýrslu.

             Aðili sem annast framkvæmd löggildingar í umboði Neytendastofu innheimtir löggildingargjald af eigendum mælitækja, sbr. 31. gr. Löggildingargjaldi skal skila inn til Neytendastofu ársþriðjungslega þannig að gjalddagi fyrsta ársþriðjungs er 1. maí, gjalddagi annars ársþriðjungs er 1. september og gjalddagi þriðja ársþriðjungs er 1. febrúar.
             Sé eftirlitsgjald skv. 32. gr. ekki greitt innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða í ríkissjóð dráttarvexti í samræmi við vaxtalög, svo og innheimtukostnað.
             Gjaldskyldir aðilar skv. 33. gr. skulu við uppgjör á eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum þessum og eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila ótilkvaddir skýrslu í því formi sem Neytendastofa ákveður vegna mælitækja sem bera gjald á uppgjörstímabilinu.
     9.      Heiti IX. kafla verði: Löggildingargjald og eftirlitsgjald með gæðakerfum og forpökkuðum vörum.
     10.      Fyrri málsliður 45. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.