Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 391. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1463  —  391. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin hefur fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Svein Þorgrímsson, Baldur Pétursson og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá iðnaðarráðuneytinu, Aðalstein Þorsteinsson, Snorra Björn Sigurðsson og Guðmund Guðmundsson frá Byggðastofnun, Helgu Jónsdóttur frá Reykjavíkurborg, Ársæl Guðmundsson, Jakob Björnsson og Adolf Berndsen frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Ólaf Sveinsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Gunnar Þorgeirsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sigurð Jónsson, Hörð Guðbrandsson og Guðjón Guðmundsson frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Aðalstein Óskarsson og Guðna Geir Jóhannesson frá Fjórðungssambandi Vestfjarða, Pétur Þór Jónsson frá Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og Þorvald Jóhannsson frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.
    Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Orkustofnun, Íbúðalánasjóði, Landsvirkjun, Ísafjarðarbæ, Fræðslumiðstöð Þingeyinga og Þekkingarsetri Þingeyinga, Vegagerðinni, Öxarfjarðarhreppi, Sveitarfélaginu Árborg, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Húnavatnshreppi, Fræðsluneti Austurlands, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Byggðastofnun, Blönduósbæ, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Háskólanum á Akureyri, Bændasamtökum Íslands, Húnaþingi vestra, Akraneskaupstað, Mýrdalshreppi, Grímsnes- og Grafningshreppi, Reykjavíkurborg, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Sveitarfélaginu Hornafirði, Húsavíkurbæ, talsmanni neytenda, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Dalvíkurbyggð.
    Nefndin tekur undir þau þrjú meginmarkmið sem lögð eru til grundvallar í tillögunni. Þá tekur nefndin undir þær tuttugu og þrjár aðgerðir stjórnvalda sem ætlað er að stuðla að því að meginmarkmiðum tillögunnar verði náð. Með aðgerðunum er leitast við að ná samhljómi með annarri áætlanagerð og aðgerðum stjórnvalda. Aðgerðirnar tuttugu og þrjár eru listaðar upp í tillögunni sjálfri en nánar útfærðar í athugasemdum með henni. Þar er jafnframt greint frá meginhugmynd að baki hverri aðgerð, ábyrgðaraðilum, öðrum hugsanlegum þátttakendum og tímasetningu aðgerðanna.
    Listinn í tillögunni yfir markmið og aðgerðir stjórnvalda er ekki tæmandi fyrir aðgerðir stjórnvalda í byggðamálum á gildistíma byggðaáætlunar.
    Aðgerðirnar tuttugu og þrjár marka í flestum tilvikum ákveðinn ramma en gert er ráð fyrir að iðnaðarráðuneyti skilgreini nánar í samstarfi við önnur ráðuneyti og fleiri aðila tiltekin samstarfsverkefni innan rammans. Einnig getur verið um að ræða samstarf ráðuneyta og annarra aðila án beinnar aðkomu iðnaðarráðuneytisins.
    Nefndin leggur til viðbót í nýrri málsgrein, þrjú meginatriði sem verði leiðarljós stjórnvalda á gildistíma byggðaáætlunarinnar:

A. Að stórefla menntun á landsbyggðinni:
    Háskólinn á Akureyri verði efldur og gegni áfram lykilhlutverki í uppbyggingu háskólanáms á landsbyggðinni. Jafnframt verði áfram unnið að því að háskólasetur á landsbyggðinni verði stórefld. Auknum fjárframlögum verði varið til að efla og jafna aðstöðu þekkingar- og fræðslumiðstöðva (dreif- og símenntunar) og til að jafna námskostnað. Starfsmenntun á landsbyggðinni verði styrkt í samstarfi framhaldsskóla, fyrirtækja og móðurskóla í starfsmenntun.
    Það var álit flestra umsagnaraðila og gesta sem á fundi nefndarinnar komu að nauðsynlegt væri að efla menntastofnanir á landsbyggðinni. Menntamál eru byggðamál og því leggur nefndin til að uppbygging menntunar á landsbyggðinni verði forgangsatriði í stefnumótandi byggðaáætlun áranna 2006–2009.
    Háskólinn á Akureyri hefur verið í fararbroddi við uppbyggingu háskólanáms á landsbyggðinni. Reynslan sýnir að nemendur sem stunda nám við skólann eru mun líklegri til að setjast að á landsbyggðinni en nemendur annarra háskóla. Fjarnám er mikilvægur hluti af starfsemi Háskólans á Akureyri sem hefur gefið íbúum í mörgum byggðarlögum landsbyggðarinnar kost á háskólanámi í heimabyggð. Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld efli enn frekar starf skólans í þessum efnum og þá jafnframt símenntunarmiðstöðvarnar í landinu.
    Uppbygging háskólasetra á landsbyggðinni er mikilvæg. Stjórnvöld hafa sett á fót háskólasetur á Vestfjörðum og á Austurlandi. Mikilvægt er að þessum menntastofnunum verði veitt svigrúm til þess að bjóða upp á fjölbreytt háskólanám og þannig veita íbúum á þessum svæðum möguleika á að auka við menntun sína í heimabyggð.
    Þá þarf að huga að stöðu þekkingarsetra á landsbyggðinni og mikilvægt er að skilgreint verði hver stjórnsýsluleg staða þessara stofnana sé. Með öflugum þekkingarsetrum er hægt að samhæfa þekkingar-, nýsköpunar- og rannsóknarstarfsemi í viðkomandi byggðarlögum.
    Ábyrgð á framkvæmd liðarins verður í höndum menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Aukin fjárframlög til þessa liðar umfram það sem gert er ráð fyrir í tengslum við tillöguna sjálfa skulu koma af fjárlagaliðum menntamálaráðuneytisins.

B. Að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni:
    Því markmiði verði náð með því að staðsetja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Skilgreind verði þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtæka sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti skal gera Alþingi árlega grein fyrir þróun opinberra starfa.
    Opinberum störfum hefur nær ekkert fjölgað á landsbyggðinni á síðustu tíu árum. Á sama tímabili hefur opinberum störfum fjölgað um 3.000 á höfuðborgarsvæðinu. Þessi varhugaverða þróun er staðreynd þrátt fyrir að í fyrri byggðaáætlunum hafi verið kveðið sérstaklega á um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
    Nefndin leggur áherslu á að þessari þróun verði snúið við og opinberum störfum verði verulega fjölgað á landsbyggðinni á því tímabili sem byggðaáætlunin nær til. Til þess að tryggja að þetta markmið náist er hert á eftirlitshlutverki Alþingis í þessum efnum og hverju ráðuneyti gert að gera Alþingi árlega grein fyrir þróun mála og framtíðaráformum.
    Ábyrgð á framkvæmd þessa liðar verður í höndum forsætisráðuneytisins í samvinnu við önnur ráðuneyti.

C. Að efla Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum í fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála:
     a.      Að gera sérstaka athugun að stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun, meta styrkleika þeirra og veikleika og greina möguleika til eflingar þeirra sbr. aðgerð númer 7 í tillögunni.
     b.      Að efla atvinnuþróunarfélög og nýsköpunarmiðstöðvar sem hluta af stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni.
     c.      Að taka þátt í gerð og framkvæmd svæðisbundinna vaxtarsamninga þar sem opinberir aðilar og einkaaðilar sameinast um aðgerðir til að efla samkeppnishæfni svæða og auka hagvöxt. Stofnunin meti árangur af samningunum reglulega, sbr. aðgerð númer 4 í tillögunni.
     d.      Að hefja á þessu ári skipulagða söfnun tölfræðilegra gagna um byggðaþróun þannig að úrvinnsla þeirra geti hafist í upphafi árs 2007, sbr. aðgerð númer 5 í tillögunni.
     e.      Að undirbúa í samvinnu við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög gerð landshlutaáætlana sem verði ætlað að ná yfir landið allt, sbr. aðgerð númer 6 í tillögunni.
     f.      Að gera afrakstur tilraunaverkefnisins um rafrænt samfélag aðgengilegan fyrir önnur byggðarlög á landsbyggðinni, sbr. aðgerð númer 14 í tillögunni.
     g.      Að hafa fyrir Íslands hönd forgöngu um þátttöku í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP) og Norrænu Atlantsnefndinni (NORA), sbr. aðgerðir númer 22 og 23 í tillögunni.
    Mikilvægt er að Byggðastofnun, sem ber mikla ábyrgð á framkvæmd byggðaáætlunar, verði gert kleift að sinna því mikilvæga hlutverki. Nefndin leggur því áherslu á að skerpt verði á hlutverki og ábyrgð Byggðastofnunar í byggðaáætlun áranna 2006–2009. Í því felst að Byggðastofnun verði tryggðir fjármunir í fjárlögum til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
    Miklir erfiðleikar steðja að ákveðnum landsvæðum. Í því ljósi er mikilvægt að auka opinber fjárframlög til þeirra svæða sem glímt hafa við mikla erfiðleika á borð við hrun rækjuiðnaðarins og þar sem veiðiheimildir hafa horfið snögglega. Byggðastofnun ætti að vera í lykilhlutverki í því að efla þau byggðarlög.
    Nefndin leggur enn fremur til eftirfarandi breytingar á þingsályktunartillögunni.
     1.      Aðgerð númer 1 í tillögunni breytist lítillega. Sú efnislega breyting er þar gerð að Byggðastofnun skal í samvinnu við Vegagerðina leggja mat á verkefni í samgöngumálum sem miða að eflingu byggða og atvinnulífs í landinu.
     2.      Einnig er lögð til lítils háttar breyting á aðgerð númer 2 í tillögunni. Nefndin leggur áherslu á eflingu sveitarstjórnarstigsins þannig að sveitarfélögin í landinu verði hvoru tveggja í senn betur í stakk búin að sinna núverandi verkefnum og tilbúin að taka við verkefnum frá ríkinu.
    Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhann Ársælsson, Katrín Júlíusdóttir og Sigurjón Þórðarson skrifa undir álitið með fyrirvara og lýtur hann einkum að því að staða Byggðastofnunar verði tryggð og stjórnsýslu byggðamála fyrir komið með fullnægjandi hætti á komandi árum.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu en hefur uppi sömu fyrirvara og fyrrgreindir nefndarmenn.
    Sigurður Kári Kristjánsson og Helgi Hjörvar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2006.Birkir J. Jónsson,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Kjartan Ólafsson.Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Sigurjón Þórðarson,


með fyrirvara.


Katrín Júlíusdóttir,


með fyrirvara.Gunnar Örlygsson.