Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 708. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1466  —  708. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Jón Eðvald Malmquist frá samgönguráðuneytinu, Hilmar B. Baldursson, viðskiptafræðing og flugstjóra, Gunnar Finnsson rekstrarhagfræðing, Ólaf Sveinsson hagverkfræðing, Andra Árnason hæstaréttarlögmann, Þorgeir Pálsson flugmálastjóra, Loft Jóhannsson og Ástráð Haraldsson frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, Þóreyju Þórðardóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Hallgrím Hallgrímsson frá Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins.
    Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Byggðastofnun, Flugmálastjórn, Icelandair, Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, Alþýðusambandi Íslands, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Í frumvarpinu er lagt til að ríkisstjórninni verði heimilað að stofna hlutafélag um þjónustuverkefni Flugmálastjórnar Íslands, þ.e. svokallaða flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfi, svo og flugvallarekstur Flugmálastjórnar. Gert er ráð fyrir að félagið taki yfir þær eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar sem tilheyra flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstri Flugmálastjórnar.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að við undirbúning frumvarpsins hefði verið leitað eftir athugasemdum frá hagsmunaaðilum, flugrekendum og stéttarfélögum, ásamt Flugmálastjórn. Haldnir hefðu verið nokkrir fundir með starfsmönnum, stéttarfélögum og fulltrúum lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins þar sem málið hefði verið kynnt. Þá hefur flugráð fjallað um málið á öllum stigum þess og tekið það fyrir í ráðinu.
    Breytingarnar sem frumvarpið gerir ráð fyrir hafa því verið afar vel kynntar og kallað hefur verið eftir sjónarmiðum ólíkra aðila sem málið varðar.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að hlutafélagaformið henti vel nú því að fyrir liggur að flugstjórnarmiðstöðvar beggja vegna Atlantshafsins munu sækjast eftir að taka yfir flugumferðarstjórn á Norður-Atlantshafi sem sinnt hefur verið frá Íslandi. Mikilvægt er að unnt sé að veita sem besta flugumferðarþjónustu hér á landi sem sé samkeppnishæf og hafi öryggi að leiðarljósi. Að öðrum kosti kann að vera hætta á að alþjóðaflugþjónustan hverfi úr landi. Um leið mundu tapast mörg störf íslenskra flugumferðarstjóra.
    Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frumvarpinu. Ekki er um efnisbreytingu að ræða heldur orðalagsbreytingu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    
    Síðari málsliður 1. mgr. 3. gr. orðist svo: Jafnframt er ráðherra heimilt að ákveða að félagið yfirtaki réttindi, skuldir og skuldbindingar vegna flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstrar við stofnun þess.
    

Alþingi, 2. júní 2006.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Guðjón Hjörleifsson.



Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Guðjón Ólafur Jónsson.