Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 803. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1467  —  803. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Með tillögunni er lagt til að skipuð verði nefnd til að annast skoðun gagna í vörslu opinberra aðila sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991. Markmiðið er að leiða í ljós hvort í opinberum gagnasöfnum sé að finna upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga eða dæmi um ólögmæta upplýsingaöflun.
    Samkvæmt tillögunni er lagt til að nefndin verði skipuð stjórnarformanni Persónuverndar, þjóðskjalaverði, forseta Sögufélags, skrifstofustjóra Alþingis og formanni stjórnmálafræðiskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Enn fremur segir að nefndin skuli í samráði við forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti ákveða aðgang fræðimanna að gögnunum og skila Alþingi skýrslu um störf sín eigi síðar en í árslok 2006.
    Allsherjarnefnd telur rétt að forseti Alþingis og formenn þingflokka eigi þess kost að fylgjast með framgangi starfsins og leggur til breytingar í þá veru. Óþarft er að tekið sé fram í tillögugreininni að samráð skuli haft við stjórnarráðið en engu að síður er ljóst að ráðuneytin þurfa að leggja nefndinni lið við gagnaöflun. Lagt er til grundvallar að nefndin byggi niðurstöður sínar um aðgang á mikilvægi gagnanna fyrir fræðilegar rannsóknir og gildandi lögum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd undir formennsku stjórnarformanns Persónuverndar og með þátttöku þjóðskjalavarðar, forseta Sögufélags, skrifstofustjóra Alþingis og formanns stjórnmálafræðiskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands til að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim.
    Formaður nefndarinnar skal á starfstíma hennar gera forseta Alþingis og formönnum þingflokka grein fyrir framvindu verksins. Nefndin skili Alþingi skýrslu um störf sín eigi síðar en í árslok 2006.

    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 2. júní 2006.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.



Guðjón Ólafur Jónsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Björgvin G. Sigurðsson.



Guðjón A. Kristjánsson.