Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 811. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1490  —  811. mál.




Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um fjármögnun og umsvif ríkisins eftir landshlutum.

Frá Kristjáni L. Möller, Margréti Frímannsdóttur, Jóhanni Ársælssyni,


Einari Má Sigurðarsyni, Lúðvík Bergvinssyni, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur,
Rannveigu Guðmundsdóttur, Björgvini G. Sigurðssyni og Jóni Gunnarssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um fjármögnun og umsvif ríkisins eftir landshlutum. Gerð verði grein fyrir rekstrartekjum og gjöldum ríkisins, annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan nái til áranna 2001–2005.
    Eftirfarandi atriði komi m.a. fram í skýrslunni:
     1.      Hvernig skiptast tekjur ríkisins og hvaðan koma þær, sundurliðað eftir landshlutum?
     2.      Hvernig skiptast gjöld ríkisins og hvert renna þau, sundurliðað eftir landshlutum?
     3.      Hvernig skiptast störf hjá ríkinu í landfræðilegu tilliti og hver eru meðallaun eftir landshlutum?

Greinargerð.


    Í ljósi umræðu sem margsinnis hefur komið upp á undanförnum árum um vægi ríkisins í hagvexti á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar er nauðsynlegt að fá fram staðreyndir um skiptingu tekna og gjalda ríkisins eftir landshlutum. Umræðan hefur oftar en ekki einkennst af sleggjudómum og karpi á milli fulltrúa landsbyggðar annars vegar og fulltrúa höfuðborgarsvæðis hins vegar. Með skýrslunni og þeim upplýsingum sem þar yrði að finna verður hægt að glöggva sig á því hvernig fjármunum ríkisins er varið í landfræðilegu tilliti og hvaðan ríkið hefur tekjur sínar. Oft hefur verið rætt um „sanngjarna“ skiptingu á fjármunum ríkisins eftir landsvæðum en áreiðanlegar upplýsingar um skiptinguna hefur skort.
    Fyrir liggja nú þegar drög að rannsóknaráætlun og fyrsti hluti skýrslu um málefnið sem
Vífill Karlsson, dósent í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, hefur unnið.
    Þessi beiðni er lögð fram nú þótt skammt sé eftir af þingi og hyggjast skýrslubeiðendur leggja hana fram aftur þegar í upphafi næsta þings. Er þessi háttur hafður á í þeirri von að strax verði hafist handa við undirbúning að gerð skýrslunnar.