Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 707. máls. Ferill 708. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1491  —  707. og 708. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Flugmálastjórn Íslands og frv. til l. um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

Frá minni hluta samgöngunefndar.    Gert er ráð fyrir að skipulagi flugmála hér á landi verði breytt. Skilið verði á milli þjónustu og reksturs annars vegar og stjórnsýslu og eftirlits hins vegar. Sérstök lög verði sett um Flugmálastjórn Íslands. Verkefni Flugmálastjórnar verður samkvæmt frumvarpi um Flugmálastjórn Íslands að fara með stjórnsýslu á sviði loftferða, hafa eftirlit með loftferðastarfsemi og stuðla að öryggi í flugi. Samkvæmt frumvarpi um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands er ríkistjórninni síðan heimilað að stofna hlutafélag um þjónustuverkefni Flugmálastjórnar, þ.e. bæði flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónustu.
    Þær breytingar sem málin gera ráð fyrir eru umfangsmiklar og við meðferð þeirra í nefndinni komu upp mörg álitamál. Ekki gafst tími til að svara öllum þeim spurningum sem vöknuðu.
    Margar leiðir eru að því takmarki sem ætlað er að ná með málunum. Minni hlutinn er ekki sammála þeirri leið sem valin var. Sú leið að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands er aðeins ein leið af fjórum sem fjallað er um í skýrslu stýrihóps um framtíðarskipan flugmála sem notuð er sem ákveðið grunngagn við frumvarpagerðina.
    Með stofnun hlutafélags um flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónustu eru störf starfsmanna hjá Flugmálastjórn lögð niður. Þeir starfsmenn sem starfað hafa á þessum sviðum flytjast yfir til hlutafélagsins. Með því verður grundvallarbreyting á réttindum og skyldum starfsmanna, m.a. má nefna að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, munu ekki gilda um starfsmenn hlutafélagsins. Í þeim lögum eru ákvæði um mjög mikilvæg réttindi fyrir starfsmenn, t.d. er varða starfsöryggi. Þá munu stjórnsýslulög og upplýsingalög ekki ná til starfseminnar.
    Minni hlutinn hefur lagt til að fleiri leiðir verði skoðaðar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Ekki hafa verið færð fram rök fyrir því að hlutafélagaformið sé rétta leiðin. Þá sýnir sagan að þrátt fyrir fögur orð og fyrirheit hafa flest ríkisfyrirtæki sem breytt hefur verið í hlutafélög verið seld einkaaðilum. Óvíst er að sú þjónusta sem hér um ræðir eigi heima í höndum einkaaðila.
    Fulltrúar Félags íslenskra flugumferðarstjóra sem komu á fundi nefndarinnar bentu á að við það að velja hlutafélagaformið mundu samningar flugumferðarstjóra verða lausir og þeir jafnframt öðlast verkfallsrétt. Minni hlutinn telur að hér sé um grafalvarlegt mál að ræða sem skoða hefði þurft betur og því sé tekin óþarfa áhætta. Þá bentu fulltrúar félagsins einnig á það að hlutafélaginu verða falin stjórnsýsluverkefni en að mati þess er óheimilt að færa stjórnsýslu til aðila sem hafa einkaréttarlega stöðu. Minni hlutinn er á því að þetta sé eitt af því sem skoða hefði þurft betur en ekki vannst tími til þess í störfum nefndarinnar.
    Þá telur minni hlutinn að samhliða þeim breytingum sem hér eru lagðar til hefði átt að horfa til fyrirhugaðrar stöðu mála á Keflavíkurflugvelli vegna brottfarar varnarliðsins. Ekkert er að finna í frumvarpinu um þau mál, þótt rétt hefði verið að fjalla um þau til að fá heildstæða mynd.
    Bæði kom fram í umsögnum um málin og hjá gestum sem komu á fundi nefndarinnar að veruleg hætta væri á að væntanlegt hlutafélag færi að krefja flugrekendur í innanlandsflugi um aukin lendingargjöld og aukin gjöld fyrir flugleiðsögu. Minni hlutinn vekur athygli á því að kostnaður við innanlandsflug er nú þegar miklu hærri en tekjurnar af því. Aukinn kostnaður vegna flugleiðsögu og lendingargjalda mun því fara beint út í verðlagið og hækka bæði flugmiða og flutningsgjöld.

Alþingi, 3. júní 2006.Kristján L. Möller,


frsm.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.