Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1526, 132. löggjafarþing 707. mál: Flugmálastjórn Íslands (heildarlög).
Lög nr. 100 13. júní 2006.

Lög um Flugmálastjórn Íslands.


1. gr.

Yfirstjórn o.fl.
     Flugmálastjórn Íslands fer með stjórnsýslu og eftirlit á sviði loftferða hér á landi og á íslensku yfirráðasvæði eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og lögum um loftferðir, svo og öðrum lögum og alþjóðasamningum.
     Flugmálastjórn Íslands er sérstök stofnun sem heyrir undir samgönguráðherra.

2. gr.

Flugmálastjóri og starfsmenn.
     Ráðherra skipar flugmálastjóra til fimm ára í senn og stjórnar hann rekstri Flugmálastjórnar. Flugmálastjóri ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
     Um sérstakt hæfi starfsmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

3. gr.

Flugráð.
     Flugráð er ráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um flugmál.
     Flugráð er skipað sex mönnum og jafnmörgum til vara. Varamenn taka sæti í forföllum aðalmanna.
     Ráðherra skipar í ráðið. Tveir fulltrúar skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar og jafnmargir til vara. Skulu fulltrúar þessir hafa þekkingu á flugmálum. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi þeirra sem skipaðir eru án tilnefningar.
     Skipunartími flugráðs er fjögur ár, en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
     Verkefni flugráðs eru að:
  1. fjalla um stefnumótun í flugmálum,
  2. veita ráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun,
  3. veita umsögn um lög og reglur er varða flugmál,
  4. fjalla um málefni sem ráðherra sendir flugráði til umfjöllunar,
  5. fjalla um mál sem flugmálastjóri eða einstakir flugráðsmenn óska að fjallað verði um.

     Flugmálastjóri situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt ásamt þeim starfsmönnum Flugmálastjórnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir.

4. gr.

Verkefni Flugmálastjórnar.
     Verkefni Flugmálastjórnar eru að fara með stjórnsýslu á sviði loftferða, hafa eftirlit með loftferðastarfsemi og stuðla að öryggi í flugi.
     Flugmálastjórn skal m.a.:
  1. Skrá loftför í íslenska loftfaraskrá.
  2. Veita heimildir til hvers konar reksturs sem skilgreindur er í loftferðalögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, eins og flugreksturs, reksturs viðhaldsstöðva, flugskóla, skóla fyrir flugleiðsöguþjónustu og flugvéltækna, flugleiðsöguþjónustu, reksturs flugvalla og flugstöðva, sem og að hafa samfellt eftirlit með þessari starfsemi.
  3. Gefa út heimildir í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar og hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem grundvallast á þessum heimildum.
  4. Gefa út skírteini til einstaklinga í samræmi við lög og reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar og tryggja framkvæmd prófa.
  5. Kveða á um skipulag loftrýmis og flugleiðsögu, eða gera tillögu um slíkt til samgönguráðherra.
  6. Annast eftirlit með framkvæmd flugverndar í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði flugverndar.
  7. Stuðla að því að hvers konar flugstarfsemi þróist hér á landi í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið á hverjum tíma.
  8. Taka þátt í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem kveðið er á um í alþjóðasamningum eða samstarfi sem ríkisstjórnin felur Flugmálastjórn að taka þátt í.
  9. Vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði loftferða og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðasamningum.

     Að auki skal Flugmálastjórn annast, eftir því sem við á, undirbúning að setningu laga og reglugerða og taka þátt í mótun þeirra, m.a. á erlendum vettvangi, og annast undirbúning samninga við erlend ríki og alþjóðastofnanir og eftir atvikum gerð slíkra samninga.

5. gr.

Eftirlit.
     Flugmálastjórn skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um loftferðastarfsemina gilda.
     Flugmálastjórn er heimilt að athuga rekstur eftirlitsskyldra aðila svo oft sem þurfa þykir. Flugmálastjórn skal í þeim tilgangi vera heimill aðgangur að starfsstöðvum leyfishafa og að loftförum og búnaði þeirra til að framkvæma vettvangsathuganir, úttektir og skoðanir.
     Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita Flugmálastjórn upplýsingar um starfsemina og aðgang að gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina sem Flugmálastjórn telur nauðsynleg.
     Eftirlitsskyldur aðili skal án fyrirvara geta sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði leyfisveitingar og, ef með þarf, gangast undir þau próf sem Flugmálastjórn er heimilt að krefjast að gengist sé undir.
     Flugmálastjórn getur krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra, ef slíkt er nauðsynlegt til að unnt sé að sinna lögbundnu eftirliti.
     Um eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar fer að öðru leyti eftir ákvæðum loftferðalaga, svo og annarra laga eftir því sem við á.

6. gr.

Leyfissviptingar, þvingunarúrræði o.fl.
     Heimilt er Flugmálastjórn að fella úr gildi leyfi, sem veitt hefur verið, og afturkalla skírteini því til staðfestingar ef hún telur að leyfishafi fullnægi ekki lengur skilyrðum, sem kveðið er á um í leyfi, eða að leyfishafi hafi brotið í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglna sem um hina leyfisbundnu starfsemi gilda. Sama gildir ef leyfishafi telst ófær um að sinna þeirri starfsemi sem leyfið nær til.
     Leyfissvipting getur verið bundin við tiltekna hluta leyfisins.
     Um leyfissviptingar og þvingunarúrræði Flugmálastjórnar fer að öðru leyti eftir ákvæðum loftferðalaga, svo og annarra laga eftir því sem við á.

7. gr.

Þagnarskylda og veiting upplýsinga.
     Starfsmenn Flugmálastjórnar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki, að viðlagðri ábyrgð, skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um rekstur eða viðskipti aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga sem starfa á vegum Flugmálastjórnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum eða verksamningi ljúki.
     Með gögn og aðrar upplýsingar, sem Flugmálastjórn aflar við eftirlit eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál.
     Flugmálastjórn er heimilt að safna saman, vinna úr og birta tölfræðilegar upplýsingar um loftferðir og skulu þeir sem reka leyfisbundna starfsemi skyldir til að láta í té slíkar upplýsingar ef eftir er leitað.
     Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja og eftirlitsaðilum á vegum viðurkenndra alþjóðasamtaka, sem Ísland er aðili að, upplýsingar sé það liður í samstarfi ríkja um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja eftirlitinu.

8. gr.

Athugasemdir vegna leyfishafa.
     Telji notandi loftferðaþjónustu eða aðrir að leyfisskyldur aðili brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt loftferðalögum eða reglum settum samkvæmt þeim eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í leyfi getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Flugmálastjórnar sem skal láta málið til sín taka ef við á.

9. gr.

Gjaldskrá o.fl.
     Flugmálastjórn er heimilt að innheimta gjöld vegna leyfisveitinga og eftirlits, svo og fyrir aðra þjónustu sem veitt er á vegum stofnunarinnar, í samræmi við gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra.
     Þá er Flugmálastjórn heimilt að hafa tekjur af þjónustu- og verksamningum, svo og af rannsóknarstarfsemi og þróunarverkefnum.
     Kröfur Flugmálastjórnar vegna gjalda skv. 1. mgr. eru aðfararhæfar án undangengins dóms eða sáttar.

10. gr.

Kæruheimild.
     Ákvarðanir Flugmálastjórnar sæta kæru til samgönguráðuneytis í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

11. gr.

Skýrsla.
     Flugmálastjórn skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína.

12. gr.

Reglugerð.
     Nánar skal kveðið á um hlutverk Flugmálastjórnar Íslands í reglugerð. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsemi stofnunarinnar og framkvæmd laga þessara.
     Nánar skal kveðið á um hlutverk flugráðs í reglugerð.

13. gr.

Gildistaka o.fl.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.
     Jafnframt fellur úr gildi II. kafli laga nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.