Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 3  —  3. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um nýja framtíðarskipan lífeyrismála.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson,
Jóhanna Sigurðardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson, Jón Bjarnason,
Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir,
Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Þór Hafsteinsson,
Margrét Frímannsdóttir, Mörður Árnason, Rannveig Guðmundsdóttir,
Sigurjón Þórðarson, Valdimar L. Friðriksson, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða lífeyriskafla laga um almannatryggingar. Endurskoðunin verði unnin í fullu samráði við samtök aldraðra og öryrkja. Skoðað verði samspil almannatrygginga og lífeyriskerfisins með það að markmiði að einfalda tryggingakerfið, draga úr skerðingaráhrifum tekna og auka möguleika lífeyrisþega til að bæta kjör sín. Þá verði komið á afkomutryggingu sem tryggi viðunandi lífeyri. Til undirbúnings afkomutryggingar verði þegar í stað gerð úttekt á framfærslukostnaði lífeyrisþega sem grunnlífeyrir og tekjutrygging byggist á. Eftirfarandi atriði verði m.a. lögð til grundvallar í nýrri framtíðarskipan lífeyrismála:
     1.      Ný tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. og öryrkja 86 þús. kr. frá 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum sem orðið hafa. Frá sama tíma verði dregið úr skerðingaráhrifum tekna þannig að í stað þess að skattskyldar tekjur yfir frítekjumarki skerði tekjutryggingu um 45% þeirra tekna sem umfram eru, verði hlutfallið 35%.
     2.      Frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007 og skerði ekki tekjutryggingu. Skoðað verði hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði. Öryrkjar hafi val um þetta nýja frítekjumark eða eldri reglu eftir því hvort er þeim hagstæðara.
     3.      Ráðstöfunarfé (vasapeningar) við dvöl á stofnun hækki um 50% frá frá 1. júlí 2006 ásamt því að frítekjumark gagnvart tekjum þeirra sem dvelja á stofnunum verði hækkað úr 50 þús. kr. í 75 þús. kr. Frá 1. janúar 2008 verði stefnt að því að breyta greiðslufyrirkomulagi á daggjaldastofnunum fyrir aldraða í svipaða veru og gildir fyrir fatlaða á sambýlum.
     4.      Skilgreind verði neysluútgjöld lífeyrisþega sem myndi viðmiðun fyrir grunnlífeyri og tekjutryggingu. Þessi viðmiðun hækki í samræmi við neysluvísitölu þannig að tryggt sé að hún haldi verðgildi sínu. Hækki launavísitala umfram neysluvísitölu verði tekið mið af henni þannig að lífeyrisþegum sé tryggð hlutdeild í auknum kaupmætti í samfélaginu.
     5.      Afnumin verði að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka.
     6.      Öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á ellilífeyri.

    Skilgreining á neysluútgjöldum lífeyrisþega, sem afkomutrygging þeirra skal byggð á, liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2007, ásamt tillögum um hvernig draga megi frekar úr skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna annarra tekna. Þegar úttekt hefur verið gerð á framfærsluþörf lífeyrisþega skal í samráði við hagsmunasamtök þeirra gera áætlun um tímasetta áfanga afkomutryggingar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt sameiginlega af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins. Fulltrúar þingflokkanna hafa að undanförnu rætt um og samræmt áherslur sínar á sviði almannatryggingamála. Allir hafa flokkarnir flutt tillögur um málið á undanförnum þingum, ályktað og sett fram sín sjónarmið á þessu sviði með margvíslegum hætti og tekur tillagan mið af þeim málatilbúnaði.
    Tillagan endurspeglar það sameiginlega viðhorf stjórnarandstöðunnar að eitt allra brýnasta verkefnið á sviði velferðarmála hér á landi sé að bæta kjör öryrkja og aldraðra. Óumdeilt er að allur þorri þeirra sem þessum hópum tilheyra hefur alls ekki notið lífskjarabata sambærilegs við þann sem aðrir landsmenn hafa hlotið undanfarin ár. Úr því vill stjórnarandstaðan bæta án frekari tafar með þeim aðgerðum sem tillagan felur í sér. Þær koma til viðbótar og ganga mun lengra en þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur fallist á að grípa til eftir mikinn þrýsting. Eins og kunnugt er hefur mikil óánægja og reiði byggst upp í samfélaginu sökum þess hvernig aldraðir og öryrkjar hafa setið eftir. Tillagan felur í sér annars vegar tafarlausar aðgerðir sem fela í sér verulegar kjarabætur til þessa hóps þegar á þessu ári og frá næstu áramótum. Hins vegar felur tillagan í sér aðgerðir sem leggja grunn að breyttri grundvallarskipan þessara mála. Þar eru veigamestu breytingarnar eins konar lífskjara- eða afkomutrygging, sem tekur mið af raunverulegum framfærslukostnaði, og tilkoma innbyggðs hvata eða auknir möguleikar elli- og örorkulífeyrisþega til að bæta stöðu sína með viðbótartekjuöflun án þess að til skerðingar lífeyris komi.
    Aftar í þessari greinargerð er rakinn sá kostnaður sem fylgir framkvæmd tillögunnar. Er ljóst að hann er vel viðráðanlegur og rúmast að mati stjórnarandstöðunnar innan þess ramma sem núverandi tekjuöflun ríkissjóðs og áætlaður hagvöxtur býður upp á. Ekki má gleyma því að breytingum af þessu tagi fylgir sparnaður annars staðar, svo sem hjá sveitarfélögunum og jafnvel einnig nokkrar skatttekjur til þeirra og ríkisins samfara aukinni atvinnuþátttöku aldraðra og öryrkja ef kerfið virkar hvetjandi í þeim efnum. Mikilvægastur er þó auðvitað hinn samfélagslegi ávinningur og aukin lífsgæði þeirra sem breytinganna njóta. Þingflokkar stjórnarandstöðunnar munu fjalla frekar um kostnaðarliði tillögunnar þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram og forsendur þess verða ljósar. Tillögunni verður þá fylgt eftir með flutningi tillagna um viðeigandi fjárheimildir og fjármögnun skoðuð nánar.
    Meginmarkmið þessarar þingsályktunartillögu er að hækka lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja svo og að auka svigrúm þeirra til að afla sér tekna án þess að það skerði lífeyrisgreiðslur þeirra. Sérstök áhersla er lögð á að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og að tekin verði upp afkomutrygging sem byggð sé á skilgreindum neysluútgjöldum lífeyrisþega, einkum þeirra sem eingöngu hafa lífeyri sér til framfærslu.
    Hér á eftir fara helstu breytingarnar sem gera á í aðdraganda þess að komið verði á afkomutryggingu og koma þær til viðbótar þeim tillögum sem samið var um í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Landssamtaka eldri borgara (LEB) sem undirrituð var 19. júlí sl.

Hækkuð tekjutrygging.
    Ný tekjutrygging hækkar í 85 þús. kr. hjá öldruðum í fyrsta áfanga og í 86 þús. kr. hjá öryrkjum, að viðbættum vísitölubreytingum sem orðið hafa. Lífeyrisþegi sem býr einn á kost á heimilisuppbót til viðbótar til að mæta aukakostnaði við að vera einn um heimilisrekstur. Þeir sem fá heimilisuppbót einnig mundu því hækka úr rúmlega 126 þús. kr. í rúmar 133 þús. kr. á mánuði. Lagt er til að skerðingarprósentan fari þegar um áramót úr 45% í 35% en ríkisstjórnin áætlar að lækka hana í 39,95% þá og aftur í 38,35% árið 2008. Hér eru því lagðar til minni tekjuskerðingar þegar frá 1. janúar 2007.

Frítekjumark vegna atvinnutekna.
    Lagt er til að atvinnutekjur (frítekjur) sem ekki skerða tekjutryggingu verði 900 þús. kr. á ári, eða 75 þús. kr. á mánuði þegar frá 1. janúar 2007. Tillaga ríkisstjórnarinnar felur í sér 200 þús. kr. frítekjur á ári frá 1. janúar 2009, eða um 17.000 kr. á mánuði, og 25 þús. kr. frítekjur á mánuði frá 1. janúar 2010. Hér er gert ráð fyrir að öryrkjar hafi val um að nýta sér þetta nýja frítekjumark eða fara eftir eldri reglu, eftir því hvort er þeim hagstæðara. Fyrir öryrkja með árstekjur undir 1,5 millj. kr. er þetta nýja frítekjumark hagstæðara en gildandi regla, sem miðar við að 60% tekna skerði tekjutryggingu. Flutningsmenn telja að stefna eigi að því að koma á frítekjumarki gagnvart lífeyristekjum samsvarandi því sem hér er lagt til.
    Í öðrum tölulið tillögugreinarinnar er vikið að því að rétt sé að skoða hvort heimila eigi að nýta einhvern hluta 75 þús. kr. frítekjumarksins fyrir tekjur úr lífeyrissjóði í stað þess að þær skerði tryggingagreiðslur strax frá fyrstu krónu. Með því yrði komið til móts við þann hluta hópsins sem ekki er fær um að afla sér atvinnutekna og bæta þannig stöðu sína en hefur hins vegar einhverjar tekjur frá lífeyrissjóði. Einnig kemur til greina að taka upp sérstaka og vægari skerðingarreglu gagnvart t.d. fyrstu tugþúsundunum sem viðkomandi hafa í lífeyrissjóðstekjur á mánuði hverjum. Þannig mætti hugsa sér að fyrstu 10 þús. kr. sem lífeyrisþegi fær frá lífeyrissjóði skertu tryggingagreiðslur aðeins um 10%, næstu 10 þús. kr. skertu þær um 20% o.s.frv. þar til hinu almenna skerðingarhlutfalli er náð, sem samkvæmt tillögunni er 35%.

Reisn og fjárhagslegt sjálfstæði.

    Tillagan gerir ráð fyrir að ráðstöfunarfé (vasapeningar) lífeyrisþega sem dveljast á stofnunum hækki um 50% samhliða afnámi frítekjumarks, afturvirkt frá 1. júlí 2006. Vasapeningarnir hækki þá um 11.436 kr. og verði 34.309 kr. á mánuði hjá vistmanni með engar aðrar tekjur, en lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun falla niður þegar lífeyrisþegi vistast á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Ríkisstjórnin hefur gert tillögu um 28.591 kr. vasapeninga frá næstu áramótum en vasapeningar hækkuðu ekki eins og almennar lífeyrisgreiðslur 1. júlí sl. Flutningsmenn leggja enn fremur til að frítekjumark gagnvart eigin þátttöku í vistgjaldi þeirra sem dveljast á stofnun verði hækkað í 75 þús. kr. á mánuði en þeir mega nú halda eftir 50 þús. kr. af lífeyrisgreiðslum sínum.

Neyslugrunnur og afkomutrygging.
    Skilgreind verði neysluútgjöld lífeyrisþega sem grunnlífeyrir og tekjutrygging taki mið af og hækki síðan í samræmi við launavísitölu eða neysluvísitölu eftir því hvort er hagstæðara fyrir lífeyrisþega. Framfærslugrunnur lífeyrisþega sem afkomutrygging byggist á skal liggja fyrir eigi síðar en 1. desember 2007.
    Stefna á að því að skilgreining á neyslugrunni lífeyrisþega liggi fyrir 1. desember 2007. Þegar framfærsluþörf lífeyrisþega hefur verið metin í nýjum neyslugrunni skal í samráði við hagsmunasamtök þeirra gera áætlun um tímasetta áfanga upptöku nýrrar afkomutryggingar sem hafi það að markmiði að enginn hafi sér til framfærslu lífeyri undir skilgreindri framfærsluþörf. Einnig er gert ráð fyrir að þá verði skoðað hvernig draga megi frekar úr skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna annarra tekna.

Lífeyrir aftengdur tekjum maka og aldraðir öryrkjar haldi örorkuuppbót.
    Afnumin verði að fullu tenging lífeyrisgreiðslna við tekjur maka, en í tillögum ríkisstjórnarinnar er einungis gert ráð fyrir að afnema hana að hluta. Aldurstengd örorkuuppbót skerðist ekki þegar öryrki fer á lífeyri en nú fellur hún niður á 67 ára afmælisdegi öryrkjans og lækka greiðslur til hans sem því nemur.

Afkomutryggingin og yfirlýsing ríkisstjórnar og LEB.
    Á 132. löggjafarþingi flutti þingflokkur Samfylkingarinnar tillögu til þingsályktunar um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja (4. mál á þskj. 4). Lagt var til að ríkisstjórninni yrði, í samráði við samtök lífeyrisþega, falið að koma á afkomutryggingu. Grunnlífeyrir og tekjutrygging skyldi vera sem næst lágmarksframfærslu, sem væri skilgreind í samræmi við neysluútgjöld lífeyrisþega. Einnig skyldi rýmka skerðingarhlutföll grunnlífeyris og tekjutryggingar til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku.
    Í júlímánuði sl. voru birtar tillögur sem ríkisstjórnin hafði unnið í samráði við LEB. Þær byggðust á því að hækkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga fyrir þá hópa sem minnst hafa í tryggingakerfinu yrði sambærileg því sem um hafði verið samið á vinnumarkaðnum fyrir lágtekjufólk.
    Þessi hækkun lífeyrisgreiðslna var þegar í hendi vegna samkomulags við aðila vinnumarkaðarins fyrr á árinu, en um var að ræða 15 þús. kr. hækkun á mánuði frá 1. júlí sl. fyrir þá sem eingöngu höfðu sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga. Einungis um 300–400 aldraðir fá þessa hækkun óskerta.
    Þeir sem nú hafa fullan grunnlífeyri og tekjutryggingu fá 13 þús. kr. hækkun á mánuði en í þeirri fjárhæð er líka 1,7% hækkun sem þegar var ráðgerð á fjárlögum yfirstandandi árs. Aðrir ellilífeyrisþegar fá minna. Það vekur furðu að þeir sem eru á stofnunum skuli ekki fá hækkun á ráðstöfunarfé sínu fyrr en 1. janúar 2007, og þá eingöngu um 5 þús. kr. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir mun meira ráðstöfunarfé til þeirra og frá sama tíma og aðrir lífeyrisþegar fengu hækkun, eða 1. júlí 2006. Ástæða er líka til að vekja athygli á því að með viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er þó í engu mætt þeirri gífurlegu skerðingu sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir frá árinu 1995, en ætla má að grunnlífeyrir og tekjutrygging almannatrygginga væru 165–170 þús. kr. hærri á ári nú ef þessar lífeyrisgreiðslur hefðu haldið raungildi sínu frá þeim tíma.

Yfirlýsingin gengur of skammt.
    Það er vitaskuld ótrúleg skammsýni hjá ríkisstjórninni að ætla ekki að taka upp frítekjumark gagnvart atvinnutekjum fyrr en á árinu 2009, og þá 200 þús. kr. á ári, sem samsvarar um 17 þús. kr. á mánuði, og hækka það svo í 300 þús. kr. á ári, eða 25 þús. kr. á mánuði, þegar frítekjumarkið er að fullu komið til framkvæmda. Gífurleg óánægja er með það hjá lífeyrisþegum að frítekjumarki verði ekki strax komið á og reyndar furðulegt að það hafi ekki verið gert, í ljósi þess að ekki er um mikil útgjöld að ræða fyrir ríkissjóð þegar ávinningur af þessari framkvæmd er skoðaður. Með þessu samkomulagi var því allt of skammt gengið til að bæta lífeyri aldraðra. Forsvarsmenn LEB hafa lýst yfir óánægju sinni og sagt lífeyrishluta viljayfirlýsingarinnar allt of rýran. Hefur reyndar komið fram opinberlega hjá forsvarsmönnum aldraðra að þeir hafi fallist á þessa niðurstöðu vegna þess að þeir hafi fengið skýr skilaboð um að ella stefndu þeir í hættu þjónustuþætti viljayfirlýsingarinnar.

Breytingar byggðar á yfirlýsingunni.
    Þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur lagt til að verði á lífeyrishluta almannatryggingalaganna fela í sér að sameina tekjutryggingu og tekjutryggingarauka í einn bótaflokk og að tekin verði upp ný tekjutrygging sem 1. janúar 2007 verður 78.542 kr. fyrir aldraða og 79.600 kr. fyrir öryrkja. Samhliða er frítekjumark gagnvart tekjutryggingu, sem var um 50 þús. kr. á mánuði, fellt niður. Hér er um að ræða grundvallarbreytingar á forsendum fyrir útreikningi lífeyrisgreiðslna og hefur tillaga Samfylkingarinnar frá síðasta þingi tekið breytingum út frá því. Í þessari þingsályktunartillögu er því byggt ofan á þann grunn sem lagður var í júlí sl. og koma tillögur flutningsmanna til viðbótar því sem þá var ákveðið.

Atvinnuþátttaka auðvelduð strax.
    Auk þess að leggja til hækkun á tekjutryggingunni um 6.500 kr. umfram tillögu ríkisstjórnarinnar frá 1. janúar 2007 er lagt til að frítekjumark tekjutryggingar gagnvart atvinnutekjum verði 900 þús. kr. á ári frá áramótum. Afar mikilvægt er að rýmka verulega frítekjumarkið til að auka möguleika lífeyrisþega á að vera á vinnumarkaðnum og afla sér tekna, en mjög mikilvægt er fyrir einstakling að hafa val án þess að til verulegrar skerðingar á lífeyri komi. Skerðingarreglurnar nú eru hrein eignaupptaka hjá fólki. Forsvarsmenn LEB lýstu því svo í blaðagrein fyrr á þessu ári að skerðingarkerfið á lífeyri og bótum sem hér er þekktist hvergi annars staðar. Kom fram að lífeyrisþegi sem hefði tekjutryggingu ásamt greiðslu úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjur héldi aðeins eftir 15–33% af þeim tekjum. Skerðingar og skattar væru 67–85%. Af sjálfu leiðir að svo mikil skerðing á lífeyrisgreiðslum vegna annarra tekna dregur úr fólki að afla sér slíkra tekna, það tekur síður að sér verkefni eða hlutastörf sem gæfu viðbótartekjur þegar ríkið sér til þess að hirða stærsta hluta þeirra.
    Ef aldraðir fengju að halda 75 þús. kr. atvinnutekjum á mánuði án skerðingar mundi það tvímælalaust stuðla að aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks, sem bæði hefur mikið gildi fyrir samfélagið og einstaklinga. Samkvæmt gildandi lögum gilda aðrar skerðingarreglur um tekjur öryrkja og hafa þeir meiri möguleika á að afla sér tekna, þar sem eingöngu 60% atvinnutekna þeirra skerða lífeyrisgreiðslurnar. Það þýðir að þeir sem eru með yfir 1,5 millj. kr. í tekjur hagnast meira á gildandi reglu en frítekjumarkinu sem hér er lagt til. Aftur á móti mundu þeir sem afla sér tekna undir 1,5 millj. kr. hagnast á þessari breytingu.

Lífeyrisgreiðslur einstaklingsbundinn réttur.
    Það hefur verið báráttumál lífeyrisþega að greiðslur til þeirra miðist eingöngu við eigin tekjur og aðeins þær geti skert lífeyri almannatrygginga en ekki tekjur annarra (þ.e. maka). Nú eru tekjur hjóna og sambýlinga lagðar saman og kemur helmingurinn af sameiginlegum tekjum til skerðingar greiðslna lífeyrisþegans frá Tryggingastofnun ríkisins. Um þetta snerist öryrkjadómurinn, þ.e. um afnám tengingar við tekjur maka. Mikill meiri hluti þeirra sem nú heyra undir þessa reglu mun hagnast á breytingunni, en einhverjir lífeyrisþegar sem eru með háar tekjur og eiga maka með lægri tekjur munu fá eitthvað lægri greiðslur frá Tryggingastofnun. Við afnám þessarar tekjutengingar verða lífeyrisgreiðslur almannatrygginga persónulegur réttur, eins og t.d. atvinnuleysisbætur sem eru óháðar tekjum maka. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa áður flutt frumvarp á Alþingi um afnám tengingar við tekjur maka (19. mál á 123. löggjafarþingi).

Aldraðir öryrkjar haldi uppbótinni.
    Árið 2003 var komið á aldurstengdri örorkuuppbót. Fjárhæð uppbótarinnar miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki. Þessi uppbót fellur niður er öryrki sem hennar nýtur nær 67 ára aldri og verður ellilífeyrisþegi. Þetta telja flutningsmenn óréttlátt, því tekjuþörf öryrkja minnkar ekki við það að eldast. Auk þess hafa þeir sem verða ungir örykjar minni möguleika á að afla sér lífeyrisréttinda. Því er lagt til að öryrkjar haldi þessari uppbót þegar þeir verða ellilífeyrisþegar. Er það í samræmi við frumvörp sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt um að greiðslur til öryrkja lækki ekki þegar þeir fara á ellilífeyri.

Vasapeningar á stofnun – fjárhagslegt sjálfstæði.
    Lagt er til að vasapeningar hækki um 50%, afturvirkt frá 1. júlí 2006, en lífeyrisþegar sem fá vasapeninga fengu enga kjarabót þá eins og aðrir lífeyrisþegar almannatrygginga. Aðrir lífeyrisþegar á stofnunum, dvalarheimilum eða hjúkrunarheimilum fengu slíkt ekki heldur.
    Þess vegna er hér lagt til að sú fjárhæð sem þeir halda eftir af tekjum sínum til eigin ráðstöfunar hækki úr rúmum 50 þús. kr. í 75 þús. kr.
    Vasapeningar eru úrelt fyrirkomulag og barn síns tíma, að mati flutningsmanna. Það felst í því að greiðslur almannatrygginga falla niður er lífeyrisþegi flytur á stofnun og fær hann þess í stað vasapeninga, um 22 þús. kr. á mánuði (miðað við 1. október 2006) en lífeyrisþegar sem afla sér tekna halda eftir um 50 þús. kr., annað fer til stofnunarinnar. Búið er að afnema þetta kerfi gagnvart fötluðum á sambýlum. Þeir halda lífeyrisgreiðslum sínum en greiða sameiginlegan heimiliskostnað, svo sem fæðis- og húsnæðiskostnað, af þeim. Hið opinbera sér um launakostnað. Flutningsmenn leggja til að unnið verði að því að afnema vasapeningakerfið og gerðar þær ráðstafanir sem til þarf svo lífeyrisþegar sem kjósa að búa á dvalarheimili eða missa heilsu og búa á hjúkrunarheimili, haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Samspil lífeyriskerfisins og almannatrygginga.
    Í tillögunni er lögð áhersla á að komið verði á afkomutryggingu fyrir þá sem hafa ekkert sér til framfærslu annað en lífeyri almannatrygginga. Stór hluti lífeyrisþega sem eiga lítinn rétt í lífeyrissjóðum mun engu að síður eiga allt sitt undir lífeyri almannatrygginga og því er mikilvægt að skilningur og sanngirni stjórnvalda sé til staðar. Það er raunar grundvöllur þess að komið verði á afkomutryggingu sem byggist á skilgreindum framfærslukostnaði aldraðra og öryrkja.
    Mikilvægt er líka að skoða samspil almannatrygginga og lífeyriskerfisins. Ljóst er að greiðslur úr lífeyrissjóðunum vega sífellt þyngra í heildartekjum þeirra sem greitt hafa í lengri tíma í lífeyrissjóði. Í riti sem Samtök atvinnulífsins hafa gefið út „Íslenska lífeyriskerfið í umbreytingum“ (mars 2006) kemur fram að á árinu 2004 námu greiðslur TR og lífeyrissjóða til ellilífeyrisþega álíka háum fjárhæðum, eða 21–22 milljörðum kr. hjá hvorum aðila fyrir sig. Eftir áratug munu greiðslur lífeyrissjóðanna hafa aukist um 50% en TR um 15%. Einnig er bent á að meðallífeyrir frá lífeyrissjóðum, sem er nú um 60 þús. kr. á mánuði, muni tvöfaldast á næstu 25 árum og verða 120 þús. kr. árið 2030. Eftir rúma þrjá áratugi munu lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna nema 100 milljörðum kr. og verður hlutur þeirra í lífeyrisgreiðslum í heild orðinn þrír fjórðu hlutar á móti fjórðungshlut TR. Þeir sem hafa lítið meira sér til framfærslu en lífeyri almannatrygginga munu ekki njóta góðs af þessari þróun og því verða stjórnvöld að bæta sérstaklega afkomu þeirra. Hér eru lögð drög að því að tekin verði upp afkomutrygging eins og áður er lýst.

Lífeyrisþegum tryggð sómasamleg kjör.
    Þjóðfélag getur ekki talist velferðarþjóðfélag nema vel sé búið að öldruðum og öryrkjum og þeim tryggð sómasamleg kjör. Þótt margt hafi verið vel gert í málefnum þessa fólks á umliðnum áratugum býr allt of stór hópur aldraðra og öryrkja við slæm kjör og í heild hefur þessi hópur ekki fengið sanngjarnan eða eðlilegan hlut í góðæri liðinna ára. Í því efni hefur verulega dregið sundur með lífeyrisþegum og þeim sem verst hafa kjörin á vinnumarkaðnum og hefur bilið milli meðallauna verkamanna og lífeyrisgreiðslna stóraukist. Þegar á allt er litið fer því fjarri að afkoma og aðbúnaður margra aldraðra hér á landi sé mannsæmandi.
    Tenging bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu var afnumin árið 1996 og olli það mikilli skerðingu á lífeyri aldraðra og öryrkja. Í staðinn var lögum um almannatryggingar breytt og kveðið á um að bætur almannatrygginga skyldu taka mið af launaþróun, þó þannig að breyting á fjárhæðinni gæti aldrei farið niður fyrir það sem vísitala neysluverðs mælir. Fullyrt var af stjórnvöldum á þeim tíma að þessi breyting mundi ekki skerða kjör lífeyrisþega. Af umræðum á Alþingi er ljóst að margir þingmenn töldu að með þessu ákvæði væri tryggt að lífeyrisgreiðslur ættu að hækka til samræmis við launavísitölu. Engu síður hafa þær ekki gert það. Grunnlífeyrir og full tekjutrygging væru um 165–170 þús. kr. hærri á ári ef raungildi þessara greiðslna væri það sama nú og það var á árinu 1995.

Íslenska velferðarkerfið veikara en í nágrannalöndunum.
    Velferðarkerfið á Íslandi er veikara en annars staðar á Norðurlöndum og útgjöld ríkissjóðs til þess mun minni hér en annars staðar gerist. Opinber útgjöld til elli- og örorkulífeyrisþega eru t.d. miklu lægri hér á landi en í flestum OECD-löndunum. Í samantekt Norrænu hagskýrslunefndarinnar á sviði félagsmála (NOSOSKO) Social tryghed i de nordiske lande 2003 frá í október 2005 um útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum árið 2003 kemur fram að útgjöld á sviði félags- og heilbrigðismála sem varið er til aldraðra og öryrkja, sem hlutfall af landsframleiðslu, eru lægst hér á landi. Á Íslandi er hlutfallið 10,3% af landsframleiðslu en allt upp í 17,5% af landsframleiðslu í Svíþjóð, 15,3% í Danmörku, 13,2% í Finnlandi og 12,0% í Noregi.

Minni kaupmáttur – hærri skattbyrði.
    Fram hefur komið opinberlega að frá árinu 1995 til ársins 2005 hafi kaupmáttur lágmarkslauna aukist um 56% en kaupmáttur lífeyris aðeins um 25%. Sem dæmi má nefna að frá árinu 1995 til 2004 jókst kaupmáttur öryrkja sem voru einstæðir foreldra um tæp 30% en kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings jókst um rúmlega 50%. Fulltrúar LEB hafa sagt opinberlega að skattabreytingarnar sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir feli í sér að kaupmáttur ráðstöfunartekna eldri borgara muni aðeins hækka um 9,3% frá árinu 1995 til loka kjörtímabilsins 2007, en ekki 55% eins og fulltrúar ríkisstjórnarinnar halda fram.
    Ljóst er að skattbyrði lífeyrisþega hefur aukist gífurlega á sama tíma og mikil skerðing hefur orðið á lífeyrisgreiðslum. Til samans hefur það rýrt verulega afkomumöguleika lífeyrisþega. Nefna má sem dæmi að tíu þúsund ellilífeyrisþegum er nú gert að lifa af tekjum undir 110 þús. kr. á mánuði. Þeir greiða um 14% af sínum tekjum í skatt en greiddu 2,3% af samsvarandi tekjum fyrir tíu árum.

Kostnaður við breytingarnar.
    Kostnaðarútreikningar sem gerðir hafa verið á þessum tillögum sýna að heildarútgjöld þegar allar tillögurnar eru komnar til framkvæmda eru um 6,5 milljarðar kr. Stærsti útgjaldaliðurinn er hækkun tekutryggingar í 85 þús. kr. hjá öldruðum og 86 þús. kr. hjá öryrkjum 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum. Sú tillaga kostar tæpa 3 milljarða kr. en hún gagnast líka best þeim sem minnstan lífeyri hafa og litla möguleika hafa á að afla sér viðbótartekna.

Lokaorð.

    Flutningsmenn þessarar tillögu leggja áherslu á að það verði eitt af forgangsverkefnum í þjóðfélaginu á næstunni að bæta kjör lífeyrisþega. Það er hægt að gera með þeirri nýskipan lífeyrismála sem hér er lögð til, m.a. með því að koma á afkomutryggingu, svo að lífeyrisþegar fái eðlilegan og sanngjarnan hlut í auknum hagvexti og þjóðartekjum.