Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 7. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 7  —  7. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um kaup og rekstur á færanlegri sjúkrastöð í Palestínu.

Flm.: Jón Kristjánsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Jón Bjarnason,


Magnús Þór Hafsteinsson, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fjármálaráðherra beiti sér fyrir því að fé verði veitt til kaupa og reksturs á færanlegri sjúkrastöð í Palestínu.

Greinargerð.


    Málið er efnislega samhljóða máli sem lagt var fyrir á 131. og 132. löggjafarþingi en var ekki rætt.
    Árið 2002 ályktaði Alþingi síðast um deilur Ísraels og Palestínumanna. Lýst var áhyggjum af því ófriðarástandi sem þá ríkti fyrir botni Miðjarðarhafs og lagði Alþingi m.a. áherslu á virðingu fyrir mannréttindum.
    Þrátt fyrir ítrekaðar ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og áskoranir, hvatningar og stuðning einstakra ríkja og ríkjasambanda við lausn deilunnar virðist sem ekki sjái fyrir endann á því dapurlega ástandi sem þarna ríkir.
    Heilbrigðisþjónusta telst almennt til sjálfsagðra mannréttinda og á ófriðarsvæðum eykst þörfin fyrir hana til muna. Aðgerðir Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum, vegatálmanir og varðstöðvar og aðskilnaðarmúrinn um byggðir Palestínumanna, reistur í trássi við alþjóðalög, hindra eðlilegan aðgang fjölda Palestínumanna jafnt að almennri heilsugæslu og hvers konar bráðaþjónustu. Þessar aðstæður ógna ekki aðeins heilsu fjölda manna heldur hafa þær kostað fjölmörg mannslíf. Við þessum aðstæðum er reynt að bregðast með endurskipulagningu svæðisbundinnar heilbrigðisþjónustu fyrir þorp og dreifbýli utan múrsins og stærri þéttbýlissvæði. Annars staðar er erfiðara að koma slíkri miðlægri heilbrigðisþjónustu við og þar er færanleg sjúkrastöð talin best til þess fallin að bæta úr þeirri brýnu þörf sem aðskilnaðarmúrinn og aðrar ráðstafanir hafa skapað.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld beini sérstaklega sjónum að aðstæðum Palestínumanna og leiti leiða til að takmarka það tjón sem aðgerðir Ísraelsmanna valda palestínsku samfélagi og velferðarþjónustu í samræmi við auknar áherslur stjórnvalda og Alþingis á alþjóðlega þróunarsamvinnu og þátttöku í friðargæslu. Með því að Alþingi veiti fé til kaupa á færanlegri sjúkrastöð getur Ísland lagt sitt af mörkum til að bæta úr brýnni þörf fyrir heilsugæslu á hluta af sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna á meðan ófriðarástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins varir.