Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 10  —  10. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um afnám verðtryggingar lána.

Flm.: Sigurjón Þórðarson, Magnús Þór Hafsteinsson og Guðjón A. Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að afnumin verði verðtrygging húsnæðislána.

Greinargerð.


    Á Íslandi búa lántakendur húsnæðislána jafnan við hæstu vexti í Evrópu og þar að auki eru lánin verðtryggð hérlendis. Íslenskt fjármálakerfi er orðið hluti af alþjóðlegu umhverfi og þess vegna þarf að aðlaga reglur þess og kjör því sem almennt gerist í vestrænum ríkjum. Lánskjör íbúðarlána til almennings eru einn þeirra þátta sem þarf að aðlaga. Þau eru alla jafna verðtryggð hér á landi en það heyrir til undantekninga að lán séu verðtryggð erlendis. Það er óásættanlegt að landsmenn búi við allt önnur og miklu lakari lánskjör en almennt gerist í nágrannaríkjunum.
    Helstu röksemdir fyrir verðtryggingu lána á Íslandi hafa hingað til verið að með henni skapist forsendur fyrir lægri vöxtum en sú hefur alls ekki orðið raunin. Frá því að gríðarleg hækkunarhrina stýrivaxta hófst í maí 2004 hafa stýrivextir hækkað um 264% en verðbólga hefur fjórfaldast á sama tíma. Þetta sýnir að hækkun stýrivaxta hefur alls ekki tilætluð áhrif, enda bera langtímalán jafnan fasta verðtryggða vexti en breyting stýrivaxta hefur lítil sem engin áhrif á verðtryggðu lánin og þar með hefur umrædd hækkun stýrivaxta lítil áhrif til að minnka þenslu. Einu merkjanlegu áhrif stýrivaxtahækkana varða minni fyrirtæki og einstaklinga sem tekið hafa skammtímalán. Búast má við að stýrivaxtahækkunin snerti einkum þá sem standa hvað lakast að vígi við öflun lánsfjár.
    Hækkun stýrivaxta hefur bein áhrif til styrkingar á gengi íslensku krónunnar. Það hefur svo valdið yfirverði á íslensku krónunni sem hefur aukið kaupmátt íslenskra heimila á erlendum varningi og þar með stuðlað að auknum innflutningi og alls ekki slegið á þenslu eins og há verðbólga er til vitnis um. Einnig hefur sýnt sig að hátt verð krónunnar hefur verið þrándur í götu útflutningsfyrirtækja, veikt afkomu þeirra og stuðlað að vöruskiptahalla.
    Nauðsynlegt er að breyta lánakerfinu með þeim hætti að stýritæki Seðlabankans verði skilvirkari þar sem núverandi ástand ýtir undir ójafnvægi og hætt er við að ef slakað er á í vaxtahækkunum hríðfalli gengi íslensku krónunnar líkt og gerðist fyrr á árinu.
    Afnám verðtryggingar mundi ekki skerða hag lánveitenda til lengri tíma þar sem það yki stöðugleika í efnahagslífinu og yrði til þess að lánastofnanir þyrftu í auknum mæli að taka tillit til stýrivaxta Seðlabankans í öllum ákvörðunum sínum. Við afnám verðtryggingar gæti lánveitandi ekki varpað allri ábyrgð á verðbólguáhættu á lántakandann og það mundi ýta undir ábyrga efnahagsþróun. Við breytinguna mundi einnig skapast þrýstingur til lækkunar vaxtastigs í landinu þar sem lánveitendur og lántakendur yrðu að taka mið af raunhæfum vaxtakröfum.