Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 13  —  13. mál.
Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunarum yfirlýsingu gegn stuðningi við innrásina í Írak.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónasson, Magnús Þór Hafsteinsson.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða, sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsir því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.

Greinargerð.


    Stuðningur Íslands við innrásina í Írak var veittur án þess að haft væri lögbundið samráð við utanríkismálanefnd Alþingis, og án þess að ákvörðun um hann væri tekinn í ríkisstjórn landsins. Ákvörðun um stuðning Íslands var tekin af þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra einum. Öll stjórnarandstaðan stóð sameinuð gegn henni, og hefur margsinnis lýst harðri andstöðu jafnt við innrásina, sem þá fordæmalausu aðferð sem forustumenn ríkisstjórnarinnar beittu til að spyrða Ísland með þeim hætti við innrásarþjóðirnar. Ítrekaðar kannanir hafa sýnt að mikill meiri hluti þjóðarinnar var andvígur ákvörðun ráðherranna enda var hér um algera stefnubreytingu af hálfu ríkisins að ræða í afstöðu til stríðsátaka. Ísland hefur aldrei haft eigin her og árið 1945 neitaði Alþingi að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi og Japan. Með stofnaðild að NATO árið 1949 tóku Íslendingar sérstaklega fram að þeir mundu ekki lýsa yfir stríði á hendur annarri þjóð.
    Nú dylst engum að rökin sem Bandaríkjastjórn notaði til að réttlæta innrás í Írak voru byggð á fölskum forsendum. Gereyðingarvopn sem talið var að þar væru falin hafa hvergi fundist. Ekki hefur heldur verið unnt að finna nein tengsl fyrrverandi ríkisstjórnar þar við al Kaída sem bandarísk stjórnvöld staðhæfa að hafi skipulagt hryðjuverkaárásina á Bandaríkin 11. september 2001. Sú friðþægingarástæða sem eftir á hefur verið fundin upp, þ.e. að innrás í Írak hafi aukið öryggi almennings í heiminum, hefur einnig reynst tilbúningur einn. Þvert á móti er það niðurstaða bandarískrar rannsóknar að ógn við öryggi borgara á Vesturlöndum hafi aukist mjög á síðustu missirum beinlínis vegna innrásar Bandaríkjamanna og Breta. Sú sorglega staðreynd blasir jafnframt við að tugir þúsunda óbreyttra borgara í Írak hafa látið lífið vegna innrásarinnar. Þá benda flutningsmenn jafnframt á að Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þar með brot á alþjóðalögum.
    Flokkar stjórnarandstöðunnar telja mikilvægt fyrir orðstír þjóðar og þings að Alþingi lýsi skorinort vilja sínum til þess að nafn Íslands verði með formlegum hætti tekið af lista þeirra þjóða sem studdu innrásina og lýsi því yfir að stuðningur við hana hafi verið misráðinn.