Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 18. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 18  —  18. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um gerð rammaáætlunar um náttúruvernd.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Mörður Árnason, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson,
Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller,
Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir,
Rannveig Guðmundsdóttir, Valdimar L. Friðriksson, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra gerð rammaáætlunar um náttúruvernd sem nái til landsins alls. Markmið áætlunarinnar verði að skapa samstöðu og sátt um náttúruvernd á Íslandi. Í áætluninni komi fram tillögur um skipulag verndarsvæða og áætlun um virka verndun þeirra, með lögum þar sem það á við, og nýtingu sem samrýmist náttúruvernd. Áætlunin verði lögð til grundvallar við aðalskipulag og hugsanlegt landsskipulag.
    Umhverfisráðherra leggi tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun um náttúruvernd fyrir Alþingi eigi síðar en veturinn 2009–2010.


Greinargerð.

    Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að umhverfisráðherra verði falin gerð rammaáætlunar um náttúruvernd fyrir landið allt. Í áætluninni komi fram tillögur um skipulag verndarsvæða og áætlun um virka verndun þeirra. Skal nýtingin samrýmast náttúruvernd.
    Lagastoð náttúruverndar er veikburða, mikilvægum rannsóknum á verðmætum náttúrusvæðum er ábótavant, umsjón með rannsóknum er ekki í höndum réttra aðila og heildarsýn skortir. Segja má að náttúra Íslands hafi átt í vök að verjast. Við þessar aðstæður er hætta á því að þjóðin glati um alla framtíð verðmætum náttúruperlum sem ekki eru einasta mikilvægar í sjálfu sér heldur einnig fyrir menninguna, sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins.
    Með gerð rammaáætlunar um náttúruvernd verður loks hægt að ljúka öflun nauðsynlegra grunngagna til að hægt sé að leggja mat á verndargildi svæða á landinu öllu, sem mjög hefur skort á. Um öflun grunngagna um náttúru landsins og gerð náttúrufarskorta er vísað til þingsályktunartillögu Rannveigar Guðmundsdóttur og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar á 132. löggjafarþingi (35. mál).
    Í rammaáætlun um náttúruvernd væri eðlilegt að skipta náttúrusvæðum í þrjá meginflokka eftir verndargildi. Í fyrsta lagi væru svæði þar sem talið er hafið yfir allan vafa að vernd er nauðsynleg í samræmi við alþjóðlega matskvarða sem lagaðir hafa verið að íslenskum aðstæðum. Slík svæði þyrfti að friða lögum samkvæmt. Þetta mætti kalla virka vernd. Annar flokkur svæða nyti síðan sérstakrar verndar sem kalla mætti biðvernd. Það eru svæði sem þarf að rannsaka betur og/eða talið er að komi til greina til annarrar nýtingar, að heild eða hluta. Þriðji flokkurinn nyti síðan lágmarksverndar núverandi lagaramma. Á þeim svæðum gæfist eftir aðstæðum kostur á ýmissi annarri nýtingu en verndarnotum. Tilhögunin sem lýst er hér er ekki ólík vatnsfallalögum Norðmanna.
    Markmið rammaáætlunar um náttúruvernd er að ná sátt um þau svæði sem njóta skuli verndar en um leið skýrast þá línur um hvar megi ráðast í framkvæmdir. Þannig kallast hún á við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem verið hefur í vinnslu á vegum iðnaðarráðherra í allnokkur ár.
    Framkvæmdir í náttúru landsins valda oft og tíðum óafturkræfum spjöllum. Það gerir verndun hins vegar ekki og því er rammaáætlun um náttúruvernd ætlað að vera stefnumótandi grundvallarskjal við gerð landskipulags og aðalskipulags á sveitarstjórnarstigi. Áætlunin byggist að grunni til á sömu aðferðafræði og náttúruverndaráætlun sem samþykkt er á fimm ára fresti og rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ósnortnum víðernum og landslagsheildum verður þó að gefa aukið vægi við mat á verndargildi. Mikilvægt er að áætlunin grundvallist á svokallaðri vistkerfisnálgun. Ein forsenda áætlunarinnar verður varúðarregla Ríó-samningsins. Einnig á markmið slíkrar áætlunar að vera að tryggja friðlýsingum lagastoð, svo að þeim verði ekki hnikað með reglugerðarbreytingum.
    Í gildandi náttúruverndaráætlun fyrir árin 2004–2008 var samþykkt að friðlýsa 14 svæði á landinu. Haustið 2006 hefur umhverfisráðherra aðeins friðlýst eitt þessara svæða, Guðlaugstungur. Ef fram heldur sem horfir verður hinum takmörkuðu markmiðum þessarar náttúruverndaráætlunar vart náð árið 2008. Rammaáætlun um náttúruvernd er ekki ætlað að koma í stað náttúruverndaráætlunar sem samþykkt er á a.m.k. fimm ára fresti heldur er eðlilegt að náttúruverndaráætlun nýtist við framkvæmd rammaáætlunarinnar.
    Fáist nægir fjármunir þarf gerð rammaáætlunar um náttúruvernd ekki að taka lengri tíma en nokkur missiri. Eðlilegt er að gæta þess að svæði þar sem áhugi er á framkvæmdum njóti forgangs við gerð rammaáætlunarinnar.
    Áætluninni er ætlað að verða grundvöllur sátta og samstöðu um verndun og nýtingu íslenskrar náttúru. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að þangað til niðurstöður áætlunarinnar liggja fyrir verði allar umsóknir um rannsóknar- og nýtingarleyfi til virkjunarframkvæmda háðar samþykki Alþingis. Um það leggja flutningsmenn fram annað þingmál, og leggja jafnframt til í þriðja þingmálinu að ákvörðunarvald um nýtingu losunarheimilda samkvæmt „íslenska ákvæðinu“ svokallaða í Kyoto-bókuninni verði einnig fært til Alþingis.



Fylgiskjal.


Fagra Ísland
Tillögur Samfylkingarinnar um að styrkja stöðu
náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi.

(13. september 2006.)



    Samfylkingin vill styrkja stöðu náttúru- og umhverfisverndar á Íslandi. Því leggur flokkurinn til markvissar aðgerðir sem byggjast á forsendum sjálfbærrar þróunar og skýrri framtíðarsýn. Samfylkingin telur að nú sé sérstaklega mikilvægt að rétta hlut náttúruverndar á Íslandi gagnvart hagsmunum stóriðju, sem hefur notið algers forgangs í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug. Íslensk náttúra hefur farið halloka í þeim leik – nú þarf að skapa nýjar leikreglur í samræmi við verðmæti náttúrunnar og tilfinningar þjóðarinnar til landsins.
    Jafnaðarmenn telja að náttúra Íslands sé sameign þjóðarinnar sem hverri kynslóð hafi verið fengin til skynsamlegrar nýtingar. Okkur sem nú lifum er skylt að afhenda næstu kynslóðum náttúru landsins jafnverðmæta og við fengum hana í hendur. Jafnframt berum við Íslendingar ábyrgð á sérstökum náttúruverðmætum landsins gagnvart öllu mannkyni.
    Náttúra Íslands er ekki aðeins rík af auðlindum í hefðbundnum skilningi heldur eru öræfi landsins, fljót, fossar, jöklar, hverir og dalir í óendanlegum litbrigðum sínum og fjölbreytileika verðmæt auðlind í sjálfu sér. Verndun náttúrunnar er ein tegund nýtingar og oft sú sem á endanum skilar mestum verðmætum. Náttúra Íslands er einn meginþátturinn í ímynd landsins. Það skiptir miklu að sú ímynd bíði ekki hnekki. Hitt er þó enn mikilvægara, þ.e. tengsl okkar við landið og náttúru þess.
    Í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar er tímabært að Íslendingar skipti um gír, tryggi jafnræði atvinnugreina og byggi skipulega upp atvinnulíf framtíðarinnar þar sem náttúrugæði landsins eru nýtt með sjálfbærum hætti. Samfylkingin leggur til að við núverandi aðstæður verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest. Nú þarf áhersla á hátækni- og þekkingariðnað að haldast í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði.
    Samfylkingin leggur fram tillögur þar sem meðal annars er gert ráð fyrir átaki við rannsóknir og verndaraðgerðir með „rammaáætlun um náttúruvernd“. Við bendum á einstök náttúrusvæði og -minjar sem mikilvægt er að vernda hið fyrsta. Við viljum stórátak til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og við leggjum einnig til aðgerðir sem tryggja almenningi og félagasamtökum hans sterkari stöðu og meiri áhrif en verið hefur í umhverfis- og náttúruverndarmálum.
    Af því málefnið er mikilsvert veljum við stefnumótun okkar mikið nafn: Fagra Ísland.

Samfylkingin vill:

1.     Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu.
          Gera „Rammaáætlun um náttúruvernd“ sem nái til allra náttúrusvæða landsins. Þar komi fram tillögur um skipan verndarsvæða og áætlun um það hvernig verndun þeirra skuli háttað. Tryggðar verði fjárveitingar til helstu grunnrannsókna á náttúrufari landsins á næstu misserum þannig að áætlunin geti legið fyrir á komandi kjörtímabili.
          Að rammaáætlunin verði lögð til grundvallar við gerð hugsanlegs landsskipulags og aðalskipulags sveitarfélaga.
          Að ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.
          Að heimild til að veita rannsóknar- og nýtingarleyfi vegna virkjunaráforma verði færð úr höndum iðnaðarráðherra til Alþingis á meðan unnið er að gerð áætlunarinnar. Ákvörðunarvald um nýtingu losunarheimilda samkvæmt „íslenska ákvæðinu“ í Kyoto- bókuninni verði einnig fært til Alþingis.

2.     Tryggja nú þegar verndun ákveðinna svæða.
          Stækka Vatnajökulsþjóðgarð þannig að hann feli í sér Langasjó og allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.
          Stækka friðlandið í Þjórsárverum í samræmi við tillögu umhverfisstofnunar og í samráði við heimamenn.
          Tryggja friðun Skjálfandafljóts, jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.

3.     Gera langtímaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
          Þróa aðferðir til að úthluta takmörkuðum mengunarkvótum til stóriðju og kanna kosti þess að taka upp markað með losunarheimildir fyrirtækja.
          Beita hagrænum hvötum til að minnka notkun mengandi eldsneytis í samgöngum og hvetja til orkusparnaðar í sjávarútvegi.
          Efla rannsóknir íslenskra aðila á vetni, metangasi og öðrum minna mengandi orkugjöfum í samgöngum.
          Efla fræðslu til almennings um loftslagsmál og virkja krafta hans á þessu sviði.
          Efla þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi til að afstýra hættulegum loftslagsbreytingum og kynna um leið íslenska tækni til að nýta hreina orku.
          Efla rannsóknir á djúpborun til að mæta megi aukinni orkuþörf án þess að ganga á verðmæta náttúru landsins.

4.     Auka áhrif almennings og réttarstöðu í umfjöllun um umhverfismál.
          Að Alþingi staðfesti Árósasamninginn frá 1998 og breyti íslenskum lögum til samræmis við hann, meðal annars þannig að almenningur og félagasamtök hans teljist hafa lögvarða hagsmuni á sviði umhverfisréttar.
          Að félagasamtök á umhverfissviði njóti sérstakra framlaga frá ríki og sveitarstjórnum til að afla sérfræðiaðstoðar við athugasemdir og umsagnir um skipulags- og umhverfismál.
          Að taka upp ráðgefandi eða bindandi atkvæðagreiðslur, á lands-, héraðs- eða sveitarvísu, um ýmsa kosti í umhverfismálum og náttúruvernd, og tryggja viðunandi jafnræði milli fylgismanna kostanna.

Greinargerð.
1. Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu.
    Náttúra Íslands á í vök að verjast. Lagastoð náttúruverndar er veikburða, mikilvægum rannsóknum á verðmætum náttúrusvæðum er ábótavant, umsjón með rannsóknum er að verulegu leyti í höndum orkuyfirvalda og -fyrirtækja, og heildarsýn skortir. Við þessar aðstæður er hætta á því að þjóðin glati um alla framtíð verðmætum náttúruperlum sem ekki eru einasta mikilvægar í sjálfu sér heldur einnig fyrir menninguna, sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins.
    Íslendingar nútímans eru jafnt og þétt að vakna til vitundar um þann arf sem felst í náttúrugæðum landsins, ekki síst hinum lítt snortnu en viðkvæmu öræfum. Hver kynslóð ber ábyrgð á því að skila þessum arfi til hinnar næstu en láta ekki stundarhagsmuni bera sig af leið. Nýting náttúrugæða verður að vera sjálfbær, og rétt er að líta á ýmis stig verndar sem eina tegund nýtingar. Það er mikilvægt hlutverk stjórnvalda og almennings á hverjum tíma að varðveita fágæt náttúrusvæði Íslands en einblína ekki á þau not sem hafa má af náttúrunni í þágu orkufreks iðnaðar.
    Við gerð „Rammaáætlunar um náttúruvernd“ verður nauðsynlegra grunngagna aflað til að hægt sé að leggja mat á verndargildi náttúrusvæða á landinu öllu. Í áætluninni verður náttúrusvæðum landsins skipt í þrjá meginflokka eftir verndargildi. Í fyrsta lagi eru svæði þar sem talið er að vernd sé nauðsynlegur nýtingarkostur. Slík svæði þarf að friða með lögum. Þennan flokk má kalla virka vernd en slík svæði verður kappkostað að nýta sem þjóðgarða og verndarsvæði eftir því sem við verður komið. Annar flokkur náttúrusvæða nýtur sérstakrar verndar, sem kalla mætti biðvernd. Það eru svæði sem þarf að rannsaka betur og/eða talið er að komi til greina til annarrar nýtingar, að heild eða hluta. Þriðji flokkurinn nýtur lágmarksverndar núverandi lagaramma en á þeim svæðum gefst kostur á ýmissi annarri nýtingu en verndarnotum eftir aðstæðum. Tilhögunin sem hér er lýst er ekki ólík vatnsfallalögum Norðmanna.
    „Rammaáætlun um náttúruvernd“ byggist að grunni til á sömu aðferðafræði og Náttúruverndaráætlun og Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, nema að ósnortin víðerni þurfa að fá aukið vægi þar sem nokkuð hefur skort á að sú sérstaða íslenskrar náttúru hafi notið sín þegar mat hefur verið lagt á verndargildi.
    Framkvæmdir í náttúru landsins eru oft og tíðum óafturkræfar. Það er verndun hins vegar ekki og því er „Rammaáætlun um náttúruvernd“ ætlað að vera stefnumótandi grundvallarskjal við gerð hugsanlegs landsskipulags og aðalskipulags á sveitarstjórnarstigi. Markmið hennar er að ná sátt um þau svæði sem njóta skulu verndar en um leið skýrast línur um möguleg framkvæmdasvæði. „Rammaáætlun um náttúruvernd“ mætti að mestu ljúka á fáeinum árum.
    Rammaáætlun um náttúruvernd verður mikilvægt framlag til þjóðarsáttar um verndun og nýtingu íslenskrar náttúru. Því er nauðsynlegt að þangað til niðurstöður áætlunarinnar liggja fyrir verði leyfi til virkjanarannsókna og -nýtingar háð samþykki Alþingis.
    Engar efnahagslegar aðstæður kalla á stóriðju á næstu árum. Þvert á móti mæla óháðir sérfræðingar (sbr. nýlega skýrslu OECD) með því að dregið verði úr þensluhvetjandi framkvæmdum á næstunni til þess að stuðla að jafnvægi í íslensku efnahagslífi og tryggja stöðugleika til hagsbóta fyrir almenning. Því leggur Samfylkingin til að öllum ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir verði frestað þar til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Nú þarf áhersla á hátækni- og þekkingariðnað að haldast í hendur við nýsköpun í ferðaþjónustu og hefðbundnu atvinnugreinunum, sjávarútvegi og landbúnaði.

2. Tryggja nú þegar verndun ákveðinna svæða.
    Vegna samkeppni á raforkumarkaði sækist fjöldi aðila nú eftir rannsókna- og nýtingarleyfum. Á borði iðnaðarráðherra liggja umsóknir um rannsóknarleyfi á 13 svæðum, sem mörg hver eru afar verðmæt frá náttúruverndarsjónarmiði og mörg hver lítt rannsökuð með tilliti til verndargildis. Þetta á til að mynda við um ýmis fegurstu háhitasvæði landsins, þar á meðal Brennisteinsfjöll, Torfajökulssvæðið og Kerlingarfjöll.
    Samfylkingin vill að Vatnajökulsþjóðgarður verði stækkaður enn frekar svo hann feli í sér Langasjó annars vegar og hins vegar allt vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.
    Þá verði friðlandið í Þjórsárverum stækkað í samræmi við tillögu Umhverfisstofnunar og í samráði við heimamenn.
    Samfylkingin vill þegar í stað tryggja friðun eftirfarandi fallvatna og háhitasvæða:
          Skjálfandafljóts,
          jökulánna í Skagafirði,
          Torfajökulssvæðisins,
          Kerlingarfjalla,
          Brennisteinsfjalla,
          Grændals.

3. Gera áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
    Eitt brýnasta hagræna og siðferðislega úrlausnarefni mannkyns á okkar dögum er að draga úr þeim loftslagsbreytingum sem þegar eru hafnar og takast á við áhrif þeirra á líf fólks í heiminum. Íslensk stjórnvöld eiga ekki að víkja sér undan ábyrgð í þeim málum heldur ber að efla þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði og kynna öðrum þjóðum íslenska tækni til að nýta hættulitla orkugjafa. Það er einörð afstaða Samfylkingarinnar að Íslendingum beri að standa við Kyoto-bókunina og flokkurinn varar við hugmyndum um reiknibrellur sem einstakir ráðherrar hafa reifað í því sambandi.
    Samfylkingin vill að strax verði hafist handa við að gera metnaðarfulla áætlun fyrir Íslands hönd um að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Við þá áætlun verði stuðst í alþjóðasamningum um losunarheimildir eftir 2012 þegar Kyoto-bókuninni sleppir.
Samhliða þeirri áætlun telur Samfylkingin nauðsynlegt að koma á innlendum markaði með losunarheimildir fyrir stórfyrirtæki í iðnaði að evrópskri fyrirmynd en þær aðferðir hafa skilað miklum árangri í heildarsamdrætti iðnaðarins þar sem hvati skapast hjá hverju fyrirtæki til að draga sem mest úr losun.
    Samfylkingin telur að það kerfi sem nú er við lýði í álögum á eldsneyti og bíla sé löngu úrelt. Því vill Samfylkingin endurskipuleggja álögur á eldsneyti og haga þeim þannig að þær hvetji til notkunar minna mengandi eldsneytis. Ennfremur telur Samfylkingin nauðsynlegt að endurskoða með hvaða hætti tollar eru lagðir á bifreiðar með það fyrir augum að lækka tolla á sparneytnar bifreiðar og bifreiðar sem nota minna mengandi eldsneyti.
    Olíunotkun í sjávarútvegi er einn stærsti einstaki þátturinn í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Nú hefur íslenskt fyrirtæki, Marorka, getið sér gott orð fyrir orkusparnaðarkerfi fyrir skip en ljóst er að auk umhverfisáhrifa er hér um verulegt efnahagslegt atriði að ræða fyrir útgerðir landsins. Því vill Samfylkingin hvetja útgerðir með hagrænum aðgerðum til að spara olíunotkun sína.
    Í náinni framtíð kann að vera að vetni verði jafn hagkvæmt eldsneyti á bíla og skip og olía og bensín. Unnið er að merkilegum rannsóknum á þessu sviði hérlendis í samvinnu við erlenda aðila. Skortur á íslensku fjármagni stefnir nú þessari ágætu þróunarvinnu í voða. Fleiri möguleika á minna mengandi eldsneyti er vert að athuga, svo sem metangas og etanól sem víða erlendis er að verða algengt eldsneyti á bíla. Samfylkingin telur brýnt að styðja myndarlega við rannsóknir af þessu tagi, einkum í samvinnu við erlenda aðila í fremstu röð.
    Ljóst er að ef af vetnisvæðingu samgöngukerfisins verður skapast þörf fyrir aukna orku. Samfylkingin telur mikilvægt að efla rannsóknir við djúpborun svo ekki þurfi að ganga frekar á náttúrufarslega verðmæt svæði en brýnasta nauðsyn krefur.
    Samfylkingin telur rangt að setja samasemmerki á milli minnkandi hagvaxtar og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Þvert á móti telur Samfylkingin að í rannsóknum og nýsköpun á þessu sviði felist ótal möguleikar fyrir Ísland svo sem atvinnutækifæri, tækifæri til nýsköpunar og til að bæta ímynd landsins.

4. Auka áhrif almennings og réttarstöðu í umfjöllun um umhverfismál.
    Árósasamningurinn frá 1998 um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum hefur ekki verið staðfestur af Íslands hálfu, þótt hlutar hans séu komnir í íslensk lög vegna EES-aðildarinnar.
    Með Árósasamningnum tengist umhverfisréttur mannréttindum og lýðræðissjónarmiðum. Viðurkennt er að fullnægjandi umhverfisvernd er undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda, að allir eigi rétt á heilbrigðu umhverfi og öllum sé skylt að vernda umhverfið. Samningurinn mundi m.a. tryggja aðild almennings/umhverfissamtaka að öllum málum sem varða umhverfisvernd (þannig að hagsmunir almennings verði jafngildir og lögvarðir hagsmunir nú), auka möguleika til gjafsóknar á þessu sviði og styrkja stöðu umhverfissamtaka, bæði að lögum og almennum áhrifum. Slík samtök hefðu meiri möguleika á fjárstuðningi þar sem viðurkennt væri að þau eru nauðsynlegur þátttakandi í ákvörðunarferli og eftirliti fyrir hönd almennings.
    Samfylkingin telur ástæðu til að styrkja þátttöku almennings og félagasamtaka í umhverfismálum og stjórnvaldsákvörðunum um þau. Meginatriði er að gera félagsamtökum kleift að taka þátt í ýmiss konar sérfræðistarfi sem krefst tíma og fjár langt umfram það sem hægt er að ætlast til af almannasamtökum.
    Samfylkingin telur að umhverfismál séu málaflokkur þar sem aðferðir beins lýðræðis henta ákaflega vel í ýmiss konar samspili við fulltrúalýðræðið. Því er sjálfsagt að kanna rækilega kosti atkvæðagreiðslna og skoðanakannana í þeim efnum.