Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.

Þskj. 22  —  22. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Í stað fjárhæðanna „3.721.542“ og „6.169.097“ í 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna kemur: 4.651.927 og 7.711.371.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Endurákvarða skal vaxtabætur samkvæmt skattframtali ársins 2006 vegna vaxtagjalda á árinu 2005 í samræmi við B-lið 68. gr. Endurákvörðun vaxtabóta skal lokið eigi síðar en 1. desember 2006 og tilkynnt með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Senda skal hverjum skattaðila sem öðlast við endurákvörðun vaxtabóta rétt til vaxtabóta, sbr. B-lið 68. gr., tilkynningu um endurákvörðunina.
    Endurákvörðun vaxtabóta samkvæmt grein þessari er kæranleg til skattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu auglýsingar um að endurákvörðun vaxtabóta sé lokið.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á vaxtabótum í takt við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í júní sl. til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga. Í yfirlýsingunni segir: „Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kemur við niðurstöðu álagningar í ágúst nk. að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefur leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.“
    Þegar ákvörðun vaxtabóta vegna vaxtagjalda, sem greidd voru á síðasta ári, lá fyrir í ágúst sl. kom í ljós talsverð skerðing á heildarfjárhæð vaxtabóta frá því sem reiknað hafði verið með samkvæmt forsendum fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Jafnframt var um umtalsverða fækkun vaxtabótaþega að ræða og þykir sýnt að mikil hækkun á fasteignamati milli áranna 2004 og 2005 sé meginskýring þessarar þróunar þótt aðrir þættir, eins og meiri tekjubreytingar en áætlað hafði verið, eigi einnig sinn þátt í skerðingunni.
    Í fjárlögum þessa árs var reiknað með að útgjöld ríkissjóðs vegna vaxtabóta yrðu 5,1 milljarður króna að teknu tilliti til þeirra vaxtabóta sem alla jafna bætast við frumálagningu skattstjóra við kærur og endurúrskurði. Sú viðbótarfjárhæð var áætluð 300–400 m.kr. Það þýðir að í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir að frumálagning skattstjóra gæti orðið nálægt 4,8 milljörðum króna. Niðurstaða hennar varð hins vegar sú samkvæmt álagningartölum sem birtust í ágúst sl. að ákvarðaðar vaxtabætur voru tæpir 4,5 milljarðar króna eða um 300 m.kr. lægri en reiknað hafði verið með í fjárlögum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins hækkaði fasteignamat á íbúðarhúsnæði á landinu öllu um nálægt 30% að meðtalinni magnaukningu. Breytingin er hins vegar mjög mismikil milli landshluta, eða allt frá því að vera 35% á sérbýli á Stór-Reykjavíkursvæðinu niður í 5% á smærri stöðum úti á landi. Sem dæmi hækkaði matsverð fjölbýlishúsa í Reykjavík um 30%, íbúðarhúsnæðis á Akureyri um 20% og um 15% á Stykkishólmi. Þá sýna heildartölur úr skattframtölum að framtalin nettóeign allra framteljenda hækkaði um tæp 25% milli áranna 2004 og 2005 og um rúmlega 20% að frátalinni fjölgun framteljenda.
    Þar sem hækkun fasteignamats var mismikil bæði milli landshluta og einstakra sveitarfélaga er í frumvarpi þessu valin sú leið að leggja til hækkun eignaviðmiða á grundvelli meðaltalshækkana. Er ekki annað talið framkvæmanlegt en að notast við meðalviðmiðun fyrir landið allt þegar kemur að útfærslu á framanangreindri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, enda byggjast bæði eignaviðmið og önnur viðmið vaxtabótakerfisins á almennum mælikvörðum.
    Á grundvelli framangreindra forsendna er því í frumvarpi þessu lagt til að lágmark eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum til skerðingar á vaxtabótum verði hækkað afturvirkt um 25%. Sú breyting er talin kosta ríkissjóð um 500 m.kr. en það þýðir að ætla má að vaxtabætur í ár muni nema 200 m.kr. umfram það sem reiknað var með í fjárlögum þessa árs, eða 5,3 milljörðum króna í stað 5,1 milljarðs króna í fjárlögum þegar endanlegar tölur liggja fyrir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að lágmark eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum til skerðingar á vaxtabótum verði hækkað um 25%. Til nánari skýringar er vísað í almennar athugasemdir við frumvarpið.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að við lögin verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða vegna þeirra aðgerða sem vísað er til í almennum athugasemdum við frumvarpið. Kemur ákvæðið til framkvæmda vegna endurákvörðunar vaxtabóta samkvæmt skattframtali ársins 2006 vegna vaxtagjalda á árinu 2005. Endurákvörðun vaxtabóta skal lokið eigi síðar en 1. desember 2006 og skal senda hverjum skattaðila, sem öðlast við endurákvörðun vaxtabóta rétt til vaxtabóta, tilkynningu um endurákvörðunina. Kærufrestur til skattstjóra er af þessu tilefni 30 dagar frá dagsetningu auglýsingar um að endurákvörðun vaxtabóta sé lokið.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.






Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í júní á þessu ári lýsti ríkisstjórnin yfir að gerðar yrðu breytingar á ákvæðum laga um vaxtabætur vegna húsnæðislána ef í ljós kæmi við niðurstöðu skattálagningar á árinu að hækkun fasteignaverðs á síðasta ári hefði leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2006 var miðað við að vaxtabætur við frumálagningu skattstjóra yrðu í kringum 4,8 milljarðar króna og að við það bættust í kringum 300 m.kr. í tengslum við kærur og endurúrskurði þannig að heildargreiðslurnar yrðu nálægt 5,1 milljarði króna. Þegar skattálagning ársins 2006 lá fyrir kom í ljós að frumálagning vaxtabóta reyndist vera um 300 m.kr. lægri en reiknað var með í fjárlögum eða um 4,5 milljarðar. Talið er að það skýrist að mestu leyti af hækkun fasteignamats milli áranna 2004 og 2005 þar sem eignaviðmiðanir skerða vaxtabætur samkvæmt lögunum. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins var hækkun fasteignamatsins á landsvísu í kringum 25% að meðaltali. Í frumvarpi þessu er lagt til að eignaviðmiðunarmörk til skerðingar á vaxtabótum verði hækkuð um sama hlutfall í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Áætlað er að með þessari breytingu á lögunum aukist greiðslur vaxtabóta um 500 m.kr. á árinu 2006. Það hefur í för með sér að þessi útgjöld ríkissjóðs verða um 200 m.kr. hærri en gert er ráð fyrir í fjárlögum eða alls um 5,3 milljarðar króna.