Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 36. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 36  —  36. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á stöðu og möguleikum á uppbyggingu ferðaþjónustu á Melrakkasléttu.

Flm.: Halldór Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á því hvernig unnt sé að byggja upp ferðaþjónustu á Melrakkasléttu. Einkum skal horft til náttúru svæðisins, sögustaða og hlunninda og hvernig megi vekja athygli á Melrakkasléttu sem vænlegum kosti fyrir ferðamenn.
    Til að fylgja verkefninu eftir er samgönguráðherra, í samvinnu við landbúnaðarráðherra og ráðherra byggðamála, falið að skipa nefnd sérfróðra manna og heimamanna sem skili áfangaskýrslu fyrir árslok 2007 og endanlegum tillögum eigi síðar en ári síðar. Kostnaður við störf nefndarinnar skal greiddur af viðkomandi ráðuneytum.
    Þá skal ráðinn starfsmaður sem vinni með nefndinni og skal hann hafa aðsetur nyrðra, við Öxarfjörð eða á Raufarhöfn. Kostnaður af störfum hans skal greiddur af Byggðastofnun.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 128. löggjafarþingi og er nú endurflutt.
    Áður var talið búsældarlegt á Melrakkasléttu og sagt að þar þyrfti lítið fyrir lífinu að hafa. Á vorin gætu menn lagst upp í loft og æðurin yrpi ofan í þá. Þeir þyrftu ekki annað en leggjast á vatnsbakkann og þá synti silungurinn upp í þá. Og þegar vetur settist að var sóttur raftur í fjöruna og honum stungið inn um vegginn í eldstæðið og síðan ýtt inn eftir þörfum og eftir því sem brynni. Fjörubeit var hvergi betri og voru sjóarær teknar í fóstur fyrir bændur sem bjuggu lengra inn til landsins. Enn eru á vörum fólksins sögur af Sveinungsvíkurhvalnum sem rak á fjöruna þar í harðindunum upp úr 1870 og komu bændur með sleða úr Kelduhverfi og austan úr Vopnafirði til að sækja sér lífsbjörgina.
    Melrakkaslétta er nú nyrsti hluti Norðurþings. Í þessari tillögu er sérstaklega horft til þess svæðis sem tilheyrði hinum forna Presthólahreppi og skiptist í Núpasveit, Vestur-Sléttu og Austur-Sléttu ásamt Raufarhöfn. Segja má að byggð sunnan Kópaskers hafi haldið sínum hlut og er nánast búið á hverjum bæ. Íbúafjöldi á Kópaskeri hefur verið svipaður síðustu ár og búa þar nú um 150 manns. Sá mikli jarðhiti sem fundist hefur í Öxarfirði skapar margvíslega möguleika á atvinnuuppbyggingu, sem gefur tilefni til bjartsýni á að byggð muni styrkjast þar á næstu árum.
    Byggðin norðan Kópaskers á í vök að verjast og hefur íbúum og byggðum býlum fækkað. Þannig bjuggu rúmlega 50 manns á Leirhafnartorfunni þegar mest var á sjöunda áratug síðustu aldar og fram undir það var búið á nær hverjum bæ á Vestur- og Austur-Sléttu. Nú eru aðeins fjögur sauðfjárbú á öllu þessu svæði og aðrar jarðir annaðhvort komnar í eyði eða ekki horfur á að þar verði búið, nema eitthvað verði að gert.
    Uppgangur Raufarhafnar hélst í hendur við hinar miklu síldveiðar um og eftir miðbik síðustu aldar, en eftir að síldin hvarf sumarið l968 varð mikil breyting á, enda má segja að lífsbjörgin hafi verið tekin frá íbúunum í einu vetfangi. En Raufarhöfn lagaði sig að breyttum tímum og var þar um 30 ára skeið rekin öflug togaraútgerð ásamt útgerð smærri báta og reist gott frystihús. GPG á Húsavík er eigandi frystihússins og rekur þar öfluga vinnslu með 30 manns í vinnu. Síldarvinnslan hefur hætt rekstri loðnuverksmiðjunnar. En staða Raufarhafnar er erfið og íbúum hefur fækkað mikið á síðustu árum. Ný atvinnutækifæri verða að byggjast á landkostum og er þá nærtækt að horfa til hafsins og ferðaþjónustunnar. Og svo að sjálfsögðu til jarðhitans í Öxarfirði, ef það tekst að nýta hann í stórum stíl.
    Í september var lagður hornsteinn að sólarklukku á Melrakkaás, sem verður sérstætt og merkilegt mannvirki og dregur að ferðamenn.
    Unnið er að því að leggja bundið slitlag norður af Sveltingi í Öxarfirði og nú í nóvember verður vegurinn yfir heiðina um Hófaskarð boðinn út. Þetta eru mikil og góð tíðindi fyrir Norður-Þingeyinga. Fyrir ferðaþjónustuna getur þetta haft úrslitaþýðingu, af því að reynslan sýnir að ferðamennirnir fylgja bundna slitlaginu eftir. Norðausturland er að opnast. Það er að vísu rétt að með nýja veginum dregur úr daglegri umferð um Sléttu. En á móti kemur að þar opnast greið hringleið með öllum sínum fjölbreytileik, sögu, menningu og náttúru.
    Hér er sem sagt lagt til að úttekt verði gerð á Sléttunni með uppbyggingu ferðaþjónustunnar fyrir augum vegna sérstöðu hennar. Nefna má fjölda heiðarbýla til sögunnar. Skemmtilegar gönguleiðir sem þarf að merkja. Kötluvatn og Rauðinúpur eru einstakir staðir með sínu fjölskrúðuga fuglalífi. Á Hraunhafnartanga er dys Þorgeirs Hávarssonar. Góð veiði er í ám og vötnum. Þverhnípt björg og selalátur undir Snartarstaðanúpi. Æðarfugl og vörp við strendur. Lífríki votlendis og vatna er mjög fjölbreytt, en rjúpur og fálki inn til heiðarinnar. Og á fjörukömbum eru rekaviðarstaflar, en gamlir gufukatlar úr skipsflökum í fjöruborði. Þar er gnótt af berjum og fjallagrösum, en tófugreni í seilingarfjarlægð. Þar er skemmtilegt að fara á sjóstöng og auðvelt að efna til ævintýraferða, hvort sem er á sumri eða vetri. Óvíða er miðnætursólin jafnfalleg og á Sléttu.
    Þessi tillaga er flutt til að vekja athygli á þeim möguleikum sem ferðaþjónustan býr yfir fyrir hérað eins og Melrakkasléttu, eftir að hún er komin í fullnægjandi vegasamband. Það er ljóst að byggðir Norður-Þingeyjarsýslu hafa staðið höllum fæti. Þess vegna er brýnt að leita hollra leiða til þess að styrkja búsetu þar, m.a. með því að nýta landskosti til atvinnusköpunar eins og hér er lagt til.