Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 50. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 50  —  50. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um afnám stimpilgjalda.

Flm.: Sigurjón Þórðarson, Guðjón A. Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að afnema álagningu stimpilgjalda í áföngum á næstu fjórum árum.

Greinargerð.


    Í ágúst á þessu ári kom út skýrsla Samkeppniseftirlitsins um banka- og lánamarkaðinn á Norðurlöndum og haustið 2005 gáfu Neytendasamtökin út skýrslu um húsnæðislánamarkaðinn í tíu Evrópulöndum. Í þessum skýrslum kemur glögglega fram að mjög hallar á íslenska neytendur í bankaviðskiptum í samanburði við nágrannalöndin. Þetta kemur fram í eftirfarandi þáttum:
     1.      Íslenskir neytendur búa við mun hærri nafn- og raunvexti en tíðkast í nágrannalöndum okkar.
     2.      Meiri vaxtamunur er á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.
     3.      Lántökugjöld og annar kostnaður við lántöku er að jafnaði hærri en annars staðar á Norðurlöndum.
     4.      Uppgreiðslugjald eða flutningsgjald milli banka þekkist annaðhvort ekki eða er miklu lægra annars staðar á Norðurlöndum.
     5.      Hreyfanleiki viðskiptavina milli bankastofnana er minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum.
    Einn stærsti þáttur í slæmum lánakjörum íslenskra neytenda má rekja til lítils hreyfanleika þeirra á íslenskum bankamarkaði sem dregur úr virkri samkeppni og skerðir kjör. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um bankamarkaðinn er lagt til að stimpilgjald verði afnumið en það hamlar því að neytendur endurfjármagni lán ef kostur er á hagstæðari lánum.
    Samkeppniseftirlitið leggur einnig til afnám uppgreiðslugjalds til þess að auka hreyfanleika lántakenda. Eðlilegast væri að lánastofnanir settu sér þær reglur að uppgreiðslugjald yrði aldrei hærra en sem nemur sannarlegum kostnaði við fjármögnun. Hærra uppgreiðslugjald en sem nemur þeim kostnaði þjónar eingöngu þeim tilgangi að múra viðskiptavini inni með viðskipti sín í viðkomandi lánastofnun. Það væri mikil mótsögn fyrir íslenska banka sem nýlega hafa öðlast frelsi að vilja festa viðskiptavini í ánauð í áratugi.
    Margvísleg önnur rök eru fyrir afnámi stimpilgjalds en hreyfanleiki og samkeppni á bankamarkaði. Stimpilgjaldið er ósanngjörn skattlagning. Í fyrsta lagi er það þung byrði fyrir ungt fólk sem er að kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti. Í öðru lagi kemur það illa niður á fólki sem á í greiðsluvanda og þarf að skuldbreyta lánum sínum. Í þriðja lagi eru stimpilgjöldin skattur sem leggst misþungt á atvinnulífið en í áliti nefndar um réttindi og skyldur í viðskiptum neytenda við fjármálafyrirtæki frá árinu 2004 segir orðrétt: „Einnig virðist sem stimpilgjöld séu fyrst og fremst greidd af einstaklingum og minni fyrirtækjum þar sem lántökum stærri fyrirtækja er hagað með sérstökum hætti.“
    Á síðasta ári skilaði stimpilgjald ríkissjóði rúmum 9 milljörðum kr. en í fjárlögum ársins 2005 var gert ráð fyrir að innheimta 4,6 milljarða kr. Það er því ljóst að það raskar ekki áætlunum um fjárhag ríkisins þó svo að stimpilgjaldið yrði lækkað um helming.
    Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji láta stimpilgjaldið hverfa en á móti kæmi að hætta væri á að það mundi framlengja verðbólgu á húsnæði. Lítil sem engin hætta er á að niðurfelling stimpilgjald valdi óróa á húsnæðismarkaði ef gjaldið verður lagt niður í áföngum eins og gert er ráð fyrir í þessari þingsályktunartillögu. Að sama skapi gefst stjórnvöldum ráðrúm til þess að bregðast við fyrirséðu tekjutapi með sparnaði eða annarri sanngjarnari skattheimtu.